27.10.1961
Sameinað þing: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (2967)

48. mál, mótmæli gegn risasprengju Sovétríkjanna

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir þær óskir hv. 3. þm. Reykv. (EOl), að aldrei verði valdi eða afli beitt til þess að leysa deilumál á Íslandi. Ég vil óska þess, að hér megi lög og réttur ráða. Því meiri áherzla er leggjandi á þetta, þar sem fram hafa komið hótanir um það, að einmitt í hinum vandasömustu málum skuli afli verða beitt. Enginn þm. getur frekar afstýrt þeirri ógæfu en hv. 3. þm. Reykv., og vil ég eindregið mega treysta því, að hann hafi ekki hér mælt innantóm orð, heldur fylgi hugur máli og sannist það í hans verkum og þeirra, sem hann hefur úrslitaráð yfir.

Hv. þm. talaði svo sem það væri eitthvað óvenjulegt og ef ekki beint í bága við þingsköp, þá á svig við þau, ef þetta mál væri afgr. nefndarlaust. Hann hefur sjálfur minnt á till., er hann flutti á árinu 1954 og var til umr. í Sþ. hinn 12. apríl það ár. Um þá till. sagði hann í sinni framsöguræðu, með leyfi hæstv. forseta: „Ég vildi mega óska, að það væri hægt að hafa samkomulag um það, að við afgreiðum þessa till. án þess, að hún færi til nefadar. Við vitum, að þótt t.d. utanrmn. eða einhver önnur slík nefnd tæki þessa till. til meðferðar, þá gætu varla orðið á því breytingar frá því, sem er, a.m.k. eins og lagt er til að hún sé orðuð á þskj. 719, ef menn á annað borð vildu eitthvað samþykkja í þessum efnum, og það álít ég að væri ákaflega vel farið og raunverulega ekki annað sæmandi fyrir okkur.” Þetta sagði hv. þm. þá, og þetta á ekki síður við nú. Þá var málið að vísu sett í nefnd, en jafnframt tryggt, að það þyrfti ekki að tefja afgreiðslu málsins, og beinlínis yfir lýst, enda játar hv. þm. nú, að till. meiri hluta n. hafi verið betri og lýst meiri framsýni en kom fram í hans eigin upphaflegu till.

Það, sem nú liggur fyrir, er ákaflega einfalt mál. Vilja menn mótmæla þessum sprengingum, sem átt hafa sér stað og að því er hv. 4. þm. Austf. gerði ráð fyrir að enn mundu eiga sér stað, á meðan tími er til, eða vilja menn láta þessi ógnartíðindi hjá líða án þess, að Alþingi Íslendinga láti uppi sinn vilja í málinu?

Það varð ekki skilið annað af orðum hv. 4. þm. Austf. en hann gerði ráð fyrir, að eftir væri sjálf hin eiginlega helsprengja, að sprengingin mikla á mánudaginn var væri einungis upphaf eða lítil byrjun þess, sem menn eigi von á, samkvæmt yfirlýsingum Krústjoffs, fyrir mánaðarlokin. Þess vegna er það ljóst, að ef Alþingi á að láta málið til sín taka, þá er nú einmitt tækifæri til þess, tækifæri, sem má ekki láta hjá líða, og till. er svo einföld og öllum augljós, að ástæðulaust er að vefja málið fyrir sér eða blanda því inn í aðrar umr. Svarið við till. hlýtur annaðhvort að vera já eða nei. Annaðhvort eru menn samþykkir því, að þessar sprengingar hafi verið gerðar og skuli halda áfram, eða ekki. Annaðhvort óska menn eftir, að samkomulag komist á um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn og öflugt eftirlit með því, eða ekki. Þetta eru einfaldar spurningar, sem menn hljóta nú þegar að hafa gert sér grein fyrir, hvernig svara eigi, þeir sem á annað borð vilja svara. Við höfum heyrt það áður, að hv. 4. þm. Austf. vill ekki svara þessum spurningum. Það er eðlilegt, að hann vilji tefja og vefja málið. En þingheimur vill yfirleitt svara spurningunum og svara þeim afdráttarlaust.

Þá vil ég mjög mótmæla því, sem hér hefur komið fram, — ég heyrði það fyrst hjá 1. þm. Austf. og síðan aftur hjá 3. þm. Reykv., að þeir töluðu á þann veg, sem það væri rússneska þjóðin, sem bæri ábyrgð á þeim sprengingum, sem þarna hafa átt sér stað. Því fer fjarri, að svo sé. Það er sovétstjórnin, sem stendur fyrir þessu og hefur haldið sprengingunum lengst af leyndum fyrir sinni eigin þjóð, og enn er meira að segja með öllu óvíst, hvort rússneska þjóðin hefur fengið vitneskju um, hvers eðlis sprengingin s.l. mánudag var. En þannig vill til, að nú stendur yfir fundur austur í Moskvu, sem vafalaust gæti haft úrslitaáhrif um það, hvort þessu tilræði við mannkynið verður haldið áfram eða ekki. Það er 22. flokksþing kommúnistaflokksins, og samkvæmt því, sem skýrt hefur verið frá, þá eru þar staddir tveir fulltrúar flokks þeirra hv. 4. þm. Austf. og 3. þm. Reykv. Ef þeir fá vitneskju um einhuga samþykkt Alþingis til að mótmæla þeim óhæfuverkum, sem framin hafa verið, þá fá þeir einstakt tækifæri til þess að gerast á þessu mikla þingi málsvarar sinnar þjóðar, taka þar upp mótmæli Alþingis og láta rödd Íslands heyrast á þeim vettvangi, þar sem saman eru komnir þeir menn, sem öllu ráða um örlög rússnesku þjóðarinnar. Það væri drengskaparbragð, sem lengi mundi verða eftir munað, ef þessir tveir fulltrúar frá Íslandi gengju á þann veg erinda sinnar eigin þjóðar.