11.12.1961
Neðri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að vera langorður að þessu sinni, enda hef ég hér ekki tilefni til andsvara, því að það hefur ekki verið deilt á þær brtt., sem ég hef flutt við þetta frv. En ég vildi vekja athygli á því, athygli hæstv. ríkisstj. og hv. formanns sjútvn., ef hann væri hér, að mér sýnist allt útlit fyrir eftir að hafa hlýtt á þær umr., sem farið hafa fram í dag í hv. deild, að unnt ætti að vera að ná samkomulagi í d. um afgreiðslu þessa máls. Ég veitti því athygli, þegar hv. frsm. meiri hl. var að tala í dag, að hann gerði í rauninni engar athugasemdir við brtt. mínar aðrar en þær, að það muni tefja málið, ef farið yrði að samþykkja nokkrar verulegar breyt. á frv., og sagðist þess vegna vera mótfallinn þessum tillögum. Það var líka svo, að í sjútvn. voru þessar tillögur í raun og veru ekki ræddar að neinu ráði, ekki tekin afstaða gegn þeim þar af meiri hl., heldur tók meiri hl. þegar á fyrsta fundi þá almennu afstöðu, að hann teldi ekki rétt að gera neinar verulegar breytingar á frv., og með svipuðum rökstuðningi og hv. frsm. hafði hér uppi í dag.

Nú vil ég aðeins benda þeim, sem að þessu frv. standa, á, að það er ekki víst, að það þurfi að taka lengri tíma að afgreiða mál með nokkrum breytingum, ef samkomulag er um þær og málið í heild, heldur en að afgreiða mál án breytinga, ef þar er ekki samkomulag fyrir hendi. En ég vil þá koma að því, að mér virtist einnig á ræðu hv. 4. þm. Austf., sem er formaður þingflokks Alþb. og talaði hér í dag, að hann ræddi þannig um málið, að frá hans hálfu væri samkomulagsvilji. Mér sýndist eftir þessar umr., að þá væri það mjög líklegt, að ná mætti samkomulagi um afgreiðslu málsins á grundvelli þeirra brtt., sem ég hef flutt á þskj. 189.

Erindi mitt hér upp í ræðustólinn var aðallega að vekja athygli á þessu og beina því sérstaklega til hæstv. ríkisstj. og hv. formanns sjútvn., hvort þessir aðilar sæju ekki ástæðu til þess, áður en lengra er farið, að athuga það, hvort ekki er hægt að ná allsherjar samkomulagi um málið hér á þingi á grundveili þessara tillagna. Ef það mætti svo fara, að málið yrði afgreitt með samkomulagi, þá tel ég, að það væri vænlegra til árangurs, og ég hygg, að það mundi gleðja þjóðina, ef hún fengi þær fréttir héðan af Alþingi, að samkomulag hefði orðið, þó að ekki væri nema um eitt deilumál.