22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (2985)

53. mál, samkomulag um aðstöðu Færeyinga til handfæraveiða við Ísland

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Skömmu eftir að fiskveiðilögsagan var færð út haustið 1955, hreyfði danska ríkisstj. því við ríkisstj. Íslands, að Færeyingum yrði leyft að stunda veiðar með handfæri innan 12 mílna fiskveiðilögsögunnar og upp að þeim mörkum, sem þeir höfðu gert fyrir 1. sept. 1958. Vegna þess að ágreiningurinn við Breta út af fiskveiðilögsögunni var óleystur, var þetta mál látið bíða. En strax eftir að samkomulag hafði orðið við Breta, tóku Danir málið upp á ný. Ríkisstj. taldi rétt að fallast á, að Færeyingar skyldu hafa heimild til þess að stunda fiskveiðar innan íslenzku fiskveiðilögsögunnar með handfæri með sömu takmörkunum og íslenzkir togarar hefðu heimild til að stunda þar veiðar með botnvörpu. Umr. um þetta mál voru teknar upp á s.1. sumri við sendinefnd Færeyinga, sem hér var, og vildi ríkisstj. fyrir sitt leyti fallast á, að sérstakt samkomulag yrði gert við Færeyinga. Málið var borið undir utanrmn., og skýrði ég þar frá því, að það væri till. ríkisstj., að Færeyingum yrði heimilað að halda áfram handfæraveiðum við Ísland innan 12 mílna fiskveiðilögsögunnar á sömu svæðum og sömu tímum og íslenzkum togurum er heimilt að veiða þar með botnvörpu, auk þess sem þeir mættu stunda veiðar í kringum Kolbeinsey á svæðinu milli 4 og 8 mílna. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Færeyingar hafa um mjög langt skeið stundað hér handfæraveiðar, og er ekki nokkur vafi á því, að þessar veiðar þeirra eru mjög þýðingarlitlar og virðast ekki hafa nein hættuleg eða skaðleg áhrif fyrir fiskigengd við Ísland. Ríkisstj. gerði því þetta samkomulag við Færeyinga með meðmælum meiri hl. utanrmn. og leggur til, að það verði nú staðfest hér á hv. Alþingi.

Mér þykir rétt, að um þetta mál sé höfð sama afgreiðsta og málið hér á undan, að umr. um það verði frestað og því vísað til utanrmn.