24.11.1961
Efri deild: 22. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (2942)

90. mál, Tunnuverksmiðjur ríkisins

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. nr. 49 frá 29. maí 1957, um Tunnuverksmiðjur ríkisins, hef ég leyft mér að flytja á þskj. 130. Sú breyting, sem hér um ræðir, er í því fólgin, að ríkisstj. er heimilt að byggja og starfrækja tunnuverksmiðju á Akranesi, ef hún telur, að þörf sé á því. Með hliðsjón af því er svo lántökuheimildin til handa ríkisstj. í þessu skyni hækkuð í 6. gr. laganna, þannig að í staðinn fyrir 5 millj. komi 8 millj. kr.

Tunnuverksmiðjur ríkisins hafa nú um allmörg ár starfrækt tvær tunnuverksmiðjur, aðra á Siglufirði og hina á Akureyri. auk þess er heimild til þess að stofnsetja eina verksmiðju til viðbótar, og skal hún staðsett á Norður- eða Austurlandi.

Eins og nú er komið, er mikill hluti af sumarsaltsíldarframleiðslunni framleiddur víðs vegar á Austurlandi. Það virðist því liggja í augum uppi, að rétt sé að stofnsetja þar eina tunnuverksmiðju, en fyrir því er heimild í gildandi lögum um Tunnuverksmiðjur ríkisins,

Um verksvið tunnuverksmiðjanna segir svo í lögunum: „Stefnt skal að því, að allar tunnur, sem saltsíldarframleiðslan þarfnast, séu smíðaðar í Tunnuverksmiðjum ríkisins.” En auk þess er ráðgert, að þar séu smíðaðar tunnur fyrir saltkjötsframleiðslu landsmanna og aðrar framleiðsluvörur, eftir því sem henta þykir. Einn stærsti vöruflokkurinn, sem er ekki sérstaklega tilgreindur í lögunum, er salthrognin. Í meðalári mun sú framleiðsla vera um 30 þús. tunnur, og er það svo til allt framleitt hér sunnanlands. Meðalframleiðsla Faxaflóa- eða Suðvesturlandssíldarinnar hefur reynzt s.l. 10 ár vera rúmlega 811/2 þús. tunnur að meðaltali á ári. Framleiðslumagn Tunnuverksmiðja ríkisins hefur verið nokkuð mismunandi á undanförnum árum, en t.d. s.l. ár voru framleiddar 86 þús. tunnur á Siglufirði og um 57 þús. tunnur á Akureyri. Samtals er þetta lítið eitt yfir meðallag.

Það verður ekki annað séð en að þessi iðnaður, tunnuframleiðslan, eigi fullkomlega rétt á sér og geti staðizt erlenda samkeppni. Á þessum tiltölulega fáu árum, sem verksmiðjurnar hafa verið starfræktar, hafa þær lagt í varasjóð allverulega fjárupphæð, eða kr. 4350521.14. Tel ég, að það tali sínu máli um afkomu fyrirtækisins.

Með hliðsjón af því, sem ég hef nú þegar sagt, tel ég augljóst mál, að hér er um ærið verkefni að ræða, sem ég vænti að hv. alþingismenn geti verið mér sammála um.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að óska þess, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.