29.03.1962
Neðri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

201. mál, félagsheimili

Daníel Ágústínusson:

Herra forseti. Þar sem ég hef haft nokkur afskipti af málefnum félagsheimilanna undanfarin ár, þykir mér hlýða að minnast hér nokkuð á fjárhagsafkomu félagsheimilasjóðs í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir, þar sem um er að ræða breytingar á lögum um félagsheimili, er auka nokkuð greiðsluskyldu sjóðsins frá því, sem verið hefur.

Í stuttu máli má segja, að fjárhagur félagsheimilasjóðs hefur versnað mjög hin síðustu árin, og ber þar tvennt til: stóraukinn byggingarkostnaður og skemmtanaskatturinn hefur lítið sem ekkert vaxið. Félagsheimilum, sem styrks njóta, hefur farið fjölgandi með hverju árinu sem líður, þar sem áhugi manna víðs vegar um landið á byggingu félagsheimila hefur verið mjög mikill og stuðningur ríkisvaldsins eða félagsheimilasjóðs hefur örvað til mikilla framkvæmda, sem ánægjulegt má teljast. Við síðustu áramót var vangreidd þátttaka félagsheimilasjóðs við um 70 félagsheimili, sem áttu eftir að fá gerðan upp sinn hluta frá félagsheimilasjóði, um 14.4 millj. 1960 var þessi upphæð 10.9 millj., 1959 7.6 millj., 1958 5.5 millj. og 1957 4.8 millj. Þetta gefur hv. alþm.. nokkrar upplýsingar um það, hvernig hagur sjóðsins hefur versnað ár frá ári, og má segja, að síðustu tvö árin hefur hagurinn versnað sem nemur 4–5 millj. Um síðustu áramót voru í smíðum 49 félagsheimili, en eftir var að gera upp við 21 félagsheimili, sem var fulllokið, eða 70 félagsheimili alls, sem félagsheimilasjóður á eftir að greiða þátttöku sína til.

Um skemmtanaskattinn, en 50% af honum eiga að ganga til félagsheimilasjóðs til þess að standa straum af byggingu fétagsheimila, er allt aðra sögu að segja. Skemmtanaskatturinn 1948, þ.e.a.s. 50% af honum, sem gekk til félagsheimilasjóðs, var 1239000 kr., en 1958 var sá hluti skemmtanaskattsins 3.2 millj., 1959 hækkar hann upp í 3.5 millj., 1960 lækkar hann í 3462000, og 1961 er hann svipaður. Þetta sýnir, að þróunin í sambandi við skemmtanaskattinn er að snúast við, hefur náð hámarki 1959 í 3.5 millj., þ.e.a.s. 50% af skemmtanaskattinum, minnkar nokkuð 1960, ven stendur í stað 1961. Þetta er mjög ískyggileg þróun fyrir þessi mál. Ef allt hefði verið eðlilegt, átti skemmtanaskatturinn á þessum síðustu árum að aukast verulega, eins og hann gerði fyrir 1958, vegna þess að skemmtistöðum hefur fjölgað jafnt og þétt og um verulega fólksfjölgun er að ræða í landinu. En reyndin er orðin sú, að aðgangseyrir er víða felldur niður, einkum í Reykjavík, og veitingastaðirnir eða skemmtistaðirnir taka aðgangseyrinn í gegnum ýmislegt annað, t.d. hækkaðar veitingar, spilakort og fatagjald.

Skemmtanaskattur hefur verið nokkuð svipað hlutfall af aðgangseyri um mörg undanfarin ár, þar til 1957, þá var bætt við svonefndu miðagjaldi, 2 kr. á hvern miða, og 1960 var bætt við söluskatti 3 %, sem gerir kr. 1.50–2.00 á miða., við því verði, sem aðgöngumiðar hafa verið seldir. Aðgöngumiða að dansleik mun vera mjög algengt að selja á 60 kr., og þá er hann skattlagður á eftirfarandi hátt: 2 kr. miðagjald, 1.80 kr. söluskattur og 13.51 kr. hinn raunverulegi skemmtanaskattur, sem gengur til félagsheimilasjóðs og þjóðleikhússins. Þetta verða kr. 17.31, sem nálgast 30% af aðgöngumiða, sem verðlagður er á 60 kr. Ég tel, að miðagjald það, sem lögleitt var fyrir nokkrum árum, hafi verið óheillaspor, og ég tel einnig, að það hafi verið óheillaspor að leggja söluskatt á aðgangseyri, og þessi 4 kr. hækkun á 60 kr. miða hefur áreiðanlega orðið til þess, að samkomuhúsaeigendur smeygja sér fram hjá því að selja aðgöngumiða, en fara ýmsar aðrar leiðir til þess að ná inn þeim fjármunum, sem þar er um að ræða, til þess að komast hjá að greiða skemmtanaskattinn. Það má öllu ofbjóða, og ég hygg, að þessi hækkun, sem gerð hefur verið nú á síðustu árum, eigi nokkurn þátt, svo að ekki sé meira sagt, í því, að þróunin hefur orðið sú að hætta að selja aðgöngumiða, skemmtanaskatturinn stórrýrnar og það er mjög líklegt, ef ekkert verður að gert, að skemmtanaskatturinn hækki ekki, og þá er sá stuðningur, sem reiknað er með að félagsheimilin og þjóðleikhúsið geti notið af þessari tekjuöflun, í verulegri hættu með vaxandi dýrtíð.

Ég er ekki með þessu að mæla gegn frv. því, sem hér hefur veríð lagt fram, það hefur ýmsa kosti í för með sér og er sanngirnismál að ýmsu leyti. En ég tel rétt og óhjákvæmilegt, þegar slíkar till. eru fluttar og farið er fram á, að félagsheimilasjóður auki fjárveitingu sína til vissra framkvæmda, að skýra frá þessum staðreyndum, sem ég tel að séu hinar ískyggilegustu fyrir þá merkilegu starfsemi, sem byggzt hefur á skemmtanaskattinum á undanförnum árum.