13.11.1961
Neðri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (2849)

69. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Flm. (Einar Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Frv. á þskj. 88 felur í sér breytingu á lögum, sem samþykkt voru á þinginu 1960, nr. 40 9. júní, um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti. Gengur þetta frv., sem hér er flutt, út á að lengja þann tíma, sem heimill er til dragnótaveiða, um hálfan mánuð á vorin og einn mánuð á haustin, hálfan júní og allan nóvembermánuð.

Það voru skiptar skoðanir um dragnótaveiðina á sínum tíma og verða alltaf. Þær verða það líka um fleiri veiðiaðferðir, svo sem troll, þorskanetaveiðar, humarveiðar, og svo mætti lengi telja. Allar veiðar eyða fiskinum meira eða minna. En Íslendingar eru hér ekki einir um hituna. Aðalatriðið er að eyða ekki fiskinum á viðurkenndum hrygningarsvæðum og drepa ekki ungviðið, en við þetta gengur illa að ráða. Alþjóðasamþykktir eru gerðar um möskvastærð, og er alitaf verið að stækka möskvana, og mætti sjáifsagt gera betur í þeim efnum. Mikla nauðsyn ber einnig til að friða viss hrygningarsvæði og uppeldisstöðvar, eins og Selvogsgrunnið hvað þorskinn snertir og ýmsa firði, eins og Eyjafjörð og fleiri, að því er tekur til síldarinnar. En engum blandast hugur um, að dragnótaveiðin veiti mikla atvinnu, bæði á sjó og í landi, og er ekki hægt að bera saman aðrar veiðar, a.m.k. ekki sunnanlands, þegar um afrakstur er að ræða, nema þá helzt handfæraveiðar. Það kann þó að gegna nokkuð öðru máli fyrir Norðurlandi og norðanverðu Austurlandi, þar sem að sumarlagi er meira byggt á línuútgerð, sem líkist þá vetrarvertíð syðra, enda er það svo, að dragnótaveiðar hafa lítið verið leyfðar fyrir þessum landshlutum.

Aðalrökin fyrir flutningi þessa frv. eru þau, að hjá þeim, er dragnótaveiðar ætla að stunda, sé það sóun á tíma að geta ekki hafið þessar veiðar fyrr en mánuði eftir að vetrarvertíð lýkur og eins að þurfa að hætta 2 mánuðum fyrir vetrarvertíð, en svo er kveðið á í fyrrnefndum lögum. Yfirleitt mun það svo, að þessi tími á milli vertíða verður dragnótaveiðimönnum ónýtur, og líða við það ekki aðeins þeir, sem þessar veiðar stunda, heldur einnig mikill hópur verkafólks í landi. Það er því í hæsta máta eðlilegt, að þessi biðtími verði nokkuð styttur, og er hér farið mjög hóflega í sakirnar í þessum efnum.

Þá má geta þess, að í nóvembermánuði losnar yfirleitt um flatfiskinn við ströndina og hann leitar á dýpra vatn, og er þá mjög algengt, að hann sé tekinn af erlendum togurum. Einkum eru þá Englendingar naskir á að ná í kolann, þegar hann syndir út fyrir línuna.

Til þess að gefa nokkra hugmynd um mikilvægi þessara veiða má geta þess, að s.l. ár stunduðu þær 113 bátar, þegar þeir voru flestir, með a.m.k. á fimmta hundrað sjómönnum. Ekki færri þarf til að verka aflann í landi, svo að atvinnulega séð eru þessar veiðar hinar mikilvægustu. Þá eru þær ekki minna virði fyrir þjóðarbúið í heild og gjaldeyrisöflunina því að þær hafa vart gefið minna en um 100 millj. kr. hvort ár í útflutningsverðmæti. Við þá lengingu veiðitímans, sem hér er um að ræða, mætti gera ráð fyrir 30% aukningu, og færi þá þessi útflutningur að nálgast 5% eða 1/20 af heildarútflutningi landsmanna.

Að lokinni 1. umr. um frv. þetta er lagt til, að ]wí verði vísað til 2. umr. og sjútvn.