06.12.1961
Sameinað þing: 19. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (2988)

53. mál, samkomulag um aðstöðu Færeyinga til handfæraveiða við Ísland

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Um aldir sóttu ýmsar erlendar þjóðir til handfærafiskveiða á Íslandsmið. Um langan aldur stóðu þar fremstir í fylkingu Frakkar, Danir og Færeyingar. Standa hér á landi enn all mörg ummerki sem tákn þess tíma, einkum þó frá því er Frakkar stunduðu þær veiðar hér í stórum stíl. Eftir því, sem útgerðin tók tæknina meira í sína þjónustu, samfara breyttri fiskveiðilöggjöf Íslendinga, fór þeim mjög fækkandi, sem sendu skip sín til handfæraveiða á Íslandsmið. Þó héldu Færeyingar þessum ferðum sínum til Íslands með handfæri áfram og halda enn. Eiga þeir enn allmörg skip, sem henta bezt til slíkra veiða, en flest eru þau af eldri tegund, og fer þeim þó árlega fækkandi. Er því aðeins hér um tímaspursmál að ræða og eigi langt þar til sá floti er allur úr sér genginn og ófær til langferða yfir úfin höf.

Handfæraveiðar hafa enn verulega þýðingu fyrir lífsafkomu Færeyinga. eða svo lengi sem þeir hafa ekki að öllu leyti skipt yfir til nýrri veiðiaðferða, en sjávarútvegur er, sem kunnugt er, höfuðatvinnuvegur þeirra. Þetta viðurkenndu Íslendingar, er þeir veittu Færeyingum sérstaka heimild til handfæraveiða innan hinnar fornu lögsögu, en heimild þessi féll úr gildi í árslok 1947. Nú, þegar fiskveiðilögsagan hefur verið flutt úr 3 sjómílum í 12 mílur, er þrengt mjög að þessum höfuðatvinnuvegi fámennrar og fátækrar þjóðar, sem allt líf sitt á undir því að afla sér bjargar úr djúpum hafsins. Það kom því engum á óvart, er danska ríkisstj. fór þess á leit á s.l. sumri, að teknar yrðu upp viðræður við íslenzku ríkisstj. um réttindi Færeyinga til handfæraveiða innan lögsögu Íslands. Hófust um þetta mál samræður á milli þessara aðila í júlímánuði s.1., sem lauk með því samkomulagi, sem birt er hér með till. sem fskj. á þskj. 69.

Með því að mál þetta hefur eigi verið tekið til meðferðar fyrr á þessu þingi, er nú stendur yfir, þykir rétt að gera hér nokkra grein fyrir því, sem felst í þessu samkomulagi.

Það er þá fyrst, að skipum, sem skrásett eru í Færeyjum, es heimilt að stunda handfæraveiðar innan fiskveiðilögsögu Íslands á svæðum beim og árstímum, sem íslenzkum skipum er heimilt að veiða með botnvörpu eða flotvörpu samkv. 1. gr. reglugerðar nr. 87 frá 29, ágúst 1958 og reglugerð nr. 4 frá 11. marz 1961.

Í öðru lagi: skipum, sem skrásett eru í Færeyjum, er auk þess heimilt að stunda handfæraveiðar á svæðinu milli 4 og 8 mílna innan fiskveiðilögsögu Íslands við Kolbeinsey.

Samkomulagi þessu getur hvor aðili um sig sagt upp með 6 mánaða fyrirvara.

Þetta er innihald samningsins allt og ekkert annað um það að segja.

Áður en gengið var frá þessu samkomulagi, hafði ríkisstj. borið málið undir utanrmn. Var það tekið fyrir á fundi í nefndinni hinn 25. júlí s.l. Meiri hluti nefndarinnar, Gísli Jónsson, Jóhann Hafstein, Birgir Kjaran og Emil Jónsson, vildi heimila ríkisstj. að undirrita þá þegar samkomulagið, eins og það er skráð á fskj., sem ég þegar hef lýst. En minni hlutinn, Hermann Jónasson og Finnbogi R. Valdimarsson, var því andvígur og taldi, að fresta bæri undirskrift samningsins, þar til Alþingi fengi tækifæri til þess að ræða málið. Bar þó eigi að skilja þessa afstöðu þannig, að þeir væru efnislega á móti því, að Færeyingum yrði leyft að veiða á handfæri á þessum slóðum innan lögsögunnar og á þeim tímum, sem fram er tekið í samkomulaginu. Þórarinn Þórarinsson var eigi mættur á fundinum né heldur varamaður hans.

Þótt málið hafi þannig áður verið borið undir utanrmn., þótti rétt að vísa því á ný til hennar, er það nú lá fyrir Alþingi til afgreiðslu. Hefur nefndin tekið málið fyrir á ný og rætt það og leggur einróma til, að þáltill. á þskj. 69 verði samþykkt óbreytt.