27.10.1961
Sameinað þing: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (2978)

48. mál, mótmæli gegn risasprengju Sovétríkjanna

Alfreð Gíslason læknir:

Eftir að felld hefur verið brtt. um mótmæli gegn öllum kjarnorkusprengingum, án alls tillits til, hvaða þjóð stendur fyrir þeim, og eftir að felld hefur verið tillaga um, að aðstaða til flutnings eða varðveizlu kjarnorkuvopna verði aldrei leyfð hér á landi, þá er það augljóst orðið, að framkomin tillaga er ekki flutt af hreinum hvötum, heldur dylst þar að baki annarlegur tilgangur, sem sé sá að ala á úlfúð í stað þess að stilla til friðar. Þetta ber að víta harðlega, einkum þegar um jafnalvarlegt mál er að ræða sem hér. Ég var og er hlynntur því, að Alþingi mótmæli kjarnorkusprengingum og skori á stórveldin að hætta þeim að fullu, og ég er það án tillits til þess, hver þjóðin er, sem í hlut á. Rússar hafa nú um tíma staðið að stórfelldum kjarnorkusprengingum, og því hlýt ég að taka undir áskorun til þeirra um að hætta þeim gráa leik. Þótt græska þeirra, sem að till. standa, sé nú augljós orðin, breytir það ekki því, að ég er henni efnislega sammála, svo langt sem hún nær, og því segi ég já.