06.12.1961
Sameinað þing: 19. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (3008)

94. mál, átta stunda vinnudagur verkafólks

Guðlangur Gíslason:

Herra forseti. Þó að ég ætli ekki að mæla með samþykkt þessarar þáltill., eins og hún liggur hér fyrir, þá tel ég þó, að í henni séu ýmis atriði, sem vel séu þess verð, að þau séu rædd nokkru nánar. Á ég þar helzt við þá ábendingu um að koma á samstarfi milli launþega eða verkafólks og atvinnurekenda um bætt vinnuskilyrði og breyttar aðferðir til þess að ná betri launagreiðslum til handa verkamönnum fyrir þeirra störf. Ég tel mjög æskilegt, ef það væri hægt að koma hér á lögbundnum 8 stunda vinnudegi, ef afkoma atvinnuveganna væri á þann hátt, að hún leyfði slíkt. En í því sambandi er vissulega margt að athuga. Ég held, að það sé ekki ofsagt, þó að því sé haldið fram, að Íslendingar almenat og þar með launastéttirnar að sjálfsögðu einnig búi að mörgu leyti við betri skilyrði en almennt gerist í nágrannalöndum okkar og hjá þeim þjóðum, sem við helzt miðum okkar aðstæður við. Húsnæði almennt mun hér vera rýmra miðað við teningsmetra á hvern íbúa og heimili almennt búin betri tækjum en er í okkar nágrannalöndum, sem við, eins og ég sagði áðan, helzt miðum okkar aðstöðu við. Þetta útheimtir að sjálfsögðu það, að menn verða að hafa hærri tekjur til þess að skapa sér slíka aðstöðu og til þess að halda henni við. Þetta hefur gerzt hér á landi með því, að menn hafa tekið á sig lengri vinnudag en 8 stundir og þannig getað byggt sér þessa aðstöðu og búið við hana. Það má vel vera rétt, að þetta sé ekki það, sem stefna beri að, og er ég alveg á því. En þetta er hins vegar staðreynd, að þetta hefur gerzt hér, og þannig hafa launastéttirnar að mínu áliti að mörgu leyti byggt sér betri aðstöðu en annars staðar er. En þeir, sem búa við betri skilyrði, hljóta að krefjast hærri launa. Og þegar á það er litið, að það er staðreynd, sem þýðir ekki neitt að mæla á móti nú í dag, að atvinnuvegirnir og sá atvinnuvegur helzt, sem stærstur er, sjávarútvegur og fiskiðnaður, þolir ekki hærri launagreiðslur en nú eru, eins og aðstæður eru allar, er það skoðun mín, að það megi bæta þarna mjög verulega úr og á þann hátt bæta aðstöðu og laun verkafólks. Möguleikarnir eru að mínu áliti þarna fyrir hendi, en til þess þarf að fara fram gerbreyting á aðstöðu við framleiðsluna frá því, sem nú er.

En það, sem ég hef helzt út á þessa till. að setja, er, að það er gert ráð fyrir þingskipaðri nefnd til þess að ráða fram úr þessum málum. Ég tel það mjög eðlilegt og tel það eðlilegast og líklegast til árangurs, að þarna væri um frjálsa samninga að ræða á milli fulltrúa verkamanna og fulltrúa atvinnurekenda, því að ef svo er ekki, þá er ég hræddur um, að niðurstöður þingskipaðrar nefndar yrðu ekki jákvæðar. Við fiskframleiðsluna mun það komið á í okkar nágrannalöndum, að hún er að mjög verulegu leyti unnin í ákvæðisvinnu, en ekki tímavinnu. Ég hef af því sannar spurnir, að hjá Norðmönnum mun þetta vera komið mjög vel á veg, og þar telja menn, bæði verkafólk og atvinnurekendur, þetta mjög hagkvæmt og að þeim muni ekki detta í hug, hvorugum þessara aðila, að hverfa frá því. Þá er það einnig, að við munum vera mjög á eftir með nýtingu í fiskiðnaðinum, miðað við Norðurlandaþjóðirnar, og er það atriði, sem einnig með breyttu fyrirkomulagi, með ákvæðisvinnu mætti laga, og hafa komið fram hugmyndir um það atriði í sambandi við ákvæðisvinnu, að hún yrði því betur borguð, því betri nýtingu sem hver og einn skilaði við það verk, sem hann ynni að. Ef þetta væri grundvöllurinn undir fiskiðnaðinum, þá er ég sannfærður um, að það mætti bæta laun þess verkafólks, sem í þessari iðngrein vinnur, allverulega. En mér er ekki um annað kunnugt en fram að þessu hafi allar áþreifingar frá hendi atvinnurekenda strandað á tortryggni frá forsvarsmönnum verkalýðsfélaganna. Þeir hafa látið í ljós, að þeir óttuðust, að með þessu ætti að fara að kaupskerða fólk í staðinn fyrir að bæta þess hag. Ef þessi skoðun er hins vegar rétt, eins og kemur fram í þessari till., þá tel ég það mjög vel farið og trúi á, að það megi bæta hag verkafólks einmitt á þessu grundvallaratriði, að breyta vinnufyrirkomulaginu hjá þessari iðngrein. En til þess þarf að vera fullt og einlægt samstarf á milli þessara aðila, og það verður ekki, nema það sé byggt upp af frjálsum vilja og frjálsum samtökum frá þeim báðum. Og það er það, eins og ég sagði áðan, sem ég tel kannske mest athugavert við till., að það er gert ráð fyrir, að það eigi að skipa þingskipaða nefnd til þess að ræða um þessi mál.

Það er nú náttúrlega margt annað, sem að er hjá okkur í þessari atvinnugrein og öðrum. Það er staðreynd, að atvinnuvegir okkar nú síðasta hálfa áratuginn hafa byggzt upp ört og með óhagkvæmum og stuttum lánum og hafa ekki verið þess umkomnir af þeim orsökum að greiða eins hátt kaup og mætti gera, hefði þetta þróazt eðlilega um áratuga skeið, eins og viðast hefur verið á Norðurlöndum. Hjá bátaflotanum við fiskveiðarnar má segja, að það sé nokkuð svipað ástatt í þessum efnum. Þar hefur þróunin einnig orðið — ég vil segja óeðlilega ör. Flatinn hefur verið endurbyggður á mjög skömmum tíma, einum áratug eða hálfum öðrum, og ekki einungis að hann hafi verið endurbyggður, heldur hefur hann verið stóraukinn og búinn mjög verulega miklum mun betri tækjum en áður var. Þetta hefur að sjálfsögðu Kostað mikið fé fyrir þessa atvinnugrein, en gerir henni örðugra að standa undir háum kaupgreiðslum en annars væri mögulegt, hefði þetta þróazt á eðlilegri hátt og við betri skilyrði, þó að það skuli viðurkennt, að vélbátaflotinn hefur við sína uppbyggingu haft betri aðstöðu til hagkvæmra lána, þar sem er um fiskveiðasjóð að ræða og þann stuðning, sem hann hefur veitt. En í þessu sambandi verður ekki hjá því komizt að gera sér grein fyrir því, að einmitt nú hin síðustu ár hefur þróunin orðið sú, að bátar hafa orðið að leggja stórfé, jafnvel milljónir á bát, til þess að auka við tæki, sem krafizt er að þeir hafi, og til þess að breyta sínum veiðarfærum, þar sem um nýjar veiðiaðferðir og nýjar atvinnugreinar er fyrir þá að ræða, bæði í sambandi við sumarsíldveiðar, í sambandi við haustsíldveiðar og í sambandi við breytingu á netum úr hampi yfir í nælonnet. En ég held, að ef vel á að fara, þá verði einnig að verða grundvallarbreyting á rekstri bátanna, þannig að rekstrarfyrirkomulagið sjálft, hvað snertir skiptingu afla milli útgerðarmanna og sjómanna, verði einnig að færast í það sama horf og það er alls staðar á Norðurlöndum, bæði í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, að skipshöfnin taki að nokkru leyti þátt í vissum greinum útgerðarkostnaðarins. Það þykir kannske skrýtið að halda því fram, að með því móti væri hægt að bæta kjör sjómanna, en það er þó svo, að þetta liggur nokkuð augljóst fyrir, enda reynsla fyrir því hjá þeim þjóðum, sem ég hef hér minnzt á, að með því móti mætti hækka nettóútkomu bátanna, þó að aflamagn ekki ykist kannske eða jafnvel drægist eitthvað saman.

Ástandið hjá okkur í dag í þessum málum er það, að útgerðarmenn einir bera allan útgerðarkostnaðinn. Skipshöfnin er þar ekki þátttakandi að neinu leyti. Þetta hefur leitt til þess, að það hefur átt sér stað — ég vil segja jafnvel í sumum tilfellum sóun verðmæta í sambandi við veiðarfæranotkun, og eru það að sjálfsögðu ekki nema eðlileg og mannleg viðbrögð, þegar þess er gætt, að hlutur sjómanna, sem á bátunum eru, miðast við brúttótekjur af því, sem inn kemur, — þá er ekki nema eðlilegt og mannlegt, að þeir freistist til þess að nota eins mikið af veiðarfærum og þeir á annað borð treysta sér til að ráða við og kannske jafnvei meira. Það gefur þeim von um meiri tekjur, þó að hins vegar mæði á útgerðinni, að sá afli, sem þannig er veiddur, svari ekki tilkostnaði. Ég þekki vel þess dæmi, að bátar, sem hafa verið með jafnvel einna mestan afla, hafa að lokinni vetrarvertíð átt einna erfiðast að gera upp við mannskapinn, þar sem þeirra veiðarfærakostnaður um vetrarvertíðina hefur orðið óeðlilegur og hefur tekið svo stóran hlut af brúttóverðmæti aflans, að það hefur valdið beinum örðugleikum, þó að þeir væru með mun hærri afla en aðrir bátar. Í þessu sambandi er rétt að koma inn á það, sem ég veit ekki, hvort menn almennt hafa gert sér grein fyrir, en einmitt þetta atriði, að það er aðeins hagur annars aðilans, að sem mestur brúttóafli komi inn á vélbátana, burt séð frá tilkostnaði, það hefur leitt að nokkru leyti til verra hráefnis en annars hefði orðið. Á ég þar aðallega við veiðar í þorskanet. Ég tel ekki, að þetta þurfi neinnar skýringar við. Það liggur alveg í augum uppi, að ef ekki er gætt hófs í því að hafa ekki meiri veiðarfæri en hægt er að ráða við með eðlilegum hætti, og það er hagur annars aðilans, þá leiðir þetta sjálfsagt til þess, að þetta verður notað óeðlilega og meira en fjárhagslega er hagkvæmt, og hefur leitt til verra hráefnis, eins og ég sagði, og tel ég það kannske eina af höfuðástæðunum fyrir því, hvernig netaveiðar á undanförnum árum hafa komið út, og því miður, þar hefur það farið versnandi frekar en batnandi.

Ef litið er á þessi mál í heild, litið á þá staðreynd, að Íslendingar eiga nú atvinnutæki, sem fullnægja þeim að öllu leyti atvinnulega séð, að við þessi tæki, sem þjóðin á, getur hver einasti vinnufær maður haft atvinnu, ef þau eru í gangi, og ætti að geta haft af þeim nægilega lífsafkomu, miðað við eðlilegan vinnutíma, að ef þar væri allt með felldu, þá er það aðeins það, sem ég tel að þurfi fyrst og fremst að athuga, hvernig eðlilegt og hægt sé að reka þessi tæki og hvernig hægt sé að skipta því aflaverðmæti, sem þau afla og framleiða, á þann veg, að háðir aðilar hafi þar hag af. Ég er sannfærður um, að ef það er einlægur vilji á bak við hjá báðum aðilum, bæði verkamönnum og atvinnurekendum, þá megi framkvæma þetta og þá muni takast að ná þeirri samstöðu um þessi mál, sem nauðsynleg er og ég tel að sé grundvallaratriði í þessu sambandi.

Ef við yrðum svo lánsöm, að þetta tækist, þá er ég sannfærður um, að það yrði þjóðinni allri til hagsældar, launamönnum ekki síður en atvinnurekendum.