19.10.1961
Efri deild: 5. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (2927)

29. mál, bústofnsaukning og vélakaup

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 6, þm.. Norðurl. e. fyrir vinsamlegar undirtektir hans við þetta mál. Einmitt vegna þess, að hann er í því starfi, sem gefur honum aðstöðu til þess að skilja þörf þeirra manna, sem hér er um rætt, mörgum öðrum betur, met ég það sérstaklega mikils, að hann tekur undir við þá meginstefnu og hugsun, sem þetta frv. er á byggt. Hins vegar er ekkert óeðlilegt, þó að það komi fram athugasemdir um einstök atriði og ábendingar um einstök atriði, og það er ekki illa þegið af mér, heldur þvert á móti vel þegið, því að það er svo í þessu máli sem öðru, að betur sjá augu en auga, og það getur náttúrlega vel verið, að það megi breyta einstökum atriðum í þessu sambandi. Það tekur að sjálfsögðu sú nefnd, sem fær frv. til meðferðar, til athugunar.

En það voru aðeins örfá atriði, sem komu fram hjá hv. 8. þm.. Norðurl. e., sem ég vildi minnast á, Hann sagði réttilega, að það væri ekki nóg að stofna sjóð, það yrði að sjá þeim sjóði fyrir nægilegu fjármagni. Þetta er auðvitað laukrétt.

Það er ekki nóg að stofna sjóð með litlu fé og varpa síðan öllum sínum áhyggjum upp á hann, heldur þarf að sjá sjóðnum fyrir áframhaldandi vaxtarmöguleikum, eftir því sem þörf krefur. Það álít ég að verði verkefni síðari tíma, ef fallizt verður á þá hugmynd, sem í þessu frv. felst. En það tók ég fram í minni framsöguræðu, að okkur flm. væri ljóst, að vel gæti verið, að það fé, sem nefnt er í þessu frv. sem stofnfé sjóðsins, reyndist ekki nægilegt, enda er að sjálfsögðu erfitt að gera sér fyllilega grein fyrir því, hve mikils fjár hér þurfi við.

Þá benti ræðumaður á atriði, sem ég veit að muni hvarfla að mörgum mönnum, sem sé spurningunni um það, hvort ekki væri heppilegra að undirbyggja þá stofnsjóði landbúnaðarins, sem fyrir eru, betur en gert hefur verið, í stað þess að stofna nýjan sjóð. Hann benti á, að hér væru starfandi veðdeild Búnaðarbankans og ræktunarsjóður, sem báðir tveir gætu í raun og veru eftir sinum starfsreglum lánað fé til bústofnsaukningar og vélakaupa. En þar er því til að svara, að það mun því miður hafa átt sér ákaflega sjaldan stað, að úr þessum sjóðum hafi verið veitt lán til þessara hluta, og alveg víst, að það hafa ekki verið veitt lán, t.d. úr veðdeild, nema gegn fasteignatryggingu. En það er einmitt sá mikli munur, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er gert ráð fyrir því, að hægt sé að veita lán út á vélar og ábyrgð, sem sagt aðrar tryggingar en þær, sem veðdeildin hefur metið gildar. Í öðru lagi er það nú svo, að hingað til hafa veðdeildarlánin verið svo lág, að þau segja í raun og veru lítið til vélakaupa, þegar um stærri búvélar er að ræða. Ég held, að það sé heppilegra að hafa sjóðina fleiri og með sundurgreindu hlutverki heldur en að steypa þessu saman. Einmitt þegar fé er elski nægilegt til, eins og það hefur verið og eins og það nú ef til vill verður, þá verður það þannig, ef þessum sjóðum er steypt saman, að það eru viss hlutverk, sem almennt sitja á hakanum, eins og reyndin hefur orðið hjá veðdeild og jafnvel ræktunarsjóði, sem getur þó samkvæmt sínum starfsreglum veitt lán til bústofnskaupa. En þessi hlutverk hjá þessum sjóðum hafa algerlega setið á hakanum, af því að þeir hafa ekki haft nægilegt fé til þess að sinna aðalhlutverkum sínum, og það er einmitt af þeirri ástæðu, að ég held, að það sé heppilegra að setja upp svona sérstakan sjóð, með þessu sérstaka hlutverki, þó að vitaskuld væri það til stórkostlegra bóta, ef mögulegt væri að tryggja þessum sjóðum, sem fyrir eru, meira starfsfé en þeir hafa haft að undanförnu. En ég vil undirstrika, að það er einmitt eitt meginatriði í þessu frv., að það er gert ráð fyrir því, að þessi lán séu veitt út á aðrar tryggingar en þessi lán hafa verið veitt úr veðdeild og ræktunarsjóði. Í því samhandi kom nú kannske fram hjá hv. ræðumanni nokkurt bankasjónarmið, þar sem hann fór að minnast á, að þessar tryggingar mundu kannske vera eitthvað vafasamar og væri ekki víst, hvernig ætti að skilja viss ákvæði frv. í því sambandi. Ég skal ekki fara út í það, það verður athugað í n., en ég vil aðeins benda á það atriði, að þar sem hann var að ræða um, að ef svo illa væri komið hjá einhverjum, að hann hefði ekki efni á að kaupa vél, þá skildist mér á honum, að það væri ekki álitlegt að lána þeim manni. En þetta getur vel farið saman, eins og ég veit að hv. ræðumanni verður ljóst, ef hann athugar málið betur. Það getur vel staðið þannig á, að maðurinn sé alls ekki fær um það og hafi ekki bolmagn til þess að greiða fyrir vél nú, en hins vegar er gert ráð fyrir því, að hann hafi af vélinni það hagræði á næstu árum, að honum geti veitzt auðvelt að standa undir árlegum afborgunum. Þetta held ég að sé mjög ljóst, og þessu atriði hygg ég að bændur, sem á undanförnum árum hafa ráðizt í það að kaupa sér vélar, jafnvel þótt í skuld væri, gætu mjög vel svarað. Við vitum, að t.d. að einni dráttarvél er svo mikið hagræði við búskap, að það er í raun og veru fljótt að borga sig, ef maðurinn hefur á annað borð nokkurt bolmagn til þess að afla sér vélarinnar, en þó með þeim fyrirvara, að hann geti jafnframt aukið bústofn sinn og fengið þar af leiðandi meiri afurðir af sínu búi.

Það er alveg rétt hjá hv. ræðumanni, að það má segja, að það sé tvenns konar hlutverk, sem bústofnslánasjóðnum sé ætlað. Annað hlutverkið, sem ég mundi vilja kalla aðalhlutverkið, er að veita lán til bústofnsaukningar og vélakaupa. Það veit að framtíðinni. En hitt hlutverkið, þar sem gert er ráð fyrir að veita lán eða jafnvel í undantekningartilfellum styrk til greiðslu þungbærra lausaskulda, miðast við það vandræðaástand, sem er nú í dag. Það getur vel verið, ef lán þau, sem veðdeild Búnaðarbankans hefur í hyggju að veita til greiðslu lausaskulda, komast á þann rekspöl og verða þannig úr garði gerð, að þau leysi vandræði margra manna, að þá verði minni þörf fyrir þetta hlutverk, sem þessum sjóði hefur þó verið ætlað í leiðinni, enda þótt hann annars sé meir stílaður upp á framtíðina, sem sé það að reyna að tryggja, að þeir, sem við búskap fást og búskap ætla að stofna og stunda, geti fengið nauðsynlegar búvélar og fengið aðstöðu til þess að fá þann bústofn, sem svo með sæmilegu afurðaverði getur staðið undir búrekstrinum og veitt þeim kjör sambærileg við aðrar stéttir þjóðfélagsins.