07.03.1962
Sameinað þing: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3025)

61. mál, námskeið til tæknifræðimenntunar

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu á þessu máli. Jafnframt vil ég taka fram, að þá breytingu, sem n. hefur gert á till., tel ég vera til bóta. En nánast er sú breyting í því fólgin, að tekið er upp í sjálfa till. það, sem ég notaði í grg. og framsögu sem rökstuðning fyrir málinu í upphafi. Ég tel, eins og ég sagði, að þessi breyting sé til bóta, og er henni fyllilega samþykkur.

Brtt. þá, sem flutt er hér á þskj. 347 við till., hef ég persónulega ekkert við að athuga, því að vitað er, að við sjálfa framkvæmd till. verður að leita til Tæknifræðingafélags Íslands eins og margra fleiri aðila. En fremur mætti telja þessa brtt. samt til framkvæmdaatriða frekar en til beinna efnisatriða í sjálfri till. Ég ítreka svo þakkir mínar til n. og um afgreiðslu málsins, sem er mjög knýjandi að leyst verði úr hið allra fyrsta, og vænti þess, að hv. alþm. samþykki tillöguna.