02.02.1962
Neðri deild: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (2838)

60. mál, hefting sandfoks

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. tók vel í frv. það, sem hér liggur fyrir, og þess taldi ég líka von af hans hálfu, hann gerði það einnig í fyrra. En honum þótti sem við vildum ganga of harkalega fram í því að koma frv. gegnum þingið, það væri réttara og vissara að bíða ögn enn, ríkisstj. væri með þetta mál til endanlegrar afgreiðslu, en enn þá væri ekki fengin samstaða um það, með hverjum hætti undir kostnaði ætti að standa. En mér finnst nú, að nokkuð langur tími hafi liðið, án þess að það væri gert, hvorki meira né minna en þrjú ár. Hjá vinstri stjórninni sálugu var það þó árið 1958, sem fór forgörðum, en um áramótin eða nærri þeim var hún ekki lengur í lifenda tölu, þannig að þetta er ekki sambærilegt. Síðan eru þetta mörg ár, og hæstv. ríkisstj. hefur ekki komið fram með neinar töl., og það teljum við flm. fremur til lýta og margir fleiri. Og ég vænti þess, að þegar þetta mál verður tekið fyrir í landbn., muni nefndin eiga tal við hæstv. landbrh. og leita eftir till., þannig að málið í heild megi leysast á þessu þingi.

Ég vissi það fyrir og við þm.. yfirleitt, að þarna væri hnúturinn erfiðastur að leysa, þar sem fjáröflunarleiðin er, að öðru leyti væri samstaða um málið í heild. En ég þarf ekki að svara svo mjög hæstv. landbrh. Hann var yfirleitt inni á þessu öllu. Hann breiddi sig að vísu mjög yfir það, þegar ég lét orð falla um, að ég treysti ríkisstj. til þess að finna sæmilegan flöt á kostnaðaratriðinu. Það er út af fyrir sig víst traust. Ríkisstj. hefur það í hendi sér fullkomlega að koma fram máli eða fella hér á Alþingi, og það er ekki nema eðlilegt, að maður líti í veikleika sinum til ríkisstj., þegar góð mál eru fram flutt, að þeir vilji, stjórnarliðar og hæstv. ríkisstj., gera svo vel að vera hlynntir slíkum málum. Og ég treysti ríkisstj. til þess að veita þessu máli brautargengi það nægilegt, að fram megi ganga á þessu þingi, og mér skildist það á síðustu orðum hæstv. landbrh., að maður gæti átt von á því, og er gott um það að segja.

Að lokum vil ég varðandi ræðu hæstv. landbrh. láta í ljós undrun mína yfir því ráði, sem hæstv. landbrh. gaf okkar þm., að það sé tryggast að koma máli fram að bera það alls ekki fram. Það er nokkurt nýlundubragð að þessari ráðleggingu og þarfnast nánari skýringar. Ég held, að það sé eiginlega það fyrsta, sem gera skal til að koma máli fram, að sýna framan í það hér á hv. Alþingi.

Hv. 1. þm.. Vestf. gat ekki fellt sig við þá tillögu, sem er í frv. um fjáröflun til að standa undir sandgræðslunni, áfengisskattinn. Það má vel vera töluvert í hans máli. En ég sé ekki ástæðu til þess að blanda áfengisvandamálinu mjög inn í sandgræðslumálið, enda þótt sandgræðslan kynni að njóta áfengisskatts, því að vist er um það, að það þarf ekki að reikna með því fyrir fram, að eftir því sem vínið verður dýrara, þá verði það því meir keypt. Það mætti frekar hugsa sér, að það mundi draga úr vínneyzlu, ef skattur væri á lagður. Að öðru leyti fannst mér hann rökstyðja mál sitt með þeim hætti, að í raun og veru ætti það ekki við í þessu efni. Áfengisvandamálið verður ekki leyst með því bragði að vera móti því að leggja aukinn skatt á áfengið í sambandi við sandgræðsluna, það sé ég ekki. En ég skil tilfinningar hans og veit, að hann hefur lengi verið þarfur bindindismálum í þessu landi og barizt við hlið margra annarra góðra manna gegn áfengisbölinu. Og það er allt vel um það.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja mál þetta fremur. Ég vil endurtaka ósk mína um það, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og landbn.