15.12.1961
Sameinað þing: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (2994)

117. mál, frestun á fundum Alþingis

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þessi till. til þál. er þess efnis, að Alþingi álykti að veita samþykki sitt til þess, að fundum þingsins verði frestað frá 19. des. 1961 eða síðar, ef henta þykir, enda verði það kvatt saman á ný eigi síðar en 1. febr. 1962.

Nú horfir svo um afgreiðslu fjárlaga, að 3. umr. getur farið fram á mánudag, og má því gera hlé á fundum Alþingis fyrri hluta næstu viku, væntanlega 19. eða 20. þ.m. Í stjórnarskránni er svo ákveðið, að forseti Íslands geti frestað fundum Alþingis, en þó ekki lengur en 2 vikur í senn, án þess að samþykki Alþingis komi til. Án samþykkis þingsins yrði Alþingi því að koma saman 2. eða 3. janúar, ef frestað yrði 19. eða 20. Ríkisstj. þykir rétt að hafa þennan frest nú nokkru lengri, eða allt að 1. febr. Hins vegar er rétt að taka það fram, að ef ríkisstj. þykir tilefni til að kalla þing saman að nýju til fundar fyrr, þá mun það að sjálfsögðu verða gert.