11.12.1961
Neðri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta ummæli hv. síðasta ræðumanns, er hann sagði, að ég hefði sagt í ræðu við 1. umr., að ég vildi fjölga í verðlagsráði. Þetta er mesti misskilningur. Ég sagði, að ég hefði gjarnan viljað, að það yrði jafnað þarna á milli sjómanna og útgerðarmanna, ekki með fjölgun, heldur með því að fækka um einn útgerðarmann. Þessa skoðun hef ég haft, og ég hef hana enn. Ég tel, að þetta væri heppilegra en að hafa þarna 4 og 3, eins og ég er búinn að segja tvisvar hér í ræðu um þetta mál, til þess að fyrirbyggja óþarfa tortryggni. Hins vegar með þeim breyt., sem við leggjum til að gerðar verði á 9. gr., tel ég, að það sé þannig um hnútana búið og tryggt, að skoðanir sjómannanna geti alltaf komið þannig fram, að þeirra hagsmuna verði gætt í hvívetna.

Mér heyrðist á ræðu hv. síðasta ræðumanns, að það væri ekki aðallega um að ræða hjá honum í hans brtt., hvort þarna ætti að tryggja hagsmuni sjómanna eða fiskimanna í kringum landið, heldur væri það, hvort Alþýðusambandið fengi þarna mann inn, einum fleiri en er. Ég tók það fram við 1. umr. og vil undirstrika það enn, að Sjómannasambandið er fullgildur aðili innan Alþýðusambandsins. Alþýðusambandið kemur til með að eiga þarna tvo menn af þremur, — þetta eru hvort tveggja landssambönd, — og Farmannasambandið, sem er landssamband allra yfirmanna á fiskiskipum, á þarna einn mann. Og þetta hlutfall á milli yfirmanna og undirmanna í þessari n. er sama hlutfallið og kemur fram í aflaskiptingunni á skipunum. Að ég vilji ekki fjölga í ráðinu um einn sjómannafulltrúa, — ég vil undirstrika það líka, að ég tel það óráðlegt. Ég þekki mörg dæmi þess, að eftir því sem fleiri eru í þessum nefndum, því stirðara gengur að ná samkomulagi, það verður erfiðara. Og enn ein ástæðan er sú, að kostnaður við þetta ráð á að greiðast úr fiskimálasjóði. Það hefur verið bent réttilega á það, að sá sjóður hafi ekki of mikið fé. Með því að fara að bæta við fleiri mönnum í þetta ráð, þá er verið að auka kostnaðinn við það, sem ég sé ekki nokkra ástæðu til, þegar hægt er að ná því fram, sem þarf að ná fram, með færri fulltrúum en eru jafnvel í frv. nú.

Ég tók það fram í framsöguræðu minni hér áðan, við þessa umr., að ég teldi, að það væri heppilegra, að þarna yrði fækkað um einn útgerðarmann, þannig að það yrðu jafnmargir aðilar frá sjómönnum og útgerðarmönnum. Hins vegar tók ég það líka fram, að ég vildi ekki fara að setja málið í hættu með því að koma með brtt. við það, sérstaklega þó ekki eftir að við værum búnir að ná þó fram þessari breytingu á 9. gr., sem meiri hl. var samþykkur, vegna þess að ég tel, að framgangur þessa máls sé svo mikið hagsmunamál fyrir íslenzka fiskimenn, að það þurfi að ná fram að ganga.