11.12.1961
Neðri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. Það, sem nú liggur fyrir til 2. umr., á þskj. 174, um verðlagsráð sjávarútvegsins, er flutt af hæstv. ríkisstj. Frv. var útbýtt í hv. deild föstudaginn 8. þ.m. Þegar sama dag á aukafundi var það tekið fyrir til 1. umr. Urðu þá um það nokkrar umr., en ekki langar, en málið síðan afgr. til 2. umr. og vísað til sjútvn. Af hálfu hæstv. ráðh., sem mælti fyrir frv., var þess óskað sérstaklega, að málinu væri hraðað.

Næsta dag, laugardaginn 9. þ. m., var svo frv. tekið fyrir á fundi sjútvn. Á þeim fundi var frv. afgreitt frá n., og hefur hún ekki haldið aðra fundi um málið. Það kom fram á þessum fundi, að meiri hl. n., hv. frsm meiri hl., sem hér talaði áðan, hv. 3. þm. Reykn. og hv. 5. þm. Vestf., vildi afgreiða frv. og mæla með því með tilteknum breytingum, sem þeir lýstu á fundinum og nú eru fram komnar í áliti meiri hl. En meiri hl. lýsti jafnframt yfir því, að hann mundi ekki mæla með víðtækari breytingum á frv.

Ég hreyfði því þá í n., að ég teldi þörf á að gera meiri breytingar og víðtækari á frv. heldur en meiri hl. hefur lagt fram. En undir það var ekki tekið. Ég skýrði þá frá því í n., að ég mundi gefa út sérstakt nál., sem nú hefur verið prentað og liggur fyrir á þskj. 188 ásamt brtt. frá mér á þskj. 189.

Ég vil vekja athygli á því, að sjútvn. og þm. yfirleitt hafa haft mjög stuttan tíma til að athuga þetta mál, eins og ég hef reyndar áður lýst nánar. Ég tel, að það hefði verið æskilegt, að sá tími hefði getað verið lengri, en skal þó ekki um það sakast, þó að hæstv. ríkisstj. óski eftir að hraða málinu, eins og nú standa sakir og áliðið er orðið. En það hefði verið mjög æskilegt að geta haft rýmri tíma til athugunar á þessu nýmæli og m.a. ráðrúm til þess að afla ýmissa upplýsinga í sambandi við málið. En þegar frv, var útbýtt hér í deildinni s.l. föstudag, voru þm. í rauninni ókunnugir þessu máli, þó að einhverjir kunni að hafa haft hugmynd um, að einhver undirbúningur hefði farið fram, sem ég man þó ekki eftir að legið hafi fyrir.

Áður en ég kem að því að lýsa þeim brtt., sem ég hef borið fram, og áliti mínu á þessu máli, vil ég fara nokkrum orðum um aðdraganda þessa máls.

Þegar hæstv. ríkisstj, á öndverðu ári 1960 hóf aðgerðir sínar í efnahagsmálum, m.a. með því að beita sér fyrir stórfelldari breytingu á skráningu erlends gjaldeyris en menn almennt hafði grunað, þá var það ótvírætt gefið í skyn af hennar hálfu, að niður væru fallin opinber afskipti af kaupgjaldsmálum hvers konar og af verðlagningu sjávarafurða. Þar átti að verða um svokallaða frjálsa verðmyndun að ræða. Einhvers staðar í latínubókum stendur spakmæli, sem á vora tungu hefur verið útlagt þannig: „Ekkert mannlegt er mér óviðkomandi.“ En hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir fyrir tæpum tveimur árum, að ýmislegt mannlegt mundi verða henni óviðkomandi. Hún sagði m.a.: það skal vera oss óviðkomandi, þó að deilur verði um kaup og kjör milli stéttanna og hvernig kaupgjald verður, og það skal vera oss óviðkomandi, hvert verðlag verður á sjávarafla og hvort sjósókn kann að stöðvast um lengri eða skemmri tíma, af því að þetta verð fæst ekki ákveðið, — það skal vera oss óviðkomandi. Síðan þetta var, hefur ýmislegt gerzt í þessum málum, sem virðist sýna, að þetta hafi verið nokkuð hæpinn ásetningur hjá hæstv. ríkisstj. á sínum tíma, þó að hann væri sjálfsagt vel meintur. Þá er þess m.a. að geta, að í vertíðarbyrjun í fyrra urðu stórdeilur hér við sjávarsíðuna m.a. um fiskverð og alltilfinnanleg framleiðslustöðvun af þeim orsökum. Þar var um mikinn vanda að ræða.

Á ofanverðu þingi í fyrra var lagt fram frv. hér í þessari hv. d., flutt af hv. 4. þm. Austf. (LJós) og hv. 6. Þm. Sunnl. (KGuðj), varðandi einmitt þau mál, sem nú eru hér til meðferðar. Segir svo m.a. í 2. gr. þessa frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskverð í hverjum verðflokki“ — það er áður búið að tala um þessa verðflokka — „skal ákveðið af nefnd fisksölu- og fiskkaupaaðila. Ráðherra skipar nefndina eftir tilnefningu eftirtalinna aðila þannig:

A. Af hálfu fisksöluaðila:

3 fulltrúar tilnefndir af Landssambandi ísl. útvegsmanna.

3 fulltrúar tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands.

B. Af hálfu fiskkaupenda:

3 fulltrúar tilnefndir af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna.

1 fulltrúi tilnefndur af Sambandi ísl. samvinnufélaga.

1 fulltrúi tilnefndur af Samlagi skreiðarframleiðenda.

1 fulltrúi tilnefndur af Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda.

Nefndin starfar undir handleiðslu sáttasemjara ríkisins í vinnudeilum.

Nú næst ekki samkomulag milli nefndarmanna um fiskverðið, og tekur þá sáttasemjari ríkisins sæti í nefndinni og fellir hún úrskurð þannig skipuð.“

Þetta er 2. gr. í frv. um þessi mál, sem flutt var á síðasta þingi af hv. 4. Þm. Austf. og hv. 6. þm. Sunnl., og sýnir það glöggt, að hér á Alþingi voru menn orðnir þess sinnis, að einhverra aðgerða væri þörf í þessum málum og að það dygði ekki til lengdar, sem ríkisstj. hafði fyrirhugað, að láta sem svo, að þessi mál skyldu vera hinu opinbera óviðkomandi.

Þetta frv., sem ég nú hef nefnt, varð ekki útrætt á síðasta þingi. En síðan hafa ýmis tíðindi gerzt enn í efnahagsmálum. Á s.l. sumri varð almenn kauphækkun í landinu, og síðar var gengisskráningu breytt á ný með brbl., í byrjun ágústmánaðar, svo sem kunnugt er. Nú er aftur að því komið, að vetrarvertíð hefjist hér á Suðvesturlandi og að komast þurfi að einhverri niðurstöðu um verð á sjávaraflanum. Hæstv. ríkisstj. virðist í s.l. mánuði hafa gert sér grein fyrir því, að hér væri opinberra aðgerða þörf og þær aðgerðir yrði að gera í tíma, því að 9. nóv. s.l. skipaði hæstv. sjútvmrh. 8 manna nefnd, sem átti að hafa það hlutverk samkvæmt erindisbréfi: í fyrsta lagi að ræða og gera tillögur um frambúðarfyrirkomulag á ákvörðun fiskverðs og síldarverðs, í öðru lagi að gera tillögur um, hvernig með skuli fara, ef ekki næst samkomulag með aðilum, sem hlut eiga að ákvörðun slíks verðs, og í þriðja lagi að gera tillögur um greiðslu kostnaðar, sem af slíkri verðákvörðun leiði. Þessi 8 manna nefnd var þannig skipuð, að í henni voru fulltrúar frá ýmsum samtökum, sem eiga hagsmuna að gæta í sambandi við verð sjávarafla, ýmist sem fiskkaupendur eða fiskseljendur. Talið var, að í nefndinni væru 4 fulltrúar frá þeim, sem selja sjávarafla, og aðrir 4 frá þeim, sem kaupa sjávarafla. Þessi nefnd er talin hafa haldið 10 fundi í nóvembermánuði, og hinn 29. nóv. skilaði hún áliti sínu til sjútvmrn.

Í þessari 8 manna nefnd frá fiskkaupendum og fiskseljendum virðist hafa náðst allvíðtækt samkomulag um ýmislegt, sem þetta mál varðar. Allir nefndarmenn virðast hafa verið sammála um, að löggjafar væri þörf um þetta efni. Þeir virðast einnig hafa verið sammála um stofnun verðlagsráðs, sem skipað yrði annars vegar fulltrúum fisksöluaðilanna, sem sé sjómanna og útgerðarmanna. Þá virðast nefndarmenn einnig hafa verið sammála um, að sú verðákvörðun skyldi gilda, sem samkomulag yrði um milli allra þeirra fulltrúa fiskkaupenda og fisksöluaðila, sem aðild ættu að verðlagningu samkv. frv., og einnig að öðru leyti virðast þessir 8 nefndarmenn hafa verið sammála um ákvæði þess frv. yfirleitt, sem þeir lögðu fyrir ríkisstj., að tveim atriðum undanskildum, sem ég nú kem að.

Þessi tvö atriði, sem náðist ekki fullt samkomulag um í 8 manna nefndinni, voru: Í fyrsta lagi, hve margir fulltrúar skyldu vera í verðlagsráði og hversu mikil skyldi vera aðild einstakra aðila að ráðinu. En þetta tvennt er raunar í nánum tengslum, því að fjöldi fulltrúa í ráðinu í heild fer eftir því nokkuð, hve mikil aðild hverjum aðila er ætluð. Þetta var annað atriðið, sem áttmenningarnir urðu ekki sammála um. Í bréfinu til ríkisstj. frá 29. nóv. segir svo:

„Minni hl. n., Tryggvi Helgason, var hins vegar hlynntur því, að fulltrúar fisksöluaðilanna væru 8 og væru jafnmargir fulltrúar frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og frá sameinuðum samtökum sjómanna, þó þannig, að Alþýðusamband Íslands skipaði 2 fulltrúa og Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands sinn fulltrúann hvort. Var sú till. felld,“ segir í bréfinu. „Minni hl. n., Guðmundur Oddsson, lagði til, að fulltrúar fisksöluaðila yrðu 6, en sú tillaga var felld með 3:2 atkv.

Till. meiri hl. um skipun verðlagsráðsins, sú sem tekin er upp í stjórnarfrv. í 1. gr., var að lokum samþ. í þessari 8 manna undirbúningsnefnd með 5:3 atkv. Um hana er sem sagt ekki nærri fullt samkomulag í nefndinni, því að 3 greiða atkv. á móti henni. Hins vegar er þess að geta, að þeir þrír, sem í minni hlutanum voru, þeir voru ekki innbyrðis sammála um það, hvaða tillögu þeir skyldu bera fram, að því er virðist. Hér er um að ræða annað atriðið, sem virðist ekki hafa verið samkomulag um í undirbúningsnefndinni. Hitt atriðið, sem varð ekki samkomulag um í undirbúningsnefnd, var skipun og úrskurðarvald yfirnefndar, sem gert er ráð fyrir að taki til starfa, ef ekki næst í verðlagsráðinu fullt samkomulag um fiskverð. Þá er gert ráð fyrir, að þessi yfirnefnd taki til starfa. Einn maður í undirbúningsnefndinni lagði til, að önnur skipun yrði höfð á þessum málum, þannig að ekki væri um yfirnefnd að ræða, heldur væri þannig að farið, ef verðlagsráð næði ekki einróma samkomulagi, að þá færi fram sáttatilraun, sáttasemjari tæki málið í sínar hendur og reyndi að ná sáttum milli þeirra fulltrúa verðlagsráðs, sem eru frá fiskseljendum, og hinna, sem eru frá fiskkaupendum, og að sáttasemjari bæri svo, ef þar til kæmi, fram miðlunartillögu, sem borin væri undir meðlimi þeirra samtaka, sem um er að ræða.

Þannig var málið afgreitt til hæstv. ríkisstj. með bréfi, sem undirritað er af öllum nefndarmönnum 8, þó þannig, að einn nefndarmanna, fulltrúi Alþýðusambandsins, skrifar undir með fyrirvara, þar sem hann gerir grein fyrir brtt. sínum, og sömuleiðis ritaði minni hl. ráðuneytinu sérstakt bréf um afstöðu sína, sem dagsett er 30. nóv. eða daginn eftir.

Eins og ég sagði áðan, virðist mér, að um þetta frv., sem hér liggur fyrir og er í raun og veru að mestu leyti shlj. þeim tillögum, sem meiri hl. n. stóð að, hafi náðst í undirbúningsnefndinni, þar sem fulltrúar aðilanna áttu sæti, allvíðtækt samkomulag, en þó engan veginn hægt að segja, að það samkomulag sé fullt samkomulag um sum atriðin.

Nú er það skoðun mín, að unnt ætti að vera að breyta þessu frv. á þá leið, að málið yrði líklegra til þess að bera árangur, njóta allsherjarstuðnings, ef að lögum yrði, og það er óneitanlega mjög mikils virði, ef lánast mætti að gera þessa löggjöf svo úr garði, að þeir aðilar flestir og helzt allir, sem við hana eiga að búa, sættu sig við hana og ekki væri um verulega óánægju að ræða, því að um það þarf ekki að ræða langt mál, að það er mikill veikleiki í löggjöf sem þessari, ef hún nýtur ekki fyrir fram mjög mikils stuðnings og almenns stuðnings þeirra, sem hlut eiga að máli.

Tillögur mínar á þskj. 189 eru að verulegu leyti við þetta miðaðar, að breyta vissum atriðum í frv. á þá leið, að ætla megi, að víðtækara samkomulag verði um og lögin verði þannig líklegri til árangurs. En jafnframt hef ég farið yfir greinar frv., eftir því sem tími hefur verið til, og gert tillögur, sem mér virðist ótvírætt að séu til bóta, þó að tilgangur þeirra sé kannske ekki beinlínis sá, sem ég hef nú nefnt. Skal ég þá koma að því að lýsa stuttlega þessum tillögum, sem fyrir liggja á þskj. 189. En um rökstuðning fyrir þeim, að því leyti sem hann kemur ekki fram í því, sem ég nú segi, vísa ég til nál. 1. minni hl. á þskj. 188.

1. brtt. mín á þskj. 189 er við 1. gr. frv. Ég geri þar ráð fyrir í fyrsta lagi, að fjölgað verði um tvo menn í verðlagsráði. Er þá fyrst gert ráð fyrir því, að fulltrúum fisksöluaðilanna verði fjölgað um einn, þannig að Alþýðusamband Íslands fái tvo fulltrúa í stað þess, sem gert er ráð fyrir í frv., að það hafi aðeins einn fulltrúa. Ef þessi breyting verður samþykkt, verða fulltrúar þeirra samtaka, sem sjómenn standa að, jafnmargir fulltrúum útvegsmannasamtakanna. Það virðist mér sanngjarnt og það held ég að mælist miklu betur fyrir en hitt, sem í frv. stendur, þar sem gert er ráð fyrir, að annar aðilinn hafi fleiri fulltrúa en hinn. Þó að þeir eigi að vísu sameiginlegra hagsmuna að gæta í þessu verðlagsráði, mun mönnum eigi að síður finnast sanngjarnt, að sjómenn, sem eiga um það bil helming aflans samkv. hlutaskiptareglum eða ekki fjarri því, hafi jafnmarga fulltrúa og útvegsmennirnir, og ekki líklegt, að útvegsmenn út af fyrir sig hafi nokkuð á móti þeirri skipan. Ég hef talið rétt, að Alþýðusamband Íslands fengi þennan fulltrúa, sem ég geri ráð fyrir að bætt verði við fulltrúatölu fisksöluaðilanna. Mér hefur verið tjáð það, og m.a. kom það fram frá forseta Alþýðusambandsins, sem hér talaði í deildinni við 1. umr., að í Alþýðusambandinu mundu vera öllu fleiri sjómenn en í þeim samtökum samtals, sem hér voru ætlaðir 2 fulltrúar. Um þetta hef ég ekki sjálfur neinar tölur, en mér þykir þetta ekki ólíklegt og hef því gert þessa tillögu.

Í öðru lagi legg ég til, að inn í 1. gr. komi ákvæði um fjölgun fulltrúa fiskkaupenda um tvo. Nýlega hafa verið stofnuð sérstök félög fiskvinnslustöðva í einstökum landshlutum, annað, sem nær yfir Norður- og Austurland, eða félagstakmörkin eru nálægt takmörkum þessara landshluta, og nefnist Félag fiskvinnslustöðva á Norður- og Austurlandi, hitt, sem tekur yfir Vestfirði og heitir Félag fiskvinnslustöðva á Vestfjörðum. Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt, að þessum nýju samtökum í landshlutunum verði gefinn kostur á að eiga fulltrúa í verðlagsráðinu og koma þar fram með sín sjónarmið og sína sérþekkingu á þessum málum. En til þess að raska ekki skipulagi, sem hér er um að ræða í sambandi við verkaskiptingu í verðlagsráðinu í heild, hef ég lagt til, að fulltrúum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna verði fækkað um einn og verði tveir í stað þriggja, enda er það svo, að aðilar í Félagi fiskvinnslustöðva á Norður- og Austurlandi og Félagi fiskvinnslustöðva á Vestfjörðum eru margir hverjir jafnframt aðilar að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Hins vegar er ekkert ósamræmi í því, þó að þeim sé ætlað að eiga þarna fulltrúa jafnframt því, sem Sölumiðstöðin á fulltrúa, því að á öðrum stað er gert ráð fyrir, að Sjómannasambandið, sem er í Alþýðusambandi Íslands, eigi fulltrúa í ráðinu, jafnframt því sem sjálft Alþýðusambandið á fulltrúa, og er það alveg sambærilegt.

Þetta eru þær breytingar, sem ég geri ráð fyrir að gerðar verði á verðlagsráðinu.

Í þriðja lagi legg ég svo til, að bætt verði inn í þessa grein ákvæðum, sem eiga að tryggja það, að fulltrúar í verðlagsráði eigi ekki hagsmuna að gæta, sem fara í bága við hagsmuni aðila, sem þeir eru fulltrúar fyrir. Að þessu var nokkuð vikið í umr., og ég sé, að hv. meiri hl. sjútvn, hefur gert brtt. um þetta efni. Sú brtt. er nokkuð öðruvísi orðuð, og brtt. mín er ekki einhliða, heldur er hún látin eiga jafnt við báða aðila, sem ég tel eðlilegt og rökrétt.

Næsta brtt. mín er við 2. gr. frv. og er í raun og veru afleiðing af brtt. við 1. gr. í frv. er gert ráð fyrir, að verðlagsráðið starfi í flokkum eftir því, um hvers konar verðlagningu er að ræða. Einn verðlagningarflokkurinn starfar að verðlagningu fiskafurða almennt, annarra en síldarafurða, fiskafla almennt, annars en síldarafla. Annar verðlagningarflokkur starfar að verðlagningu Norðausturlandssíldar og þriðji flokkurinn að verðlagningu Suðvesturlandssíldar. Fulltrúar fisksöluaðilanna eiga sæti í öllum þessum flokkum, en aðeins í hverjum flokki hluti af fulltrúum fiskkaupendanna. Af fjölguninni samkv. 1. gr. leiðir það, að í þessum verðlagningarflokkum verða 16 menn, en ekki 14.

Brtt. við 3. gr. er einnig afleiðing af brtt. við 1. gr. og er sams konar. Hún fjallar um verðlagninguna á fiskafla almennt, annars en síldarafla. Þar geri ég ráð fyrir, að félög fiskvinnslustöðvanna á Norður- og Austurlandi og Vestfjörðum eigi sinn fulltrúann hvort.

4. brtt. er við 4. gr., og í henni felast tilsvarandi breytingar og á ákvæðunum um verðlagningu síldar, sem veidd er við Norður- og Austurland, og síldar, sem veidd er við Suður- og Suðvesturland, eins og það er orðað í frv. En í frv. er svo að orði komizt, að þegar ákveðið skuli verð á síld, sem veidd er við Suður- og Suðvesturland, skuli verðlagsráð skipað sem þar segir. Ég hef leyft mér að orða þetta öðruvísi og þannig, að ákvæðin séu um síld, sem veidd er við Suður- og Vesturland, því að óneitanlega er nokkur síld veidd við Vestfirði og þarf þá sjálfsagt að verðleggjast eins og önnur síld. En mér virðist, að samkv. orðalagi frv. gildi ákvæði þess ekki um þá síld, sem veiðast kann út af Vestfjörðum, nema þá með lögskýringum. Þess vegna hef ég talið réttara að orða þetta á þá leið.

Ég vil einnig nota tækifærið til þess að vekja athygli á því, sem ég held að meiri hl. hafi ekki athugað, að á einum stað í frv., í 3. gr., er talað um aðila í staðinn fyrir fulltrúa. Þyrfti það að athugast, ef greininni yrði ekki breytt. Þar segir: „sjö fulltrúum fisksöluaðila samkv. 1. gr. og sjö aðilum fiskkaupenda“ o.s.frv.

Ég kem þá næst að brtt. minni við 9. gr., tölulið 5 í brtt. á þskj. 189. Þessi grein fjallar í frv. um það, hversu með skuli fara, ef ekki næst samkomulag í verðlagsráði, að þá skuli vísa ágreiningsatriðinu til yfirnefndar með þeim hætti, sem nánar er ákveðið í þeirri grein í frv. Ég legg til, að þessi grein, 9. gr., verði orðuð svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú næst ekki samkomulag í verðlagsráði um verð í einstökum atriðum eða verð sjávarafla í heild um tilskilinn tíma, og skal þá skipa fimm manna yfirnefnd þannig:

1) Tveir tilnefndir af fisksöluaðilum í verðlagsráði, annar úr hópi fulltrúa L.Í.Ú., en hinn úr hópi sjómannafulltrúa.

2) Tveir tilnefndir af fiskkaupendum í verðlagsráði og a.m.k. annar þeirra af þeim aðila, sem ágreiningur er við.

3) Oddamaður, sem verðlagsráð kemur sér saman um.“

Þessi upptalning á fulltrúum í yfirnefndinni er óbreytt í brtt. minni frá því, sem hún er í frv. Svo held ég áfram í brtt.:

„Nú næst ekki samkomulag í verðlagsráði um oddamann, og skal þá að fengnu samþykki meiri hluta fulltrúa fisksöluaðila og meiri hluta fulltrúa fiskkaupenda oddamaður tilnefndur af hæstarétti:

Ef yfirnefnd verður fullskipuð, fellir hún fullnaðarúrskurð um ágreiningsatriði, og ræður einfaldur meiri hluti atkvæða úrslitum.“

Í þessari brtt. felst það, að ágreiningi í verðlagsráðinu skuli vísað til yfirnefndar, sem úrskurði ágreininginn, ef hún verður fullskipuð samkvæmt greininni: Ég sé ekki ástæðu til þess, að gerð sé aths. við það, að komið verði upp yfirnefnd, sem samkomulag er um í verðlagsráði, hvernig skipa skuli. Ég sé ekki, að menn geti í rauninni haft á móti því, að slík yfirnefnd starfi, sem verðlagsráðið tilnefnir sjálft og er sammála um oddamann í. Það sýnist mér að allir ættu að geta fallizt á við nánari athugun, að það sé ekkert athugavert við það, að slík yfirnefnd starfi, og hef ég ekki gert við það neina efnislega brtt. Ef yfirnefndin verður þannig skipuð, þá starfar hún og úrskurðar verðið samkvæmt minni brtt. En svo kemur vandinn, ef fulltrúarnir í verðlagsráði verða ekki sammála um oddamanninn í yfirnefndinni. Þá fæst ekki þessi oddamaður, nema hann sé tilkvaddur af einhverjum aðila, og málið er þá strandað, ef það er ekki gert í frv., eins og það liggur hér fyrir, er gert ráð fyrir, að þegar hér er komið, verði oddamaðurinn innan tveggja sólarhringa, frá því að ákvörðun var tekin um vísun ágreinings til yfirnefndar, tilnefndur af hæstarétti. Ég held, að það væri líklegra til æskilegs árangurs í þessu máli, að hér væri nokkur varúð viðhöfð, áður en oddamaðurinn er tilnefndur, og hef ég lagt til í brtt. minni, að hæstiréttur skipi ekki oddamanninn, nema það hafi verið samþykkt, að hann skuli skipaður, af meiri hluta beggja aðila í verðlagsráði. Í þessu verðlagsráði, eins og það er skipað, þegar það fjallar um verðlagningu og þegar þessi hugsanlegi ágreiningur verður, eiga sæti 16 fulltrúar, 8 frá fiskkaupendum, þ.e.a.s. frá fiskvinnslustöðvunum, og 8 frá fiskseljendum, þ.e.a.s. frá útgerðarmönnum og sjómönnum. Þetta eru tveir aðilar, sem væntanlega hafa gagnstæðra hagsmuna að gæta í þessu tilfelli, þessir 8 fulltrúar fiskkaupendanna og 8 fulltrúar fiskseljendanna. Nú legg ég til, að oddamaðurinn verði ekki skipaður, nema ekki aðeins fulltrúar annars aðilans eða meiri hluti þeirra hafi samþykkt, að oddamaðurinn sé skipaður, heldur einnig meiri hluti fulltrúa frá hinum aðilanum. Þá sýnist mér, að tryggingin fyrir því, að menn uni allvel þeirri niðurstöðu, sem verður, sé orðin mun meiri en ef hægt er t.d. að skipa oddamann gegn vilja allra fulltrúa annars aðilans, eins og frv. gerir ráð fyrir. Þar er um allt annað að ræða. Þetta er það, sem felst í brtt. minni við 9. gr. Og ég vil vænta þess, að hv. þm. taki til gaumgæfilegrar athugunar, hvort menn geta ekki í raun og veru yfirleitt fallizt á þetta fyrirkomulag.

Ef menn vilja setja löggjöf um þetta mál, telja þörf á því, — og um það virðist yfirleitt ekki vera ágreiningur, að það þurfi að setja einhverja löggjöf um þessa verðlagsákvörðun og að ástandið sé ekki æskilegt, eins og það er, — þá ættu menn að geta orðið einhuga um að gera þá löggjöf þannig úr garði, að af henni geti orðið einhver árangur, svo að ekki verði fyrirhöfnin ein og kostnaðurinn við framkvæmdina.

Ég hef svo gert brtt. við 10. gr. Það er 6. töluliður á þskj. 189. 10. gr. fjallar um það, að ákvörðun verðlagsráðs skuli vera bindandi sem lágmarksverð, þegar afli er seldur, og að enginn megi selja sjávarafla undir því verði o.s.frv., sem ákveðið hefur verið. Hins vegar sýnist mér ekki vera í þessari grein ákvæði um það, hve lengi úrskurðurinn skuli vera bindandi. Ég hef lagt til, að hann gildi, hvort sem um er að ræða úrskurð verðlagsráðs eða yfirnefndar, ekki lengur en eina vertíð eða veiðitímabil. Um þetta sýnist mér að þurfi að vera ákvæði. Það geta kannske verið skiptar skoðanir um það, við hvaða tíma eigi að miða, hvað lengi úrskurðurinn eigi að vera bindandi, en ég hef nú leyft mér að leggja þetta til.

Síðasta brtt. mín er svo við 11. gr. frv. Sú gr. fjallar um það, að sjútvmrh. ákveði verðlagsráðsmönnum þóknun fyrir störf þeirra og að sú þóknun greiðist úr fiskimálasjóði ásamt öðrum kostnaði við ráðið og starfsemi þess. Á öðrum stað í frv. segir, að verðlagsráð geti ráðið sér framkvæmdastjóra og annað starfsfólk, sem annist dagleg störf. Þarna er gert ráð fyrir sérstakri stofnun og starfsemi, enda þurfi til þess samþykki ráðh., sem virðist vera eðlilegt. Ég verð að segja, að mér finnst það ekki eðlileg tilhögun, að þessi kostnaður, hvort sem hann verður mikill eða lítill, — og hann gæti trúlega orðið þó nokkur, — að hann verði greiddur úr fiskimálasjóði. Mér finnst það eðlilegt, að sá kostnaður, hver sem hann verður, verði greiddur úr ríkissjóði, eins og oft er gert, þegar nefndir starfa að svona málum. Ég held, að fiskimálasjóður sé þess ekki umkominn að taka á sig þennan kostnað. Hann mun ekki vera aflögufær. Þessi stofnun hefur mikilsverðu hlutverki að gegna — a.m.k. tel ég það — í þágu uppbyggingar atvinnulífsins við sjávarsíðuna víðs vegar um landið, og hann hefur litlar tekjur. Og ég veit eiginlega ekki, hvernig á því stendur, að þeim, sem um þetta frv. fjölluðu, hefur dottið í hug að fara að leggja til, að þessi fjárvana stofnun færi að greiða slíkan kostnað. Ég held, að það sé eitthvert athugaleysi, sem því veldur, og legg til, að því verði breytt.

Ég hef þá gert grein fyrir áliti mínu á þessu máli, sem hér liggur fyrir, og einnig gert grein fyrir þeim brtt., sem ég hef leyft mér að flytja, og skal ég því láta máli mínu lokið.