27.10.1961
Sameinað þing: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (2965)

48. mál, mótmæli gegn risasprengju Sovétríkjanna

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég tel ekki illa viðeigandi, að einhver þm. óski hv. 4. þm. Austf. (LJós) til hamingju með hans nýja starf og hlutverk. Hann er nú búinn að ryðja hinum gamla brautryðjanda, hv. 3. þm. Reykv. (EOl), úr forustusæti kommúnista hér á Alþingi. Hefur sýnt sig í þeirri ræðu, sem hann flutti hér áðan, að hann ætlar ekki að láta standa á sér að gæta hér hagsmuna heimskommúnismans og einskis annars. Ræða hans var stórfurðuleg og sýndi betur en hægt er að sýna á annan hátt, að kommúnistar eru í mestu vandræðum með þetta mál. Hann sagði oft, að afstaða þeirra væri skýr, þeir væru á móti öllum kjarnorkusprengingum. En svo komu þessi venjulegu skilyrði: en, en, en. Þeir eru reiðubúnir að standa að þessari till., ef Sovétríkin eru ekki nefnd, ef allt, sem að Sovétríkjunum snýr, er tekið út úr henni. Það er þetta skilyrði, sem við gátum átt von á. Kommúnistar eru m.ö.o. tilbúnir að vinna að því, að ekki verði kjarnorkusprengingar í heiminum, svo framarlega sem menn snerta ekki við Sovétríkjunum eða nefna þau í þeirri baráttu. Þetta kemur engum á óvart.

Ég vil segja almennt um þessa till., að hún er í tveimur greinum, eins og sjá má á þskj. 57. Í fyrri greininni eru mótmæli gegn sprengingum, sem Sovétríkin hafa framkvæmt nú undanfarið við Norður-Íshaf. Af hverju eru þessar sprengingar tilgreindar? Af hverju eru Sovétríkin nefnd þarna á nafn? Mjög skýr og föst rök eru fyrir því. Það er gert vegna þess, að Sovétríkin hafa nú rofið hlé, sem hefur verið á kjarnorkusprengingum, og það er meira brot að rjúfa það bann heldur en þótt sprengd hefði verið ein sprengja í langri röð af sprengingum, eins og gerðist fyrr á árum. Og í öðru lagi eru þessar sprengingar komnar svo nálægt Íslandi og geta snert okkur á þann hátt, að það er rík ástæða til fyrir okkur, ríkari en nokkru sinni, að við látum frá okkur heyra einmitt sérstaklega um þessar sprengingar. Í þriðja og síðasta lagi hefur verið sprengd sprengja, sem er örugglega einhvers staðar á milli 30 og 50 megatonn, þar af leiðandi mörgum sinnum stærri og geigvænlegri en nokkur sprengja, sem hefur verið sprengd áður. Það má benda á, að Sovétríkin sprengdu 22 sprengjur við Norður-Íshaf, áður en flm. hreyfðu sig með þessa till. En eftir að þessi óvenjulega sprengja, sem allir viðurkenna að er mörgum sinnum hættulegri fyrir allt mannkyn en nokkrar fyrri sprengingar, eftir að hún kom til skjalanna, var ákveðið að flytja till. Þá var augljóst, að ekki er nokkur lifandi leið á þessum degi að tala um kjarnorkusprengingar án þess að nefna sprengingar Sovétríkjanna.

Seinni mgr. er einmitt þess efnis, að Alþingi skori á öll kjarnorkuveldi heims að gera hið fyrsta samkomulag um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn og öruggt eftirlit með því. Það er ekki hægt að vildast á því, hvað fyrir okkur vakir, og þessi grein, sem er almenn, á jafnt við öll kjarnorkuveldi, hvort sem þau eru í austri eða vestri.

M.ö.o.: fyrsta mgr. er um það einstaka tilefni, sem hefur gefizt og er tilefni till. Síðari mgr. er um þann efnislega höfuðkjarna málsins. Ég get því að mínu leyti sagt, að ég tel algerlega óþarft að breyta þessari till. á þann hátt að hætta við að nefna Sovétríkin þar einu orði.

Hv. 4. þm. Austf, þóttist vera að leiðrétta frásögn 1. flm. af því, sem gerzt hefur varðandi kjarnorkusprengingar. Hann var sá vísi sögumaður, sem kunni þetta rétt og setti ofan í við aðra fyrir, að þeir færu rangt með sögulegar staðreyndir. Heldur þessi hv. þm. fram, að Sovétríkin hafi lýst yfir 1958, að þau ætli að hætta kjarnorkusprengingum einhliða, síðan hafi hinir haldið áfram að sprengja, en Sovétríkin engu að síður staðið við hið fagra loforð og hætt. Sannleikurinn í þessu máli er sá, að síðustu kjarnorkusprengingar Bandaríkjanna voru í október 1958, en Sovétríkin sprengdu tvær risasprengjur 2. og 3, nóv., þannig að síðustu sprengingarnar voru hjá Sovétríkjunum. Um leið og síðasta sprengja Bandaríkjamanna var sprengd, lýstu þeir yfir, að þeir mundu ekki sprengja fleiri, og þeir lýstu yfir, að það mundi standa, þegar Rússar sprengdu sprengjurnar tvær, og stóðu við það.

Ég vil taka fram, að ég lít svo á, að almenningsálitið í heiminum hafi knúið bæði þessi stórveldi til að hætta sprengingum. En eins og hv. 4. þm. Austf. setti málið fram, fer hann algerlega rangt með það, sem gerðist, ef trúa má öruggum og mörgum heimildum.

Hv. 4. þm. Austf., talsmaður heimskommúnismans hér á Alþingi, notaði að sjálfsögðu nákvæmlega sömu rök og talsmenn Sovétríkjanna hafa gert, frá Krústjoff og niður til hins lægsta. Höfuðröksemdin var sú, að eitt af Atlandshafsveldunum, Frakkland, hafi gert sig sekt um að sprengja kjarnorkusprengjur í Saharaeyðimörkinni.

Ég hef á öðrum vettvangi tekið afstöðu á móti þeim tilraunum Frakka og skrifað um, að þær væru tilgangslausar og hættulegar. Ég vil láta það koma fram hér, að það hefur verið hverjum manni ljóst, sem eitthvað hefur fylgzt með alþjóðamálum, að þessar sprengingar Frakka voru gerðar í trássi við bandamenn þeirra. Sannleikurinn er sá, að Bandaríkjamenn hafa aldrei viljað láta Frakka fá neitt af þeim leyndarmálum, sem mönnum skilst að þurfi til að framleiða þessar helsprengjur. Það hefur ekki verið af háleitum hugsjónum, heldur eingöngu af því, að þeir treysta því ekki, að leyndarmálin leki ekki út hjá Frökkum. Þetta hefur Frökkum þótt vera niðrandi fyrir sig, og er það að vissu leyti. Í þeirri þjóðernisvakningu, sem staðið hefur yfir í Frakklandi til að reyna að endurheimta eitthvað af þeirri fornu frægð, sem hefur hrunið með nýlenduveldi Frakka, hafa þeir gripið til þess að reyna að stækka sig með því að sprengja þessar sprengjur í Sahara. Nú hafa þeir vissulega ekki stækkað sig í augum almenningsálitsins í heiminum. Þeir hafa gert þetta í trássi við bandamenn sína, af því að þeir neituðu að fá þeim í hendur kjarnorkuvopn. Það veit hvert mannsbarn. Þegar þjóð eins og Frakkar byrjar að sprengja og læra stafrófið í hinu flókna kveri kjarnorkunnar, eru þeir að stíga fyrstu skrefin, eins og hv. 1. þm. Austf. benti hér á áðan, og er því vísindalega ekki um neina nýja hluti að ræða. Ég efast ekki um, að þeir njósnarar, sem hafa starfað fyrir Sovétríkin í kjarnorkuverum vesturveldanna síðan stríðinu lauk. hafi fært Sovétríkjunum á silfurbakka 10–20 sinnum, svo að ég nefni einhverjar tölur, meiri ég mikilsverðari vitneskju um kjarnorkuframleiðslu heldur en Frakkar hafa lært af sínum sprengjum. Sovétríkin gátu fagnað kjarnorkusprengingum Frakka, af því að þær hafa gert Atlantshafsbandalaginu, Frökkum sjálfum og hinum frjálsa heimi ógagn. En það eru ekki röksemdir, sem hægt er að taka alvarlega, ef á að telja, að þessar tvær eða þrjár sprengjur í Saharaeyðimörkinni séu tilefni til þess að sprengja 24 stórsprengjur, þ. á m. 30–50 megatonna sprengjur.

Þegar litið er á kjarnorkumálin í heild, blasir við, að í síðustu styrjöld framleiddu Bandaríkjamenn kjarnorkusprengjur; og munu hafa gert það í þeirri trú, að um væri að ræða kapphlaup á milli þeirra og þýzkra vísindamanna um það, hvorir yrðu fyrri til. Fylgdi því kapphlaupi og úrslitum þess væntanlega, hvorir mundu sigra í styrjöldinni og ráða heiminum, nazistar eða hinar frjálsu þjóðir. Sprengjurnar voru sprengdar í lok styrjaldarinnar, og menn um allan heim hafa, hvorum megin sem þeir voru í stríðinu, haft mikla samúð með því fólki í Japan, sem varð fyrir þeim, og það er von allra, að það fólk verði ekki aðeins það fyrsta, heldur og það síðasta á þessari jörð, sem lætur lífið fyrir kjarnorkusprengingum.

Mönnum varð þegar ljóst, að hér var um að ræða nýtt ógnarvopn, sem mátti ekki fara með á sama hátt og önnur vopn, sem beitt hafði verið

Í átökum þjóða. Þess vegna kom fram þegar í lok stríðsins, 1946, Baruch-áætlunin svonefnda frá Bandaríkjunum, þar sem Bandaríkin buðust til að láta þessa sprengju og allt, sem henni fylgdi, af hendi og að stofnun; sem Sameinuðu þjóðirnar settu upp og stjórnuðu, skyldi taka við öllu saman. Baruch-áætluninni var hafnað, því miður, getur mannkynið sagt, — en ef við viljum horfa raunhæft á heimspólitík, má segja, að það sé skiljanlegt, að Sovétríkin skyldu ekki fallast á áætlunina, því að leiðtogar Sovétríkjanna sáu vissulega, hvaða átök voru fram undan. Þeir sáu, að til að standast í þeim átökum yrðu þeir líka að hafa kjarnorkusprengju, og því varð ekkert úr þeirri áætlun, að Sameinuðu þjóðirnar tækju við kjarnorkuvopnum og yrðu eini aðilinn í heiminum, sem hefði þau á sinni hendi.

Það er raunar athyglisvert í sambandi við þær fullyrðingar, sem hv. 4. þm. Austf. var með um, að Atlantshafsbandalagið væri árásarbandalag, sem gengist fyrir stórkostlegu vigbúnaðarkapphlaupi, að benda á það tímabil, þegar höfuðríki Atlantshafsbandalagsins höfðu ein allra ríkja kjarnorkuvopn. Kalda stríðið var byrjað, menn eins og Winston Churchill vissu vel og á undan mörgum öðrum, hvað var að gerast. Kalda stríðið var byrjað, en þessar þjóðir notuðu ekki sín kjarnorkuvopn, Ef það er rétt. sem kommúnistar segja í tíma og ótíma, að Atlantshafsbandalagið og allt, sem því við kemur, sé samsæri kapítalista, hermangara og annarra slíkra, sem miði að því að ráðast á Sovétríkin og brjóta niður sósiallstískt þjóðskipulag, af hverju slepptu mennirnir þessu tækifæri? Þó hlaut hver maður að vita, að forskotið mundi ekki verða nema nokkurra ára bil. En það tækifæri var ekki notað, og það tækifæri er farið. Það tækifæri fá þeir ekki — og sennilega engin önnur þjóð — nokkurn tíma framar. En þarna er raunar kjarninn í kjarnorkukapphlaupinu. Menn sáu og sjá, hvað getur orðið, ef annar aðilinn hefur augljósa yfirburði. Þess vegna keppast bæði Austur og Vestur við að hafa þessi vopn og sem fullkomnust, til að vera alltaf viss um það, að hinn hafi ekki betur og geti sigrað í trausti þess mismunar. Þetta jafnvægi óttans er óhugnanlegt að hugsa um fyrir friðsama borgara, en þetta er þó höfuðpólitísk staðreynd í því umhverfi, sem okkar kynslóð býr í, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Ég tók ekki þátt í neinum mótmælum, þegar það var upplýst, að Sovétríkin hefðu fengið kjarnorkusprengjur. Það var raunar ekki mjög mikið um þau mótmæli á vesturlöndum, af því að menn sáu þá heimspólitísku staðreynd, að þau hlytu að fá sprengjurnar líka. Þegar Sovétríkin höfðu fengið þessar sprengjur, var komið á það jafnvægi, sem margir trúðu að gæti orðið til þess, að hvorugur aðilinn snerti nokkru sinni þessi vopn. Úr því að kjarnorkuvopn einu sinni voru komin í þennan heim, virtist mörgum, að e.t.v. væri slíkt jafnvægi óttans bezta vonin um, að þessi vopn yrðu aldrei notuð.

Ég hygg, að ástæðan fyrir því, að stórveldin þrjózkuðust gegn almenningsáliti heimsins við að hætta þessum sprengingum á árunum 1956 og 1967 og fram eftir 1958, hafi verið sú á bak við tjöldin, að þau voru ekki viss um, að aðstaða þeirra væri nægilega góð til að tryggja þetta jafnvægi kjarnorkuvopna eða jafnvægi óttans. Nú lesum við Þjóðviljann, sem framfylgir ekki þeirri stefnu að vera á móti kjarnorkusprengingum alls staðar, nema að mjög takmörkuðu leyti. Þjóðviljinn hefur ekki frá eigin brjósti, að því er ég hef séð, sagt neitt á móti kjarnorkusprengingum Rússa. Hann hefur birt á lítt áberandi stað mótmæli frá öðrum, en hann hefur líka birt stóra ramma með afsökunum fyrir Sovétríkin í sambandi við þetta uppátæki. Blaðið segir ekki einu sinni innan um sovétáróðurinn, eins og hv. 4. þm. Austf., að það sé á móti öllum sprengjum. Þjóðviljinn hefur beinlínis sett fram það, sem hann telur vera rök fyrir sprengingum Sovétríkjanna. Þau eru sú tölulega staðreynd, að hingað til hafa Bandaríkjamenn sprengt rúmlega helmingi fleiri kjarnorkusprengjur en Sovétríkin. Í því sambandi er rétt að taka tillit til þeirrar viðurkenndu staðreyndar, að vísindamenn, sem hafa starfað að kjarnorkurannsóknum hjá vesturveldunum, bæði í Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum, en verið kommúnistar að trú og starfi, hafa sem njósnarar flutt Sovétríkjunum svo mikilvægar upplýsingar um þróun þessara tækja, að kunnugir menn hafa látið sér um munn fara, að það hafi flýtt fyrir sprengingum í Sovétríkjunum um fjölda ára. Þegar við tökum tillit til þessa, tel ég, að það hafi verið fullkomlega réttmætt að segja, að það hafi verið eðlilegt jafnvægi og milli kjarnorkuveldanna, þegar þau bæði hættu sprengingunum seint á árinu 1958. Það felst því ekki í þeim tölulega mismun nein réttlæting á því, að Sovétríkin byrji aftur að sprengja. Ef sá tölulegi mismunur væri gild afsökun fyrir því að byrja aftur, hvers vegna drógu Sovétríkin það í 21/2 ár?

Það mætti flytja langt mál um ýmis atriði í sambandi við ræðu hv. 4. þm. Austf. Ég vil enn aðeins nefna eitt, plötuna um, að Vestur-Þýzkaland sé undir yfirráðum nazista og undirbúi kjarnorkustríð í austur á nýjan leik. Mér er fullkomlega ljós sú hætta, sem er á endurvakningu nazismans. En ég get ekki tekið undir það, að nazistar ráði Vestur-Þýzkalandi, þó að þeir séu þar sjálfsagt til. Ég hygg, að nákvæm rannsókn mundi sýna, að þeir eru ekki færri og í ekki minni trúnaðarstöðum austan við járntjaldið í Þýzkalandi heldur en vestan. Það er athyglisvert, að einmitt íslenzkir kommúnistar eru búnir að eignast andlegt frændríki þar fyrir austan. Það er sem sagt við háskóla í norðanverðu Austur-Þýzkalandi, háskólann í Greifswald, starfandi svonefnd norræn stofnun, sem viðurkennt er að er áróðursmiðstöð og njósnamiðstöð fyrir kommúnista gagnvart Norðurlöndum. Þetta er viðurkennd staðreynd, og hafa verið birtar upplýsingar um það, hvernig sú starfsemi fer fram og hvernig þræðirnir eru á milli hennar og hinna utanríkispólitísku deilda í kommúnistaflokki Austur-Þýzkalands. Íslenzkir kommúnistar fara oft í pílagrímsferðir á þessar slóðir. Brynjólfur Bjarnason hefur verið þar og átt ýtarlegar viðræður við austur–þýzk yfirvöld um það, hvernig þau vildu taka að sér að þjálfa Íslendinga í kommúnistískum áróðursstörfum. Hann hefur flutt þar langa fyrirlestra með mjög merkum sögulegum upplýsingum um starf kommúnista fyrr á árum. Ég nefni þetta hér einmitt vegna þess, að yfirmaður þessarar stofnunar er fyrrverandi nazistaforingi á Íslandi, Þjóðverji, og hefur verið skjallega sannað, að hann var agent Hitlers hér á land. Hann er hinn andlegi faðir yfir þeirri stofnun, sem nú hefur slíka þýðingu fyrir allt starf kommúnista hér á Íslandi og raunar víða um Norðurlönd. Þessir menn ættu ekki að standa hér upp og prédika um völd nazista í VesturÞýzkalandi, þeir ættu að líta sér nær í þeim stofnunum, sem þeir sækja til vizku og styrk og hver veit hvað meira.

Hv. 4. þm. Austf. endaði á því, sem jafnan fylgir, þegar kommúnistar tala um utanríkismál, að taka til umræðu það, sem hann kallar herstöð Bandaríkjanna á Íslandi. Ég vil aðeins minna á þá staðreynd, sem þarf ekki að spyrja um hér á Alþingi, að varnarliðið er hér á Íslandi samkvæmt samningum og hefur eingöngu varnarhlutverk, ein öngu rétt til aðgerða, sem eru varnareðlis. Íslenzk yfirvöld hafa aldrei léð máls á því, svo að mér sé kunnugt um, — þó að hæstv. ráðh. geti sjálfsagt gefið fyrir sitt leyti og stjórnarinnar um það upplýsingar, — að hér á landi væri nokkur aðstaða til árása á önnur lönd, nokkur vopn til slíkra aðgerða, þ. á m. auðvitað engin kjarnorkuvopn. Slík aðstaða er ekki á Íslandi og hefur ekki verið leyfð. Við höfum fylgt sömu stefnu og Norðurlöndin, Noregur og Danmörk, að því leyti, að þau leyfa ekki slíka árásaraðstöðu hjá sér heldur.

Þetta vita Sovétríkin mætavel. Ég hef á flugsýningu á Reykjavíkurflugvelli horft á starfsmenn rússneska sendiráðsins taka kvikmyndir af öllum þeim flugvélagerðum, sem eru hér á Íslandi, og þeir vita vel, að engin þessara flugvéla gæti flutt kjarnorkusprengju eða gert slíka árás á Sovétríkin. En einmitt þessi staðreynd, að hér á landi eru ekki meiri hernaðartilburðir en miðlungsvarnir hjá sambærilegum þjóðum, en engin árásaraðstaða, — einmitt þessar staðreyndir kollvarpa öllum hótunum kommúnista árum saman um það, að hér séu skotmörk fyrir kjarnorkuvopn. Það má tala um, að eldflaugastöðvarnar í Englandi séu skotvopn fyrir kjarnorkusprengjur, af því að þar eru kjarnorkusprengjur, sem miðað er sjálfsagt austur yfir meginlandið. En það er ekkert slíkt hér á Íslandi, og þar af leiðandi eru allar hótanir, sem við erum búin að hlusta á árum saman, allar þær teikningar, sem við höfum séð í áróðurspésum kommúnista, þar sem þeir setja niður kjarnorkusprengjur á ýmsa hluta Íslands og teikna svo dökkt helský yfir Reykjavík, — þetta er allt vísvitandi áróður, sem miðar eingöngu að því að hræða Íslendinga frá þeirri utanríkisstefnu, sem yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar styður og nefur samþykkt við kosningar eftir kosningar. Hér er nákvæmlega sama baráttuaðferðin notuð að reyna að hræða með kjarnorkuvopnum eins og Krústjoff reynir með þeim sprengingum, sem koma í lok 22. þings kommúnistaflokksins, til að reyna að hræða í fyrsta lagi aðra kommúnista til hlýðni við hina rússnesku, og þá ekki sízt kínversku kommúnistana, og í öðru lagi til þess að reyna að hræða allt mannkyn til ótta við Sovétríkin, til þess að reyna að fá menn eins og okkur til að beygja okkur og segja: Jú, það er bezt að halda langan nefndarfund, það er bezt að taka upp strokleðrið og þurrka Sovétríkin út úr tillögunni, það er bezt að gera hana þannig, að hv. 4. þm. Austf., aðalagent alþjóðakommúnismans á Íslandi nú orðið, geti sætt sig við hana. Það yrði víst gagn að því fyrir heimsfriðinn.

Komið hefur í ljós, að þessar rússnesku sprengingar eru í fyrsta lagi brot á kjarnorkusprengingahléi, sem allt mannkyn gerði sér miklar vonir um, eru í öðru lagi svo nærri Íslandi, að þær hljóta að varða okkur sérstaklega, og í þriðja lagi byggjast á svo stórum sprengjum, að ekkert, sem áður hefur verið gert, jafnast á við þær. Þessir viðburðir eru eðlilegt tilefni til þess, að Alþingi Íslendinga láti í ljós í fyrsta lagi mótmæli sín gegn þessum sprengingum, mótmæli þeim og skori á Sovétríkin að halda ekki áfram á þessari braut, lýsa síðan þeirri höfuðskoðun að skora á öll kjarnorkuveldi heims að gera hið fyrsta samkomulag um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn og öruggt eftirlit með því. Ég legg áherzlu á síðustu orðin: öruggt eftirlit, því að ég veit vel, að ef við settumst á nefndarfund og tækjum upp strokleðrið, mundi því verða komið að, hvort það væri nokkur þörf að tala um þetta eftirlit. Sovétríkin hafa nefnilega aldrei viljað fallast á eftirlit með kjarnorkubanni, sem til nokkurs væri nýtt.