26.02.1962
Neðri deild: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (2891)

153. mál, ríkisábyrgðir

Flm. (Halldór E. Sigurðason):

Herra forseti. Á s.l. ári voru afgreidd lög um ríkisábyrgðir. Í þeim lögum er gert ráð fyrir því, að sjálfskuldarábyrgð megi ríkið því aðeins veita, að það sé tekið fram í þeim lögum, er ábyrgðina heimila.

Með þessu frv. er lagt til, að breyting verði gerð á lögunum um ríkisábyrgðir á þann veg, að þetta ákvæði nái ekki til sveitarfélaga. Það hefur sýnt sig, að það er mjög erfitt fyrir sveitarfélög að hagnýta sér ríkisábyrgðir vegna þessa ákvæðis laganna.

Þar sem þær ríkisábyrgðir, sem sveitarfélögin eiga aðgang að, eru í eldri lögum, þar er það ekki skilgreint, hvort um sjálfskuldarábyrgð er að ræða eða einfalda ábyrgð. Hins vegar hefur komið í ljós, að það er erfitt fyrir sveitarfélögin að fá aðila til þess að veita þeim lán með ábyrgð, þar sem ríkið hefur aðeins tekið að sér einfalda ábyrgð, svo sem augljóst er, þar sem það ákvæði laganna gerir ráð fyrir því, að að skuldara þurfi að ganga, áður en til ábyrgðar ríkisins komi. Hins vegar er það öllum ljóst, að að sveitarfélögum er í fæstum tilfellum hægt að ganga, svo að þessi almennu ákvæði eru þeim að litlu eða engu liði, eftir að lögin um ríkisábyrgðir komu til framkvæmda.

Nú er það ekki óeðlilegt, að sveitarfélög hafi hér annan og meiri rétt samkv. þessari grein en aðrir aðilar, vegna þess að ríkissjóður hefur betri og meiri möguleika til þess að endurheimta frá sveitarfélagi en einstaklingum áfallna ábyrgð. Í fyrsta lagi er þess að geta, að með lögunum um ríkisábyrgð hefur ríkissjóður skapað sér það mikinn rétt til þess að endurheimta ábyrgðir, að það ætti að vera nægileg trygging fyrir því, að í flestum tilfellum yrði hægt að endurheimta áfallna ábyrgð og það gæti aldrei orðið um verulega háar upphæðir að ræða, vegna þess að engum aðila má veita nýja ríkisábyrgð, nema hann hafi staðið í skilum við ríkissjóð eða samið um áfallnar ábyrgðir. En auk þess hefur svo ríkissjóður möguleika til þess að endurheimta hjá sveitarfélagi samkv. 5. gr. ríkisábyrgðarlaganna, þar sem hann hefur heimild til þess að taka til sín fjárveitingar, sem sveitarfélögunum eru ætlaðar í öðru skyni, þó að ekki séu þar til staðar reglur um almennan skuldajöfnuð. Þannig hefur ríkissjóður samkv. 5. gr. laganna um ríkisábyrgðir rétt til þess að taka til sín fjárveitingu vegna stofnkostnaðar skóla eða rekstrar skóla, sem sveitarfélagið ætti að fá, þó að á ríkissjóð hafi fallið ábyrgð vegna hafnargerðar. Þetta tryggir ríkissjóð betur gagnvart sveitarfélögunum en nokkrum öðrum aðila, þar sem hann getur í flestum tilfellum innheimt hjá sjálfum sér samkv. þessum lögum, ef hann vill beita því ákvæði. Af þeirri ástæðu er og meiri nauðsyn og meiri ástæða til þess, að sveitarfélög hafi rýmri rétt en einstaklingar og fyrirtæki, þar sem það hefur líka sýnt sig, að ákvæði eldri laga koma þeim að litlu liði, eftir að þessi lög komu til.

Það er því í hæsta máta sanngjarnt og réttlátt, að þessi breyting verði gerð á lögunum um ríkisábyrgðir, að ríkissjóður megi ganga í sjálfskuldarábyrgð fyrir sveitarfélög, þó að þetta ákvæði laganna nái til annarra aðila. Þar með væri tryggt, að sú aðstoð við uppbyggingu í sveitarfélögum, sem eldri lög, eins og lög um vatnsveitur og fleiri sameiginlegar framkvæmdir, gerðu ráð fyrir að ríkissjóður veitti, yrði aftur að liði. Það er þeim mun meiri ástæða til þess, þar sem ríkissjóður hefur betri möguleika til að innheimta hjá sveitarfélögunum nú en áður og heldur en hjá öðrum aðilum, því að það er sjaldgæft, að einstaklingar eða fyrirtæki fái fjárveitingar frá ríkissjóði, sem sveitarfélögin fá almennt.

Af þessum tveimur meginástæðum höfum við hv. 4. þm.. Sunnl. (BFB) leyft okkur að flytja frv. á þskj. 307, þar sem við leggjum til, að þessu verði breytt sveitarfélögunum í hag. Það er trú okkar og von, að hv. alþm.. geti fallizt á þessa breytingu, sem er svo mjög eðlileg, eins og ég hef nú gert grein fyrir.

Ég legg svo til, herra forseti, að þegar þessari umr. er lokið, verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.