21.11.1961
Neðri deild: 23. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (2859)

82. mál, gatnagerð á vegum bæjar- og sveitarfélaga

Flm. (Ingi R. Helgason):

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. síðasti ræðumaður gat þess, að þetta hefði borið áður á góma hér í hinni virðulegu stofnun, og ég vissi það, að með þessum tillöguflutningi komum við ekki neinum á óvart, enda málið mjög brýnt og aðkallandi og vonum seinna, að þessi mál skuli vera í endurskoðun með sérstöku tilliti til þess að afla fastra, góðra tekjustofna til að standa undir varanlegri gatnagerð. En vegna þeirra afdrifa, sem tillögur hafa hlotið hér, sem hafa hnigið í svipaða átt og þessi, sýnist mér ekki síður tímabært að flytja tillögu eins og þessa einmitt nú. Það sýnir sig svo, hvort endurskoðuninni miðar það vel áfrum, að þingmenn fái að sjá einhvern árangur hennar, meðan þing situr nú. Hér er hins vegar um að ræða sérstakan þátt málsins, ekki þann þáttinn, sem heyrir undir vegalögin almennt og ríkisgatnagerðina, heldur þann þáttinn, sem snýr að þeim verkefnum bæjarog sveitarfélaganna, kauptúnanna og kaupstaðanna, að koma þessum málum í viðunandi horf hjá sér. Þau geta það ekki, miðað við sína tekjustofna, nema með óheyrilegum lántökum. Sum hafa að vísu farið út á þá braut og reyrt sér þunga fjárhagsbagga, en þau geta það ekki, nema fjárveitingavaldið hlaupi undir bagga. Og það má vel afgreiða þennan þátt málanna, um leið og vegalögin almennt yrðu tekin til endurskoðunar og vegaframkvæmdum á vegum ríkisins komið í fastara horf, að ganga frá lagaákvæðum varðandi stuðning við bæjar- og sveitarfélögin.