13.11.1961
Efri deild: 14. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Áður en þetta mál fer til nefndar, vildi ég vekja athygli á örfáum atriðum. Það er í sjálfu sér ekki að lasta, að nú er talið hægt að lækka aðflutningsgjöld á nokkrum vörutegundum, eitthvað um 30 númer, að ég ætla, sem upp eru talin í 2. gr., en eru í raun nokkuð á annað hundrað tegundir vöruflokka. Um leið og ég segi þetta, vil ég þó láta í ljós nokkra vantrú á, að tollalækkun þessi afstýri smygli í verulegum mæli. En nú er um það talað mikið opinberlega, að smygl hafi tíðkazt hér í mjög stórum stíl undanfarið um alllangan tíma. Aðferð til að afstýra smygli hlýtur fyrst og fremst að vera allt önnur en þessi, sem hér er lagt til, strangara eftirlit, meiri viðurlög, — því að smygl er fjárdráttur og ekkert annað en fjárdráttur, — sektir og refsingar. En þó vil ég ekki neita því, að þetta kunni einhverju að áorka sem hliðarráðstöfun, ef farið er út í það að taka verulega föstum tökum á smyglinu um leið. Þess vegna er ég því ekki andvígur, að þetta frv. komi fram og að breytt verði um til lækkunar á aðflutningsgjöldum á þeim vörum, sem hér eru taldar. Þó tel ég, að nokkuð af þeim vörum séu vörur, sem eigi að vera hátt tollaðar, óþarfavarningur, sem eigi að bera mikla tolla og aðflutningsgjöld, ef vörur á annað borð eiga að bera þau. En nú er boðað, að heildarendurskoðun á tollskránni standi yfir og að hún muni verða lögð fram næsta haust, og ég tel, að því beri að fagna. Og margt af þessum vörum, sem hér eru upp taldar í 2. gr., eru að sjálfsögðu nauðsynjavörur og mjög æskilegt, að þær geti lækkað í verði.

En það, sem ég vildi sérstaklega víkja að hér, er það, að um leið og tollskráin er opnuð eða ákvæðum um tollskrá er breytt eitthvað, þyrpist að heill flokkur annarra vara, sem margur mundi æskja að einnig væri tekinn til meðferðar, þegar talið er fært að lækka tolla á þessari vöru eða hinni. Og samkvæmt því, sem ég sagði hér áðan um það, að allmikið af þessum vörum, sem hér um ræðir, er varningur, sem verður að telja lítt þarfan, þá finnst mér, að hinn endinn á tollskránni, þ.e.a.s. þörfustu vörurnar, hafi orðið um of út undan nú. Og eins og hér hefur verið drepið á, hefur þingmönnum unnizt fremur lítill tími til að skoða þann lista, sem hér er lagt til að tollar lækki á, og enn minni tími til að glöggva sig á þeim vörum, sem utan við þennan lista standa. Þess vegna er ekki svo auðvelt að koma fram beinni tillögu hér á þessu augnabliki um breytingar, enda naumast þess að vænta, að um miklar breytingar á þessu frv. verði að ræða. En það eru til vörur í þessu landi, sem eru það hátt tollaðar eða það há innflutningsgjöld á, að ég tel, að eins og sakir standa, sé það óbærilegt, og það eru einmitt þessar vörur, sem ég vildi óska að sú nefnd, sem fær þetta frv. til athugunar og gerir væntanlega tillögur um, sæi sér fært að athuga um, hvort ekki væri hægt að taka inn, um leið og breytingar eru annars gerðar á tollskránni. Ég á þarna fyrst og fremst við landbúnaðarvélar. Það kann að hljóma hjáróma að taka þær til samanburðar við þessar vörur, sem hér um ræðir, en eins og hagar nú í þessu landi, get ég sagt það hér, að ég hef setið um tækifæri til að vekja athygli á því að taka tolla þeirra og önnur innflutningsgjöld til athugunar og breytinga, strax og einhverjir möguleikar væru á, því þó að þær séu ekki í hæsta tollflokki, eru þau gjöld af þeim, eins og verð þeirra er nú orðið, svo gífurleg, að ég álít, að það sé óhjákvæmilegt að breyta þeim. Einn bóndi er nú þeim örlögum seldur, að hann verður að komast yfir mikinn fjölda landbúnaðarvéla, og það ástand hefur verið smátt og smátt að skapast frá allt öðru ástandi, sem var t.d. fyrir einum áratug, hann verður að eignast margs konar heyvinnuvélar, hann verður að eignast súgþurrkunarvélar, hann verður að eignast saxblásara, og hann verður að eignast umfram allt dráttarvél. En ein dráttarvél ný kostar nú á annað hundrað þús. kr. af þeirri gerð, sem þær eru flestar keyptar og taldar beztar. Ég var að reyna með naumum tíma að afla mér upplýsinga um það hjá fulltrúa tollstjóra, hvað aðflutningsgjöld af einni dráttarvél mundu vera há nú. Hann var alllengi að átta sig á þessu dæmi, því að aðflutningsgjöld eru með mörgu móti, með álagi og aftur álagi, og þess vegna er dæmið nokkuð flókið, en hann sagði þó að lokum, að aðflutningsgjöld af dráttarvélum mundu vera í kringum 35% af því, sem vélin stæði í innflutt, þegar búið væri að leggja aðflutningsgjöld á. Þá getum við séð, hvað ein dráttarvél, sem kostar 100 þús. kr. út úr verzlun eða frá umboðinu, muni gefa í ríkissjóð í aðflutningsgjöldum. Þessu gjaldi tel ég alveg óumflýjanlegt að létta af, helzt að öllu leyti. Sá bóndi, sem þarf að kaupa dráttarvél á 100 þús. eða 120 þús. kr. máske, með þeim tækjum, sem henni fylgja, getur hvergi nokkurs staðar fengið lán til þeirra hluta. Og það er útilokað einnig, að hann eigi peninga til þess, — a.m.k. er það útilokað um alla byrjendur, en það eru fyrst og fremst þeir nú, sem þurfa á því að halda að kaupa nýjar vélar.

Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri. En ég vil óska eftir því, að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, taki það til vandlegrar yfirvegunar, hvort ekki sé hægt að bæta einhverju inn á þann lista, sem hér liggur fyrir. Það eru að sjálfsögðu ýmsar fleiri vörur, sem kannske stendur eitthvað svipað á og um dráttarvél bóndans. Þó efast ég um, að nokkur einasta vörutegund sé eins hart leikin eða nokkur maður, sem þarf að kaupa atvinnutæki, og til samanburðar við það vil ég geta þess, að ég veit ekki betur en að útgerðarmenn, sem kaupa aflvélar í fiskibáta eða skip, fái þær ótollaðar. Það verður leiðrétt, ef þetta er skakkt, en ég veit ekki betur en þetta sé svona. Ég er ekki að kenna neinum um þetta sérstaklega. Þessi gjöld hafa verið lögð á fyrir löngu og hafa smáhækkað eins og annað með hækkuðu verðlagi og lækkuðu gengi. En á þeim tíma, sem við nú erum á, er nauðsynlegt að létta þessum gjöldum af, helzt að öllu leyti. Ég get tekið það fram, að það eru allmiklu lægri innflutningsgjöld á flestum öðrum landbúnaðarvélum, a.m.k. heyvinnuvélum, eitthvað í kringum 21 eða 22%. En svo eru aftur, að ég hygg, hærri gjöld á sumum öðrum, t.d. eins og á súgþurrkunarvélum. En þó að því sé haldið fram, að þetta falli ekki inn í þann ramma, sem hér liggur fyrir, þá vil ég þó ekki láta hjá líða að vekja athygli á þessu, og ég hygg, að möguleikar væru á því að koma inn ákvæði samhliða þessu frv., a.m.k. í heimildarformi, til þess að létta þessum gjöldum af eða lækka þau a.m.k. stórlega. En ef það er ekki fært í sambandi við þetta frv., þá verður að finna ráð til þess á öðrum vettvangi.