09.04.1962
Neðri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í C-deild Alþingistíðinda. (2915)

213. mál, búnaðarmálasjóður

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af hv. landbn. eftir ósk stjórnar Búnaðarfélags Íslands, en allir hv. nm. hafa áskilið sér rétt til hvaða afstöðu sem vera skyldi um fylgi við þetta mál. Ég vil taka það fram, að þetta frv. var flutt, áður en ég kom í hv. landbn. að þessu sinni, og eins og kunnugt er, hef ég frá upphafi vega verið andvígur þessu máli, en ætla ekkert að fara að ræða það efnislega nú. En vil fara fram á það við hæstv. forseta, að það verði ekki tekið á dagskrá til 2. umr., fyrr en hv. landbn. hefur tekið það til athugunar og skilað um það einhverju áliti.