11.12.1961
Neðri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð almenns efnis viðvíkjandi þessu máli, því að mér virðist, að með því sé ríkisstj. enn að breyta allmikið frá þeirri stefnu, sem hún hafði upphaflega sett sér, og að þetta mál komi til með að tákna nýtt stig í þeirri þróun, sem virðist vera að verða ofan á í stefnu ríkisstj. þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum, var það hennar yfirlýsta stefna í sambandi við mál, sem snertu atvinnu- og verzlunarlíf í landinu, að þar skyldi frelsið ríkja, þar skyldu andstæðir hagsmunir og barátta fá að gerast og andstæðir hagsmunahópar fá að eigast við, án þess að ríkisstj. og ríkisvaldið skipti sér af því. Fagnaðarboðskapurinn, sem fluttur var þá, var sá, að nú ætti að létta af íslenzku þjóðinni sífelldum afskiptum ríkisvaldsins, sem hefðu verið meira eða minna í 30 ár, þannig að alls staðar væri það ríkisvaldið, sem skipti sér af hlutunum og kæmi til og ákvæði málin, en ekki þannig, að borgararnir ættust við út frá mismunandi hagsmunasjónarmiðum og í þeirra glímu yrði endanlega ákveðið, hvað ofan á yrði. Mér sýnist, að þetta frv. hæstv. ríkisstj. sé hugsað til þess að koma í staðinn fyrir þá frjálsu verðmyndun og í staðinn fyrir þá baráttu, sem eigi sér stað á milli hinna andstæðu hagsmunaheilda, stéttanna í þjóðfélaginu, ríkisvaldið eigi að skakka leikinn og ákveða niðurstöðuna. Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að athuga þetta dálítið vel og gera okkur þetta ljóst, til þess að við sjáum, hvert verið er að stefna. Það var áður talað svo um, í sambandi við það, sem gert var um landbúnaðarmálin og verðlagsráðið, sem þar var sett í desember síðasta árs, að raunverulega væri landbúnaðurinn eins og eins konar eyja, þar væri, eins og sumir sjálfstæðismenn orðuðu það, Framsóknarpólitíkinni haldið áfram. M.ö.o.: landbúnaðurinn átti að vera eitthvað út af fyrir sig, sem þær gömlu reglur ættu að gilda um, en hið nýja frelsi ætti að innleiðast á öllum hinum sviðunum, í verzluninni, sjávarútveginum og öðru slíku. Og hver er nú reynslan, sem hæstv. ríkisstj. hefur af þessum kenningum sínum eftir eitt ár? Ég verð að virða henni það til vorkunnar á vissan hátt, að hún dregur réttar ályktanir út af þessari reynslu. Reynslan er sú, að þetta frelsi geti ekki gengið, að það dugi ekki, að þessir hagsmunahópar í þjóðfélaginu, að þessar andstæðu stéttir séu látnar eigast einar við, það verði að koma þarna til aðili, ríkisvaldið sjálft, sem geri út um hlutina. Þetta er niðurstaða hæstv. ríkisstj. M.ö.o.: allt, sem hún hafði boðað, allur frelsisboðskapurinn nú í upp undir tvö ár, þetta sé allt saman orðin tóm og staðreyndirnar, sem ríkisstj. hafi rekið sig á, knýi hana til þess að endurskoða allt mat sitt.

Svo kemur hins vegar spursmálið um, hvernig ríkisstj. endurskoðar þetta mat og til hvaða aðferða hún grípur, þegar hún sér, að hennar gömlu kenningar, hennar gamli frelsisfagnaðarboðskapur dugir ekki. Þar verður dálítið ljótt upp á teningnum. Það fyrsta raunverulega, sem maður áttar sig á, þegar maður sér þetta frv. um verðlagsráð, er, að nú á að fara þannig að, að það á að kveða upp dóm um, hvaða verð sjómennirnir og fiskseljendurnir skuli fá. En sá dómur á að vera mjög takmarkaður. Hann á einvörðungu að gilda um það, sem eftir er, þegar ríkisvaldið á einn eða annan máta er búið að taka sitt. M.ö.o.: það er upplýst og gefið, að hlutir eins og vextirnir, hlutir eins og útflutningsgjöldin, hlutir eins og vátryggingargjöldin, þetta allt saman á ekki að vera neitt samningsatriði, þessu á að stjórna ofan frá, þetta á að verða ákvarðað af ríkisvaldinu, um þetta á ekki að semja. Það á ekki að semja við ríkisvaldið og ekki að semja við bankana. Útgerðarmennirnir og sjómennirnir fá ekki aðstöðu til þess, að bankarnir séu þarna einn aðilinn, sem samið sé við. Þeir ættu þó sannarlega að vera samningsaðili. Ríkisstj. reynir að koma sér út úr þessu þannig, að hún sé ekki samningsaðili, sem þarna er samið við. Útflutningsgjald á hún að mega leggja á og taka af óskiptu, án þess að sjómenn eða útgerðarmenn geti þar nokkuð um samið. Ég vil vekja athygli á því, hvert verið er að fara með þessu. Ríkisbankarnir, vátryggingarfélögin, ríkisstj. sjálf og aðrir aðilar eru látnir eftir sem áður hafa þá aðstöðu, að þeir raunverulega taka sinn hluta af óskiptu. Þeir eru ekki viðsemjendur. Þeir eiga að vera eins og hátt yfir þetta allt hafnir. Þeirra hlutur á að vera á þurru landi. En um það, sem eftir er, þegar þeir hafa með þessum hrammi hrifsað til sín, um það eiga hinir að slást. Þetta er í raun og veru það fyrsta, sem maður tekur eftir í sambandi við þetta, því að ég er hræddur um, að þegar komið er að yfirdómnum og þegar svo langt væri komið, að hæstiréttur ætti að útnefna þarna einn mann til þess að vera oddamaður, ef þetta frv. nær fram að ganga, þá muni sá oddamaður ganga út frá því, að þessir hlutir séu fastir og ákveðnir, þessu verði ekki haggað, um þetta skuli ekki samið. Þar kemur strax það, sem ég álít að sé nokkur galli þarna á, og það er, að hæstv. ríkisstj. skuli smokka sjálfri sér út úr þessu og reyna að blekkja fólk með því að telja mönnum trú um, að fulltrúi hæstaréttar eða einhver slíkur aðili ætti að heita þarna eins konar óhlutdrægur fulltrúi. Ég held, að það hefði verið betra, að hæstv. ríkisstj. hefði sjálf tekið á sig þá pólitísku ábyrgð, ef hún vill setja svona lög, að vera þarna oddamaður. Hún hefði aðstöðu til þess sem samningsaðili, ef eitthvað ætti að semja í yfirdómnum, að reyna að semja út á við. Hún hefði aðstöðu til þess að segja, þegar ekki væri hægt að koma þessu saman: Ja, ég skal þá slaka til á vöxtunum, ég skal þá slaka til á útflutningsgjaldinu. — Og er það ekki það, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að gera að undanförnu? Hefur hún ekki einmitt verið að slaka til á þessu? Hefur hún ekki verið að breyta ýmislega til um þessa hluti? Ég mundi að vísu ekki vilja gefa henni valdið til þess að eiga að útkljá þetta, en að svo miklu leyti sem ætti að reyna að heyja sáttasemjarastarfið í þessum yfirdómi með einhverjum árangri, þá hefur það verið reynslan á síðustu 15 árum, sem ríkisstj. hefur haft afskipti af þessum málum, að það hafi þó reynzt einna skást, að ríkisvaldið sjálft, ríkisstj. beint tæki þarna þátt í. Það munu vera fáir sjútvmrh. á síðustu 15 árum, sem hafa ekki orðið um hver áramót einmitt að skipta sér af þessum hlutum, og ég held, að það sé alls ekki rétt af einni ríkisstj., sem með völdin fer í þessu landi, að reyna að smokka sér út úr því að eiga að semja um þessa hluti. Hún er sá aðili, sem þarna hefur valdið, hún er sá aðili, sem þarna hefur stærsta hlutinn. Hún og ríkisbáknið og þeir aðilar, sem ríkisvaldið raunverulega skammtar meira eða minna svo og svo stóran hlut, það eru aðilarnir, sem geta látið þarna undan, og aðilarnir, sem hafa verið að láta undan undanfarið. Hæstv. núv. sjútvmrh. hefur verið að slaka til í þessum efnum viðvíkjandi vátryggingargjöldum og öðru slíku. Það gerir fulltrúi hæstaréttar ekki, þegar hann kemur þarna inn í. Þess vegna er alveg greinilegt, ef ein ríkisstj. ætlar að smokka sér út úr því að reyna að vera sjálf þarna eins konar sáttasemjari, þá er hún þar með að reyna að binda þann endi á þessar deilur, að það sé útkljáð, eftir því sem hún hefur hugsað sér það, með eins konar fyrirskipun svo að segja frá oddamanninum, hvernig þetta skuli vera, og oddamaðurinn raunverulega valdalaus með að geta hnikað þarna nokkuð til. Ríkisstj. virðist með þessu móti vera að forða á þurrt land þeim hlut, sem hún hefur getað notað á undanförnum 15 árum til að reyna einmitt að miðla málum með, þeim hlut, sem ríkisvaldið sjálft hefur fengið í sinn hlut eða útvegað vátryggingarfélögunum og öðrum slíkum.

Ég held að það sé ákaflega óheppileg þróun, sem er að gerast með þessu móti. Það verður aldrei komizt hjá því í okkar landi, að ríkisstj. í svona litlu landi, með atvinnuveg, sem leggur til 97% af öllum útflutningnum, skipti sér af þessum hlutum. Og niðurstaðan, sem hæstv. ríkisstj. hefur komizt að, af því að boða hér í tvö ár þennan fagnaðarboðskap frelsisins, er, að þetta frelsi geti ekki gengið. En það á hún bara að horfast í augu við, að það þarf ríkisafskipti til þess að ráða fram úr þessu, en ekki að reyna að setja nein ný gerðardómslög um slíkt.

En hvað er það nú raunverulega, sem á bak við býr? Þessar hugmyndir mínar eru fyrst og fremst formlegs eðlis, það sem af er. Hvað er það, sem á bak við býr þarna? Það var eitt, sem fékkst ekki hreyft við, þegar frelsið mikla var boðað, það voru útflutningshringirnir. Það átti að vera frelsi víðast hvar annars staðar, en þeir áttu að standa óskertir, og vald ríkisstj. yfir útflutningnum átti að standa óskert. Hvað er nú raunverulega það, sem nú hefur gerzt? það, sem hefur gerzt, er það, að um leið og verið er að fleygja þessari frelsiskápu, sem verið var að skrýða allt þetta ástand hér hjá okkur í, þá á nú raunverulega að fara að koma fram alræði þeirra hringa, sem ráða um útflutninginn. Og það er raunverulega það alræði, sem fulltrúi hæstaréttar á að leggja sína blessun yfir. Hann á ekki að hafa neitt með það að gera, hvernig er um sölu íslenzkra afurða erlendis, hvað miklu er stolið undan, hvað mikið er fest. Hann á ekkert að hafa um það að segja, þó að 300–400 millj. kr. séu teknar frá fiskkaupendunum hér á Íslandi og festar í Ameríku, Hollandi eða Englandi. Fulltrúi hæstaréttar kemur aldrei til með að líta á þau mál. Einokunin á útflutningnum á að vera eins og eitthvað, sem óhugsandi sé að semja um eða að ræða um í sambandi við þessi mál, og það er hrifsað burt, svo að skiptir hundruðum millj. kr., af fiskframleiðendunum á Íslandi. Það má hvergi koma þarna nærri. Þarna eru það bara hinir svonefndu fiskkaupendur, hraðfrystihúsin og slíkir annars vegar og fiskframleiðendurnir, sjómenn og útgerðarmenn hins vegar, sem eiga að eigast við. M.ö.o.: alræði þeirra hringa, sem hafa farið með völdin í þessum efnum á undanförnum árum, á að festa í sessi og ríkisstj. á með fulltrúa hæstaréttar þarna í að þvo hendur sínar af þessu. En engu að síður á ríkisvaldið, m.a. með fulltrúa hæstaréttar sem sinn fulltrúa, að ákveða allt þetta. Það er náttúrlega engum vafa bundið, að því meira sem valdið er þannig fært yfir í hendur ríkisvaldsins, því harðari hlýtur baráttan um sjálft ríkisvaldið að verða. Það er eðlileg afleiðing af þessu.

Það er máske rétt að minna á það í þessu sambandi líka, að á sama tíma og verið er að gera á þennan hátt ráðstafanir til þess að skapa verðlagsráð og ákveða verð með slíkum yfirdómi á fiskinum, þá er hins vegar verið að stefna að því að afnema verðlagsákvæði viðvíkjandi því, sem verið er að selja í landinu, ýmsum nauðsynjavörum almennings. Hvernig stendur á, að hæstv. ríkisstj. rekur svona þveröfuga pólitík á tveim sviðum, í stað þess að reyna að koma á alls staðar frjálsri verðlagsmyndun, að hún skuli sums staðar afnema hana, en á öðrum sviðum aftur á móti vera að ryðja henni braut? Skyldi það vera vegna þess, að hún er að þjóna hagsmunum atvinnurekendanna á báðum sviðunum? Með því að ákveða með yfirdóminum verðlagsákvarðanirnar hvað fiskinn snertir á að þjóna hagsmunum stóratvinnurekendanna, söluhringanna og annarra slíkra. Hins vegar með því að afnema verðlagsákvæðin í sambandi við neyzluvöruna, þá er verið að þjóna hagsmunum heildsalanna og kaupmannanna í slíku. M.ö.o.: með hverju skrefi, sem hæstv. ríkisstj. stígur, eins og nú með þessu frv., er verið að gera ríkisvaldið æ meir áberandi að fulltrúa fyrir atvinnurekendurna í landinu. Og það er einmitt verið að vinna af hálfu þeirrar ríkisstjórnar, sem boðaði það, að hún mundi láta alla verðmyndun afskiptalausa, verðlagsmyndunina fara frjálst fram.

Það yrði kannske fróðlegt, þegar farið yrði að ræða þessi mál nánar eða þegar farið yrði að framkvæma þetta mál, að bera saman það, sem gert var, þegar ríkið hóf afskipti sín af þessum málum með fiskábyrgðinni í des. 1946, og hvaða verð það var, sem þá var ákveðið til handa sjómönnum og tryggt af hálfu ríkisins, og hvaða verð var hins vegar, sem hraðfrystihúsin og slíkir þá fengu. Ég skal ekki fara nákvæmlega út í það, en grunur minn er sá, að það komi fram hvað snertir það verð, sem sjómönnunum er ætlað, svipað og það, sem orðið hefur viðvíkjandi þróuninni um kaup verkamannsins, að það sé hlutfallslega allmiklu lægra verð, sem sjómaðurinn, hinn raunverulegi fiskframleiðandi, eigi nú að fá í sinn hlut, heldur en það, sem hraðfrystihúsin, — svo að ég tali nú ekki um aðra, sem öruggar taka sinn hlut en þau, — eiga að fá í sinn hlut.

Ég vil taka hér undir það, sem þegar hefur komið fram í umræðunum undanfarið, að gert verði það, sem hægt sé, eins og líka till. 2. minni hl. sjútvn. ganga út á, til að reyna að tryggja rétt sjómannanna og þar með sérstaklega Alþýðusambands Íslands, fulltrúa sjómannaheildarinnar og allrar sjómannastéttarinnar í landinu, og skal ekki fjölyrða um það.

En ég vil vekja athygli á, að með því að stofna til þessara samninga, sem kallað er, og að lokum yfirdóms í viðureigninni milli fiskiðnaðarfyrirtækjanna annars vegar og fiskframleiðendanna hins vegar, þá heldur ríkisstj. Þeirri aðstöðu að geta tekið þann hluta, sem henni þóknast, af fiskinum og fiskverðinu áður. Ríkisstj. hefur þá aðstöðu í fyrsta lagi að taka til handa aðilum, sem eru utan við þetta hvort tveggja, fiskiðnaðinn og sjálfar fiskveiðarnar, það sem henni þóknast með útflutningsgjöldum, með bankavöxtum og öðru slíku. Og það er ekki gert að neinu samningsatriði. Það er látið eins og það væri eitthvert óhagganlegt náttúrulögmál. Og jafnframt heldur ríkisstj. þeirri aðstöðu að geta, ef henni þóknast, veitt útgerðarmönnunum eftir á, eða fiskiðnaðinum líka eftir á, þegar búið væri að semja um þessa hluti, sérstök fríðindi, raunverulega á kostnað heildarinnar og kostnað sjómannanna, við skulum segja á kostnað bankanna og fleiri slíkra, þegar búið væri að semja, og skapa þannig alveg sérstaka aðstöðu fyrir atvinnurekendurna í landinu, eins og oft hefur verið gengið á lagið með á undanförnum árum. Ríkisstj. hefur oft undanfarið gert það að greiða vátryggingargjöld og annað slíkt af óskiptu, og vafalaust standa þeir möguleikar opnir eftir sem áður að lækka vexti og annað, það eru engir samningar um slíkt. M.ö.o.: eftir að búið væri að semja á þeim grundvelli, sem ríkisstj. hér gengur út frá, er hægt að veita sérstök fríðindi öðrum aðilanum, atvinnurekstrinum, með því að lækka vextina, lækka vátryggingargjöldin og ýmislegt annað slíkt. Ég vil vekja athygli á þessu, vegna þess að eðlilegt væri, að samið væri um þetta fyrir fram. Ég skal vissulega viðurkenna, að það væri líka hægt að þrengja að þessum aðilum, í þessu tilfelli fiskiðnaðinum og þeim, sem reka veiðiskipin, með því að hækka máske vexti, með því að láta hækka vátryggingargjöld og annað slíkt. En ég vil bara vekja athygli á þessu vegna þess, að það eru í raun og veru engir venjulegir og frjálsir samningar, sem fara fram með þessu móti, meira að segja meðan enn þá er þó verið á samningsstiginu og áður en kemur að yfirdóminum. Það, sem kemur út, ef svona frv. er samþ., er, að atvinnurekendur og verkamenn, verkamennirnir á sjónum í þessu tilfelli, sjómennirnir, þeir eiga að deila, þeir eiga að skipta því, sem eftir er, þegar voldugasti aðilinn í landinu er búinn að taka sitt. Ríkisvaldið, söluhringarnir, og aðrir slíkir, dauða höndin, sem liggur nú á atvinnurekstri Íslands og sýgur til sín stærsta hlutinn, hún á að halda sínum hrammi föstum á sjávarútveginum, það á að beygja sjávarútveginn undir það alræði, sem þarna er um að ræða. Það hefur verið upplýst hér áður, sérstaklega af hv. 4. Þm. Austf. (LJós), hver sá hlutur er, sem þannig er tekinn á þurru landi, hvernig bankavextirnir eru 9–10% nú orðið, margfaldir á við það, sem tíðkast nokkurs staðar erlendis, hvernig vátryggingarfélögin fá margfalt meira en tíðkast úti, hvernig söluhringarnir, sem selja út úr landinu, taka um þrefalt hærri próvisjón og gefa erlendis heldur en tíðkast t.d. í Noregi, hvernig ríkið tekur sjálft í sinn hlut útflutningsgjald, hvernig allt upp undir 25% af verðmæti fisksins fer í þennan dauða hlut, hvernig fjórðungur af öllu fiskandvirðinu er tekinn, áður en atvinnurekendur og verkamenn, áður en fiskiðnaðurinn og fiskveiðendurnir eiga að fara að skipta sín á milli. Og þetta er ekkert smáatriði í þessu efni. Ef hæstv. ríkisstj. hefði viljað taka að einhverju leyti sinn frelsisboðskap upp og segja: það er öllum aðilum hér á Íslandi heimilt að taka lán, eins og þeim þóknast og hvar sem þeir vilja, til þess að reka atvinnuvegi hér á Íslandi, þeim er heimilt að selja út úr landinu hvert sem þeir vilja án afskipta ríkisstj., — þá hefði máske ýmislegt getað komið út úr þessum hlutum, þá hefði máske ýmsu verið rutt burt, sem hér er af rotnuðu fyrirkomulagi í sambandi við sjávarútveginn. En ekkert af slíku hefur verið gert. Frelsið hefur aldrei náð það langt þessi tvö ár, sem frelsið var boðað á þessu sviði. Það hefur meira að segja verið upplýst, þó að ekki hafi það fengizt rannsakað, að svo að hundruðum millj. kr. skiptir af því, sem fiskveiðendur hafa framleitt, er þegar fest erlendis af voldugum söluhringum þar og fæst ekki hreyft við því. Það hefur kannske vaxið á tímum þessarar ríkisstj. Ég er hræddur um, að sá aðili, sem þarna tekur til sín drýgsta hlutinn, ríkisvaldið og þeir voldugu hringar, sem standa meira eða minna undir verndarvæng þess, þeir hefðu átt að dragast inn í þessa samninga þarna með og þeir hefðu átt að fá að hafa þá sveðju yfir sínu höfði, að þeirra einokunaraðstöðu í þjóðfélaginu yrði grandað, svo framarlega sem þeir stæðu sig ekki betur í því að létta undir með íslenzkum sjávarútvegi heldur en þeir hafa gert. Það, hve erfiðlega gengur, og það, hve erfitt hefur verið að semja milli atvinnurekenda og verkamanna í sjávarútveginum, er vegna þess, hve stór þessi hlutur er, sem tekinn er á þurru landi af þessari dauðu hönd, og það er þarna fyrst og fremst, sem hefði þurft að ráðast á, en hefur ekki verið gert. Ég álít, að ríkisstj. sé, með því að halda hlífiskildi einmitt yfir þessum aðila, að framkvæma með þessu frv., ef að lögum verður, það að reyna að skapa eins konar alræði fyrir þessa hringa í íslenzkum sjávarútvegi og rýra enn kjör sjómanna og kjör fiskveiðenda, til þess að geta viðhaldið öllum þeim gífurlega þunga, sem allt bákn þessara hringa og ríkisvaldsins sjálfs er og hefur verið að sliga sjávarútveginn. Sem sagt, í staðinn fyrir að létta einhverju af öllum þessum þunga af sjávarútveginum, sem hann er svo að segja að sökkva undir, á nú að gera ráðstafanir til þess að rýra rétt sjómanna, til þess að geta rýrt hlut sjómannanna á eftir. Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, en það spáir engu góðu, þegar svona er farið að. Og hafi ríkisstj. rekið sig á það á undanförnum árum, eins og hún virðist hafa gert og vera að draga vissar ályktanir af því, að hennar boðskapur og hennar tilraunir, hennar dýru tilraunir með íslenzkt atvinnulíf, þær hafi reynzt illa, af því að þær hafi verið byggðar á fölskum forsendum, þá er ég hræddur um, að hún eigi eftir að reyna það sama, þegar hún skyndilega hverfur burt frá frelsinu, sem hún var að boða áður, og ætlar nú að fara að grípa til einræðisskipulags í þessum efnum.