11.12.1961
Neðri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Það mál, sem hér er til umr., er vafalaust mjög mikilvægt, og ef dæma á af reynslu undanfarinna ára, þá er það með stærri málum, sem hér hafa nú verið rædd. Hins vegar lízt mér, að þetta mál, eins og það nú kemur fyrir Alþingi, muni ekki leysa þann vanda, sem því er ætlað að gera.

Eins og hér hefur verið drepið á áður í ræðum, er þetta mál, sem rætt hefur verið mjög í samtökum sjómanna á undanförnum árum, og í sambandi við samninga, sem gerðir voru í vertíðarbyrjun í fyrra, þegar öllum grundvelli samninga var mjög breytt, þá voru einmitt þessi mál mjög á dagskrá. Í samræmi við það hefur svo nefnd, skipuð af ýmsum aðilum, sem hér eiga hlut að máli, unnið að þessu máli nú undanfarið, og árangur þess er það frv., sem hér liggur fyrir. Sú gagnrýni, sem fram hefur komið á frv., er aðallega við tvær greinar þess, þá greinina, sem kveður á um skipan verðlagsráðsins, og síðan um 9. gr., sem felur í sér ákvæði um gerðardóm eða yfirnefnd, ef ekki næst samkomulag í sjálfu verðlagsráðinu.

Það er alveg augljóst, eins og hér hefur verið fram tekið áður og ég þarf ekki að hafa mörg orð um, að hlutur stærsta aðilans, sem hér á hlut að máli, þ.e. Alþýðusambandsins, — hlutur þess í skipan verðlagsráðsins er tvímælalaust fyrir borð borinn. Hér er gert ráð fyrir því, að útgerðarmennirnir hafi fjóra menn, en fulltrúar sjómannanna samanlagt þrjá. Sjálf þessi skipan, að hafa ekki jafna tölu, felur strax í sér ábendingu um, að hér sé ekki ætlunin að láta alla njóta jafnréttis, og eins og kemur fram í áliti Tryggva Helgasonar, þá held ég, að segja megi, að hlutur allra, sem hér eiga hlut að máli, sé sæmilega tryggður, nema hlutur Alþýðusambandsins. Það fer ekki á milli mála, að Alþýðusambandið eða þau sjómannafélög innan Alþýðusambandsins, sem hafa ekki viljað ganga undir merki Sjómannasambands Íslands, sem eru samtök nokkurra félaga hér við Faxaflóa og í Grindavík, þau félög hafa innan sinna vébanda svo mikinn meiri hluta allra sjómanna, sem hér eiga hlut að máli, að um það þarf ekki að deila. Þessum hópi er ætlað að hafa þarna einn fulltrúa eða jafnt og hinum samtökunum, sem eru tvímælalaust miklu fámennari og ráða yfir miklu minni hluta af þeim afla, sem að landi er dreginn. Og samanlagt eiga svo sjómannasamtökin að hafa einum fulltrúa færra en samtök útgerðarmannanna. Síðan eru engar skorður við því, að í hópi útgerðarmannanna, þeirra fulltrúa, sem L.Í.Ú. á að tilnefna í ráðið, séu menn með beina hagsmuni fiskkaupenda. Hins vegar hefur nú komið fram í brtt. frá hv. nefnd, að í yfirnefndina verði ekki skipaður maður með slíka hagsmuni. En í verðlagsráðinu eiga þessir menn að geta verið sem fulltrúar þeirra, sem selja aflann. Það er, held ég, alveg augljóst, að þegar þannig er í pottinn búið, þá er ekki eðlilegt, að samkomulag geti orðið.

Ég vil fullyrða það, að af hálfu þess fulltrúa, sem var í undirbúningsnefndinni frá Alþýðusambandi Íslands, var fullkominn vilji til þess að ná samkomulagi um skipan þessara mála og einnig í miðstjórn Alþýðusambandsins, sem örlítið gat kynnt sér þessi mál á undirbúningsstigi þess og samþykkti að öllu afstöðu fulltrúa síns í undirbúningsnefndinni. En það virtist eins í þeirri nefnd og nú hér á Alþ., að þessum málum þyrfti að flýta svo mikið, að ekki væri gefið tóm til að reyna til hins ýtrasta að ná samkomulagi. Meðan málið var á viðræðu- og undirbúningsstigi í n., var svo þessu frv. varpað þar inn í raun og veru nokkurn veginn fullbúnu og tók, held ég, mjög litlum breytingum í nefndinni eftir það.

Um skipan yfirnefndarinnar vildi ég aðeins segja það, að ég held, að það sé fráleitt að útkljá þessi mál með gerðardómsákvæðum, eins og hér er gert ráð fyrir. Ég held, að það komi ekki til, að með því skapist um þessi mál sá friður, sem áreiðanlega er ósk allra, sem hér eiga hlut að máli. Það er eitt út af fyrir sig, og ég óska gjarnan eftir að fá það upplýst, hvort það er raunverulega ætlun ríkisstj. eða þeirra, sem standa að þessu máli, að halda fast við skipanina í yfirnefndina. Það er ætlazt til þess, að fiskseljendur sameiginlega skipi tvo menn, annan úr hópi sjómannanna og hinn úr hópi útgerðarmannanna, og á sama hátt hinn aðilinn tvo menn einnig. Er það ætlunin, er raunverulega ætlazt til þess, að útvegsmennirnir kjósi sjómanninn, sem í yfirnefndina á að fara, og svo kjósi sjómennirnir útvegsmanninn, sem í yfirnefndina á að fara? Þetta atriði vildi ég gjarnan fá upplýst. Ég trúi því satt að segja ekki, að það sé ætlunin að hafa þennan hátt á skipan málanna, en samkvæmt orðanna hljóðan í því frv., sem fyrir liggur, skyldi maður halda, að þetta væri ætlunin.

Ég ætla ekki að orðlengja um þá skipan, sem fulltrúi Alþýðusambandsins gerir ráð fyrir í sinum tillögum að höfð yrði á gangi málanna í staðinn fyrir yfirnefndina. Það hefur verið gert áður, og ég er alveg sannfærður um, að sú leið er miklu vænlegri til þess, að það náist raunveruleg niðurstaða, sem sjómennirnir geti sætt sig við, og komi þá í veg fyrir þær styrjaldir, sem verið hafa um þessi mál oft í vertíðarbyrjun og margar vertíðir hafa tafizt æði mikið vegna.

Hitt er svo annað mál, hvort í raun og veru hefði ekki átt að fara hér allt aðra leið. Hins vegar hefur gefizt ákaflega lítið tóm til þess að íhuga þessi mál og sannprófa, hvaða leiðir væru færar. Ég hef starfað nú að undanförnu nokkuð í nefnd, sem er ekki óskyld þessari, þ.e.a.s. í verðlagsnefnd landbúnaðarvara. Ég er alveg sannfærður um það af því starfi, sem ég hef þar verið í, að það er röng skipan að hafa yfirnefnd eins og þar er og eins og hér er gert ráð fyrir. Ákvæði um slíkar yfirnefndir eða gerðardóm, einhvern þriðja aðila, sem sjálfir samningsaðilarnir geta áfrýjað til, hljóta að verða til þess, að þeir, sem raunverulega eiga að semja, leggi ekki að sér sem skyldi. Og útkoman getur orðið líkt og nú varð um verðlagningu landbúnaðarvara. Ég held, að það sé ekki æskilegt, að slíkt komi upp. Ég hef sagt við þá menn, sem ég hef þar starfað með frá bændasamtökunum, að athuga bæri, hvort ætti ekki að leggja yfirnefndina niður hreinlega og ef ekki næst samkomulag í sex manna nefndinni að fara þá leið, að sjálfu framleiðsluráðinu væri heimilað að skrá verð á landbúnaðarvörunum. Á sama hátt held ég, að nú hefði átt að fara í raun og veru aðrar leiðir en gert er og kemur fram í þeim tillögum, sem fyrir liggja. Spurningin er sú, hvort ekki hefði verið rétt, að verðlagsráðið skyldi reyna til hins ýtrasta og sennilega með milligöngu sáttasemjara á einhverju stigi málanna, en ef ekki næðist samkomulag á þann hátt, þá yrði bókstaflega samtökum sjómanna og útgerðarmannanna, fiskseljendanna, heimilað að verðskrá fiskinn og ráðherra hefði því aðeins heimild til þess að breyta þeirri verðskráningu, að það væri sannað mál, að þessi samtök hefðu farið út fyrir allt hið mögulega, ef svo mætti segja, og það þætti sannað, að verðskráningin væri ekki í neinu samræmi við það, sem markaðsverðið t.d. væri og alveg nauðsynlegur tilkostnaður. Þetta er háttur, sem Norðmenn hafa á þessum málum. Þar er sjómönnunum eða samtökum fiskimannanna, Norges fiskelag, sem eru samtök bæði sjómannanna og einnig útgerðarmannanna, fengið þetta vald í hendur. Það hefur aldrei komið fyrir, að norskur ráðherra, sem hefur vald til þess að breyta slíkri verðlagsákvörðun, hafi notað vald sitt, vegna þess að þessi samtök, þegar þeim er veitt slík heimild og annað eins vald fengið í hendur þeirra, þá held ég, að það séu miklu minni líkur til þess, að þau misnoti það vald, heldur en annars væri.

Hér hafa komið fram tillögur frá 1. minni hl. n., sem hafa verið ræddar. Ég verð að segja, að ég er ekki ánægður með allt, sem þar er, en tel það þó vera til mikilla bóta frá því, sem er í frv. og tillögum hv. meiri hl. nefndarinnar. Ég er hins vegar alveg sannfærður um það, að ef vilji væri til þess að reyna að afgreiða þetta mál með samkomulagi milli aðilanna, þá eru þær tillögur, sem þar eru lagðar fram, áreiðanlega góður umræðugrundvöllur. Það finnst mér þó vanta í þær tillögur, sem ég álít að þurfi að tryggja, svo framarlega sem yfirnefnd á ekki að verða, — ja, ég vildi næstum því segja markleysa ein, að fulltrúa svo langsamlega meiri hluta þeirra sjómanna, sem hér eiga hlut að máli, sé tryggt sæti í yfirnefndinni einnig. Ef það verður ekki, tel ég, að það séu ekki mikil líkindi til þess, að þessi mál verði til þess, að verulegur friður fáist. Hefur verið bent á það hér, að ef þvinga á fram fiskverð á þennan hátt og ofan í vilja samtakanna og sterk rök þeirra, þá er auðvitað sú leið opin og blasir auðvitað við hverjum manni, að kjarasamningarnir verða hreyfðir því meir. Það verður reynt að jafna metin með sjálfum kjarasamningunum, þ.e.a.s. hlutaskiptasamningunum. Það er alveg augljóst mál, að verðlagning, sem sjómenn væru sannfærðir um að væri ranglát, hlýtur að leiða til þess, að kjarasamningarnir verða því meir á hreyfingu og deilan snýst þá um sjálf hlutaskiptin, sjálf kjörin, frá því að vera barátta um fiskverð.

Ég vil taka mjög eindregið undir með hv. síðasta ræðumanni um það, að þetta mál verði ekki hespað hér í gegn á þennan hátt, heldur raunverulega reynt að ná samkomulagi um afgreiðslu þess og um þá skipan, sem allir, sem hér eiga hagsmuna að gæta, vilja koma á þessi mál, þannig að það verði tryggt, að sjómenn hafi réttláta hlutdeild í ákvörðun um fiskverð og tryggður verði sá friður, sem menn mjög gjarnan æskja eftir að verði um málin í vertíðarbyrjun.