22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (3054)

52. mál, viðurkenning Þýskalands á fiskveiðilögsögu við Ísland

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Þeir tveir hv. alþm., sem tekið hafa til máls í þessu máli, hafa báðir hagað málflutningi sínum á þann hátt, að ekki gefur tilefni til, að af minni hálfu a.m.k. verði opnaðar almennar umr. um málið á þessu stigi. Ég hefði því svo til alveg getað sparað mér að taka aftur til máls, ef hv. þm. Karl Guðjónsson hefði ekki borið hér fram fyrirspurn, sem ég tel rétt að sé ekki látið ósvarað.

Hv. þm. spurðist fyrir um það, hvort væntanlegar væru á næstunni breytingar á reglunum um rétt íslenzkra togara til veiða innan 12 mílna, og ef svo er, hvaða trygging sé þá fyrir því, að erlendir togarar fái ekki að fara þar á eftir. Það hefði að sjálfsögðu verið annaðhvort hæstv. sjútvmrh. eða hæstv. dómsmrh. að svara þessari fsp., en hvorugur þeirra er hér viðstaddur. Mér þykir því rétt í tilefni fsp. að skýra frá því, að ríkisstj. hefur til almennrar athugunar, hvaða ráð séu tiltæk til þess að reyna að bæta hag og afkomu togaraútvegsins á Íslandi. Allar þessar athuganir eru á byrjunarstigi, og því fer víðs fjarri, að nokkrar ákvarðanir hafi verið teknar í þeim efnum um, hvað gera skuli. Málið er mjög alvarlegt og mjög yfirgripsmikið, og það er til athugunar, bæði í einstökum atriðum og í heild, en engar ákvarðanir liggja fyrir um, hvað gera skuli, né heldur eru uppi innan ríkisstj. sjálfrar þegar ákveðnar tillögur um þessi mál.

Svar mitt við þessari fsp. af hálfu hv. þm. er því algerlega neitandi, eins og málið liggur nú fyrir.

Ég vil aðeins, að gefnu tilefni frá báðum þeim hv. þm., sem tóku hér til máls, minna á, að sú viðurkenning, sem fékkst af hálfu Breta á s.l. vori og eins Þjóðverja nú í sumar fyrir íslenzkri fiskveiðilögsögu, var ekki einvörðungu bundin við fiskveiðilögsöguna, eins og hún var ákveðin 1958 með reglugerðinni, sem þá var gefin út, heldur féllust þessar þjóðir báðar á mjög víðtæka frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar með því að viðurkenna rétt okkar til þess að fækka grunnlínupunktum á hinum þýðingarmestu stöðum. Það má að sjálfsögðu deila um, hvers virði þetta sé. Ég heyri, að þessir tveir hv. þm. vilja gera lítið úr þessu, eins og málinu í heild. En ég ætla, að íslenzku sjómennirnir og þeir, sem eiga við þetta að búa, leggi allt annað og miklu meira upp úr þeim breytingum, sem þarna voru gerðar.

Að því er varðar þau ummæli hv. 1, þm. Austf., að við með því að fallast á, að ágreiningur um framtíðarútfærslu skyldi borinn undir alþjóðadómstól, höfum verið að afsala okkur rétti til einhliða útfærslu, vil ég segja, að þetta er alls ekki rétt. Það breytir engu um okkar aðstöðu til einhliða útfærslu, það samkomulag, sem varð um alþjóðadóm. Við getum gefið út reglugerð eins og áður, og hún kemur til framkvæmda eins og áður. Við verðum aðeins að láta þessar tvær þjóðir, Breta og Vestur-Þjóðverja, um þetta vita, en í stað þess, að þarna verði beitt ofbeldi, og þá m.a. í stað þess, að Bretar komi hingað með herskip til þess með ofbeldi að varna okkur frekari útfærslu, þá heyrir málið undir alþjóðadómstól til afgreiðslu.