27.10.1961
Sameinað þing: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (2966)

48. mál, mótmæli gegn risasprengju Sovétríkjanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi leyfa mér að taka undir þau orð, sem hér voru mælt af formanni þingflokks Alþb., hv. 4. þm. Austf. (LJós), um afstöðu okkar almennt í þessum málum. Svo vil ég leyfa mér að átelja þá framkomu, sem hér er höfð við framlagningu þessarar till. af tveim flm. hennar.

Hinn fyrri gerir það að sinni till., að þetta mál fari ekki í nefnd, að málið verði afgreitt í dag nefndarlaust. Það hefur ekki sérstaklega oft komið fyrir hér á Alþingi, að slíkar tillögur hafi verið gerðar. Upphaflega, þegar Atlantshafsbandalagið var rætt, var meiningin að afgreiða þetta svona, en varð ekki, þótt lítill væri sá nefndarfundur, og það þykir hér í þingsölunum bera vott um, að þeir, sem flytja slíkar tillögur og vilja ekki fá þær í nefnd, vilji frekar beita valdi en rökum. Ég veit ósköp vel og heyri það á þeim, sem með Atlantshafsbandalaginu standa, að þeir virðast mjög tilleiðanlegir til þess að beita valdi hér á Alþingi og brjóta þingreglur, og þeir hafa gert það fyrr. En ég veit ekki, hvort það er heppilegasti hátturinn, þegar verið er að ræða önnur eins alvörumál og kjarnorkumálin í heiminum núna, að koma fyrst og fremst fram sem valdbeitendur. Ég held, að það sé einmitt sú valdstefna, sem uppi er í veröldinni, það að útkljá hlutina með valdi, sýna, hvor sé sterkari, sem heiminum stafi hvað mest hætta af, vegna þess, hvílík vopn það eru, hvílík ógnatæki það eru, sem að vísu líka gætu verið til góðs, eins og kjarnorkan. sem mannkynið ræður nú yfir. Ég held því, að þeir, sem segjast vilja fara að flytja þann góða boðskap, mennirnir eigi að reyna að koma sér saman, eigi ekki að byrja með því sjálfir að beita valdi, þótt í smáu sé. Að vísu höfum við orðið varir við þessa tilhneigingu í ríkari mæti hér á Íslandi, ekki sízt nú í sumar og alveg sérstaklega nú í byrjun ágúst, að vægðarlaus valdbeiting ríkisvalds sé hið eina heppilega. Það er verið að sýna það, þótt í smáum stíl sé, hvernig sá hugsunarháttur eitrar afstöðuna á milli mannanna og veldur því, að menn berjast og menn hætta að skilja hverjir aðra, og leiðir yfir þjóðirnar ógnir og alls konar ill örlög.

Ég álít, að mál eins og þetta eigi að fara í nefnd, eins og slík mál hafa farið hér áður. Og ef það er ekki meiningin, þá vakir eitthvað annað fyrir hv. flm. en það, sem ég hélt þó að hlyti að vera meiningin, þegar rætt er um svona mál, að reyna að beita áhrifum Alþingis Íslendinga til þess að stöðva kjarnorkusprengingar, koma í veg fyrir kjarnorkustríð og knýja fram allsherjarafvopnun. Ég hélt, að það væri ekki meiningin. Þó heyrðist mér það á því, sem hv. 5. þm. Vesturl. mælti hér áðan, og ég hélt, að það væri ekki meiningin fyrst og fremst að sprengja hér pólitískar púðurkerlingar, eins og hann var að gera, heldur að reyna að ræða hér mál af alvöru. Og þegar verið er að hafa fögur orð í framsöguræðu um það, að menn vilji, að menn reyni að sameinast um slík mál, þá stingur það nokkuð í stúf við það, sem brauzt út hjá hv. 5. þm. Vesturl., og gefur satt að segja tilefni til að fara að ræða allmarga hluti, þegar hann er búinn að koma inn á alla þá hluti, sem hann kom inn á.

Það hefur ekki vantað hjá þeim mönnum, sem hér hafa talað fyrir þessari till., allþung orð. Sprengingarnar á kjarnorkusprengjum eru náttúrlega orðnar glæpsamlegar, þegar það eru Sovétríkin, sem gera þær, þótt þær hafi ekki verið það alltaf. Það er farið að túlka það, sem gerzt hefur undanfarið, sögulega gersamlega rangt. Það er svo farið af hálfu sumra, eins og hv. 1. þm. Austf., að bæta því inn í, að Rússar, þessir vondu Rússar, séu nú að nota Frakka sem skálkaskjól, þeir hafi framið hvers konar lævísi og þeir séu líklega að ógna frjálsum þjóðum heims, til þess að þær beygi sig. Ég held, að það sé ekki út frá svona forsendum, sem við eigum að ræða þessi mál. Vilji menn, eins og hv. 5. þm. Vesturl. fór að ræða hér áðan, fara að ræða um ýmislegt ástand í Þýzkaland, bæði að austan og vestan, þá er það vissulega hægt. En ég vil átelja það, að þm. hér í þessum ræðustól skuli leyfa sér að vera að sverta menn, sem vinna þó starf fyrir íslenzka menningu, eins og suður í Greifswald í Austur-Þýskalandi, og ég álít til skammar fyrir hv. 5. þm. Vesturl. að vera að rógbera hér prófessor Bruno Kress í sambandi við þessi mál, tilla hann hér sem nazistaforingja, mann, sem var rekinn úr nazistaflokknum hér, þótt hann yrði að vera í honum eins og flestir aðrir Þjóðverjar, sem hér voru þá, og reyna að spinna upp alls konar historíur, sem hann hefur verið með í sínu blaði um áróðursmiðstöð þar syðra, sem við eigum að hafa sérstakt samband við. Hann veit, að þetta eru allt saman lygar. Það er sjálfsagt af honum að bera fram svona lygar í Alþýðublaðinu, það er slíkt lygablað, að það er ekki til annars. Það dettur engum manni í hug nokkurn tíma að svara neinu, sem þar stendur. En það er allhart, að einmitt þeir menn, sem eru þó að reyna að vinna að því að reisa við virðingu og áhuga fyrir íslenzkri tungu og íslenzkum bókmenntum í Þýzkalandi, skuli einmitt fá þessa hluti framan í sig héðan. Það eru gefin út rit í háskólanum í Greifswald, það er alveg rétt. Það hafa líka verið gefin út sérstök rit þar í sambandi við Eystrasaltsvikuna. Í síðasta heftinu, mjög þykku og stóru hefti, þar sem eru alls konar bókmenntalegar rannsóknir og málslegar rannsóknir viðvíkjandi sögu Íslands og sögu Norðurlanda og annað slíkt, er m.a. alveg sérstaklega vel og vinsamlega skrifuð grein um Háskóla Íslands, þegar hann var 50 ára. Þótt Greifswald hafi á sínum tíma verið miðstöð nazista og einhverjir Íslendingar kannske haft samband við hana þá, skal ekki 5. þm. Vesturl. halda, að hann geti umsnúið svona hlutum. —[Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði þar komið minni ræðu, að ég hafði beint nokkrum orðum til hv. 5. þm. Vesturl. út af óviðurkvæmilegum orðum og rógi, sem hann hafði hér í frammi áðan og mér fannst alveg nægilegt að kæmi í hans blaði, frekar illa þokkaða blaði, en hann þyrfti ekki að vera að endurtaka hér á Alþingi, þar sem aðstaða er þó til þess að reka það ofan í hann. Satt að segja er það svo, að í Þýzkalandi og þá jafnt í Austur sem Vestur-Þýzkalandi hefur íslenzk menning og íslenzkar bókmenntir og íslenzk tunga ekki átt sérstaklega auðvelt uppdráttar eftir styrjöldina, m.a. vegna þess, hvernig nazistar höfðu á ýmsan hátt reynt að misnota okkar bókmenntir í sambandi við sínar kynstofnskenningar, þannig að við megum þvert á móti vera hverjum þeim þýzkum vísindamanni þakklát, sem vinnur að því að reyna aftur að fara að kenna íslenzka tungu og útbreiða íslenzka tungu og íslenzkar bókmenntir, hvort sem það er í Austur eða Vestur-Þýzkalandi. Og Bruno Kress hefur unnið ágætlega að þeim hlutum, hann og prófessor Bättke, sem lengi hefur verið íslenzkukennari í Leipzig og kom hér heim fyrir nokkrum árum og var fagnað hér vel. Og það er ákaflega hart til þess að vita, að þeir menn, sem eru að vinna gott verk fyrir íslenzkan málstað úti í löndum og fyrir okkar menningu, skuli vera svívirtir hér heima, en tekur þó fyrst í hnúkana, þegar hér á Alþingi er farið að bera fram slíkan róg eins og hv. 5. þm. Vesturl. bar nú fram. Hinu þarf ekki að svara, hve fjarri og vitlaust það er, sem hann heldur fram viðvíkjandi áróðursmiðstöðvum og öðru þar syðra. Hitt er svo ekkert undarlegt, þó að greinar, bæði eftir mig, eins og einu sinni var verið að vitna í í Alþýðublaðinu og slá mjög mikið upp, og aðra menn komi í þýzkum blöðum. Það er ekkert undarlegt, og hef ég satt að segja sjaldan séð hlægilegri meðferð á hlutunum en þá, sem þessi hv. þm. hefur reynt að hafa í frammi í sambandi við að snúa út úr slíkum greinum. En ég skal ekki gera það að lengra umtalsefni hér, heldur sagði ég þetta aðeins til þess, að það stæði ekki ómótmælt, heldur væri rekinn ofan í hann sá rógur, sem hann hafði hér í frammi.

Svo spurði hv. 5. þm. Vesturl., hvernig í ósköpunum hefði staðið á því, meðan Ameríkumenn hefðu haft einir sprengjurnar, — það sannaði, að það væri ekki mikill árásarkrafturinn í þeirra bandalögum, — að þeir hefðu ekki lagt til stríðs við Sovétríkin á árinu 1951 eða þar í kring. Er hv. þm. búinn að gleyma svo gersamlega, eða hefur öll veraldarsagan snúizt svo í hausnum á honum, að hann muni nú ekki lengur? Man hann ekki einu sinni eftir Kóreustyrjöldinni? Man hann ekki einu sinni eftir því, að Ameríkumenn stóðu í stríði þar við Norður-Kóreu og síðan við Kínverja? Þá byrjaði Suður-Kórea að undirlagi Dulles, og svo framarlega sem hv. 5. þm. Vesturl. vill fara að rökræða það, þá er það velkomið. Þar byrjaði Suður-Kórea, rétt eftir að Dulles var búinn að athuga þar vel allar aðstæður og sjá til þess, að nægileg hergögn og annað slíkt væri þangað komið, til þess að leppar þeirra í Suður-Kóreu gætu haldið af stað. Og kannske hv. þm. sé líka búinn að gleyma því, að þessi styrjöld, sem Suður-Kórea og fasistaforingjarnir þar hófu, var þá básúnuð út í heiminum sem varnarstyrjöld vesalings lýðræðisins í Suður-Kóreu, sem hefði orðið fyrir árásum af heimskommúnismanum, og ég man ekki, hve hjartnæm lýsingarorð voru notuð til þess að sýna fram á, hve dásamlegt lýðræði hefði verið í Suður-Kóreu og hve heimskommúnisminn væri nú vondur að ráðast á þetta ágæta land. Og hvað eru svo þessir sömu herrar, eins og hann, eins og hv. 5. þm. Vesturl., að segja nokkru seinna? Að mennirnir, sem hefðu stjórnað í Suður-Kóreu, væru með verstu fasistaföntum heimsins, árásarseggir og glæpamenn, sem fólkið seinna meir bylti þar frá völdum og Ameríkumenn reyndu að þvo hendur sínar af. Nei, vissulega, þessi leppbandalög Ameríkumanna og leppríki þeirra reyndu á þessum tíma svo sem, hvar þau gætu. Þau reyndu sig þarna í Kóreustyrjöldinni og fóru á rassinn á endanum, og þeim hefur líklega ekki litizt sérstaklega efnilegt að fara að leggja í stærri slag út af því. Og þurftu ekki einu sinni Sovétríkin að grípa þar inn í. Ég man ekki betur en kínverski herinn, þó að hann hafi þá verið svo að segja nýkominn úr 30 ára borgarastyrjöld, hafi aðstoðað Kóreumenn við það að reka Ameríkumennina til baka.

Hann heldur kannske, hv. 5. þm. Vesturl., að önnur stórveldi Atlantshafsbandalagsins en Bandaríkin hafi ekki sýnt sig í neinum slíkum aðförum þennan tíma og hafi bara stundað friðsamlega iðju. Er hann t.d. búinn að gleyma hernaði Frakka í Víet-Nam, 7 ára stríðinu, 7 ára nýlendustríði, með svívirðilegustu stríðum, sem háð hafa verið, vegna aðferðanna, sem notaðar voru í því, áður en blóðbaðið í sambandi við Alsír byrjaði? Er þessi hv. þm. búinn að gleyma, hvað gerzt. hefur á þessum tíma, eða er hann bara svona, eins og hann vilji ekki sjá það? Hafði ekki Frakkland nóg að gera með 7 ára stríði í Víet-Nam að reyna að berja niður þá þjóð, sem vildi þar reyna að afla sér frelsis og brjóta af sér nýlendufjötrana? Ætli þeir hafi verið færir um að gera miklu meira, svo að Bandaríkin hefði kannske langað til þess að siga þeim út í styrjöld í Evrópu? Sýnist ekki þessum hv. þm., að Frakkar hafi ekki aðeins farið á rassinn í Víet-Nam og orðið að gefast upp, heldur hafi átt fullt í fangi með að standa síðan í stríðinu í Alsír? Eru þeir ekki búnir að standa nú önnur 7 ár í styrjöld þar, án þess að geta einu sinni barið niður frelsishreyfingu þeirrar þjóðar? Hafa ekki þessir forverðir frelsisins, eins og hann kallar þá stundum, Atlantshafsbandalagið, — hafa þeir ekki verið að styðja Frakka allan þennan tíma í Alsír? Hefur ekki verið barizt með NATO-vopnum þar? Og ætli Frakkar hafi verið aflögufærir til þess að fara í styrjöld í Evrópu á meðan?

Ég vil segja þessum hv. þm. það, að þó að hann geti í Alþýðublaðinu logið eins og hann vill og hafi e.t.v. einhverja menn þar til þess að trúa sér, þá þýðir ekkert fyrir hann að koma upp hér á Alþingi og ætla að fara að tala eins og hann talar í Alþýðublaðinu. Hann fer að tala um, að Sovétríkin hafi rofið eitthvert hlé. Að svo miklu leyti sem hlé var, þá voru það Sovétríkin, sem hófu það einhliða. En hverjir rufu það hlé? Voru það ekki Frakkar? Heldur hv. 5. þm. Vesturl., að hann þurfi að segja okkur nokkurn skapaðan hlut um, hvað þar hafi verið að gerast í sambandi við þær sprengingar? Ég býst við, að hann sé ekki svo blindur á þróunina í Evrópu, sem nú fer fram, bæði á sviði iðnaðarins og hertækninnar, að hann sjái ekki, hvað þar er að gerast, að hann sjái ekki það, að Vestur-Þýzkaland, sem nú hefur á þessum 10 árum farið fram úr bæði Englandi og Frakklandi hvað iðnaðarframleiðslu snertir, farið stórum fram úr þeim, er orðið voldugasta iðnaðarlandið í Vestur-Evrópu, — að þetta VesturÞýzkaland vill reyna að gera sínar kjarnorkutilraunir. Eins og mönnum þurfi nokkuð að blandast hugur um það, hvernig stendur á því, að Frakkar fóru að gera þessar tilraunir, — eins og menn viti ekki, að þýzku efnahringarnir, þýzka auðvaldið standi á bak við þá og aðstoði þá í því.

Við getum hugsað hvað sem við viljum um Þjóðverja, en við vitum, að þeir eru með fremstu vísindamönnum heims, ekki sízt á sviðum efnafræðinnar, og að jafnvel sumir þeirra vísindamanna á sviði efnafræðinnar reyndust það drengilega, að þeir létu það vera á Hitlerstímunum að halda áfram vísindalegum tilrannum með þau vopn, sem hefðu getað leitt til uppgötvunar kjarnorkunnar fyrir þýzka nazismann. En við skulum þess vegna gera okkur alveg ljóst, að þegar vesturþýzka herveldið er að reisa sig á ný, vill það með öllum sínum efnaiðnaði fá aðstöðu til þess að geta tekið þátt í þessu kapphlaupi stórveldanna. Bandaríkin og Bretland hafa af mjög eðlilegum ástæðum verið hrædd við að veita þeim það. Þau hafa þess vegna verið að gera sínar eigin tilraunir, og sambandið á milli Vestur-Þýzkalands og Frakklands er orðið svo náið, að þær tilraunir eru gerðar beinlínis til þess að flýta fyrir kjarnorkuhervæðingu þýzka hersins. Þetta eru hvort tveggja Atlantshafsbandalagsríki, sem hann og raunar Ísland eru í svona ákaflega ástsamlegu sambandi við. Við skulum ekki reyna að vera að breiða neitt yfir þetta.

Hv. þm. fór að tala hér um hershöfðingja Hitlers. Þeir eru ekki bara í Vestur-Þýzkalandi nú með fremstu mönnum. Ég veit ekki betur en sjálft Atlanshafsbandalagið hafi kosið sér sem einn af sínum höfuðleiðtogum einn af kunnustu herforingjum Hitlers, Speidel, einn af þeim mönnum, sem strax frá því á árunum milli 1930 og 1940 stóðu í því að myrða fremstu friðarboða í Evrópu þá, eins og franska utanríkisráðherrann, þannig að svo framarlega sem hv. 5. þm. Vesturl. vill fara að rekja Evrópusöguna á þessum tíma, þá erum við reiðubúnir til þess. Við erum alveg reiðubúnir til þess að ræða við hann. Og ég skal ekki fyrir mitt leyti láta neitt eftir liggja í þeim efnum, ef hann kærir sig um að fara út í það. Hins vegar, þegar við erum að ræða önnur eins mál og kjarnorkuvandamál heimsins nú, þá skelfingu, sem vofir yfir öllu mannkyninu með áframhaldandi þróun þessara voðalegu kjarnorkuvopna, þegar menn hins vegar sjá fram á, hvílíkar allsnægtir væri hægt að skapa mönnunum, svo framarlega sem þeir fengju í friði að nota það óskapaafl, sem þarna er hægt að leysa úr læðingi, til friðsamlegrar framleiðslu, þá skulum við þess vegna heldur halda okkur að því, hvað raunverulega er að gerast í heiminum í þessum efnum, heldur en nota þetta aðeins í okkar karp hér heima um pólitík, eins og hv. 5. þm. Vesturl. svo greinilega vildi reyna að gera. Og ég vil einmitt út frá því ræða þetta mál nokkuð, þó að ég um leið neyðist til að koma inn á að gefa tilefni ýmislegt af því, sem hér hefur verið haldið fram.

Þessi saga byrjaði með því, að Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki. Og upp undir það eins margir menn og hér búa á Íslandi voru drepnir í einu með þeim sprengjum, og þeir, sem urðu fyrir geisluninni frá þeim sprengjum, búa að því enn þá, og enn er að deyja fólk, sem færzt hefur upp allan þennan tíma af afleiðingum þeirra sprengna. Það hefur oft verið sagt, að kjarnorkusprengingarnar í Hiroshima og Nagasaki hafi raunverulega ekki verið endalok annarrar heimsstyrjaldarinnar, heldur byrjun þeirrar þriðju. Því hefur oft verið haldið fram af herforingjum eða herfræðingum, að Bandaríkin hafi varpað þessum sprengjum ekki fyrst og fremst til þess að brjóta Japani á bak aftur, heldur til þess að hræða Sovétríkin, það hafi verið byrjun hins kalda og byrjun jafnvel hins þriðja stríðs. Menn óttuðust undireins, hvert væri stefnt, ef svona ægileg vopn ættu að verða notuð í viðureigninni á milli manna. Illar hafa styrjaldir þótt fram að þessu hjá mannkyninu, en meðan barizt var þó með sverðum eða byssum, þá lá þó aldrei við, að mannkyninu yrði útrýmt eða óbornum kynslóðum yrði að blæða fyrir þau stríð, sem háð hefðu verið. En menn sáu fram á, um leið og Bandaríkin tóku þetta vopn í sína þjónustu í lok annarrar heimsstyrjaldarinnar, að nú mundi vera sá eldur laus, sem erfitt yrði að slökkva. Það var þess vegna þá uppi mikill áhugi hjá mörgu fólki fyrir því að reyna að knýja fram breytingar í þessum efnum, tryggja á einhvern hátt, að þessi beiting kjarnorkuvopna og þessar tilraunir með kjarnorkuvopn yrðu stöðvaðar. Það var m.a. þá farið fram á það að safna undirskriftum um allan heim undir ávarp, sem kennt var við Stokkhólm og hljóðaði eitthvað á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

Vér heimtum skilyrðislaust bann við kjarnorkuvopnum, vopnum til að skelfa og myrða friðsaman almenning. Vér krefjumst þess, að komið sé á ströngu alþjóðlegu eftirliti til tryggingar því, að þessu banni verði framfylgt. Vér álítum, að hver sú ríkisstjórn, sem beitir kjarnorkuvopnum, gegn hvaða þjóð sem er, fremji afbrot gegn mannkyninu og geri sig seka um stríðsglæp. Vér heitum á alla góðviljaða menn hvarvetna um heim að undirrita þetta ávarp.

Þetta var Stokkhólmsávarpið svokallaða. Ég veit ekki, hvort þeim mönnum, sem leggja þessa till. fram hér nú, finnst þetta ávarp voðalegt eða hvort þeim finnst það bara eðlileg, mannleg viðbrögð að semja svona ávarp og reyna að fá menn til þess að skrifa undir það. En muna menn nokkuð, hvað var sagt og hvað var skrifað og hvað var gert, þegar reynt var að fá menn hér á Íslandi, hér í Reykjavík m.a., til þess að undirrita þetta ávarp? Það var sagt af hálfu Morgunblaðsins og ýmissa fleiri, að hér væru á ferðinni óskapleg vélabrögð, hér væri á ferðinni lævís og lymskuleg aðferð heimskommúnismans til þess að svipta hinar frjálsu þjóðir því vopni, sem þær hefðu. Það var leystur úr læðingi hamslaus áróður, sérstaklega hér í Reykjavík, þar sem menn voru varaðir við að skrifa undir þetta. Og það var ekki nóg með það. Það var komið af stað svo að segja andlegri ógnarherferð til þess að hræða menn frá því að skrifa undir. Ef ég man rétt, var það í þessu sambandi, sem núv. biskup landsins var brennimerktur í Morgunblaðinu með orðunum „hinn smurði Moshvaagent,“ til þess að sýna fyrirlitningu þess blaðs á því, hvílíkir menn það væru, sem vildu heimta bann gegn kjarnorkuvopnum. Svona gekk áróðurinn. Svona var hamazt allan þennan tíma. Var þetta þá kannske vegna þess, að engin hætta væri á, að svona vopn yrðu notuð? Á árinu 1953 var t.d. mikið um þetta rætt, eftir þá miklu vetnissprengingu Ameríkananna á Kyrrahafinu, og fóru fram allmiklar umr. um þetta. New York Times sagði 18. marz 1953 frá því, sem farið hefði á milli Eisenhowers forseti og Dulles, hvað þeir hefðu talað og látið í ljós um þessi mál. Og þar kom m.a. fram, að Eisenhower forseti hefði í þingræðu 17. marz lýst því yfir, að hann mundi ekki hika við að taka sér sjálfdæmi um, hvað telja bæri árásarógnun við Bandaríkin, og hefja atómstyrjöld umsvifalaust, ef því væri að skipta, og síðan stóð orðrétt í New York Times:

„Forsetinn kvaðst mundu forðast dæmi fortíðarinnar, svo sem Normandíinnrásarinnar í Evrópu haustið 1944, og beita nýjustu vopnum og aðferðum atómaldarinnar.

Hvern þann forseta, sem léti undir höfuð leggjast að grípa til vopna andspænis tortímingunni, þann forseta væri of vægt að draga fyrir landsdóm og setja hann af embætti, hann ætti skilið að hengjast, sagði Eisenhower af tilfinningu. Ef svo færi, að hann gerði einhliða ákvarðanir á þjóðhættustund, mundi hann kalla saman þing eftir á, svo fljótt sem unnt yrði, til þess að veita stríðsaðgerðunum stuðning. Hann tók samt fram, að ef tíminn leyfði, mundi hann telja æskilegra, að árásarógnunin væri rædd af þinginu, áður en hann hæfist handa:

Þetta voru orð úr New York Times. M.ö.o.: þáv. forseti Bandaríkjanna var reiðubúinn að beita kjarnorkuvopnum í stríði þá. Ég held, að viðbrögðin, sem nú hafa komið fram, sýni nokkuð áþreifanlega, að afstaða ýmissa manna fer nokkuð mikið eftir því, hverjir það eru, sem á vopnunum halda. Eins og hv. 4. þm. Austf. skýrði hér frá áðan, höfðum við komið hér fram, þáv. þingmenn Sósfl., með till. 1953, áskorun um að framkvæma ekki fleiri tilraunir með vetnissprengjur og taka upp samninga um bann gegn framleiðslu kjarnorkuvopna. Og þessi till. okkar þótti af meiri hluta Alþingis þá ekki rétt — og af hverju? Hún þótti ekki rétt vegna þess, að það mundi ekki vera nóg að skora á stórveldin í veröldinni að hætta við kjarnorkuvopnin og beita þeim ekki, heldur mundi óhjákvæmilega þurfa að afvopna heiminn. Það stóð þá í nál. meiri hl. utanrmn. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hlutinn telur, að raunhæfasta leiðin til þess að bægja frá heiminum hinum geigvænlegu vítisvopnum nútímans, hverju nafni sem þau nefnast, þar með talin kjarnorkuvopn og vetnissprengjur, sé allsherjarafvopnun undir alþjóðlegu eftirliti.“

Og sú tillaga, sem meiri hl. lagði fram, var síðan samþ. hér einróma og hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta, — það var 13. apríl 1954:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skora á Sameinuðu þjóðirnar að beita sér af alefli fyrir allsherjarafvopnun, sem tryggð verði með raunhæfu, alþjóðlegu eftirliti, enda er það öruggasta ráðið til þess að koma í veg fyrir framleiðslu og notkun kjarnorkuvopna og vetnissprengjunnar í hernaði, en tilraunir Bandaríkjanna og Sovétríkjanna með þau vopn hafa sýnt, að í þeim felst geigvænleg og yfirvofandi hætta fyrir mannkynið og framtið þess, ef ekki tekst með alþjóðlegum samtökum að hindra, að ný heimsstyrjöld brjótist út.”

Þetta var samþykkt Alþingis um þessi mál, mjög merkileg samþykkt og söguleg. Og þó að ég hefði sjálfur verið með í að flytja öðruvísi till. í upphafi og hún yrði að víkja fyrir þessari, þá verð ég þó að segja, að sumu leyti held ég, að maður megi segja: því miður, að þessi samþykkt Alþingis hafi reynzt rétt, að heimspólitíkin hafi síðan sýnt það. Þó að ég hefði álitið það ákaflega æskilegt, að það væri hægt að greina kjarnorkuvopnin þarna frá, eins og við vildum gera í okkar tillögu, sósíalistar, þá virðist heimspólitíkin síðar hafa sýnt það. Meiri hluti Alþingis og Alþingi Íslands samþykkti síðan einróma þessa tillögu.

Við virðumst nú standa frammi fyrir því, að í staðinn fyrir að aðgreina þessi tvenn vopn, eins og við sósíalistar gerðum þarna tilraun til og ég álít að hefði verið ákaflega heppilegt, að hægt hefði verið að gera, þá virðist þróunin í heiminum hafa orðið sú, að hin voldugustu ríki heims, sem með þessi mál fara, líti svo á, að þeim hafi verið nauðsyn að þróa síðan einmitt þessi ógnarvopn. Og á þeim sjö árum, sem liðin eru, síðan Alþingi gerði þessa samþykkt, hefur þessari tækni fleygt svo óhugnanlega fram, að skelfingu hlýtur að setja að hverjum manni, sem hugsar um það í alvöru.

Það, sem gerzt hefur sérstaklega á síðustu fimm árum í þessu sambandi, er, að þróun eldflauganna hefur orðið með þeim hætti, að þar hafa komið til greina svo að segja alveg nýjar hættur, sem menn varla sáu þá. Það er farið að framleiða nú eldflaugar, sem er ekki aðeins hægt að skjóta heimsálfanna á milli, heldur eldflaugar, sem hægt er að skjóta út í himingeiminn, til tunglsins og lengra, og þróun þessara eldflauga til þess að bera jafnvel vetnissprengjur virðist vera eitt af því óhugnanlega, sem gerzt hefur á þessum árum. Við heyrum jafnvel um, að það, sem kjarnorkustórveldin nú leggi sérstaklega upp úr, sé að reyna að gera vetnissprengjurnar, sem þau framleiða, sem léttastar til þess að geta látið eldflaugarnar bera þær, losna við þann mikla þunga, sem hingað til hafi verið óhjákvæmilegur og aðeins öflugustu flugvélar hefðu getað borið. Og við heyrum, að Bandaríkin og Sovétríkin, hvort um sig, eigi jafnvel nú þegar sprengjur af öllum þessum gerðum, sem mundu nægja til að tortíma öllu mannkyninu, þannig að fyrir okkur, smáþjóðir og smáa í veröldinni yfirleitt, virðist ekkert á það bætandi, hve hættulegt ástandið er orðið hjá mannkyninu. Við sjáum á þessum sama tíma, að þessi kjarnorkustórveldi hafa setið að samningum um langt skeið og að þessir samningar, þó að þeim sé e.t.v. ekki öllum formlega slitið, þá hafi þeir ekki borið árangur. Um það, hvorum sé að kenna, er náttúrlega hægt að deila endalaust, og það er vafalaust hægt fyrir menn, eftir því með hvorum aðilanum þeir annars hafa meiri samúð í pólitísku tilliti, að færa fram öll möguleg rök og gagnrök til þess að dæma um þá hluti. Þar heldur einn þessu fram og annar hinu, og við höfum a.m.k. ekki enn þá verið kallaðir til þess að útkljá þá hluti.

En á meðan þessu hefur farið fram, hefur annað gerzt í heiminum. Látum nú vera, það er út af fyrir sig stórfellt og þýðingarmikið og í þessu tilfelli ógnþrungið, hvernig þeir samningar hafa verið háðir og ekki tekizt, það felur í sér sínar ógnir, — en á meðan menn hafa setið þarna að samningaborði, hafa gerzt aðrir hlutir, þróunin í pólitíkinni í heiminum. Og við skulum muna það, að það er gamalt orðtak, að stríðin séu áframhald diplómatíunnar eða pólitíkurinnar með öðrum aðferðum. Og sú höfuðbreyting, sem orðið hefur í Evrópu á síðustu fimm árum, er þróun Vestur-Þýzkalands til að vera voldugasta iðnaðarríki hinnar kapitalistísku Evrópu. Ég verð að minna menn á það, þá sem samþykktu það hér á árunum að taka Vestur-Þýzkaland inn í Atlantshafsbandalagið, að það var þá gert á móti ósk, sem lá fyrir frá verkalýðshreyfingunni þýzku um að taka Vestur-Þýzkaland ekki inn, vegna þess að það mundi þýða þróun á ný á öllu því gamla auðvaldi og hervaldi, sem í Þýzkalandi hefur þróazt, það sem af er þessari öld. Það, sem gerzt hefur, er það, að Vestur-Þýzkaland er nú búið að ná sínum forna iðnaðarmætti. Vestur-Þýzkaland, sem hafði, ef ég man rétt, fyrir 10 eða 11 árum ekki helminginn af iðnaðarframleiðslu Frakklands eða Englands, það hefur nú af hlutfallsframleiðslu þess kapitalístískar heims 10%, þegar England hefur 7 og Frakkland 7. Vestur-Þýzkaland er á ný orðið voldugasta og sterkasta stóriðjuveldi hinnar kapitalistísku Evrópu. Samfara því hefur það gerzt, að Vestur-Þýzkaland hefur verið vopnað og gamli hernaðarandinn vakinn þar að nýju. Hershöfðingjar Hitlers stjórna nú á ný Vestur-Þýzkalandi, og ég vil minna á í því sambandi, þó að okkur verði tíðrætt um Hitler í því sambandi, að það vald, sem hleypti af stað tveim heimsstyrjöldum, 1914, 1939, hvað Þýzkaland snertir, það var ekki annaðhvort endilega persónan Vilhjálmur keisari eða Adolf Hitler, það var fyrst og fremst sjálft vestur-þýzka auðvaldið, stóriðjuvaldið í Ruhr, það vald, sem framleiðir og hefur framleitt í þeirri kapítalistísku Evrópu voldugustu hertæki af öllum þeim, sem þar hafa verið. Krupp er að nýju orðinn eigandi sinna gömlu verksmiðja, — maðurinn, sem dæmdur var fyrir stríðsglæpi í stríðslokin. Hann er nú einn ríkasti maður veraldarinnar, á nú að nýju öll þau tæki, sem hann og hans fjölskylda áður hafði notað til að hleypa tveim heimsstyrjöldum af stað. Og í Vestur-Þýzkalandi gerir auðvaldið, sem þar ræður nú, landakröfur, — það gerir kröfur til gerbreytingar á landamærum Evrópu. Vestur-þýzka auðvaldið og þess ríkisstj. neitar að viðurkenna þau landamæri, sem í Evrópu eru og slegið var föstum í lok heimsstyrjaldarinnar. Vestur-þýzka auðvaldið neitar að viðurkenna í fyrsta lagi Austur-Þýzkaland, neitar að viðurkenna þau landamæri um Oder-Neisserlínuna, sem aðskilja Þýzkaland og Pólland, neitar að viðurkenna þau landamæri, sem eru á milli Tékkóslóvakíu og Þýzkalands.

M.ö.o.: það atriði, sem oft og tíðum a.m.k. hleypir styrjöldum af stað, að ein stjórn og eitt ríki álítur sig eiga part af öðru ríki og ætlar ekki að una við annað en fá það, — sú staðreynd liggur nú fyrir í Vestur-Þýzkalandi. Forustumenn Vestur-Þýzkalands, ríkisstj. Vestur-Þýzkalands og vestur-þýzka auðvaldið neita að viðurkenna þau landamæri, sem sett voru af hinum Sameinuðu þjóðum, af bandamönnum, þegar þýzki herinn gafst upp skilyrðislaust í stríðslok. Hvað þýðir þetta? Það þýðir, að það vofir nú yfir á ný, að vestur-þýzkt auðvald hefji stríð til að breyta landamærum Evrópu. Er þetta eitthvað, sem talað er út í bláinn hjá mér og þar sem ég er að gera þessum mönnum getsakir? Nei, Strauss, landvarnaráðherra Vestur-Þýzkalands, landvarnaráðherrann í Bonn, hélt ræðu í febrúar 1961, fyrir rúmu hálfu ári, þar sem hann sagði í fyrsta lagi, að annarri heimsstyrjöldinni væri ekki lokið enn þá. Það er að vísu kannske hægt að segja, að það sé formlega rétt hjá honum. Fyrst er þó þar við að athuga, að Þjóðverjar hafa gefizt upp í þeirri heimsstyrjöld. Það er ekki búið að gera við þá formlegan friðarsamning, en þeir hafa gefizt skilyrðislaust upp. Það kann að vera, þegar þeir nú með aðstoð Bandaríkjanna hafa vopnað sig á ný, að þeir afturkalli þá skilyrðislausu uppgjöf, og það virðist vera það, sem vakir fyrir Strauss í þessari yfirlýsingu. Hann segir, að annarri heimsstyrjöldinni sé ekki lokið. Í öðru lagi segir Strauss, landvarnaráðherra VesturÞýzkalands: Vestur-þýzka stjórnin viðurkennir ekki landamæri austur-þýzka alþýðulýðveldisins og Póllands, Oder-Neisserlandamærin. M.ö.o.: vestur-þýzka ríkisstjórnin, Strauss landvarnaráðherra hennar, gerir landakröfur af hálfu sinnar stjórnar. Í þriðja lagi segir hann, að Vestur-Þýzkaland viðurkenni ekki landamæri Þýzkalands og Tékkóslóvakíu, m.ö.o., að vesturþýzka stjórnin geri landakröfur á hendur Tékkóslóvakíu. Og í fjórða lagi segir Strauss, landvarnaráðherra Bonn-stjórnarinnar, að Bonn-stjórnin muni hafa kjarnorkuvopn 1962. Þetta er yfirlýsing frá hálfu landvarnaráðherra Vestur-Þýzkalands. Ef hv. 5. þm. Vesturl., sem virðist sérstaklega bera vestur-þýzku stjórnina fyrir brjósti og líta með björtum augum til þeirra, sem þar stjórna nú, kynnti sér dálítið þau bréf, sem koma nú til ýmissa stofnana hér í höfuðborginni frá Vestur-Þýzkalandi, þá sér hann kannske fylgja þeim kort, landakort af Evrópu, þar sem stendur á hvað snertir Austur-Þýzkaland og þau héruð af núverandi Póllandi, sem áður höfðu verið lögð undir Þýzkaland, og part af núverandi Tékkóslóvakíu, að þessi lönd séu til bráðabirgða hersetin af — svo kemur, hvaða aðilar það eru. M.ö.o.: áróður Vestur-Þýskalands fyrir því, að stórir hlutar úr Mið-Evrópu séu hersetnir af andstæðingum þess og það viðurkenni ekki þessa hersetningu, heldur hugsi sér með tíma að frelsa þessi lönd undan þeirri hersetningu, þetta liggur nú þegar fyrir í áróðri frá opinberum þýzkum stofnunum, sem senda hann m.a. til bankanna hér á Íslandi.

Nú vil ég spyrja hv. þingmenn, ekki sízt þá, sem standa að þessari till. og sækja nú með miklu offorsi að fá hana fram, — nú vil ég spyrja þá: Ætlast þeir til þess, að Sovétríkin bíði og sitji róleg, þangað til Vestur-Þjóðverjar eru búnir að fá kjarnorkuvopn? Ég spyr þá. Ég spyr þá vegna þess, að þó að sumir þeirra séu farnir að gleyma nokkuð mörgu, þá muna þeir ef til vill eftir því, að það var háð heimsstyrjöld fyrir nokkru og að í þeirri heimsstyrjöld réðust Þjóðverjar á Sovétríkin og Sovétríkin þoldu í þeirri heimsstyrjöld líklega ægilegri þjáningar, meira mannfall og meiri skelfingar en nokkur þjóð hefur þolað í nokkurri styrjöld. Yfir 20 millj. manna misstu lífið. Hryllingsverk voru framkvæmd. Ég man eftir því, þegar Rauði herinn var tekinn að sækja á, hafði unnið sigurinn við Stalingrad og var kominn til Kiev, kom að gjánum við Kiev, þar sem Þjóðverjar höfðu drepið svo að skipti tugum þúsunda manna, sem skotnir höfðu verið af bökkum þessarar gjár og látnir falla niður í hana, svo að gjárnar voru fylltar með líkum, — ég man eftir því, þegar sagt var frá þessu, þá kom það í Alþýðublaðinu, svona væru nú hryllingssögurnar, sem verið væri að ljúga upp í stríðinu, og menn skyldu ekki taka þetta alvarlega. Skelfingunum, sem Sovétþjóðirnar höfðu orðið að þola, vildu menn þá ekki trúa. Menn trúðu ekki þessu, fyrr en ameríski herinn kom að Belsen. Þá vissu menn, og eins seinna meir, þegar þeir sáu Auswitsch, hvað það var, sem hafði gerzt.

Það fór þingmannasendinefnd héðan til Sovétríkjanna fyrir nokkrum árum, — ég býst við, að hún hafi komið m.a. til Leningrad. Hún hefur máske fengið dálitla hugmynd um þær þjáningar, sem sú borg varð að þola þau þrjú ár, sem hún var umsetin, þegar yfir 11/2 millj. manna og mikið af því börn dó úr hungri og öðrum skorti, auk þeirra, sem féllu fyrir byssunum. Hver sá maður, sem setur sig inn í það, sem Sovétríkin urðu að þola í þeirri styrjöld, mun skilja, að Sovétríkin ætla sér ekki að horfa á það aðgerðalaust, að Þýzkaland verði vígbúið á ný til árása á sig, að hershöfðingjar Hitlers fái aftur í hendur ekki aðeins þá risavöxnu hergagnaframleiðsluvél, sem í Ruhr-héraðinu er, eina voldugustu í Evrópu, heldur líka kjarnorkuvopnin. Það liggja nú þegar fyrir upplýsingar um áætlanir og fyrirætlanir þýzkra herforingja í Vestur-Þýzkalandi um innrás í Austur-Þýzkaland og Tékkóslóvakíu. Hvað hefðu verið kallaðar á Hitlerstímum hugmyndir um slíkt skyndistríð? Það er áætlað sem þáttur í einni leifturárás að umkringja Berlín og stilla sósíallstísku ríkjunum frammi fyrir þeirri fullgerðu staðreynd, að það væri búið svo að segja á einum eða tveim dögum að taka þessi lönd, sem Strauss, landvarnaráðherra VesturÞýzkalands, var að gera kröfur til. Það, sem Sovétríkin segjast hafa viljað gera mönnum ljóst, — og það er bezt, fyrst á annað borð er verið að ræða hér um þeirra afstöðu og fara frekar ómildum orðum af þeim, sem hér hafa talað, sumum, um þeirra afstöðu, — það, sem Sovétríkin segjast hafa viljað gera mönnum ljóst, það er, að stríð, sem nú yrði háð, yrði óhjákvæmilega kjarnorkustríð. M.ö.o.: það sama, sem Alþingi sló föstu 1954, að það, sem yrði að gera, það væri ekki bara að banna kjarnorkuvopn, heldur að afvopnast, semja um afvopnun, — það er þetta, sem hefur verið að gerast á þessum síðustu árum. Við stöndum þess vegna frammi fyrir þeirri ægilegu staðreynd, hvort heldur okkur líkar hún eða ekki, — og ég ætla ekki neinum það hér inni, að honum líki sú staðreynd, — að í Vestur-Þýzkalandi eru menn við völd, sem heimta lönd, sem aðrir hafa, segjast ætla að taka þessi lönd. Þeir eru búnir að gera ráðstafanir og undirbúning til þess að geta með leifturárás tekið þessi lönd. Og hins vegar standa Sovétríkin og segja: Ykkur verður að vera það ljóst, að ef þið hefjið stríð til að taka þessi lönd, þá verður það stríð kjarnorkustríð. — Við getum deilt eins og við viljum um þetta. Við getum haft samúð með hverjum sem við viljum í þessum efnum, höfum vafalaust mismunandi samúð, en þetta er sú harða, kalda, óhugnanlega staðreynd, sem við stöndum frammi fyrir.

Svo hafa Sovétríkin hafið tilraunir með kjarnorkuvopn. Hv. 1. þm. Austf. vildi leggja það svo út, að þau væru að ógna með því frjálsum þjóðum. Ég hef ekki skilið þær tilraunir svo. Ég hef skilið það svo, hvort sem menn eru samþykkir slíkum tilraunum eða. ekki, að tilgangur þeirra, Sovétríkjanna, sem þessar tilraunir gera, væri sá að segja valdhöfum Vestur-Þýzkalands: Þið skuluð ekki leggja í það ævintýri, sem leifturstríð af ykkar hálfu er, í þeirri trú, að það kosti ekki kjarnorkustyrjöld. — Ég skil þetta svona. Það er mjög harðvítugt svar, en það er svar, sem e.t.v. verður okkur skiljanlegt, þegar sú þjóð, sem segir það, hugsar til þeirra 20 millj. manna, sem létu lífið af þeirri þjóð í síðasta stríði vegna árásar Þjóðverja. Og þeir gera tilraunir og þessar tilraunir eitra andrúmsloftið. Við skulum ekkert draga úr því. Og við höfum hér talað um, að það eitrar andrúmsloftið hér hjá okkur líka, eins og allar aðrar slíkar tilraunir hafa gert. Og ég vil segja, þegar við tölum um þessar tilraunir, þá eitra þessar tilraunir líka andrúmsloftið í Sovétríkjunum. Þegar við tölum um þessar og aðrar tilraunir og hvað geislavirkt ryk getur þýtt fyrir komandi kynslóðir vitum við, að þessar tilraunir ógna líka börnunum í Sovétríkjunum, fæddum og ófæddum. Og þegar við tölum um, að okkar fiskistofn kunni að vera í einhverri hættu, — það getur vel verið rétt, þó að mér sýnist nú jafnvel, að sum blöðin hér snúi Golfstraumnum yfir í Norður-Íshafsstrauminn, þegar þau eru að birta fréttirnar um þetta, — þá liggur mér þó við að spyrja, þegar neðansjávarsprengjur eru sprengdar við Novaja Semlja: Eitrar það ekki fiskistofninn hjá þeim líka, hjá þjóð, sem meira að segja nú virðist vera að setja sér að verða einhver mesta fiskveiðiþjóð heims?

Við skulum gera okkur alveg ljóst, að þessir óskaplegu hlutir, þessar tilraunir með kjarnorkuvopn, það eru tilraunir, sem bitna jafnt á sovétþjóðunum og hverjum öðrum. Þetta eru tilraunir, allar saman, sem gerðar hafa verið frá upphafi, þótt ægilegastar hafi verið þær, sem gerðar voru á lifandi mönnum, — þetta eru tilraunir, sem eru svo ógnþrungnar, að ég ætla það ekki neinum, ekki heldur forustumönnum Sovétríkjanna, og ég held vart, að þeir andstæðingar, sem sovétstjórnin á hér, mundu heldur ætla þá slíka menn, að þeir gerðu slíkar tilraunir, án þess að þeir væru alvarlega hræddir við eitthvað, sem er miklu verra. Ég held, að við megum ekki í þessum efnum hugsa of skammt. Ég held, að við séum að færast nær og nær barmi kjarnorkustyrjaldar og að við eigum að horfast í augu við það með allri þeirri alvöru, sem því fylgir. Þegar mennirnir eru farnir að beita öflum eins og þessum kjarnorkuöflum, sem þeir hafa leyst úr læðingi, þegar tortryggnin á milli þeirra er eins óskapleg og hún er í veröldinni núna, þegar tilhneigingarnar til þess að nota hvern einasta hlut, hve alvarlegur sem hann er, ýmist í smápólitísku áróðursstríði, eins og mér virðist eftir þeim ræðum, sem voru haldnar hér áðan, vera tilgangurinn með þessari till., eða hins vegar í hinum óskaplegu valdaátökum milli hinna voldugustu í heiminum, — ég held, að við verðum að gera okkur það ljóst, að þegar slíkt er orðið kapphlaupið, slík er orðin keppnin, slík orðin trúin á valdið og það sé það eitt, sem dugi í veröldinni, þá held ég, að við ættum að horfast í augu við þessar hættur af fullu raunsæi. Ég mundi í sporum þeirra manna, sem nú hafa borið fram þessa till. og fylgt henni úr garði á þann máta, sem þeir hafa gert, ef þeir ætla stjórnendum Sovétríkjanna það, sem þeir virðast þar ætla þeim, — ég mundi í þeirra sporum fara að spyrja: Hver er okkar aðstaða hér á Íslandi í kjarnorkustyrjöld? Hér hefur verið talað um þær hættur, sem af því stafa, að kjarnorkutilraunir séu gerðar, og ég dreg ekkert úr þeim hættum. Ég hef aldrei gert það og mun ekki heldur gera það nú. En hvað segja menn þá um það, ef við eigum eftir að lenda í kjarnorkustyrjöld, vegna þess að ekki hafi tekizt að koma á þeim skilningi og þeim velvilja á milli þeirra ráðandi afla í heiminum, að þau gætu samið um, hvernig mannkynið hagnýti aðra eins uppsprettu allsnægta og kjarnorkan getur orðið, þegar hún er hagnýtt fyllilega?

Kjarnorkutilraunir hafa fyrir okkur eins og aðrar þjóðir heims illar afleiðingar. En þessir sömu menn, sem nú tala sumir hverjir hjartnæmt, sumir nokkuð gáleysislega um áhrif kjarnorkutilrauna, hvaða hlutverk hafa þeir ætlað Íslandi í kjarnorkustríði? Einmitt þessir sömu menn hafa staðið að því að gera Ísland að herstöð. Og við vitum það ósköp vel, við erum það vankunnandi, Íslendingar, í öllu, sem heitir hertækni, að við vitum ekkert um, hvenær þeir menn, sem hér hafa herstöðina, Bandaríkjamenn, kynnu að setja lér upp kjarnorkuvopn og beita þeim, og réðum heldur ekkert við það. M.ö.o.: við getum, ef sú öfugþróun, sem hefur verið að gerast í heiminum, ekki er stöðvuð, staðið frammi fyrir því að vera orðnir aðilar að slíkri kjarnorkustyrjöld. Og hér er fólk, þó að það sé ekki fjölmennt, 170—180 þúsund manns, sem þessir menn, sem hér hafa völdin, hafa ábyrgð á, þess lífi og þess tilveru, ef til slíkrar styrjaldar kemur.

Það hefur verið talað um þátttöku Íslands í NATO eins og einhvern sjálfsagðan hlut til þess að styðja vestræna samvinnu og annað slíkt. Ég hef oft sagt það hér í umr. um þau mál og skal segja það einu sinni enn: Mér finnst ekki, að við hér á Íslandi, sízt við, sem höfum verið kosnir til þess að stjórna þessari þjóð, höfum sem fulltrúar þjóðarinnar, hvernig sem okkar samúð annars kann að liggja í veröldinni, efni á því að hugsa um annað í sambandi við stríð og styrjaldarhættur en hvernig íslenzk þjóð gæti lifað af slíka styrjöld, það sé nóg verkefni fyrir hvern þann, sem þessari þjóð á að stjórna, — hverjir sem það yrðu, sem sigruðu í slíku stríði, hverja samúð, sem við hefðum með einum eða öðrum aðilum í því stríði, þá væri það fyrst og fremst okkar skylda að reyna að sjá til þess, að íslenzk þjóð gæti lifað af. Það gerum við ekki með því að koma hér upp herstöðvum, draga landiðinu í styrjöld og gera það að skotmarki.

Þess vegna held ég, að það hefði átt að taka þessa hluti miklu alvarlegar en hér er gert. Ég veit, að það er hægur leikur fyrir okkur að kýta hér, rífast, vera með áróður, taka upp staðreyndirnar, sem hvor aðilinn um sig heldur fram, rökin, sem hvor aðilinn um sig heldur fram, og rífast um það endalaust hér. Ég hef aldrei hugsað mér, að það ætti að vera hlutverk íslenzku þjóðarinnar. Ég hef litið svo á, að okkar þjóð væri, ef maður má nota svo hátíðlegt orð, sérstaklega til þess kölluð, frekar öllum öðrum þjóðum heims, að bera sáttarorð á milli þjóða og það líka stórþjóða og stórvelda. Við erum eina þjóðin í veröldinni, sem sjálf hefur ekki átt vopn í fjórar aldir, eina þjóðin í veröldinni, sem aldrei hefur háð stríð. Og við erum svo veikir, við erum svo smáir, að þar sem stóru þjóðirnar mundu skammast sín fyrir veikleika og ern svo viðkvæmar fyrir því að láta ekki finna neinn veikleikavott á sér, að þær jafnvel eiga til að þramma fram á yztu þröm styrjaldar þess vegna, þá þurfum við aldrei að skammast okkar fyrir að vera veikir. Við getum talað eins og barnið, sem biður þá stóru um að hlífa sér, þegar þeir eru að slást og sparka sín á milli. Mér finnst þess vegna alltaf, að Íslandi og íslenzkri þjóð hafi fyrst og fremst borið það hlutverk að reyna að skapa skilning á milli stórveldanna í heiminum. Kannske kann einhverjum að finnast, að fyrst við séum svona smáir, væri það einhver ofurmennska af okkur að ætla okkur slíkt. En ég held, að við þurfum ekki að bera neinn kinnroða fyrir slíkt. Við erum með stærstu þjóðum heims sem menningarþjóð. Við getum þolað samjöfnuð við hverja aðra þjóð veraldar og eigum þess vegna að geta talað í nafni þeirrar heimsmenningar, sem er í hættu, svo framarlega sem við förum að tala við stórþjóðirnar með fullri reisn einnar menningarþjóðar, en út frá barnslegri afstöðu þess smáa í heiminum. Og ég hef oftar en einu sinni og sá flokkur, sem ég tilheyri, gert tilraunir til þess, að Ísland taki slíka afstöðu.

Það kemur máske ekki þessu máli við, en það er þó skylt því, að menn álasa þeim stórveldum, sem við eigast í veröldinni, þegar þau koma sér ekki saman, og einn segir máske, að þessi hérna hafi verið svo óbilgjarn, og annar segir, að hinn hafi verið það, og það má deila um það endalaust. En við Íslendingar höfum máske líka aðstöðu til þess að sýna þjóðum veraldarinnar, hvernig menn fari að því að koma sér saman. Ég hef oftar en einu sinni minnzt á það, að Ísland gæti verið fyrirmyndarland fyrir allar þjóðir heims í slíku efni. Við gætum hér heima sýnt, að hér væri þjóð, þar sem menn gætu komið sér saman um að leysa deilumálin, þar sem menn gætu skapað frið á grundvelli réttlætis, og ég hef oftar en einu sinni lagt til, að íslenzka þjóðin reyndi að gera slíkt, að það, sem kallað væri úti í heiminum kommúnistar og kapítalistar, atvinnurekendur og verkamenn, bændur og menntamenn, þeir aðilar, sem hjá einni þjóð búa, gætu sýnt það, að þeir gætu lifað saman í friði á grundvelli réttlaus. Ég álít, að við Íslendingar hefðum haft betri aðstöðu en flestar aðrar þjóðir heims til þess að skapa slíkt þjóðfélag hérna. Þó að við höfum oft barizt og barizt allhart, þó að okkar stéttabarátta, okkar flokkabarátta hafi verið allharðvítug, þá höfum við fram að þessu verið gæfumenn í einu tilliti. Það hefur aldrei flotið hlóð í þeirri baráttu, sem hér hefur verið háð. Það hefur enginn maður látið lífið, þótt tekizt hafi verið oft á á undanförnum áratugum hér heima. Mér sýnist, að nú, með þeirri stefnu, sem upp var tekin sérstaklega í sumar, stefni nú allt á ógæfuhliðina, það sé greinilegt, að nú eigi að stefna að því, að hér skuli það vera valdið, sem ræður. Það er ekki skirrzt við að brjóta raunverulega stjórnarskrána með þeim harðvítugu einræðisaðgerðum, sem hér var beitt í ágúst í sumar. M.ö.o.: mér sýnist, að í staðinn fyrir þróun í átt til friðar stöndum við nú frammi fyrir þróun í átt til harðvítugra og hættulegri átaka en við höfum nokkurn tíma lifað hér áður. Við skulum muna það, að ef við getum ekki komið okkur saman í svona litlu landi um, hvernig eigi að stjórna og hvað réttlátt sé, þá ferst okkur a.m.k. ekki að ætla að gera upp á milli þeirra, sem eru að eigast við úti í veröldinni. En ef við gætum komið okkur saman hér heima, ef við gætum reist hér þjóðfélag, sem íslenzka þjóðin öll stæði að, þjóðfélag á grundvelli réttlætis, þar sem friður virkilega ríkti, þá gætum við kannske líka farið að tala með nokkrum myndugleika út á við til þeirra stóru þjóða í heiminum. Ef við hins vegar leggjum inn á þá braut hér, að valdinu skuli fylgt, ríkisvaldið skuli gert kúgunarvald, þá sér enginn okkar fyrir, hvar það endar, og þá skulum við ekki heldur vera of vissir. Það eru kannske enn óvægnari aðilar en við hér heima, sem eigast við í veröldinni, og hvar taka þau enda, þau átök, sem nú fara þar fram? Þess vegna fannst mér það óhugnanlegt í byrjun þessarar umr., þegar flm. lögðu það til, að þetta skyldi allt samþykkt nú í dag, það skyldi ekki vera verið að hugsa um neina samninga, neitt samkomulag, neinar umræður, neina nefnd eða neitt slíkt, það skyldu öll þingsköp brotin — eða ekki beint brotin, heldur gengið fram hjá öllum þingvenjum. Þeir um það, sem slíkt vilja framkvæma og þannig standa að því, sem hefði átt að vera alvarleg lausn í málinu.

Ég hef reynt með því, sem ég hef sagt, að leggja nokkur drög að því, hvernig ég álft að ætti að reyna að taka þátt í því að leysa þessi mál, sem ég lít ákaflega alvarlegum augum. Ég býst ekki við að leggja fram neinar till. í þessum efnum, það virðist vera lítill tími til þess. Það virðist vaka annað fyrir en að ræða raunverulega þessi mál. Ég get sagt mínar hugsanir, það, sem mér dytti í hug um, hvernig ég mundi hafa viljað haga þessu, og gæti líka formað það nánar. Ég mun ekki að sinni gera þetta að meira umtalsefni. En mér finnst farið í þeirri till., sem fyrir liggur, gáleysislega og af lítilli forsjá, en því meiri og harðvítugri pólitískri afstöðu, um þau ægilegu vandamál, sem við stöndum frammi fyrir.