11.12.1961
Neðri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Ég skal ekki ræða um brtt. minni hl., vegna þess að þeir hafa skýrt þær nægilega vel, og svo veit ég það af fenginni reynslu, að það muni lítið verða með brtt. gert frá stjórnarandstöðunni, því að bæði er það, að hún hefur nú sennilega litlu að miðla, enda er það illa þegið, sem hún vill fram bjóða. En viðvíkjandi brtt. meiri hl. skal ég játa, að hún er til bóta að mínu áliti. Það er bætt inn í 9. gr. orðunum: „og má hann ekki eiga aðild að fiskkaupum, vera félagsbundinn eða hafa hagsmuna að gæta í samtökum fiskkaupenda þeirra, sem tilnefna menn í verðlagsráðið samkv. B-lið 1. gr.“ þetta þýðir, að það á að vera trygging fyrir því, að sá fisksöluaðili, sem mætir frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, megi ekki eiga neinn þátt í fiskkaupum. En úr því að þetta þarf að vera tekið fram viðvíkjandi þessum eina manni, hlýtur að vera einlægast að taka það fram gagnvart öllum mönnunum, sem Landssambandið á að tilnefna. Og ég álít, að þess sé þörf. Í 1. gr. segir: „af hálfu fisksöluaðila“. En maðurinn getur í raun og veru bæði verið fisksöluaðili að einhverju leyti og átt þó meiri hagsmuna að gæta gagnvart fiskkaupum. Og við vitum það í Landssambandinu, að það er mikill meiri hluti af aðilunum, sem verka sinn fisk sjálfir. Ég álít því, að þetta hefði átt að vera fram tekið um alla fulltrúana. Það ætti a.m.k. ekki að koma að sök. Ég álít enn fremur, að það væri sanngjarnt og skynsamlegt að ákveða það gagnvart þeim fulltrúum, sem Landssambandið á að útnefna, að það sé sinn úr hverjum landsfjórðungi. Það er talsverður munur á aðstöðu og jafnvel gæðum fisksins eftir því, í hvaða landsfjórðungi er. Og ég sé ekki, að það ætti að vera nokkrum erfiðleikum bundið að framkvæma það. Það getur vel verið, að það mætti koma sér saman um þetta innan samtaka L.Í.Ú., en það er á engan hátt betra en það sé ákveðið í lögunum, fyrst lög eru á annað borð samin um þetta efni. Við vitum það, að fiskurinn er mjög misstór og gæði hans eru talsvert mismunandi, og ég held, að fjölmennari nefndin verði fyrst og fremst til að skýra málin, hver komi með sín sjónarmið, en í flestum tilfellum verði það yfirnefndin, sem taki endanlega ákvörðun. Ég álit, að það væri mikið til bóta, að þessir menn væru sinn úr hverjum landsfjórðungi.

Ég er hálfhissa á því, að jafnvitur maður og hv. 12. Þm. Reykv. (PS) er, skuli ekki sjá, að það er sanngirniskrafa, að sjómenn hafi jafnmarga fulltrúa og fulltrúar Landssambandsins eru. Ég er ekki að segja, að það skipti miklu máli, og ef þessir fjórir menn frá Landssambandinu eru allir einhliða fiskseljendur, þá get ég viðurkennt að það muni ekki skipta miklu máli í framkvæmdinni. En þetta er bara atriði, sem hægt er að skapa óánægju út af, og þess vegna er alveg ástæðulaust að vera að gefa höggstað á sér þannig, alveg ástæðulaust að vekja nokkra óánægju að því leyti til. Hitt má deila um, hvort ástæða væri til að hafa fulltrúana svona marga. Og í sjálfu sér hefur það ekki svo mikið að segja, að fulltrúarnir séu 4 frá Landssambandinu, nema þeim sé dreift út á landsbyggðina, þannig að tryggt sé, að hver fjórðungur hafi sinn fulltrúa. Þá þyrfti líka að fjölga fiskkaupendum.

Ég skal játa það, að ég er þakklátur sjútvmrh. fyrir að hafa hraðað þessu frv. svona. Ég tel frv. á margan hátt til bóta, og eftir því sem frumsamin frumvörp eru, þá er frv. skynsamlega samið, þó að ég álíti, að það séu ýmis atriði, sem væri ástæða til þess að breyta. Það er alls ekki verið að ráðast á efni frv. eða verkið í sjálfu sér. Það er ósköp eðlilegt, þegar farið er að hugsa um hlut, að þá komi fram einhver smáatriði, sem væri æskilegra að breyta. Svo er um 10. gr. Þar er ákvæði, sem hljóðar svo:

„Ákvarðanir verðlagsráðs eru bindandi sem lágmarksverð, og má enginn selja sjávarafla undir því verði, sem ákveðið hefur verið samkvæmt ákvæðum þessara laga.“

Þetta þýðir, að það er óheimilt að selja fiskinn fyrir minna verð en þetta. Og það má kæra manninn, ef hann gerir það.

Nú hefur það komið í ljós, t.d. með samningi, sem gerður var um fisk á s.l. ári, að það var ekki hægt að selja fyrir þetta verð, og ég veit til, að fiskurinn var seldur fyrir 20–30 aurum lægra verð en samkomulagið sagði til um. Nú vil ég spyrja hæstv. sjútvmrh., af því að ég veit, að það er vel gefinn maður, hvað aumingja útgerðarmaðurinn á nú að gera við fiskinn, ef hann getur ekki selt hann fyrir þetta verð og hefur enga aðstöðu til að vinna hann. Á hann að fleygja fiskinum, eða á hann að leggja bátnum, jafnvel þótt hann gæti nú haft um þúsund krónur á dag fyrir að vera á færaveiðum, þótt hann fengi eitthvað lægra fyrir fiskinn? Hvað á aumingja útgerðarmaðurinn að gera, ef honum er alveg óheimilt að selja fiskinn fyrir lægra verð?

Ég held, að þetta ákvæði geti orðið dálítið óþægilegt. Ég hygg, að það hafi komið víða fyrir á s.l. sumri, að menn fengju ekki þetta skráða verð fyrir fiskinn eða það verð, sem hafði náðst samkomulag um, einkum smáfiskinn að sumrinu. Hvað á aumingja útgerðarmaðurinn að gera? Á hann að fleygja fiskinum eða á hann hreint og beint að hætta að veiða hann? Ég álít, að það væri miklu viturlegra að orða 10. gr. Þannig: Ákvarðanir verðlagsráðs eru bindandi sem lágmarksverð á sjávarafla við útreikning á kaupi til sjómanna. — Þetta samkomulagsverð þarf fyrst og fremst að vera trygging fyrir sjómennina viðvíkjandi kaupútreikningi, en það er alveg ómögulegt að slá því föstu, að það geti ekki í vissum tilfellum þurft að selja hann undir skráðu verði. Það er gersamlega ómögulegt. Svo getur viljað til, að hægt sé að selja fiskinn hærra en skráða verðið er. Það er engan veginn útilokað. Það er nefnilega ómögulegt að banna útgerðarmanninum í vissum tilfellum að selja fiskinn eitthvað lægra, og það er ómögulegt að banna honum heldur að selja hann eitthvað hærra, enda er það ekki gert í þessum lögum. Við vitum, að frystihúsin eru misjafnlega vel rekin, þannig að það getur borgað sig fyrir einn frystihúseiganda að kaupa fiskinn hærra verði en annan, og ef það borgar sig fyrir hann, þá gerir hann það. En það er ekki að búast við, að menn kaupi fisk til lengdar, ef það er til skaða fyrir fiskvinnslustöðina.

Annars er þetta ekki svo alvarlegt ágreiningsatriði, að það sé gerandi of mikið úr því. Og ég er satt að segja hálfhissa á fulltrúa sjálfstæðismanna í sjútvn. og fulltrúa okkar að geta ekki komið sér saman um þessa hluti, því að ágreiningurinn er ekki það mikill, og ég er sannfærður um, að þeir hefðu getað þetta, ef þeir hefðu reynt það. En það er oft svo, þegar tveir vitrir menn koma saman, að þá kemur þeim jafnvel verr saman en tveimur meðalgreindum mönnum, og það hlýtur að liggja í því, að þeir þykjast hvor öðrum vitrari.

Hinu er ég aftur á móti ekkert undrandi yfir, þó að fulltrúar Alþb. séu dálítið myrkfælnir við þetta. Ég er hreint ekki hissa á því, því að vitanlega er verið að leiða þá þarna í hina verstu gildru, því að næsta trappan verður vitanlega það, að ef ómögulegt er að semja við sjómenn um hlutaskiptin, þá verður settur gerðardómur í það og svo tröppu af tröppu. Ég er ekkert hissa á, þó að þeir láti ekki festa sig í slíkri gildru eins og tófuhvolp í boga.