15.12.1961
Sameinað þing: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (2995)

117. mál, frestun á fundum Alþingis

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Framsfl. er mótfallinn þessari þáttill. um frestun funda Alþingis allt til 1. febr., ef ríkisstj. sýnist svo.

Og rökin fyrir því eru á þessa leið í örstuttu máli:

Vegna bátaútvegsins þarf að breyta brbl. ríkisstj. frá því í sumar um álögur á útveginn, eins og ríkisstj. hefur sjálf viðurkennt og heitið.

Lausaskuldamál landbúnaðarins eru í sjálfheldu og aðkallandi að breyta brbl. frá í sumar sem skjótast og lögfesta nýja skipan, en það mál hefur verið látið biða í Nd. vikum saman.

Þá eru málefni togaranna þannig vaxin, að brýna nauðsyn ber til, að Alþingi sé með í ráðum, hvað gert verður í þeim, og þá ekki sízt þar sem til athugunar er samkvæmt yfirlýsingum ríkisstj., hvort auka skuli rétt til togveiða í landhelginni.

Af þessum og raunar fleiri ástæðum telur Framsfl., að veita beri einungis stutt jólaleyfi og taka til aftur sem skjótast upp úr áramótum.

Flokkurinn er því, eins og nú er ástatt, mótfallinn því að gefa ríkisstj. heimild til að hafa langt þinghlé og opna um leið möguleika fyrir ríkisstj. með þessari þáltill. til þess að gefa út brbl. að vild sinni í miðju þinghaldinu, í stað þess að Alþ. haldi áfram störfum með stuttu jólahléi.