26.02.1962
Neðri deild: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í C-deild Alþingistíðinda. (2869)

103. mál, vegalög

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Í gildandi vegalögum er það ákvæði, að þar sem þjóðvegur liggur um kauptún eða kaupstað, þar skuli það vera skylda viðkomandi kauptúns eða kaupstaðar að viðhalda veginum, en hann er að því leyti leystur undan ríkisábyrgðinni sem þjóðvegur, þannig að vegagerð ríkisins þarf ekki að viðhalda honum eða endurbæta hann í samræmi við þarfir á þeim slóðum, sem afmarkast af kauptúni eða kaupstað. Þetta ákvæði orkar mjög tvímælis um sanngirni og er reyndar, þegar að er gætt, í sumum tilfellum alls ekki sanngjarnt.

Víða hagar svo til á landi okkar, að þjóðvegur, sem liggur í fjölbyggð héruð handan við eitthvert þorp, er að miklum meiri hluta notaður af allt öðrum en þorpsbúum sjálfum, en í slíkum tilfellum virðist það vera laust við alla sanngirni að leggja á herðar þorpsbúa einna að sjá um viðhald á slíkum vegi.

Ég hef þess vegna flutt hér frv. um það, að upp skuli teknar nýjar reglur í þessu efni, — upp skuli teknar þær reglur, að því aðeins skuli þorpi eða kaupstað skylt að viðhalda þjóðvegi, sem í gegnum þorpið liggur eða kaupstaðinn, að meiri hluti umferðarinnar reynist vera á vegum þorpsbúa sjálfra eða kaupstaðarbúa. Það er ákaflega auðvelt að komast að raun um þetta. Það er hægt að gera um það nokkrar úrtaksprufur, gæta þess einn eða tvo daga á ári, hvar eru skrásett þau ökutæki, sem um veginn fara, og finna þannig út, hvort vegurinn er að meiri hluta til eða ekki notaður í þágu þorpsbúa eða kaupstaðarbúa sjálfra.

Þá er og í þessu frv. gert ráð fyrir því, að þar sem umferðin í slíkum þorpum eða kaupstöðum fer upp fyrir ákveðið mark, þar skuli það vera skylda vegagerðar ríkisins að gera viðkomandi veg úr varanlegu efni, steinsteypu eða malbiki.

Ég get að sjálfsögðu ekki sagt til um það, til hve margra þorpa þetta ákvæði mundi nú þegar ná. Talning á umferð í þorpum mun ekki hafa verið gerð almennt. Þó hagar svo til, að árið 1967 gerði vegagerð ríkisins á því nokkra mælingu í tveim þorpum landsins, að telja má, hve mikil umferðin væri þar yfir sumarmánuðina eða þá mánuði, sem umferð er yfirleitt mest. Þetta var þó ekki gert í þorpunum sjálfum beinlínis, heldur á brúm, sem við þorpin voru, og ætla má, að umferðin um þær brýr hafi verið jöfn og umferðin um þorpin. Þetta var sem sagt mælt á Ölfusárbrúnni, en það mun segja til um, hver umferðin var um Selfossþorp, og á gömlu Rangárbrúnni við þorpið Hellu, og varð raunin sú, að meðalumferð á dag á Ölfusárbrúnni, þ.e.a.s. um Selfossþorp, reyndist vera um 800 bílar, en um Hellu um 400 bílar. Nú telur vegamálaskrifstofan, að ætla megi, að umferð vélknúinna tækja hafi frá þessum tíma aukizt um 25%, og svaraði þetta þá til þess, að nú væri umferðin um Selfossþorp 1000 bílar á dag. En að því er varðar þorpið á Hellu, þá gegnir nú öðru máli, því að svo sem mönnum er kunnugt, þá hefur verið breytt þar umferðarháttum, þannig að það hefur verið gerð ný brú á Rangá ytri, þannig að umferðin liggur ekki lengur í gegnum Helluþorp, en ætla má, að þar væri nú 500 bíla umferð, ef brúin hefði verið byggð á sama stað og gamla brúin er. Í öðrum þorpum er mér ókunnugt um það, hver umferðarþunginn kann að vera, en ætla má, að í nokkrum fleiri þorpum sé umferðarþungi í slíkum gegnumakstri orðinn það mikill, að hann sé kominn að þeim mörkum, sem í þessu frv. eru talin hæfileg til þess að vera í upphafi höfð sem mark að því, hvenær ætti að byggja þjóðveg í gegnum þorp úr varanlegu efni. Það er dýrt verk að leggja veg úr varanlegu efni, og munu fæst, ef þá nokkur af þorpum okkar eða kaupstöðum, sem þannig hagar til hjá, hafa efni á því að gera það á eigin kostnað, enda, eins og ég áður hef bent á, í þeim tilfellum, þar sem umferðin er að meiri hluta til í þágu annarra en þorpsbúa sjálfra, er ekki heldur sanngjarnt að ætlast til þess, að viðkomandi hreppur eða þorp beri kostnaðinn allan.

Hér hefur verið í frv. sett það mark, að þar sem umferð vélknúinna farartækja. á aðalumferðarmánuðum fer yfir 400 tæki á dag, skuli gera vegi úr varanlegu efni. En það er kunnara en frá þurfi að segja, að þegar umferðin er komin að verulegu marki upp fyrir það, þá er um það bil ógerningur að halda sæmilegum malarvegum, þegar svo háttar til. Það er auðvitað tilfinnanlegra fyrir íbúa í þéttbýli heldur en þá, sem fjær búa vegi, þegar vegir rjúka mjög upp eða eru í mjög slæmu ástandi, hvað veldur hvers kyns óþrifum í viðkomandi þorpi, og er hin brýnasta nauðsyn, að úr verði bætt.

Ég vænti þess, að þegar hv. þm.. taka að kynna sér þetta mál, sjái þeir nauðsyn þess og fallist á, að hér sé ekki farið fram á, að gerðar séu samþykktir um annað en það, sem sanngjarnt er.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að um það er þessari umr. lýkur, þá verði málinu vísað til hv, samgmn.