14.03.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (3034)

70. mál, öryggi opinna vélbáta

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Tillaga sú, sem hér er til umr., hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna möguleika á bættri aðstöðu til rekstrar opnum vélbátum og auknu öryggi sjómanna á slíkum bátum:

Allshn. hefur sent þessa tillögu til Slysavarnafélags Íslands, Alþýðusambands Íslands, Sjómannasambands Íslands, bátafélagsins Bjargar, Sambands smábátafélaga. Allir þessir aðilar hafa mælt eindregið með því, að tillagan verði samþykkt, og bent á ýmsar röksemdir fyrir því, hver eftir eðli síns félagsskapar. Bátafélagið Björg, sem er samtök trillubátaeigenda í Reykjavík, Samband smábátafélaga, sem er ungur, en vonandi vaxandi félagsskapur fyrir þessa starfsgrein, hafa bent á ýmislegt varðandi rekstur trillubáta, sem þeir telja að bæta þurfi. Þessi samtök óskuðu þess við allshn., að hún gerði tillögu um; að þingið skipaði sérstaka nefnd til að fjalla um þetta mál, og var tiltekið, hverjir þar þyrftu að eiga sæti. Allshn. hefur ekki séð ástæðu til þess að breyta tillögunni í þessa átt, en vill koma þessum óskum á framfæri engu að siður. Alþýðusambandið og Sjómannasambandið lögðu í sínum umsögnum ekki sízt áherzlu á öryggi sjómannanna. Slysavarnafélag Íslands gaf í allýtarlegri umsögn ábendingar um mörg atriði varðandi öryggi sjómanna á opnum vélbátum, sem félagið telur ábótavant. Að fengnum þessum umsögnum og upplýsingum hefur allshn. orðið einróma sammála um að leggja til, að tillagan verði samþykkt óbreytt eins og hún er á þskj. 89.