29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3030)

70. mál, öryggi opinna vélbáta

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Till. þessi fjallar um það, að kannaðir verði möguleikar á að bæta aðstöðu við rekstur opinna vélbáta, svo og til að auka öryggi sjómanna á slíkum vélbátum.

Eftir útfærslu landhelginnar á undanförnum árum hefur færzt nýtt líf í útgerð opinna vélbáta, svokallaðra trillubáta, og hefur þeim fjölgað mjög verulega. Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið, munu vera til allt að 1500 slíkir bátar á landinu öllu. Þess ber þó að gæta, að þeir eru hvergi nærri allir notaðir til reglulegra fiskiróðra, heldur kemur margt annað til. Sumir eru notaðir til samgöngubóta og ferðalaga yfir firði. Aðrir eru notaðir í skemmtilgangi. En þó verður að gera ráð fyrir, að meginhluti þessara báta sé meira eða minna notaður til fiskiróðra. Fiskifélag Íslands heldur um þetta nokkrar skýrslur, og síðustu tölur, sem ég hef þar fengið, skýra frá því, að á árunum 1957 og 1958 hafi tala þeirra báta, sem komust á skrá með afla sinn, farið vaxandi og var þá seinna árið að nálgast 400. Hefur hún vafalaust hækkað mikið síðan. Afli þessara báta, sem skráðir voru hjá Fiskifélaginu, var fyrra árið 12 og síðara árið 14 þús. lestir, svo að hér er um mikil verðmæti að ræða. Nemur sá afli, sem trillubátar leggja á land, vafalaust tugum milljóna króna.

Enda þótt hér sé um umfangsmikinn þátt í sjávarútvegi okkar að ræða, hefur lítið verið fyrir þessa útgerð gert, og er ástæða til að athuga mjög gaumgæfilega, hvað hægt er að gera til þess að bæta aðstöðu hennar. Er sérstök ástæða til þess að beina athygli að trillubátaútgerðinni, þar sem margir kunnugir menn telja, að þarna sé um að ræða einhverja hagstæðustu útgerð, sem hér á landi er stunduð, ef borinn er saman annars vegar tilkostnaður og hins vegar afköst eða afli. Enn fremur er þess að gæta, að í trilluútgerð er fjárfesting hvergi nærri eins mikil og hún er í sumum öðrum greinum.

Af þeim atriðum, sem þarf að kanna og varða aðstöðu þessara báta, vil ég fyrst benda á, að víða á landinu er lítið til þeirra hugsað í sambandi við hafnargerðir. Það er sérstaklega athyglisvert, að í sumum af stærri höfnum landsins, þar sem miklar framkvæmdir hafa verið undanfarin ár og hafnargerð er á núverandi stigi langt komin, virðist nálega ekkert hafa verið hugsað fyrir þessum litlu bátum, en þó er svo komið í sumum þessara hafna, að þar eru 30–50 trillur. Þar eð mannvirki eins og hafnir eru byggð að verulegu leyti fyrir ríkisfé, er full ástæða til þess að taka tillit til þess við hafnargerðir og við undirbúning frekari framkvæmda, að veita þarf þessum litlu bátum eins góða aðstöðu og hægt er.

Á sviði lánamála er aðstaða þeirra manna, sem vilja stunda þessa útgerð og stunda hana, að mörgu leyti mjög léleg. Virðist tilefni til að reyna að bæta einnig þar fyrir þeim. Loks hafa þeir menn, sem stundað hafa sjó á trillum, oft átt í ótrúlegum erfiðleikum með að losna við aflann. Vinnslustöðvar eru yfirleitt miðaðar við stærri skip, og oft hafa eigendur vinnslustöðva beinna hagsmuna að gæta við rekstur á stærri vélbátum eða jafnvel togurum. Virðast þeir hafa haft takmarkaðan áhuga á að taka afla af trillunum. Þetta þarf líka að athuga og reyna að tryggja, að sá afli, sem trillurnar flytja á land, sem vafalaust er á milli 10 og 20 þús. smálestir á ári, sé hagnýttur eins vel og framast er unnt.

Síðari liður þessarar tillögu varðar öryggi sjómanna á hinum opnu vélbátum. Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða vegna þess, hve þessir bátar eru orðnir margir og hve öryggi á þeim er lítið. Ef það kæmi fyrir, að þriðji hver opinn vélbátur í landinu væri á sjó og tveir menn á hverjum, væri þar um 1000 manns að ræða. Segjum svo, að sjötta hver trilla væri á sjó og tveir menn á hverri, þá er um 500 manns að ræða.

Öryggisútbúnaður á bátunum er lítill sem enginn. Ef þeir fara svo langt, að ekki sjáist til lands, hafa þeir svo til enga möguleika til þess að láta í sér heyra eða hafa samband við aðra báta eða land. Flm. er kunnugt um, að Skipaskoðun ríkisins hefur veitt þessu máli athygli og leitazt við að auka öryggi þessara báta, en á því eru ýmsir erfiðleikar. Hefur verið svo til skamms tíma, að ýmis þau öryggistæki, sem æskilegt væri að hafa í bátunum, eru svo dýr, að varla er hægt að krefjast þess af hverjum eiganda trillubáts, að hann eignist þau. Hins vegar eru stöðugar framfarir á þessu sviði, það koma fram ný og bætt tæki, bæði gúmmíbátar og radíótæki, sem verða fyrirferðarminni og ódýrari, eftir því sem árin líða. Verðum við því að vænta þess, að fram komi öryggistæki, sem hægt væri að hafa á þessum mikla bátaflota okkar, þannig að öryggi sjómannanna á opnu vélbátunum aukist verulega frá því, sem verið hefur hingað til.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. nm þetta mál verði frestað og till. vísað til hv. allshn.