21.11.1961
Neðri deild: 23. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (2858)

82. mál, gatnagerð á vegum bæjar- og sveitarfélaga

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við frv. það til laga á þskj. 107, er hér er til 1. umr., vildi ég láta það koma fram, að þessu máli hefur verið hreyft hér á Alþingi áður, og rekja nokkuð meðferð þess hér.

Á þinginu 1959–60 flutti Daníel Ágústínusson ásamt þeim Jóni Skaftasyni og Ingvari Gíslasyni, hv. þm.., till. til þál. um aðstoð við gatnagerð í kaupstöðum og kauptúnum. Þessi till. gekk þá til fjvn. og var afgreidd af nokkrum hluta nefndarmanna, fulltrúum Framsfl. þar og fulltrúa Alþb. Till. þessi gerði ráð fyrir því, að undirbúin væri löggjöf um fjárhagslegan stuðning við gatnagerð í kauptúnum og kaupstöðum landsins. Nál. var afgreitt frá Alþingi 31. maí 1960, en till. varð hins vegar aldrei útrædd á því þingi og hefur ekki verið endurflutt síðan, m, a. vegna þess, að nokkur breyting hefur orðið á þessu. Hér á þinginu í fyrra fluttum við nokkrir þm.. Framsfl. frv. til laga um vega- og brúasjóð. Var gert ráð fyrir í því frv., að benzínskatturinn og þungaskatturinn gengju í þennan sjóð og yrði svo gerð breyting á framkvæmd vegamála í samræmi við það. Þetta mál fékkst ekki heldur afgreitt frá hv. Alþingi. Hins vegar kom fram á þinginu í fyrra, seint á því þingi, till. um endurskoðun á vegalögum, og var henni vísað til fjvn. Alþingis. Vegamálastjóri fékk það mál til umsagnar nokkuð samtímis frv. okkar framsóknarmanna, þessa þátill., og hann sendi svo sitt álit til fjvn. um, hvernig þessum málum yrði fyrir komið. Lagði hann þar til, að vegamálin yrðu tekin til gagngerðrar endurskoðunar, þannig að lög um opinbera vegi og brýr yrðu öll endurskoðuð í heild og þá jafnframt stefnt að því að fá þar fasta tekjustofna til framkvæmda í framtiðinni. Það var samkomulag innan fjvn. Alþingis að fallast á þessa lausn. Þar sem sjáanlegt var frá hendi okkar, sem vildum hraða þessu máli, að við áttum ekki kost á meiri hraða af hendi meiri hl. Alþingis, þá urðum við allir sammála um að fallast á þessa till., eins og hún kom frá vegamálastjóra, og fjvn. afgreiddi hana samhljóða. Sú ein breyting varð þar á, sem við urðum ekki sammála um, að við lögðum til, fulltrúar Framsfl. og Alþb. í fjvn., að sú nefnd yrði þingkosin, sem yrði falin þessi endurskoðun, en það fékk ekki náð fyrir augum stjórnarliða, og hefur því ráðh. einn skipað n. Nú er þessi nefnd starfandi, og lög um opinbera vegi eru til endurskoðunar á hennar vegum, út frá því, sem ég hef hér rakið. Þar er m.a. lagt fyrir, að nefndin athugi um tekjustofna í sambandi við vegagerð og gatna. Þess vegna höfum við ekki, Framsóknarflokksmenn, hreyft hér tillögum í þessa átt á þessu þingi, því að við vildum bíða eftir því að sjá, hvað frá þessari nefnd kæmi í þessu máli.

Nú þarf ekki orðum að því að eyða, að hér er mikið nauðsynjamál á ferðinni. Það er vitað mál, að margir kaupstaðir og einnig nokkur kauptún stefna nú að því að gera sínar götur úr varanlegu efni, og ber þar hvort tveggja til, að þar sem umferðin er mikil, þar er viðhaldið orðið mjög dýrt, auk þess sem ryk og aurbleyta verða svo hvimleið vegfarendum í kauptúnum og kaupstöðum, þar sem umferð er mikil, að slíkt er með öllu óviðunandi. Þess vegna er þetta mál tímabært og hefur verið, svo sem sýnt er af flutningi þeirra tillagna, sem ég hef hér getið. Hins vegar hef ég litið svo á, að meðan þessi endurskoðun færi fram, bæri að bíða eftir því og ekki hægt að taka einstaka þætti út úr sérstaklega í sambandi við tekjuöflunina.

Hins vegar vil ég endurtaka það, sem fram kom í framsöguræðu minni í fyrra fyrir frv. til laga um vega- og brúasjóð og einnig þegar till. um endurskoðunina var afgreidd hér frá Alþingi, að að því ber að stefna, að vega- og gatnagerð í landinu njóta þeirra tekna, sem frá umferðinni koma. Þessi hlutföll hafa gengið mjög í öfuga átt frá sjónarmiði vegagerðarinnar og gatnagerðarinnar, því að allt fram til ársins 1955 lagði ríkissjóður meira í vegagerð hér á landi en hann hafði í tekjur af umferðinni, en nú mun hann hins vegar hafa sennilega helmingi meiri tekjur, ef ekki enn þá meiri, heldur en hann leggur til vegagerðar. Þessi þróun er með öllu óviðunandi, og ber að stefna að því að koma þessum málum fyrir m.a. á þann veg, sem hér er lagt til, að aðstoða gatnagerðina í kauptúnum og kaupstöðum, auk þess sem þarf stórum að auka fjármagnið til vegagerðarinnar í landinu. Hins vegar tel ég hyggilegt, fyrst samkomulag varð um endurskoðun á þessum málum í heild, að bíða eftir því, að þeirri endurskoðun ljúki, enda hefur mér verið tjáð af nefndarmönnum, að líkur séu til þess, að a.m.k. muni eitthvað heyrast frá nefndinni á þessu þingi. Af þeim ástæðum hef ég beðið með þær tillögur, sem ég hefði gjarnan viljað láta að öðrum kosti koma hér fram í þessum málum.