05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í C-deild Alþingistíðinda. (2908)

211. mál, Siglufjarðarvegur

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 548, um lántöku vegna Siglufjarðarvegar ytri, er borið fram af þm.. úr Norðurlandskjördæmi vestra. Við flytjum þetta frv. eftir áskorun frá bæjarstjórn Siglufjarðar. Á fundi bæjarstjórnarinnar 22. marz nú í vetur var samþykkt ályktun, þar sem skorað var á þm.. Norðurlandskjördæmis vestra að flytja frv, um útvegun nægjanlegs fjármagns til þess að grafa jarðgöng gegnum Stráka og ljúka Siglufjarðarvegi ytri á næstu tveim árum. Við leggjum til í l. gr. frv., að ríkisstj. verði heimilað að taka lán allt að 15 millj. kr. til þess að greiða kostnað við lagningu vegarins, og verði við það miðað, að vegagerðinni verði lokið á árinu 1964. Til þess er ætlazt samkv. 2. gr. frv., að lán, sem tekið verður í þessu skyni, verði endurgreitt af árlegum fjárveitingum til vegarins á fjárlögum, eftir að vegagerðinni er lokið. Nýjasta kostnaðaráætlun um þennan veg er frá því í marz 1960 eða um það bil tveggja ára gömul. Þá áætlaði vegamálastjóri, að kostnaður við vegagerð frá Heljartröð til Siglufjarðar yrði um 15.1 millj. Af þeim kostnaði er allt að því 70% kostnaður við að gera jarðgöngin. Þessi áætlun hefur ekki verið endurskoðuð nú, en vitað er, að vegagerðarkostnaður hefur aukizt síðan, og þrátt fyrir það, þó að nokkurt fé hafi verið veitt til vegarins þessi árin, settum við í frv. allt að 15 millj. kr. lánsheimild, því að gera má ráð fyrir því, að tæplega verði komizt af með minni fjárhæð til að ljúka þessari vegagerð.

Eins og ég gat um, er aðalverkið við þennan veg að gera göng í gegnum fjallið Stráka. Það er kostnaðarsamasta framkvæmdin við vegargerðina. Til þess að gera göngin þarf fullkomin og dýr tæki, og það verk, sem þarf að vinna með þeim, er ekki hægt að vinna í áföngum. Það þarf að halda viðstöðulaust áfram, eftir að byrjað er á því verki. Vegamálastjóri tetur, að þessu megi ljúka á einu ári, ef fé er fyrir hendi, og það hlýtur að verða framkvæmt þannig, að það verði gert í einu átaki. Þess vegna er nauðsynlegt að taka lán til þessa verks. Fregnir hafa borizt af því, að nýlega hafi verið tekið lán til vegagerðar á öðrum stað á landinu, og má segja, að það sé því ekki nýmæli hér á ferð að leggja til, að tekið verði lán til Siglufjarðarvegar. Þar er að sjálfsögðu um nauðsynlega framkvæmd að ræða, þ.e.a.s. þá vega,gerð, sem lán hefur nú fyrir skömmu verið tekið til, en þó má benda á það, að þar er vegur fyrir, sem fær er allt árið. Hins vegar er svo um Siglufjarðarkaupstað, að íbúar þar eru vegarsambandslausir mikinn meiri hluta ársins og vegurinn yfir Siglufjarðarskarð erfiður þá fáu mánuði ár hvert, sem hann er fær.

Á Siglufirði er mikill atvinnurekstur, sem kunnugt er. Íbúatala þar er eitthvað yfir hálft þriðja þúsund. Það er mjög mikið nauðsynjamál fyrir það fólk, sem þar býr, að komast í öruggt samband við þjóðvegakerfi landsins, og það er einnig hagsmunamál nálægra byggðarlaga og fleiri landsmanna margra en þeirra, sem búa á Siglufirði eða í Skagafirði.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fylgja þessu úr hlaði með fleiri orðum. Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.