10.04.1962
Neðri deild: 88. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í C-deild Alþingistíðinda. (2921)

214. mál, stuðningur við togaraútgerð

Flm. (Geir Gunnarsson):

Háttv. forseti. Um nokkurt skeið hefur legið við borð, að togaraútgerð á Íslandi stöðvaðist með öllu vegna hallarekstrar. Einstakir togarar hafa helzt úr lestinni og þeim skipum stöðugt fækkað, sem samfellt hafa stundað veiðar. Reikningar togarafyrirtækja fyrir árið 1960 sýna yfirleitt gífurlegt tap, og allar líkur eru til, að afkoma s.l. ár sé ekki betri. Það hefur því um skeið verið ljóst, að yrði ekki að gert annað og meir en að greidd væru vátryggingariðgjöld flotans, eins og gert hefur verið, gæti ekki annað blasað við en alger stöðvun togaraflotans. Þrátt fyrir þennan gífurlega taprekstur togaranna hafa flestir, sem um mál togaraútgerðarinnar fjalla, verið þeirrar skoðunar, að útgerð togaranna bæri að halda áfram, þar sem ósýnt væri, að um varanlegan aflabrest sé að ræða. Margir hafa því enn um skeið viljað líta svo á, að um tímabundna erfiðleika væri að ræða og vegna framlags togaraútgerðarinnar til þeirrar uppbyggingar atvinnulífs á Íslandi, sem öll þjóðin nýtur, beri að gera þjóðfélagslegar ráðstafanir til þess að fleyta útgerðinni yfir þá erfiðleika, sem menn vænta að séu tímabundnir. Þessi skoðun á gildi togaraútgerðarinnar og rétti hennar til aðstoðar var mjög almennt og greinilega staðfest hér á hv. Alþ. fyrir skömmu við umr. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins.

Um alllangt skeið hefur verið beðið eftir því, að gerðar yrðu ráðstafanir til bjargar, en að frátöldum greiðslum vátryggingariðgjalda hefur ekki verið að gert fyrr en nú, að fyrir hv. Alþ. liggur frv. til laga um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, þar sem gert er ráð fyrir aðstoð við togaraútgerðina í þrengingum hennar.

Of lengi hefur dregizt að gera ráðstafanir til aðstoðar, og af þeim drætti hefur togaraútgerðin hlotið tjón. Að vísu hefur um skeið verið vitað, að aðstoð mundi koma til, og vonin um þá aðstoð hefur gert útgerðarfyrirtækjum léttara um að verða sér úti um stundarhjálp og hjara, en vegna þess dráttar, sem á hefur verið, hafa þau orðið fyrir ýmsum útgjöldum, vaxtakostnaði og innheimtukostnaði, auk þess sem á togarana hafa verið lagðar auknar greiðsluskyldur, á meðan dróst að veita þeim þá aðstoð, sem þarf.

Það er nú sýnt, á hvern veg sú aðstoð er, sem togurunum er ætluð með væntanlegum lögum um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, þar sem frv. um það mál hefur nú verið afgr. óbreytt frá þessari hv, d. Sú aðstoð bætir vissulega úr skák og er togurunum mikils virði, en er að mínum dómi of naum, en í þessu efni nægir ekki aðeins að auðvelda fyrirtækjunum reksturinn frá því, sem verið hefur, heldur verður beinlínis að gera þeim hann kleifan.

Fulltrúar Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, sem komu á fund sjútvn. þessarar hv. d., töldu, að sú aðstoð, sem togurunum er ætluð með væntanlegum lögum um aflatryggingasjóð, þyrfti að vera tvöfalt hærri, til þess að hún dygði. Sú skoðun þessara aðila hefur ekki verið rökstudd frekar eða meir en gert hefur verið varðandi þá upphæð, sem gert er ráð fyrir í frv. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, og er því erfitt að gera þar upp á milli. Samkvæmt þeim reikningum togarafyrirtækja, sem ég hef séð fyrir árið 1960, og með hliðsjón af því, að s.l. ár virðist ekki hafa verið hagkvæmara, tel ég, að sú aðstoð, sem nú hefur verið gert ráð fyrir að veita togaraútgerðinni, sé of naum og þyrfti að vera meiri.

Ýmsar fleiri leiðir til úrbóta, aðrar en beinar fjárgreiðslur til togaranna, koma vitaskuld til greina, og hefur í því sambandi m.a. verið bent á útgerðir til lækkunar á útgerðarkostnaði, t.d. vaxtagjöldum, olíukostnaði o.fl. Vaxtagreiðslur útgerðarinnar eru orðnar svo gífurlegar, að með lækkun vaxta væri hægt að draga verulega úr gjöldum, án þess þó að það dugi eitt til.

Ég get nefnt sem dæmi úr reikningum togara. fyrirtækis, að árið 1958 greiddi það í vinnulaun 18.4 millj, og í vexti 3.4 millj., en árið 1960 greiddi það í laun 19.4 millj. kr., en í vexti 6.6 millj. Á sama tíma og launagreiðslur hækkuðu þannig um 1 millj. kr. eða um 5.5%, hækkuðu vextir um 94.1%. Hér hafði auk vaxtahækkunar komið til meiri fjárfesting, en vegna aflabrests togaranna og siglinga á erlendan markað var lítil breyting á heildargreiðslu vinnulauna.

Tilgangslaust er þó vegna stefnu núv. ríkisstj. í vandamálum að benda á vaxtalækkun sem leið til úrbóta fyrir togaraútgerðina. Í því efni fæst engu hnikað enn, þótt undan kunni að verða látið, áður en lýkur.

Ég hef því með því frv., sem hér liggur fyrir, leyft mér að henda á enn eina leið til aðstoðar við þau togaraútgerðarfyrirtæki, sem verst eru sett, þannig að veittur verði sérstakur stuðningur þeim togarafyrirtækjum, sem skortir hráefni til fiskvinnslustöðva sinna vegna aflabrests togaranna og siglinga á erlendan markað, með því móti, að fyrirtækjunum verði gert kleift að eignast fiskibáta. Ég hef talið, að sú aðstoð til togaranna, sem felst í frv. til laga um aflatryggingasjóð, sé of naum og engan veginn fullnægjandi þeim togarafyrirtækjum, sem verst eru sett, en það eru einmitt þau fyrirtæki, sem sitja uppi með nýleg fiskiðjuver, hráefnisvana og starfslaus að miklu leyti. Með frv. þessu legg ég því til, að þeim sé veitt sérstök aðstoð, aðstoð, sem þó er einungis fólgin í fyrirgreiðslu ríkisins að því er varðar lántöku og ríkisábyrgð og stuðlar að aukinni nýtingu fjármagns, sem togarafyrirtækin hafa þegar bundið í vinnslustöðvunum.

Í kjölfar þeirra ára, þegar löndunarbann var á fiski í Englandi og hugur landsmanna beindist að því að fullvinna allan sjávarafla hérlendis, komu ýmis togarafyrirtæki sér upp miklum og vönduðum frystihúsum. En sú hefur orðið raunin á, að síðan þau voru fyrst tekin í notkun, hefur afli togaranna minnkað með ári hverju og siglingar á erlendan markað aukizt jafnframt, svo að þessi stórvirku fiskiðjuver eru starfslítil og hið gífurlega fjármagn, sem í þau hefur verið lagt, er algerlega vannýtt.

Ýmsar skýringar aðrar en minnkandi fiskigengd eru til á aflarýrnuninni hjá togaraflotanum. Veldur m.a. þar miklu, að togurum við veiðar hefur fækkað vegna taprekstrar og að þeir hafa neyðzt til þess af sömu sökum að stunda siglingar á erlendan markað, þannig að veiðidögum hefur stórlega fækkað.

Vitaskuld mætti segja, að einfaldasta ráðið fyrir þau togarafyrirtæki, sem skortir hráefni til fiskvinnslustöðva vinna, væri að hætta að láta togarana sigla á erlendan markað og leigja hann heldur hér á land. Eins og sakir standa og getu þessara fyrirtækja er háttað, og með tilliti til launakjara sjómanna, vaxtakostnaðar, fiskverðs á erlendum markaði miðað við afurðaverð til frystihúsanna o.fl. atriða tel ég, að þessum fyrirtækjum sé að óbreyttu mjög illa fært að fella niður siglingarnar. Þær eru neyðarúrræði, sem þessi fyrirtæki hafa orðið að gripa til og eiga mjög óhægt um að fella niður, því miður. Til þess að svo geti orðið, þarf ýmislegt að koma til. Fyrir fjárvana fyrirtæki ræður hér miklu, hversu auðveldara er að koma því skipi aftur út í veiðiferð, sem landað hefur á erlendum markaði, en hinu, sem landað hefur hér heima. Auk þess er naumast við því að búast, að sjómenn fáist til þess að stunda veiðar á togurunum með heimalöndunum, nema bætt verði kjör þeirra.

Hverjar sem menn vilja telja orsakirnar til stórminnkandi aflamagns togaraflotans, hafa afleiðingar þess, hversu stórum hefur minnkað sá afli, sem togararnir hafa lagt á land hérlendis, orðið þær, að hinar dýru og fullkomnu fiskvinnslustöðvar togarafyrirtækjanna hefur skort hráefni og verið starfsötlar, og verkafólk, sem vinnur við fyrirtækin, orðið að búa við stopula og ótrygga vinnu og borið skarðan hlut frá borði. Þó er þessum fyrirtækjum ekkert nauðsynlegra en að hafa til taks starfhæft og vant fólk, þegar afli berst til vinnslu. En naumast er við því að búast, að þessi fyrirtæki geti tryggt sér starfsfólk, þegar á þarf að halda, ef ekki er hægt að veita starfsfólkinu stöðuga vinnu. Þótt fundnar væru með vissu allar orsakir minnkandi aflamagns togaranna, svo að allir væru sammála um öli þau atriði, er að því lúta, þá er það lítil hjálp því fólki, sem stopula vinnu hefur haft vegna hins minnkandi aflamagns, sem á land hefur borizt frá togurunum. Raunhæfar aðgerðir til úrbóta þurfa að koma til.

Útkoman á rekstri vinnslustöðva togaranna hefur orðið þeim mun óhagstæðari sem hér er um að ræða nýlega fjárfestingu með hárri vaxtabyrði, yfirleitt mun dýrari að því leyti en eldri frystihúsin. En það, sem hin nýju hafa fram yfir hin eldri í fullkomnari tækjum, betri skipulagningu og öðru, nýtist ekki vegna verkefnaskorts. Mér telst svo til, að afkastageta frystihúsa í eigu togarafyrirtækja sé samtals um 550 tonn af hráefni á dag, og fjárfesting, sem bundin hefur verið í þeim, miðað við núverandi verðlags, eigi minni en 175 millj. kr. Samanlagður vaxtakostnaður af þeirri fjárhæð gæti því numið um 14 millj. kr. á ári, miðað við 8% vexti, og fyrningar af frystihúsum og tækjum mætti áætla að nemi álíka hárri fjárhæð, þannig að vextirnir og afskriftir af frystihúsum togarafyrirtækjanna gætu samkvæmt þessu numið tæpum 30 millj. kr. á ári. Hér er því mikið í húfi fyrir alla þjóðina, að þessi nýlegu framleiðslutæki séu hagnýtt til hins ýtrasta. En reyndin hefur orðið sú, að þessi fyrirtæki, sem ættu að geta orðið togarafyrirtækjunum til öflugs stuðnings, hafa í mörgum tilfellum ekki orðið til þess að bæta rekstrarafkomu fyrirtækjanna svo sem skyldi og jafnvel orðið til að auka rekstrartapið.

Fiskvinnslustöðvar togarafyrirtækjanna hafa orðið að byggja starfsemi sína nær eingöngu á togarafiski, og ef athugaður er hluti togarafisks af öllum afla flotans, kemur í ljós, að árið 1958 nam togarafiskur 39% af öllum afla, árið 1959 28%, árið 1960 22% og árið 1961 aðeins 11% af öllum afla landsmanna. Auk þess hefur jafnt og þétt farið minnkandi sá hluti togarafisksins, sem lagður er á land innanlands, svo að hlutur fiskvinnslustöðva togarafyrirtækjanna, þ. á m. frystihúsanna, hefur rýrnað enn meir en heildaraflamagnið eitt segir til um. Minnkandi afli togaranna stafar m.a. af því, að minna af aflanum er lagt á land og mikill hluti af úthaldsdögum togaranna fer í siglingar.

Árið 1958 var 94% af afla togaranna unnið innanlands, árið 1959 92%, árið 1960 77%, og árið 1961 66%. Munurinn á því aflamagni togarafisks, sem lagt var á land hér á landi árið 1958 og hins vegar árið 1961, er gífurlegur, enda var árið 1958 mikil karfaveiði við Nýfundnaland. Það ár var lagt á land hérlendis af togarafiski 188 þús. tonn, árið 1959 143 þús. tonn, árið 1960 88 þús. tonn, en árið 1961 aðeins 45 þús. tonn. Sé athugað, hversu mikið hefur verið lagt á land til frystingar af togarafiski, en það segir nokkuð til um verkefni frystihúsa togarafyrirtækjanna, og haft til samanburðar það magn af bátafiski, sem lagt hefur verið á land til frystingar á sama tíma, kemur í ljós, að árið 1958 var bátafiskur til frystingar 114 þús. tonn, en togarafiskur 143 þús. tonn — ívið meiri. Árið 1959 var bátafiskur 124 þús. tonn, en togarafiskur 112 þús. tonn. Árið 1960 var bátafiskur 137 þús. tonn, en togarafiskur 62 þús. tonn. Og árið 1961 var bátafiskur til frystingar 116 þús. tonn, en togarafiskur 28 þús. tonn. Á sama tíma og magn bátafisks til frystingar vex úr 114 þús. tonnum í 116 þús. tonn minnkar magn togarafisks til frystingar úr 143 þús. tonnum í 28 þús. tonn. Hluti togarafisks af þeim heildarafla, sem lagður hefur verið á land til frystingar, hefur s.l. fjögur ár verið þannig hlutfallslega: árið 1958 55% af öllum fiski til frystingar, árið 1959 47%, árið 1960 31% og árið 1961 20%.

Að þessu athuguðu ætti hverjum manni að vera ljóst, hver áhrif þessi þróun hefur haft á afkomu þeirra frystihúsa, sem togarafyrirtækin hafa byggt upp á síðustu árum, að ekki sé talað um, hver áhrif þessi þróun hefur haft á atvinnuöryggi þess verkafólks, sem starfað hefur við frystihúsin eða aðrar fiskvinnslustöðvar togarafyrirtækjanna. Þar á ofan kemur svo þjóðhagslegt tap af vannýtingu þess gífurlega fjármagns, sem í fiskiðjuverin hefur verið lagt. Það er hverjum manni sýnilegt, að á ýmsum stöðum á landinu, þar sem svo illa er komið rekstri fiskvinnslustöðva togaraútgerðarfyrirtækjanna, væri hægt að bæta mjög hag þeirra með því að fá til báta, sem legðu þar upp afla sinn til vinnslu. Vegna taprekstrar á togurunum undanfarin ár er þessum fyrirtækjum þó um megn að afla sér þeirra báta, er hér þyrfti til. Hentugir bátar kosta líklega um 8 millj, kr. hver, þannig að til viðbótar láni úr fiskveiðasjóði þyrftu fyrirtækin sjálf að leggja fram 2–21/2 millj. kr. eftir því, hvort báturinn er byggður hér á landi eða erlendis. Þrátt fyrir þá aðstoð, sem togaraútgerðinni verður veitt með væntanlegum lögum um aflatryggingasjóð, tel ég, að þeim, sem mest þurfa bátanna við, sé um megn að festa kaup á þeim án sérstakrar aðstoðar. Það fjármagn, sem togurunum er ætlað með aðstoðinni, liggur áreiðanlega ekki á lausu og er þegar ráðstafað. Ég hef ekki heldur trú á því, að til nokkurs sé fyrir togarafyrirtækin að leita til bankanna um lán til bátakaupa. Þess vegna hef ég með frv. því, sem hér liggur fyrir, lagt til, að ríkisstj. sé heimilað að taka lán, allt að 35 millj. kr., til þess að framlána til kaupa á nýjum fiskibátum þeim togarafyrirtækjum, sem skortir hráefni til vinnslustöðva sinna vegna aflabrests togaranna og siglinga þeirra á erlendan markað. Auk þess verði ríkisstj. heimilað að veita sömu aðilum ríkisábyrgð á lán, samtals að upphæð 20 millj. kr., vegna bátakaupanna. Fyrirgreiðslan gagnvart togarafyrirtækjunum yrði á þann veg, svo sem fram kemur í 3. gr. frv., að samanlögð lán úr fiskveiðasjóði og lán veitt með þeirri aðstoð, sem frv. gerir ráð fyrir, mættu nema allt að 90% af kaupverði hvers báts og ríkisábyrgð væri heimilt að veita fyrir eftirstöðvunum. Sú upphæð, sem hér er lagt til að ríkisstj. verði heimilað að taka að láni og framlána í þessu skyni, 35 millj. kr., ætti að duga til aðstoðar við kaup á 20–30 fiskibátum eftir því, hvort um væri að ræða smíðar innanlands eða utan. Ég tel, að þrátt fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir telji sig ekki geta fallizt á hærri fjárstyrki til rekstrar togaranna en frv. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins gerir ráð fyrir né heldur á vaxtalækkun eða lækkun á öðrum útgerðarkostnaði, þá ætti sú afstaða ekki að þurfa að koma í veg fyrir, að fallizt verði á að styðja með lánveitingum og ríkisábyrgðum þau togarafyrirtæki, sem auk rekstrartaps togaranna vegna hráefnaskorts og fjárhagsörðugleika eiga við að etja rekstrartap á fallkomnustu fiskiðjuverum á landinu, — hráefnaskorts, sem bæta mætti úr með því að veita þessum fyrirtækjum þá aðstoð, sem hér er lagt til, til þess að þau geti aflað sér nýrra og hentugra fiskibáta. Sú upphæð, sem hér er lagt til að ríkisstj. verði heimilað að taka að láni í þessu skyni, 35 millj. kr., er svipuð upphæð og vextir og afskriftir frystihúsa togarafyrirtækjanna nema á einu ári. Ég tel, að þeirri upphæð væri vel varið og togarafyrirtækin ættu auðveldara með eftir en áður að standa undir rekstri togaranna. Þótt svo kynni að fara, að rekstrarhættir togaranna breytist og þegar fram liða stundir leggi þeir afla sinn á land í ríkara mæli en nú, þá koma þeir bátar, sem hér er lagt til að togarafyrirtækjunum verði gert kleift að kaupa, eftir sem áður að miklu gagni fyrir frystihús togarafyrirtækjanna og fylla í ýmsar eyður í rekstri frystihúsanna, sem óhjákvæmilegt er að myndist.

Sú aðstoð, sem hér er lagt til að sé veitt togarafyrirtækjum þeim, sem verst eru stödd vegna hráefnaskorts fiskvinnslustöðvanna, er vitaskuld ekki lausn á því vandamáli, sem rekstur togaranna sjálfra er og kann að verða enn um sinn. En með þessum hætti væri unnt að gera mörgum togarafyrirtækjum auðveldara að bera þau áföll, sem af aflaleysi togaranna leiðir, og stuðla að því, að minna fjármagn þurfi í beina styrki til þeirra í einni eða annarri mynd.

Með þeirri aðstoð, sem hér er lagt til að togarafyrirtækjum verði veitt, yrði gert þrennt í senn: Í fyrsta lagi yrði tryggð betri og jafnari fjárhagsleg afkoma þess verkafólks, sem um alllangt skeið hefur búið við stopula vinnu vegna hráefnaskorts fiskvinnslustöðva togaranna. Í öðru lagi yrði bætt rekstrarafkoma þeirra togarafyrirtækja, sem eiga fiskvinnslustöðvar, sem hafa verið vannýttar vegna hráefnisskorts. Og í þriðja lagi er þjóðhagslega hagkvæmt að nýta betur en verið hefur þær fiskvinnslustöðvar, sem varið hefur verið tugum og hundruðum millj. kr. til að reisa á undanförnum árum. Ég tel því, að hv. alþm.. ættu að gefa þessu máli þann gaum, sem vert er, og styðja samþykkt þessa frv.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.