11.12.1961
Neðri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi fyrst segja nokkur orð um vinnubrögðin og þau atriði, sem kvartað hefur verið um af þeim, sem talað hafa í þá átt, að málið væri afgreitt með of miklum hraða eða óeðlilegum hraða. Það er rétt, að það hefur verið flýtt afgreiðslu málsins eins og frekast hefur verið talið fært, en það er af ástæðum, sem greint hefur verið frá og ég tel alveg fullkomlega eðlilegar. Það var skipuð nefnd allra aðila, sem hér eiga hlut að máli, til þess að finna lausn og semja frv., og það gerði nefndin á tiltölulega mjög stuttum tíma og skilaði áliti um mánaðamótin síðustu eða upp úr þeim. Síðan var málið rætt í ríkisstj. og loks borið hér fram í frumvarpsformi mikið til alveg eins og meiri hl. þessarar undirbúningsnefndar gekk frá því. Það er að vísu rétt, að málið var tekið til 1. umr. sama daginn og því var útbýtt hér á þinginu, en síðan eru nú liðnir þrír dagar. Má því segja, að menn hafi fengið fullkomið tækifæri til þess að kynna sér málið, og verður þess vegna ekki sagt, að svo óeðlilegur hraði hafi verið hafður á afgreiðslunni, að öllum ætti ekki að hafa gefizt tóm til þess að kynna sér það í einstökum atriðum. En hitt vænti ég líka, að hv. þdm. skilji, að ef þetta frv. og þessi ráðstöfun á að koma að gagni við fiskverðsákvörðunina nú í vertíðarbyrjun, þá verður afgreiðsla málsins að fást fyrir þinghlé, og þar sem gera má ráð fyrir því, að nú verði annadagar á næstunni allar götur fram til þess dags, sem þinginu verður frestað, þá tel ég ekki óeðlilegt, að því sé nú fylgt eftir hér á kvöldfundi og reynt það, sem hægt er, til þess að afgreiða það héðan úr þessari hv. deild eins fljótt og nokkur möguleiki er á, því að eins og ég segi, ef frv. eða ákvæðin í því eiga að koma til framkvæmda um áramótin, þá verður málið að afgreiðast fyrir þinghlé.

Ýmsar aðfinnslur hafa hér komið fram, en þó kannske ekki meiri en vænta mátti. Það var líka svo, að langsamlega meiri hluti þeirra 8 manna, sem undirbjuggu frv. og voru frá flestum þeim aðilum, sem eiga hlut að máli, voru sammála um þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Aðeins einn hv. nm. skilaði ágreiningi um tvö atriði, enda hafa þessi tvö atriði orðið meginuppistaðan í þeim aðfinnslum, sem hafa komið fram um frv.

Hv. 3. Þm. Norðurl. e. (GíslG) vildi gera nokkuð úr því, að ríkisstj. hefði með þessu frv. hvikað frá yfirlýstri stefnu sinni um það að hafa ekki afskipti af kaup- og kjaramálum eða afgreiðslu þeirra. Hann taldi, að með því að fara þessa leið, sem hér er gert ráð fyrir, væri stjórnin að ganga frá þessu stefnuskráratriði sínu. Ég get ekki fundið, að þessi athugasemd hans hafi við rök að styðjast, því að hvað er það, sem verið er að gera með þessu frv.? Það er í fyrsta lagi verið að leggja til, að sá háttur verði hafður á, að aðilarnir komi sér saman um málin. Og ef sá háttur verður hafður og tekst, þá er það náttúrlega í fyllsta máta rangt, að ríkisstj, sé að blanda sér í málið. Ef hins vegar ekki tekst samkomulag, þá er gert ráð fyrir úrskurðaraðila, sem er 5 manna nefnd með oddamanni, sem hæstiréttur tilnefnir og gera má ráð fyrir að eigi að vera fullkomlega hlutlaus í þeim átökum, sem þar eiga sér stað. Það er þess vegna engin ástæða til þess að segja, að ríkisstj. hafi viljað fá fingur með í þeirri verðlagsákvörðun, sem þannig er gerð. Það er allt annað mál, þegar hv. 4. Þm. Austf. (LJós) var að semja eða taka þátt í samningum milli útgerðarmanna og fiskkaupenda á sinni tíð um verð, þá var það beinlínis ráðherrann sjálfur, sem stjórnaði þeim umr. og beitti sér fyrir lausn á þann hátt, sem hann taldi að bezt hentaði. Það er bein íhlutun ríkisvaldsins. En íhlutun ríkisvaldsins kemur hvergi fram í þessu frv. á annan hátt en þann að byggja upp það kerfi, sem hér er gert ráð fyrir að notað verði. Og íhlutun ríkisstj. eða Alþingis, ef nokkur er, þá er hún sú ein að slá föstu, hvernig kerfi skuli unnið eftir, þegar fiskverðsákvörðunin er tekin, en ekki hitt, að hafa nein bein áhrif á það, hvaða verð verður ákveðið.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, af því að bæði þessi hv. ræðumaður, hv. 3. þm. Norðurl. e., og hv. 4. þm. Austf. töldu, að ríkisstj. hefði gengið frá þessu stefnuskráratriði sínu með þeim tillögum, sem hér liggja fyrir. Ríkisstj. hefur alls ekki gert það, heldur hefur hún þvert á móti reynt að koma því þannig fyrir, að allir aðilar, sem hér eiga einhverra hagsmuna að gæta, séu með í verðlagsákvörðuninni. Þegar hv. 4. þm. Austf. var sjútvmrh. og beitti sér fyrir samningagerð á milli aðilanna, hafði hann ekki þar neina fulltrúa sjómanna til þess að semja við. Og ekki datt honum í hug heldur að gera tillögur um það, að þeir væru teknir inn í þessa samningsgerð. Það voru útgerðarmenn og fiskkaupendur, sem þá sömdu.

Hv. 4. Þm. Austf. vildi líka telja, að það væri greinilegt á þessu frv., að það væri ekki ætlazt til þess, að verðlagsráðið semdi, heldur sé beinlínis gert ráð fyrir því, að málinu verði vísað til yfirdómsins og þar verði úrskurðurinn felldur. Ekki veit ég, á hverju hv. þm. byggir þessa skoðun sína, en ég held, að hún sé alveg fráleit, því að ég vildi ætla, að í flestum tilfellum ætti samkomulag einmitt að geta tekizt í verðlagsráðinu og mál ekki að fara til yfirnefndarinnar.

Hv. 2. landsk. þm. (EðS) skýrði nokkuð frá reynslu sinni í verðlagsnefnd landbúnaðarafurða og taldi það ekki vera til fyrirmyndar. En hann gat þess ekki, viljandi eða óviljandi, að einmitt í því ráði hefur ákvörðun um verðlag á landbúnaðarafurðum langoftast tekizt með samkomulagi á milli neytendafulltrúanna og framleiðendanna. Mér hefur verið tjáð, að það hafi komið fyrir aðeins tvisvar eða þrisvar á öllum þeim tíma, sem þessi verðlagsnefnd hefur starfað, að máli hafi verið vísað til yfirdómsins til úrskurðar, en í langsamlega flestum tilfellunum hefur verðákvörðunin farið fram í verðlagsráðinu sjálfu með fullu samkomulagi á milli aðilanna, og ég vildi líka vænta þess, að svo gæti orðið í þessu tilfelli.

Ég sé enga ástæðu til þess að ætla, að verðlagsráðið geti ekki komið sér saman um hlutina, og hygg að það vilji heldur koma sér saman um þá en eiga hinn óvissa úrskurð yfirdómsins yfir sér. Hann er óáfrýjanlegur, og þess vegna getur það oltið á ýmsu, hversu það er heppilegt fyrir aðilana, að málið gangi þá leiðina. Í því er vissulega nokkur áhætta fyrir báða aðila í þá átt, að úrskurður yfirdómsins gangi þeim ekki í vil. Það er ekkert um það vitað fyrir fram, hvernig sá hlutlausi úrskurðaraðili fellir sinn dóm. Hann kannar öll gögn og kveður síðan upp dóminn, en báðir aðilar vita jafnlítið um það fyrir fram, hvort sá dómur gengur þeim í vil eða hvorum hann gengur í vil. Ég held þess vegna, að það verði alltaf tilhneiging hjá aðilunum til þess að reyna að ná samkomulagi, því að þá vita þeir, um hvað samkomulagið er, en eiga ekkert í óvissu með það, hvernig yfirdómurinn muni fella sinn úrskurð.

Þau tvö atriði, sem minni hl. undirbúningsnefndarinnar gerir grein fyrir í áliti sínu, sem prentað er sem fskj. með frv., eru margrædd hér. Annað atriðið er um skipun verðlagsráðsins, sérstaklega það atriði, að í því eigi ekki sæti nema einn fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands, sem sé þar sá aðilinn, sem langmestu hagsmunanna hafi að gæta, það sé of lítið og þeim beri að fjölga úr einum og upp í tvo og um það hafi verið fluttar tillögur. Ég held, að í sjálfu sér sé hér meira reynt til þess að þennan hlut tortryggilegan en að nokkur hætta sé hér á ferðinni fyrir Alþýðusamband Íslands. Í verðlagsráði þarf nefnilega að vera samkomulag allra aðila, og hver einasti meðlimur þess hefur þess vegna neitunarrétt og getur komið í veg fyrir það samkomulag, sem honum fellur ekki. Hvort sem fulltrúar Alþýðusambandsins eru því einn eða tveir, hafa þeir það í hendi sér að samþykkja eða hafna, eftir því sem hugur þeirra stendur til, og fer það í engu eftir því, hvort fulltrúarnir eru einn eða tveir eða fleiri, því að sá fulltrúi hefur einn réttinn til þess að koma í veg fyrir, að það sé gerð sú samþykkt þar eða samkomulag, sem hann er andvígur. Ég held þess vegna, að það sé meira kannske hvað ég á að kalla það — metnaðarmál fyrir Alþýðusambandið að hafa þarna fleiri menn í ráðinu en hin sjómannasamtökin, en raunverulega hafi það ekki neina þýðingu fyrir samkomulagið í verðlagsráði, því að hann hefur það í hendi sér, fulltrúi Alþýðusambandsins, eins og aðrir fulltrúar í ráðinu, að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og getur komið í veg fyrir, að nokkur samþykkt verði þar gerð, sem honum er á móti skapi.

Það hefur verið gerð tilraun til þess í umr. hvað eftir annað að reyna að gera þá fulltrúa sjómannasamtakanna, sem eru ekki frá Alþýðusambandinu, meira eða minna tortryggilega. Það hefur verið sagt, að ekki væri hægt að una því, að sá maður, sem frá Alþýðusambandinu yrði valinn, ætti ekki sæti í yfirdómnum. Ég er aftur fyrir mitt leyti þess fullviss, að allir sjómannafulltrúarnir, sem þarna eiga sæti, séu á sinn hátt jafngóðir og jafntrúir málstað sjómannanna, sem þeir eiga að gæta. Ég vildi ekki ætla það, að fulltrúi Farmanna- og fiskimannasambandsins eða fulltrúi Sjómannasambandsins væri nokkuð verr til þess fallinn að gæta þeirra hagsmuna heldur en fulltrúi Alþýðusambandsins. Það má vel vera, að fulltrúi Alþýðusambandsins hafi fleiri aðila á bak við sig en hinir. En ég sé ekki neina ástæðu til þess, að farið sé eftir ákveðinni höfðatölureglu, heldur sé unnið með trúmennsku og réttsýni að framkvæmd málsins, og það vil ég ætla að mennirnir geri alveg jafnt, hvort sem þeir eru fulltrúar sjómannasamtakanna eða Farmannasambandsins eða Alþýðusambandsins. Ég held þess vegna, að þetta sé meira deila um keisarans skegg og sé engin ástæða til þess að rifta því samkomulagi, sem virtist hafa ríkt um þessa skipun hjá miklum meiri hl. nefndarinnar. Ég veit ekki, ef þessu væri breytt, hvort þá mundu ekki koma kvartanir eða tillögur frá hinum aðilunum, sem hafa staðið að samningu frv., um það að breyta skipun ráðsins, og ég er ekkert viss um, að það mundi nást frekar samkomulag um verðlagsráðið, þó að þessar tillögur minni hl. í nefndinni yrðu samþykktar. Ég held, að fyrir því sé vel séð í frv., að tryggður verði réttur sjómannanna til þess að hafa áhrif á fiskverðið í fyrsta sinn í sögunni. Það er með þessu verið að gera tilraun til þess að verða við þeim óskum, sem fram hafa komið frá sjómannasamtökunum og vissulega eru eðlilegar, um það, að fulltrúar þeirra fái að taka þátt í þessari verðákvörðun, og það er gert með þeirri skipun, sem hér er lagt til að verði komið á.

Hitt atriðið, sem gert hefur verið að umtalsefni og ágreiningur virðist vera um, er það, hvort skipa eigi málum þannig, að úrskurðaraðili geti ákveðið verðið að lokum, ef ekki næst samkomulag. Hv. síðasti ræðumaður, hv. 2. landsk, þm., ég held, að hann hafi orðað það þannig, að enginn vegur væri til að leysa málið með gerðardómi. Ég veit nú ekki, ef gerðardómsleiðin yrði ekki farin, hvað þá ætti að geta komið í staðinn með svipuðum árangri. Það hefur verið stungið upp á af minni hl. í undirbúningsnefndinni og sú tillaga verið tekin upp hér af 2. minni hl. hv. sjútvn., að sáttasemjari tæki málið að sér, ef ekki næðist samkomulag, og gerði tilraun til sátta. En við vitum nú, sem höfum fylgzt með vinnudeilum oft áður, að það getur orðið erfitt að ná árangri á þann hátt. Það getur kostað langvarandi vinnustöðvanir og erfiðleika, sem þetta frv. á að koma í veg fyrir. Ef ekki verður neinn aðili til þess að úrskurða, þá er engin trygging fyrir því, að nein bót verði ráðin á því ástandi, sem nú ríkir, að fiskverðsákvörðun fáist tekin áður en drátturinn hefur orðið svo skaðlegur, að erfiðleikum hefur valdið. Ég held, að ef ekki verður horfið að því að hafa neinn úrskurðaraðila í málinu, þá séum við hér um bil eins á vegi staddir og við vorum áður, að það sé engin trygging fyrir, að nein fiskverðsákvörðun verði tekin fyrr en komið er í óefni. Þetta hefur hv. 1. minni hl. sjútvn. líka tekið til greina og leggur til, að í meginatriðum verði hafður sá háttur, sem frv. gerir ráð fyrir.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 2. landsk., taldi, að málefnum landbúnaðarins og málefnum sjávarútvegsins mundi sennilega betur komið, ef framleiðendur sjálfir ákvæðu verðið einir, skráðu það einir. Ég efast um, að sú lausn mundi vera heppileg og um hana gæti orðið meiri friður en um þá lausn, sem hér er stungið upp á. Einhliða ákvörðun þessa verðs af öðrum aðilanum getur leitt til þess, að hinn aðilinn neiti að kaupa á því verði, og þá stöndum við enn og aftur í sömu sporunum og við stóðum áður.

Þessi háttur að hafa aðila til úrskurðar eða gerðardóm, ef maður vill heldur kalla það því nafni, er ekki nýmæli. Það kom fram hér frv. á Alþingi í fyrra, sem hv. þm. sjálfsagt muna eftir og hér hefur verið nefnt. Það var flutt af hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni, og hv. 6. þm. Sunnl., Karli Guðjónssyni. Í þessu frv. er gert ráð fyrir gerðardómi. Þar segir, eins og hér hefur verið lesið og ég þarf raunar ekki að endurtaka:

„Nú næst ekki samkomulag nefndarmanna um fiskverðið, og tekur þá sáttasemjari ríkisins sæti í nefndinni, og fellir hún úrskurð þannig skipuð.“

Ég sé ekki neinn mun á þessu og þeim gerðardómsákvæðum, sem í þessu frv. eru, sem við erum hér með til umr., annan en þann, að sáttasemjari ríkisins á að vera oddamaðurinn og skera úr, en í þessu frv., sem hér liggur fyrir nú, er gert ráð fyrir, að hæstiréttur tilnefni oddamann. Og sannast sagna get ég ekki séð á því nokkurn verulega mun. Efast ég ekki um, að hæstiréttur muni nefna mann, sem bæði sé hæfur til þess, þ.e.a.s. hafi nægilega þekkingu til að bera, og sé hlutlaus í verðákvörðuninni, vilji aðeins gera það réttasta, sem hann kann og veit, og sé þess vegna enginn munur á honum og sáttasemjara, sem kannske hefur þá ekki þau nánu kynni af sjávarútveginum, sem þessi maður þarf að hafa til brunns að bera, sem hér verður gerður að oddamanni, auk þess sem ég af öðrum ástæðum tel ekki heppilegt, að sáttasemjara ríkisins sé blandað í deiluna á þennan hátt, að hann sjálfur taki með valdboði ákvörðun um afgreiðslu málsins, heldur sé það maður, sem er ekki dags daglega í sáttasemjarastörfum, sem það geri.

Þetta eru meginatriðin, sem ágreiningur hefur verið um og koma fram í brtt., sem fram hafa verið bornar. Þó að það séu nokkrar tillögur fleiri, þá eru þær ekki veigamiklar, og ég mun þess vegna ekki gera þær frekar að umtalsefni.

Í tillögum meiri hl. sjútvn. er gert ráð fyrir því að tryggja það, svo að öruggt megi telja, að þeir, sem í yfirnefndinni eiga sæti af hálfu útgerðarmanna, hafi ekki hinna sömu hagsmuna að gæta og fiskkaupendur. Það tel ég mjög veigamikið atriði og legg eindregið til, að sú breyting verði samþykkt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Ég vil eindregið leyfa mér að vænta þess, að frv. verði afgreitt hér eins fljótlega í þessari hv. d. og mögulegt er, þannig að það nái fullnaðarafgreiðslu fyrir jól og nefndin, skipuð eins og frv. gerir ráð fyrir, geti þá tekið til starfa við sitt þýðingarmikla verkefni.