08.02.1962
Neðri deild: 45. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (2876)

115. mál, stuðningur við atvinnuvegina

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Hæstv. forseti. Það er kunnugt, að eitt af mestu vandamálum í íslenzkum efnahagsmálum, sem við hefur verið að góma á undanförnum árum, hefur verið hin mikla dýrtíð innanlands og hinn hraði vöxtur dýrtíðarinnar frá ári til árs. Þessi mikli dýrtíðarvöxtur hefur leitt til þess, að kaupgjald og framleiðslukostnaður allur innanlands hefur eðlilega farið síhækkandi, en þetta hefur aftur leitt til hess, að útflutningsframleiðslan, sem hefur verið fyrst og fremst bundin af hinu erlenda markaðsverðlagi, hefur komizt í fjárhagslega erfiðleika. Það hefur því orðið verkefni stjórnarvalda nú um margra ára skeið að reyna að jafna þarna metin, að reyna að aðstoða útflutningsframleiðsluna með ýmsum hætti og gera henni fært á þann hátt að standa undir síauknum framleiðslukostnaði innanlands. Við þekkjum það, að um langan tíma hafði það verið svo, að gripið hafði verið til þeirra ráða, að ýmiss konar uppbætur voru greiddar útflutningnum og styrkir í ýmsu formi voru greiddir, og auk þess hefur hvað eftir annað verið gripið til þess að breyta gengi íslenzkrar krónu, og allt hefur þetta átt að vera til þess að jafna hér metin, að aðstoða nokkuð útflutningsframleiðsluna, sem hefur ekki fengið jafnmikla hækkun á sínum tækjum og verðlagshækkun hefur verið mikil innanlands.

Þegar núverandi ríkisstj. lét samþykkja hér á Alþingi nýja stefnu í efnahagsmálum á öndverðu ári 1960, var því lýst yfir, að með þeim ráðum, sem þá var gripið til, ætti að koma í veg fyrir þennan vanda, væntanlega um langan tíma. Gengi krónunnar var þá enn fellt og ýmsar aðrar ráðstafanir voru gerðar, og þetta átti að koma í veg fyrir áframhaldandi styrkja- og uppbótakerfi. En um það verður nú ekki deilt, að þetta hefur ekki farið á þann veg, sem ráð var fyrir gert. Ef litið er á reynsluna í þessum efnum, er hún í stuttu máli þessi: Í árslokin 1960, eftir að þessi nýja efnahagsmálastefna ríkisstj., viðreisnarstefnan, hafði staðið í nærfellt eitt ár, varð enn að grípa til nýrra millifærsluleiða vegna þeirra erfiðleika, sem útflutningsframleiðslan átti þá í. Þá var það, sem samþ. var, að ríkið skyldi annast greiðslu í öllum vátryggingariðgjöldum fiskiskipaflotans árið 1960, og þær greiðslur munu hafa numið 90—95 millj. kr. Í öðru lagi var gripið til þess ráðs í lok ársins 1960 að ákveða, að hlutatryggingasjóður skyldi greiða bætur vegna síldveiðanna þá á árinu, þvert ofan í það, sem gildandi starfsreglur voru um hjá hlutatryggingasjóði. Á þann hátt munu útgerðinni hafa verið greiddar um 10 millj. kr. árið 1960. Einnig voru gerðar ráðstafanir af hálfu ríkisstj. í gegnum viðskiptabankana í árslokin 1960 þess efnis, að viðskiptabankarnir tækju að sér að veita útgerðinni í landinu sérstök viðbótarlán við það, sem áður hafði þekkzt á styrkja- og uppbótatímunum, en það voru svonefnd veiðarfæralán til þriggja ára. Ég hygg, að sérstakar lánveitingar í þessu skyni hafi numið á milli 60 og 70 millj. kr. árið 1960. Ég vil minna á það í þessum efnum, að þegar gamla styrkja- og uppbótakerfið var hér í gildi áður, þá gerðu samtök útgerðarmanna ár eftir ár kröfu um að fá stuðning sem þennan, en þá þótti ekki fært að fallast á þennan lið, en nú þegar viðreisnarstefnan hafði staðið í nærfellt eitt ár, var gripið til þessa stuðnings. Í fjórða lagi má svo nefna það, að í árslokin 1960, eftir fyrsta viðreisnarárið, var gripið til þess ráðs að veita útgerðinni í landinu sérstök skuldaskilalán, sem áætlað var að mundu nema 350–400 millj. kr. Þessi lán voru að vísu ekki öll ný lán, þau höfðu verið veitt áður að allverulegu leyti í einhverju formi, af bönkum landsins aðallega, en nú átti að breyta þessum lánum í löng lán og nokkru vaxtalægri en hin almennu lán höfðu áður verið. Til þessa stuðnings þurfti að grípa við útflutningsframleiðsluna í árslokin 1960 eftir eins árs framkvæmd á hinni nýju efnahagsmálastefnu ríkisstj., viðreisnarstefnunni.

Það sjá auðvitað allir, að reynslan hefur því orðið nokkuð svipuð því, sem áður var, að hækkandi verðlag innanlands, aukinn framleiðslukostnaður fyrir útflutninginn leiddi til þess á fyrsta ári þessarar nýju efnahagsmátastefnu, að ríkisvaldið varð að grípa á nýjan leik ýmist til beinna styrkja eða óbeinna styrkja til þess að tryggja áframhaldandi rekstur útflutningsframleiðslu, enda var það svo, að í árslokin 1960 kváðu samtök útgerðarmanna í landinu upp þann dóm, að reynslan á fyrsta árinu af hinni nýju efnahagsmálastefnu væri sú, að útilokað væri fyrir útgerðina í landinu að halda áfram við óbreyttar aðstæður, beinn eða óbeinn stuðningur af hálfu ríkisins yrði að koma til, ef áframhald ætti að verða á rekstri atvinnutækjanna.

En svo kom annað ár viðreisnarinnar, árið 1961, hið nýliðna ár, og það fór mjög á sömu lund. Nú liggur það fyrir, að ríkisstj. hefur orðið að lofa útgerðarmönnum í landinu því að greiða fyrir þá öll vátryggingaiðgjöld fiskiskipa árið 1961, en þau munu nema um 110–115 millj. kr. Það varð einnig á árinu 1961 að grípa til þess eftir kröfum útflytjenda að lækka nokkuð vextina í upphafi ársins frá því, sem þeir höfðu verið á árinu 1960. Og á hinu nýbyrjaða ári, 1962, blasir hið sama við. Ríkisstj. hefur þegar heitið útflytjendum því að greiða öll vátryggingariðgjöld fiskiskipaflotans, jafnt báta sem togara, á árinu 1962, og áætlað er, að þau iðgjöld muni nema um 120 millj. kr. Auk þess hefur svo ríkisstj. gefið bein eða óbein fyrirheit um að lækka vexti enn nokkuð, og það var beinlínis með skírskotun til vilyrða ríkisstj. í þeim efnum, sem samtök útgerðarmanna samþykktu að hefja róðra nú á þessu ári, í trú á, að þar kæmi þeim nokkur stuðningur frá því, sem verið hefur, í formi vaxtalækkunar. Síðast, en ekki sízt, er svo að geta þess, að þrátt fyrir þau áform, sem ákveðin voru, þegar hin nýja efnahagsmálastefna ríkisstj. var samþ. í febrúarmánuði 1960, um það, að nú ætti ekki að þurfa framvegis að grípa til beins stuðnings ríkisvaldsins til aðstoðar við útflutningsatvinnuvegina, þá hefur einnig farið svo, að það hefur enn þurft að grípa til gengislækkunar, en það var gert á s.l. sumri, þegar ríkisstj. lækkaði enn gengi krónunnar, þannig að verð á erlendum gjaldeyri hækkaði um rétt að segja 13.2% frá því, sem áður hafði verið.

Það má því segja, að þrátt fyrir hina nýju efnahagsmálastefnu sé ástandið í öllum aðalatriðum svipað og það var áður, þannig að ríkisvaldið þarf enn að grípa inn í og aðstoða útflutningsframleiðsluna á beinan og óbeinan hátt, ýmist með beinum fjárgreiðslum eða óbeinum í gegnum bankakerfi landsins, nokkuð svipað og áður var, þó að millifærslan sé engan veginn eins mikil, þar sem gerðar hafa verið tvennar gengislækkanir.

Enn er sem sagt verið að glíma við sama vandann og áður, sama vandann og glímt hefur verið við í efnahagsmálum okkar nú um langan tíma. Það er mikil dýrtíðaraukning innanlands frá ári til árs, sem fljótlega leiðir af sér stóraukinn framleiðslukostnað, sem útflutningsframleiðslan á svo erfitt með að standa undir. Við vitum, að dýrtíðarhækkunin hefur haldið áfram á árunum 1960 og 1961, og kauphækkanir urðu síðan sem afleiðing af því nokkrar á s.1. ári, og þó að reynt hafi verið að strika út þær kauphækkanir með nýrri gengislækkun, er það vitanlega engin lækning á vandanum. Enn þá standa málin þannig, að fyrr eða síðar koma á ný kauphækkanir til þess að jafna nokkuð upp hinn gífurlega dýrtíðarvöxt innanlands.

Það frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því að taka nokkuð öðruvísi á þeim vandamálum, sem glímt hefur verið við um langan tíma, heldur en nú hefur verið gert og oft hefur verið gert áður. Með þessu frv. er bent á nokkrar leiðir til þess að veita útflutningsframleiðslunni nokkurn stuðning, til þess að hún eigi hægara með að standa undir hinum mikla framleiðslukostnaði innanlands, á þann hátt, að létt verði af útflutningsframleiðslunni ýmsum útgjöldum, sem auðvett er að létta af henni, án þess að það eigi að kalla á nýja hækkun á verðlagi eða hækkun á kaupgjaldi út af fyrir sig fyrir framleiðsluna.

Í þessu frv. koma fram 8 till., sem allar miða að því að létta útgjöldum af útflutningsframleiðslunni. Að vísu mundu ýmsir fleiri en þeir, sem standa að útflutningsframleiðslunni, njóta góðs af þeim ákvæðum, sem felast í þessum tillögum, en fyrst og fremst eru þær auðvitað miðaðar við aðstöðu útflutningsins.

Ég skal nú víkja með nokkrum orðum að því, hvers eðlis þessar tillögur eru og hverju þær mundu fá áorkað, ef þær væru samþykktar, hvað þær mundu í raun og veru þýða fyrir útflutningsframleiðsluna í landinu.

Í fyrsta lagi er lagt til með þessu frv., að Seðlabankinn lækki til mikilla muna vexti af afurðalánum til útflutningsframleiðslunnar. Nú eru vextir af lánum, sem tekin eru út á útflutningsframleiðslu, 7% og verða síðan með framlengingarkostnaði 71/2%. En samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þessir vextir verði lækkaðir niður í 21/2 % og með framlengingarkostnaði í 3%. Hér er því um að ræða vaxtalækkun á sjálfum afurðalánunum, sem nemur 41/2 %. Það er viðurkennt, m, a. af sérfræðingum ríkisstj. í efnahagsmálum, að í raun og veru sé ekkert til fyrirstöðu að lækka vextina á þann hátt, sem kemur fram í þessari tillögu. Seðlabankinn getur lækkað þessa vexti niður í það, sem hér er rætt um. Auðvitað mundu tekjur Seðlabankans lækka við þetta, en í raun og sannleika er hvorki okkar seðlabanka né öðrum seðlabönkum ætlað það hlutverk að safna gróða. Og það er engin ástæða til þess að reka okkar seðlabanka þannig, að hann sé látinn hrúga upp gróða, eins og gert hefur verið að undanförnu. Auðvitað er það líka rétt, að þetta yrði ekki framkvæmt í svona ríkum mæli án þess að lækka aðra vexti jafnhliða nokkuð, bæði innlánsvexti og útlánsvexti. Það er rétt að athuga það vel, að þessi svonefndu afurðalán eru í rauninni mjög annars eðlis en aðrar lánveitingar bankakerfisins. Hér er um það að ræða fyrst og fremst, að lán eru veitt úr bönkum, sem nema samkv. heimild í lögum um það bil 2/3 af sannanlegu útflutningsverði framleiddrar vöru. Hér er um að ræða lán út á vöru, sem þegar er tilbúin til útflutnings, framleidd að fullu og öllu, en þarf af eðlilegum ástæðum að bíða nokkurn tíma, þangað til hún kemst á markað og þar til greiðsla er komin heim til Íslands fyrir vöruna. Nú eru okkar lög þannig, að raunverulega er það svo, að seðlabanki landsins hefur slegið óbeinu eignarhaldi sínu á alla framleidda vöru í landinu, sem ætluð er til útflutnings, vegna þess að það er ákveðið, að Seðlabankinn skuli fá í sínar hendur allan þann gjaldeyri, sem kemur fyrir útfluttar vörur. Framleidd vara og í mörgum greinum þegar seld, þó að hún sé ekki útflutt, jafngildir gjaldeyrisverðmæti, þar sem aðeins er um að ræða nokkurn biðtíma, þangað til þessi gjaldeyrisverðmæti verða handbær peningur. Það er út á slíkar vörur, sem seðlabanki landsins hefur lánað sérstök lán, þó að hann láni ekki út á aðrar vörur í landinu, og lán hans hafa um margra ára skeið verið út á svona vörur, 2/3 hlutar af útflutningsverði vörunnar. En nú síðustu árin tvö hafa þessi lán Seðlabankans verið lækkuð úr 2/3 eða úr 67% niður í 50—53%. En samkv. þessu frv. er lagt til, að Seðlabankinn verði skyldaður til þess að halda sér við gömlu regluna og lána 67% út á svona framleidda vöru og hann láni út á vöruna með þetta lágum vöxtum, sem ég hef hér nefnt, þar sem það er vitanlegt, að bankinn getur gert þetta fjárhagslega séð.

Þá er í öðru lagi lagt til í þessu frv., að allir almennir vextir bankanna í landinu, innlánsvextir og útlánsvextir, verði færðir í það sama sem þeir voru, áður en vaxtabreytingin var gerð í febrúarmánuði 1960, þ.e.a.s. að útlánsvextirnir yrðu þá færðir úr 9% niður í 7% af hinum almennu lánum. Auðvitað þarf útflutningsframleiðslan á allmiklu af slíkum lánum að halda, tekur mikið af slíkum lánum og greiðir auðvitað mjög mikla vexti til bankakerfisins af slíkum lánum. En það hefur verið áætlað, að fyrir útflutningsatvinnuvegina í landinu mundi vaxtalækkun samkvæmt þessum tveimur liðum, sem ég hef nú gert grein fyrir, nema á ári ekki minna en 100 millj, kr. Ég hygg líka, að raunin yrði sú, að lækkunin fyrir útflutningsatvinnuvegina yrði jafnvel nokkru meiri. En við skulum halda okkur við það að áætla, að hér yrði um lækkun á útgjöldum fyrir útflutningsframleiðsluna að ræða, sem næmi 100 millj. kr. á ári.

Í þriðja lagi gerir þetta frv. ráð fyrir því, að settar verði reglur um það, að framleiðendum verði greiddar framleiddar og örugglega seldar vörur hraðar en nú hefur átt sér stað. Lagt er til, að þegar svo stendur á, að útflutningsvara er örugglega seld með fyrirframsamningi og hún liggur tilbúin til útflutnings, þá sé seðlabanki landsins skyldur til þess að greiða framleiðendum út verð þessarar vöru, þegar einn mánuður er liðinn frá því, að varan er sannanlega tilbúin til útflutnings. En nú er þetta þannig, að framleiðendur verða oft og tíðum að bíða með svona vöru, sem er að fullu framleidd og raunverulega seld með fyrirframsamningum, þeir verða að bíða með hana í geymslum sínum í marga mánuði og borga gífurlega háa vexti til bankakerfisins í landinu af slíkri vöru. Ég tel, að um leið og það kerfi er sett upp, að Seðlabankinn á að eignast allan gjaldeyri, sem fæst fyrir slíka vöru, þá á hann líka nokkuð til að vinna, þá á hann líka að bera nokkrar skyldur af þeirri vöru, sem veitir bankanum þennan gjaldeyri, sem svona er ástatt um. Væri þetta gert, þá er enginn vafi á því, að hægt væri að lækka útgjöld framleiðslunnar í landinu að talsverðu leyti.

Þá er í fjórða lagi samkvæmt þessu frv. lagt til að lækka útflutningsgjöld af sjávarafurðum frá því, sem nú er, úr 7.4% niður í 2.9%, eða niður í það sama sem útflutningsgjöldin voru, áður en brbl. ríkisstj. voru sett á s.1. sumri, sem breyttu útflutningsgjöldunum. En útflutningsgjöld af sjávarafurðum hafa verið nú um nokkuð langan tíma einmitt um 2.9%. Þessi lækkun á útflutningsgjöldunum mundi nema í kringum 135 millj. kr. á ári. Það gefur auðvitaó auga leið, að það er alveg útilokað, að við getum lagt slík útflutningsgjöld á okkar útflutningavörur eða útfluttar sjávarafurðir, eins og nú er í gildandi lögum, þegar við stöndum í harðri samkeppni á mörkuðunum við t.d. Norðmenn og ýmsa aðra, sem flytja út fiskafurðir, þar sem það er vitað mál, að t.d. Norðmenn hafa svo að segja engin útflutningsgjöld hjá sér, enda er mála sannast, að það er mjög sjaldgæft, að nokkur þjóð leggi stórfelldan skatt á útfluttar vörur. Þvert á móti er það yfirleitt reglan, að það þykir sjálfsagt að aðstoða útflutning, að stuðla að auknum útflutningi í ýmsu formi. Í þessum efnum er sú regla alkunn frá mörgum þjóðum, að þær hafa byggt upp sérstakt lánakerfi hjá sér, svonefnt Exportcredit-kerfi, sem stutt er af viðkomandi ríkisstj., en það byggir á því að gera framleiðendum í einu landi kleift að flytja framleiðsluvörur landsins út og selja þær með nokkrum greiðslufresti. Viðkomandi framleiðendur í framleiðslulandinu fá framleiðsluvörurnar greiddar að fullu, strax og þeir afhenda vörurnar, út úr þessu Exportcredit-kerfi, þó að hins vegar kaupendurnir í öðrum löndum greiði vöruna ekki að fullu fyrr en jafnvel eftir nokkur ár. Þannig er unnið að því að aðstoða útflutningsatvinnuvegina við að halda uppi miklum útflutningi til að afla mikils gjaldeyris. En hitt verður að telja mjög sjaldgæft, að hlutunum sé snúið við og útflutningsframleiðslan sé stórkostlega skattlögð, eins og nú á sér stað hjá okkur. Það er því lagt til í þessu frv., að þessi gífurlega háu útflutningsgjöld verði lögð niður eða stórkostlega lækkuð og þannig verði dregið úr útgjöldum útflutningsframleiðslunnar á hverju ári sem nemur 135 millj. kr., þegar miðað er við framleiðslu síðasta árs.

Þá er fimmta tillagan í þessu frv. um það, að nýr háttur verði tekinn upp varðandi vátryggingu fiskiskipa, og ákveðið að lækka nú á fyrsta stiginu vátryggingariðgjöld frá því, sem nú er, á íslenzkum fiskiskipum um helming. Er lagt til, að ríkissjóður taki fyrst í stað að sér beinlínis baktryggingu á vátryggingu fiskiskipanna fyrir hálft það iðgjald, sem nú hefur verið, en síðan verði komið upp sérstöku vátryggingarkerfi fyrir allan fiskiskipaflotann, sem ætti að geta tryggt slíka lækkun á iðgjöldunum.

Rannsókn, sem hefur farið fram á vátryggingarmálum fiskiskipa hér og vátryggingu fiskiskipa t.d. í Noregi, bendir einmitt til þess, að það sé hægt að lækka vátryggingargjöldin hér til mikilla muna, og ég minnist þess, að hæstv. sjútvmrh. orðaði það svo hér í ræðu fyrir nokkru, að hann teldi, að í mörgum tilfellum mætti lækka þau um helming. Það er enginn vafi á því, að það vátryggingarkerfi, sem hér he,fur verið í gildi. er mjög óheppilegt, þegar til lengdar lætur. Það er okkar þjóðarbúi mjög óhagstætt. Það sýnir sig, að endurtryggingarkjör þau, sem við búum við, eru mjög óhagstæð. Við erum því að tapa fjárfúlgum úr landinu að óþörfu, miðað við vátryggingarkerfið, eins og það er nú. Því er lagt til í þessu frv., að þessi háttur verði tekinn upp, sem gæti miðað að því að lækka vátryggingariðgjöldin um helming, en helmingslækkun á vátryggingariðgjöldum fiskiskipaflotans jafngildir því, að létt sé á útgjöldum hans um 60 millj. kr. á ári.

Þá er í sjötta lagi lagt til í þessu frv. að koma fram nokkurri lækkun á öðrum vátryggingariðgjöldum, sem hvíla á útflutningsframleiðslunni, en eins og kunnugt er, þarf útflutningsframleiðslan að borga mikil vátryggingariðgjöld af öðru en fiskiskipunum sjálfum. Það þarf að tryggja allar aðrar eignir útgerðarinnar í landinu, og það verður að tryggja alla framleiðsluna um lengri eða skemmri tíma. Þessar tryggingar eiga sér fyrst og fremst stað nú í gegnum almenn vátryggingarfélög í landinu, en á því er hins vegar enginn vafi, að þau hafa rakað saman miklum gróða á undanförnum árum. Er því lagt til í þessu frv. að fyrirskipa 25% lækkun á iðgjöldum þessara vátryggingarfélaga á árinu 1962. Það er að vísu ekki gott að segja um það með neinni nákvæmni, hvað þessi tillaga mundi þýða mikla lækkun fyrir útflutningsframleiðsluna í landinu, en það er enginn efi á því, að hér væri um allþýðingarmikla ráðstöfun að ræða, sem mundi hjálpa mjög til að færa niður hin almennu rekstrarútgjöld framleiðslunnar.

Þá er í sjöunda lagi tillaga um að fyrirskipa nokkra lækkun á farmgjöldum ísl. skipa hvað viðkemur flutningi á íslenzkum framleiðsluvörum á erlenda markaði. Er lagt hér til, að á árinu 1962 verði ákveðið að lækka frá því, sem nú hefur verið, farmgjaldataxta íslenzku skipanna um 20%. Það fer ekkert á milli mála, að íslenzku skipafélögin, sem flutt hafa íslenzkar framleiðsluvörur á markað að undanförnu, hafa öll hagnazt mjög vel. Má í rauninni segja, að hvert skipafélagið af öðru hefur verið byggt upp í landinu á tiltölulega skömmum tíma, einmitt vegna þess, hve hagnaðurinn á þessum flutningi hefur verið mikill. Ég vil líka minna á það, að samtök útgerðarmanna hafa gert einmitt kröfu um þetta, að ríkisvaldið skærist hér í leikinn og fyrirskipaði lækkun á þessum farmgjöldum, svo að samtök útvegsmanna almennt séð eru ekki í neinum vafa um, að það er full þörf á því, að þessi farmgjöld séu lækkuð. Ég veit, að sumum mun finnast það óeðlilegt að fyrirskipa lækkun á farmgjöldum íslenzku skipanna, en þá séu eftir þau erlend skip, sem nokkuð flytja á erlendan markað af okkar útflutningsvörum, og þau geti þá haldið uppi hærri farmgjaldatöxtum. En í raun og veru er þessu ekki svona varið. Sannleikurinn er sá, að íslenzku skipin flytja svo yfirgnæfandi meiri hluta af okkar útflutningsvörum á erlenda markaði, að það eru þeir taxtar, sem íslenzku skipin setja, sem eru hinir gildandi taxtar. Erlendu skipin taka þá upp í öllum aðalatriðum og eru nauðbeygð til þess. Ef flutningstaxtar íslenzku skipanna yrðu lækkaðir, mundu líka erlendu skipin verða að lækka sína taxta. Á því er enginn vafi.

Þá er í áttunda lagi lagt til með þessu frv, að setja hámark á þá þóknun, sem sölusamtök útflytjenda mega taka fyrir það að annast sin umboðssölustörf fyrir framleiðendur í landinu. Það er lagt til, að slík sölusamtök megi ekki taka af útflutningnum nema sem svarar 1% af fob-andvirði vörunnar, en nú mun vera algengast, að þessi samtök taki 2%, og einnig er lagt til að setja mörk við því, hvað erlendum umboðsaðilum eru greidd há umboðslaun í sambandi við útfluttar íslenzkar vörur, og það er sett í frv., að hámarkið skuli vera 2% í umboðslaun til erlendra aðila. Nú mun vera æði algengt, að þeim séu greidd 4%, en slíkar greiðslur ná vitanlega engri átt. Þarna er beinlínis um það að ræða, að útflutningsframleiðslan í landinu er féflett, og nær vitanlega engri átt að þola slíkt.

Við flm. þessa frv. höfum reynt að gera okkur grein fyrir því, hvað þessar lækkunartillögur mundu þýða fyrir útgerðina í landinu, miðað við eitt rekstrarár, og það er álit okkar, að á þennan hátt mætti lækka rekstrarútgjöld útflutningsframleiðslunnar a.m.k. um 365 millj. kr. á hverju ári. Ef þessar tillögur væru samþ., yrði auðvelt að hækka fiskverðið frá því, sem það er nú, um 60–70 aura á kg, miðað t.d. við þorsk, og þá væri auðvelt að hækka hvert mál síldar um 50–60 kr. og einnig að standa undir a.m.k. 20% kauphækkun til þess fólks, sem vinnur að útflutningsframleiðslunni. Við viljum með flutningi þessa frv. benda á, að þessi leið er fær til þess að leysa þann vanda, sem verður að leysa, miðað við það ástand, sem nú er ríkjandi. Það verður fyrr eða síðar að hækka kaupið frá því, sem það er nú. Við vitum, að kaupgjaldssamningum hefur nú verið sagt upp hjá svo að segja öllum verkalýðsfélögum í landinu, og það má því búast við vinnustöðvunum eða nýjum kauphækkunum frá hálfu verkalýðsfélaganna í landinu fyrr eða síðar, og það er vitanlega engin lausn í þessum efnum, þó að ríkisstjórnin fari að álpast út í það einu sinni enn að lækka gengi krónunnar. Hið rétta er vitanlega að viðurkenna staðreyndir í þessum efnum. Dýrtíðin hefur stórhækkað, síðan kaup var síðast ákveðið. Launþegarnir hljóta að knýja fram nokkra kauphækkun á móti hinni auknu dýrtíð. Og þá er aðeins spurningin sú: Hvernig er hægt að aðstoða útflutningsframleiðsluna í landinu til þess að geta fengið risið undir slíkri kauphækkun? Það er tvímælalaust hægt með því að samþykkja þær tillögur, sem eru bornar fram í þessu frv. Það er hægt að létta af útflutningsatvinnuvegunum stórum útgjaldafúlgum, sem útflutningsframleiðslan verður nú að standa undir. Það er með öllu ástæðulaust að láta Seðlabankann hvíla með slíkum þunga á útflutningsframleiðslunni sem hann gerir nú, og það nær engri átt, að viðskiptabankar landsins taki af útflutningsframleiðslunni slíka okurvexti eins og þeir taka. Þessu verður að létta af útflutningnum, og það er hægt. Og það á vitanlega að gera ráðstafanir til þess að lækka hin óeðlilega háu útflutningsgjöld, sem eru alveg einstæð hér á landi. Þetta er líka hægt. Og ríkisstjórnin verður að játa það fyrr eða síðar, að það á að gera þetta. Leiðin er ekki heldur sú, að ríkissjóður útvegi fé á einn eða annan hátt til þess að greiða vátryggingariðgjöld fiskiskipaflotans, eins og nú er gert, og í því formi, sem nú er gert, því að á þann hátt er verið að greiða allt of háar fjárfúlgur út fyrir óeðlilega vátryggingu skipanna. Hér á að taka upp nýtt vátryggingarkerfi, eins og tillögur hafa komið fram um, og á þann hátt eigum við að geta lækkað okkar vátryggingarútgjöld til mikilla muna. Við eigum að geta komizt þar á svipað stig og keppinautar okkar í næstu löndum. Og við eigum ekki heldur að þola það lengur, að ýmsar hliðargreinar fái að sjúga til sín óeðlilegan gróða af útflutningsframleiðslunni, en þannig er þessu nú varið bæði hjá vátryggingarfélögunum og skipafélögunum í landinu, á því er enginn vafi.

Ég benti á það í upphafi míns máls, að það hefur í raun og veru engin grundvallarbreyting átt sér stað með hinni nýju efnahagsstefnu ríkisstj., viðreisnarstefnunni, varðandi þessi vandamál útflutningsframleiðslunnar. Ríkisstj. verður enn þá að veita útflutningsframleiðslunni beina styrki, svo að mörgum tugum milljóna skiptir, á hverju ári og knýja fram aukinn stuðning í ýmsu formi, eins og áður var, og svo virðist hún þurfa í sífellu að standa í gengislækkunum, en slíkt leysir vitanlega ekki þann vanda, sem hér er við að glíma. Nú bendum við fim. þessa frv. á, að það er hægt að komast fram hjá þessu, ef samkomulag fæst um að létta af útflutningnum ýmsum óþarfagjöldum, sem á útflutningnum hvíla.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum nú að sinni. En ég vona, að þetta frv. mæti fullum skilningi og þá engu síður hjá stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. en öðrum, af því að þeim hlýtur að vera það ljóst, að þeir hafa engan vanda leyst með sinni nýju efnahagsstefnu. Þeir standa í miðjum þeim sama vanda sem þeir stóðu í í upphafi, þeir hafa ekkert leyst. En hér er bent á raunhæf úrræði til þess að leysa vandann.