09.11.1961
Efri deild: 12. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (2933)

64. mál, réttur verkafólks til uppsagnarfrests og launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er megininntak þessa frv., sem hér liggur fyrir, að veita hafnarverkamönnum, sem unnið hafa eitt ár eða lengur á sama vinnustað, rétt til vikukaups, sem jafngildi dagvinnukaupi fyrir að meðaltali 8 klst. á dag hvern virkan dag vikunnar. Með lögum, sem sett voru 9. apríl 1958, var tímakaupsmönnum og fleirum, sem unnið höfðu eitt ár á sama stað, veittur réttur til eins mánaðar uppsagnarfrests frá störfum, en í hópi tímakaupsmanna eru hafnarverkamenn.

Í þessum l. frá 1958 fólst allmikil vinnutrygging fyrir tímakaupsmenn, sem þannig fengu mánaðar uppsagnarfrest frá störfum. Sá var þó ljóður á þessari lagasetningu, að það voru veittar allmiklar undanþágur í 3. gr. laganna, en undanþágur þessar eru á þá leið, að falli niður atvinna hjá atvinnurekanda, svo sem vegna þess, að hráefni sé ekki fyrir hendi hjá fiskiðjuveri, upp- og útskipunarvinna sé ekki fyrir hendi hjá skipaafgreiðslu, fyrirtæki verði fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli, svo sem vegna bruna eða skiptapa, og verður atvinnurekanda þá ekki gert að greiða bætur til launþega sinna, þó að vinna þeirra nemi eigi 150 klst. á mán., enda missa launþegar þá eigi uppsagnarrétt sinn, á meðan slíkt ástand varir.

Með þessu er þannig rétturinn til uppsagnarfrests að verulegu leyti skertur, því að það er auðvitað lítilsvirði að eiga rétt til uppsagnar, ef viðkomandi launþegi, meðan hann gegnir starfinu, á hvorki rétt til vinnu né kaups. Það var að vísu eðlilegt, þegar þessi lög voru sett, að undir vissum kringumstæðum væri þessi undanþága gerð, sem ég hef vitnað hér til í 3. gr. Þessi undanþága atvinnurekandans, sem leysir hann undir þeim kringumstæðum, sem greindar voru, frá því að tryggja verkamanninum vinnu eða greiða honum kaup, er að mínum dómi og okkar flm. ósanngjörn gagnvart hafnarverkamönnum. Hafnarverkamenn stunda að jafnaði vinnu hjá sama fyrirtæki allan ársins hring, og vinna þeirra er yfirleitt mjög gloppótt, þannig að það er yfirleitt ekki um það að ræða, að t.d. hluta úr árinu hafi þeir samfellda og mikla vinnu, eins og t.d. þeir, sem vinna hjá fiskiðjuverum, sem hér eru nefndir í 3. gr. laganna við hlið manna, sem vinna hjá skipaafgreiðslum. Það er þannig með þá, sem vinna hjá fiskiðjuverum eða hraðfrystihúsum og öðrum slíkum, að þá er oft um mjög mikla vinnu að ræða hluta úr árinu, eins og t.d. á vertíð, en hjá hafnarverkamanninum er þessu ekki til að dreifa. Hans vinna er í raun og veru gloppótt allan ársins hring, en þó verður hann alltaf að vera til staðar og hlýða kalli og mæta í vinnu. Því tel ég, að þessi undanþága 3. gr. l. frá 1958 sé óeðlileg gagnvart hafnarverkamönnum. Þá er rekstur á skipaafgreiðslum ekki heldur háður svo miklum sveiflum, að undanþága frá skyldunni til að greiða kaup eða veita vinnu sé heldur eðlileg. Nú er það að vísu svo, að það er sjálfsagt ekki nema hjá allra stærstu skipaafgreiðslum og skipafélögum, sem því er til að dreifa, að verkamenn vinni að jafnaði allan ársins hring og séu þess vegna búnir að öðlast þennan rétt til uppsagnarfrests. En ég álít, að þessum skipaafgreiðslum yrði það ekki mikill kostnaðarauki og jafnvel sáralítill, þó að þessu væri breytt í það horf, sem frv. gerir ráð fyrir, vegna þess að skipafélögin og afgreiðslurnar gætu með breyttu skipulagi komið því þannig fyrir, að vinnan yrði jafnari og meiri, enda ætti t.d. að vera unnt fyrir þá, sem vinna í sjálfum skipunum, að fá þá atvinnu þess á milli, t.d. í vörugeymsluhúsum eða við annað þess háttar, hjá sama fyrirtæki.

Á þessum lögum er einnig gerð önnur breyting í frv., sem hér liggur fyrir. Í þeim tilfellum, þar sem atvinnurekandinn hefur ekki notið undanþágunnar frá því að greiða kaup eða veita vinnu, þá mun þó 3. gr. l. væntanlega vera skilin þannig, að hann þurfi ekki að ábyrgjast verkamanninum nema 150 klst. á mánuði eða 6 tíma að meðaltali hvern virkan dag, og er þar miðað við, að verkamaðurinn, sem hefur unnið eitt ár, öðlist réttinn til uppsagnarfrests, ef hann hefur á þessu eina ári eða 12 mánuðum unnið 1800 klst., en það jafngildir að sjálfsögðu 150 tímum á mánuði. Þetta verður að teljast mjög óeðlilegt, að verkamaður, sem kominn er á uppsagnarfrest eftir árs starf og vinnur ekki við þá starfsemi, sem hefur undanþágu frá því að greiða honum kaup eða veita honum vinnu, — sá verkamaður, sem þannig á rétt til vinnu og rétt til kaups, hann skuli þó ekki eiga rétt til meira kaups heldur en fyrir 150 klst. á mánuði. Þar væri eðlilegast að miða við almennan dagvinnutíma, sem eru 8 stundir á dag að meðaltali hvern virkan dag mánaðarins. En nú er rétt að vekja athygli á, að hafnarverkamanninum er hér veittur heldur meiri réttur en þessum mönnum, þ.e.a.s. atvinnurekandi hafnarverkamannsins er ekki eingöngu sviptur undanþágunni, heldur fær hafnarverkamaðurinn raunverulega með frv. meiri vinnutryggingu en fyrir 8 klst. að meðaltali hvern virkan dag yfir mánuðinn, Hann fær tryggingu fyrir 8 klst. að meðaltali hvern virkan dag vikunnar, en það er aukin trygging í því að miða þetta við styttra vinnutímabil, vegna þess að ef tekið er t.d. dæmi af hafnarverkamanni, sem ynni 30 tíma í dagvinnu yfir vikuna, ynni svo 5 tíma í eftirvinnu, en það samsvarar í kaupi 8 dagvinnutímum, og ynni síðan 5 tíma í nætureða helgidagavinnu, sem samsvarar 10 tímum í dagvinnu, þá er hann þar með búinn að fá kaup hjá atvinnurekandanum eða skipaafgreiðslunni, sem jafngildir kaupi fyrir 8 klst. að meðaltali hvern virkan dag vikunnar. Aftur á móti ef þetta væri miðað við mánuð, gæti farið svo, að verkamaðurinn næði ekki sumar vikurnar þessu kaupi, en hefði aftur meira aðrar vikurnar, sem yrðu þá látnar vinna þessar lakari upp, þannig að hafnarverkamanninum er á þennan hátt veitt heldur meiri vinnutrygging en öðrum þeim, sem vinnutryggingar njóta, eftir að hafa verið eitt ár í starfi hjá atvinnurekanda.

Ég vildi svo að lokum leggja til, að máli þessu yrði vísað til meðferðar hv. heilbr.- og félmn.