14.12.1961
Neðri deild: 36. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég átti þess ekki kost að vera viðstaddur við 1. og 2. umr. Þessa máls, en eftir því sem ég hef kynnt mér það, þá er um merkilegt mál að ræða, og vonandi, að sú löggjöf, sem sett verður um verðlagsráð sjávarútvegsins, geti að nokkru leyti leyst okkur frá þeim vanda, sem við höfum oft staðið frammi fyrir um hver áramót, þegar orðið hafa óeðlilegar tafir á því, að útgerð hæfist í byrjun vertíðarinnar. Þetta mál er nú orðið talsvert rætt og hefur sjálfsagt verið mikið rætt við 2. umr., og ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en aðeins reyna að halda mér við það, sem fram hefur komið í umr. núna.

Ég stend ásamt þrem meðnm. mínum í sjútvn. að brtt. við frv., sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, sem sé brtt. á þá lund að fækka fulltrúum Landssambands ísl. útvegsmanna samkv. 1. gr. A úr 4 í 3 og gera tilsvarandi breytingar á tölu fulltrúa frá öðrum samtökum. Ég er þeirrar skoðunar, að fjölmennar nefndir og ráð séu þung í vöfum og að það séu meiri líkur til árangurs af starfi, eftir því sem slíkar nefndir og ráð eru skipuð færri mönnum, og út frá því sjónarmiði tel ég þessa breytingu vera til bóta. Það er að vísu þannig, að það má segja, að sjómenn og útgerðarmenn eigi ekki jafnan hlut í aflanum, þegar hann kemur á skipið, þetta er dálítið breytilegt eftir veiðiaðferðum. En ég sé samt enga ástæðu til að vera að eltast við það að láta fulltrúatölu sjómanna og útvegsmanna vera misjafna að þessu leyti, því að í sumum tilfellum á útgerðarmaðurinn e.t.v. ekki nema 45%%, eins og t.d. á síldinni, en í öðrum tilfellum, eins og á þorskveiðum, er hluti útgerðarinnar aftur meiri.

Hv. 3. þm. Norðurl, e. flytur brtt., sem er efnislega á þá leið, að fulltrúar útvegsmanna í verðlagsráði verði tilnefndir þannig, að einn verði úr hverjum landsfjórðungi, og svo hefur hann óskað eftir að breyta sinni till. til samræmis við brtt. okkar í meiri hl, n., sem fram er komin. Ég vil taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að samtök eins og Landssamband ísl. útvegsmanna eru heildarsamtök, og þeir, sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta vegna búsetu sinnar á einhverjum sérstökum stað á landinu eða vegna einhverra sérstakra staðhátta, eiga að hafa fullt tækifæri til að gæta hagsmuna sinna innan þessara landssamtaka. Fyrir fáum dögum er búið að stofna samband fiskkaupenda á Vestfjörðum, og þetta samband hygg ég að hafi þann aðaltilgang að gæta hagsmuna okkar Vestfirðinga innan þeirra heildarsamtaka, sem fiskkaupendur eru aðilar að, en það eru bæði Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, hraðfrystihús Sambands ísl. samvinnufélaga, SÍF og Skreiðarsamlagið o.s.frv. Ég held, að ef Alþingi ætlaði sér að ákveða, frá hvaða landshlutum fulltrúar L.Í.Ú. væru valdir í þetta ráð, þá væri það komið inn á dálítið hála braut. Það væri sem sé komið inn á þá braut að reyna að leysa þessi landssamtök upp. Þetta er ekki lagt til í þessu frv. gagnvart þeim aðilum, sem eru í Alþýðusambandinu og Sjómannasambandinu. Það er ekki lagt til, að Alþýðusamband Vestfjarða eða Alþýðusamband Norðurlands eða Alþýðusamband Austfjarða, ef það er til,, skuli eiga þarna aðild. Ég hygg, að frá þeirri hlið sé því treyst, að heildarsamtökin gæti hagsmuna allra landshlutanna. Og ég held, að a.m.k. hér á Alþingi ættum við að ganga út frá því sama gagnvart Landssambandi ísl. útvegsmanna. Ég er þess vegna mótfallinn till. hv. 3. þm. Norðurl. e. hvað þetta atriði snertir.

Hins vegar boðaði hv. 4. þm. Austf. viðbótartillögu við 1. gr., sem mér finnst í fljótu bragði a.m.k. vera athyglisverð og ég tel að gæti að nokkru leyti og e.t.v. að öllu leyti fullnægt því, sem vakir fyrir hv. 3. þm. Norðurlands e. með hans till. Ég á þar við till. hv. 4. þm. Austf. um það að bæta við 1. gr. málsgrein, sem heimili aðilum þeim, sem taldir eru í greininni, að skipta um fulltrúa í verðlagsráðinu eftir því, hvaða mál sé fjallað um. Þá get ég t.d. hugsað mér það, að til yrði kvaddur Vestfirðingur, þegar verið væri að fjalla um verð á steinbít í ráðinu. Mér finnst fljótt á litið, að þessi till. sé þannig vaxin, að í þessu efni gætum við orðið sammála um lausn málsins og að þar með væri hægt að fullnægja þeim sjónarmiðum, sem ég veit að búa á bak við tillöguflutning hv. 3. þm. Norðurl. e.

Annars verð ég að segja, að í bréfi því, sem hann las upp frá samtökum fiskkaupenda á Norður- og Austurlandi, virtist mér það koma fram, að þau samtök væru aðallega stofnuð til þess að fá lækkað verð á smáfiski.

Varðandi aðra till. hv. 4. þm. Austf. Þess efnis að ákveða í lögunum, að fulltrúi sjómannasamtakanna í yfirdómnum skuli vera fulltrúi A.S.Í. verð ég að lýsa því yfir, að ég álít, að það sé ekki Alþingis að skera úr því, frekar en að ákveða fulltrúana úr landsfjórðungunum fyrir Landssambandið. Séu samtök sjómanna tvískipt í Sjómannasamband og Alþýðusamband, sem ég vil ekki viðurkenna að sé í raun og veru nein tvískipting, þá eiga þau samtök auðvitað að útkljá það sín á milli, hvernig þau skipa fulltrúa sinn í yfirdóminn.

Ég hef svo ekki í sjálfu sér meira um efni þessa frv. að segja. Hv. 4. þm. Austf. gerði mikið úr því, hvað hagsmunir útvegsmanna og sjómanna og fiskkaupenda væru í raun og veru andstæðir. Þetta hefur komið, að mér skilst, nokkuð mikið fram í umr. um þetta mál. En ég segi fyrir mitt leyti og tala þar af talsverðri reynslu, að ég tel, að þessir hagsmunir séu alls ekki andstæðir. Þeir fara saman og eru samhliða hjá öllum þessum aðilum. Það er auðvitað hagur jafnt sjómannsins, útvegsmannsins og fiskkaupandans, sem í mörgum tilfellum er bæði útgerðarmaður og sjómaður, að fá sem bezt verð fyrir fiskinn. Og þegar málin eru krufin til mergjar, þá held ég hvað þetta atriði snertir, að þessir aðilar deili ekki svo mjög innbyrðis, enda hafa bæði einstakir stjórnmálamenn og heilir stjórnmálaflokkar á undanförnum árum boðað það sýknt og heilagt í ræðu og riti, að fiskveiðar og fiskvinnsla ætti að fara saman, og árangurinn er, — ég segi: sem betur fer, — sá, að flestir þeir, sem eitthvað fást við útgerð, eru jafnframt líka eitthvað riðnir við fiskvinnslu og fiskverkun. Þannig kom það t.d. fram á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, sem hv. 4. þm. Austf. minntist á, að ef skipa ætti aðila frá togurunum í verðlagsráðið, sem uppfyllti það skilyrði að vera ekki fiskkaupandi, þá mundi sá aðili ekki vera finnanlegur, því að öll togaraútgerðin í landinu starfar að einhverju leyti í sambandi við fiskvinnslu, fiskkaup og fiskverkun. Og það var nefnt annað dæmi í mín eyru á þessum landssambandsfundi. Það var, að á Snæfellsnesinu öllu væri aðeins einn útgerðarmaður, sem seldi fisk sinn á bryggju nú orðið. Ég tel þessa þróun hafa verið farsæla og til bóta, og ég álít ekki, að hér á Alþingi eigi að gera mikið úr því, að þetta séu andstæðir hagsmunir. Við eigum einmitt að stuðla að því, að allir þessir aðilar vinni sem mest og bezt saman, og með því frv., sem hér liggur fyrir, er verið að stuðla að slíkri samvinnu.