22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (3055)

52. mál, viðurkenning Þýskalands á fiskveiðilögsögu við Ísland

Eysteinn Jónsson:

Það var út af tveimur atriðum. Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði m.a. komið fram í því, sem ég sagði, að ég legði litið upp úr breytingunni á grunnlínupunktunum. Ég ræddi það atriði ekkert, en ég sagði og vil endurtaka það, vegna þess að hæstv. ráðh. sneri út úr, að við þurftum ekki að kaupa þessa breytingu af Bretum með einu eða neinu. Við höfðum rétt til þess að breyta þessum grunnlínupunktum sjálfir, og við þurftum ekki að færa landhelgina inn á stórum svæðum til þess að gera þessa breytingu. Þetta er aðalatriðið.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé alger misskilningur, að Íslendingar hafi afsalað sér nokkrum rétti til einhliða útfærslu landhelginnar framvegis, þótt þeir hafi samið um það við Breta að hafa samráð við þá um frekari útfærslu, ef hún komi til mála, og líka samið um, að málið skuli ganga til Haagdómsins til endanlegs úrskurðar, ef Bretar krefjist þess. Þannig er þetta núna. Hæstv. ráðh. segir, að þrátt fyrir þetta höfum við enn fullan rétt til einhliða útfærslu. Þetta tel ég ósæmilegan orðaleik með jafnþýðingarmikið mál, því að það sér hvert barn, að með þessu mótí hefur útfærslan framvegis verið sett í vald Breta eða alþjóðadómstólsins.