21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (3062)

52. mál, viðurkenning Þýskalands á fiskveiðilögsögu við Ísland

Frsm. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Eins og nál., sem hér liggja fyrir, bera með sér, hefur utanrmn. klofnað um þessa till. Meiri hl. leggur til, að hún verði samþykkt, minni hl. leggur hins vegar til, að hún verði felld.

Það mál, sem þessi till. er raunverulega hluti af, var mjög ýtarlega rætt hér á Alþingi í fyrra, og þess vegna sé ég ekki ástæðu til við þessa umr. að stikla nema á örfáum atriðum.

Ég tel þá rétt að minnast fyrst á þann árangur, sem hlotizt hefur af útfærslu fiskveiðilandhelginnar 1. sept. 1958. Ég held, að það sé sammæli sjómanna og fiskimanna í verstöðvum um allt land, að árangur þessarar útfærslu hafi verið hinn mikilvægasti og að þessari útfærslu megi það þakka fyrst og fremst, hve vel útgerðin hefur gengið víða um land og hve nú er blómleg afkoma í mörgum verstöðvum landsins. Þetta hefur átt sér stað þrátt fyrir þá vaxtapólitík, sem hæstv. ríkisstj. hefur rekið og mundi hafa verkað eins og móðuharðindi fyrir útgerðina, ef árangurinn af útfærslu fiskveiðilandhelginnar 1958 hefði ekki komið til sögunnar. Þessi árangur er svo mikill og glæsilegur, að það er ekki hægt að láta þessa umr. fara svo fram, að ekki sé sérstaklega á hann minnzt. Og það er enn fremur ástæða til að minnast á þann árangur, þegar þess er gætt, að gegn útfærslu fiskveiðilandhelginnar 1958 átti sér stað hin mesta mótstaða. Sú mótstaða var ekki eingöngu sprottin frá erlendum aðilum, sem beittu sér eftir megni gegn því, að Íslendingar réðust í þessa framkvæmd, heldur átti hún sina öflugu mótstöðumenn hér innanlands, því að það er mönnum áreiðanlega minnistæðara en frá þurfi að segja, að sú stjórnarandstaða, sem þá var í landinu, beitti sér gegn þessari framkvæmd á allan hátt. Eigi að síður var ráðizt í þessa framkvæmd þrátt fyrir öfluga erlenda mótspyrnu og mótspyrnu innanlands, með þeim árangri, sem ég hef nú vikið að. Ég hygg, að þegar tímar líða fram, verði þessi framkvæmd talin ein af þeim merkustu í sjálfstæðis- og atvinnumálasögu þjóðarinnar og þeirrar ríkisstj., sem að þessari framkvæmd stóð, verði lengi minnzt að ágætum fyrir þetta verk hennar. Þetta finnst mér alveg sérstök ástæða til að minnast á í sambandi við þessa umr.

Annað atriði, sem ég tel rétt að gera einnig nokkra grein fyrir, er það, að þegar brezki landhelgissamningurinn var gerður í fyrra, þá stóð málið þannig, að fullur sigur var þá þegar unninn í landhelgisbaráttumálinu, þ.e.a.s. í baráttunni fyrir 12 mílna landhelginni. Fullur sigur í því máli var raunverulega strax unninn 1. sept. 1958, þegar allar þjóðir aðrar en Bretar virtu þá útfærslu, sem þá hafði átt sér stað. Bretar reyndu að þráast á móti með því að beita herskipavernd innan fiskveiðilandhelginnar, en án nokkurs teljandi árangurs, enda féllu þeir frá því strax veturinn 1960 að beita slíkum aðferðum. Fullur sigur var þannig unninn í landhelgismálinu, — fullur sigur fyrir 12 mílna landhelginni var þá þegar unninn. Þess vegna gerðist ekkert annað en það, þegar teknir voru upp samningar við Breta sumarið 1960, en verið var að hverfa frá þeim sigri, sem búið var að vinna. Það var verið að hefja eitt hið ömurlegasta undanhald, sem um getur í allri sjálfstæðissögu hinnar íslenzku þjóðar. Niðurstaða þessa undanhalds varð svo landhelgissamningurinn, sem gerður var við Breta á s.l. ári, en hann var, eins og ég nú hef lýst, algerlega óþarfur, af þeim ástæðum, að það var þegar búinn að vinnast fullur sigur í þessu máli og þurfti þess vegna ekki á neinum samningum um það við Breta að halda. Þetta atriði er svo mikilvægt, að menn mega ekki láta það sér úr minni ganga, að það var búið að vinna fullan sigur í þessu máli, áður en undanhaldið var hafið, sem leiddi til brezka landhelgissamningsins.

Mér finnst svo rétt að minnast á það í þriðja lagi, sem alimikið bar á góma í umr. á seinasta þingi, þegar þetta mál var til umr. Þá var á það bent, að þeir flokkar, sem að því undanhaldi stóðu, sem þá átti sér stað, hefðu vorið 1959 staðið að samþykkt hér á Alþingi, þar sem lýst var yfir fullum stuðningi við undanþágulausa 12 mílna fiskveiðilandhelgi. Þessir sömu flokkar höfðu endurtekið þetta loforð sitt hvað eftir annað í tvennum alþingiskosningum, sem fóru fram sumarið 1959. Þrátt fyrir þessar skýlausu yfirlýsingar, bæði hér á Alþingi og í tvennum alþingiskosningum, að hvergi skyldi hvika frá undanþágulausri 12 mílna landhelgi, gerðu þessir flokkar það nokkru eftir kosningarnar að hefja samninga við Breta með þeim árangri, að Bretar fengu verulegar undanþágur — um þriggja ára skeið til að byrja með — innan fiskveiðilandhelgi Íslands og þar að auki stöðvunarrétt hvað snertir frekari útfærslu landhelginnar í komandi framtíð. Þetta var algert brot á þeim yfirlýsingum og loforðum, sem viðkomandi flokkar höfðu gefið, og því var spáð hér á Alþingi, þegar rætt var um brezka landhelgissamninginn á seinasta ári, að þetta yrði ekki nema upphaf að öðru og meira undanhaldi, sem koma mundi á eftir. Sá samningur, sem hér liggur fyrir, er staðfesting á því, að þeir, sem þessu spáðu, höfðu rétt fyrir sér, því að hér liggur fyrir samningur, sem felur í sér nýtt undanhald. Það má segja, og ég skal viðurkenna það, að eftir að búið var að hleypa brezku togurunum inn í fiskveiðilandhelgina, var erfitt að sporna gegn því, að aðrir erlendir togarar færu þar inn á eftir, vegna þess að þótt ekki sé tekið upp nema það eitt sjónarmið, þá er að sjálfsögðu alveg óframkvæmanlegt fyrir íslenzku varðskipin að ætla að flokka erlenda togara þannig í sundur, að þegar brezkir togarar eru að veiða fyrir innan línuna, þá sé hægt að vinza aðra útlenda togara þar frá. Það leiddi því af sjálfu sér, að þýzku togararnir og aðrir erlendir togarar mundu nokkurn veginn njóta af sjálfu sér sömu réttinda og brezku togararnir voru búnir að fá með brezka landhelgissamningnum.

En þó að þetta hefði átt sér stað, þurfti aldrei að stíga það spor að gera nýjan samning, annan samning við Þjóðverja um það, að þeir öðluðust nákvæmlega sama stöðvunarréttinn gagnvart frekari útfærslu á fiskveiðilandhelginni og Bretar fengu samkvæmt samningnum í fyrra. Það var fullkomlega óþarft. Og það sýnir ekkert annað en nýtt undanhald í þessum málum, að til viðbótar því að afhenda Bretum þennan stöðvunarrétt skuli Þjóðverjum einnig vera látinn hann af hendi. Mín skoðun er líka sú, að svo varhugavert sem það er að láta þennan rétt í hendur Breta eða brezku stjórnarinnar, þá sé enn íhugunarverðara og varhugaverðara að láta þennan rétt í hendur Þjóðverja, því að það hefur sagan sýnt okkur margsinnis, að þótt erfitt hafi verið fyrir smáþjóðir að sækja rétt sinn í hendur brezku þjóðarinnar, þá hefur oftast verið enn örðugra að fá Þjóðverja til undanláts í þeim efnum, því að þeir láta það yfirleitt ekki af hendi, sem þeir hafa klófest einu sinni. Af þeim ástæðum álít ég, að þessi samningur, þýzki landhelgissamningurinn, sé varhugaverðari hvað framtíðina snertir en þó brezki samningurinn nokkru sinni var.

En við höfum nýtt dæmi fyrir augunum einnig um það, að núv. stjórnarflokkar eða núv. ríkisstj. getur hugsað sér enn frekara undanhald í þessum málum en það að gera þýzka landhelgissamninginn. Því er yfir lýst af ýmsum hæstv. ráðh., var hér á þingi fyrir áramótin og hefur, að ég hygg, verið endurtekið síðan, að ríkisstj. hafi haft það mjög til athugunar að hleypa íslenzkum togurum enn frekar inn í fiskveiðilandhelgina en þegar hefur átt sér stað. Og það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir, að ef ekki verður af því, að íslenzkum togurum verði veitt enn þá meiri veiðiréttindi innan fiskveiðilandhelginnar en þegar er orðið, þá er það ekki vegna þess, að hæstv. ríkisstj. hafi staðið á móti því, heldur vegna þeirrar andspyrnu, sem hefur risið gegn þessu í verstöðvunum úti um allt land, síðan af þessu fréttist.

Við höfum þannig þrjú ljós dæmi fyrir augunum um það, að hæstv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem að henni standa, eru hvenær sem er reiðubúnir til undanhalds í þessum efnum. Brezki landhelgissamningurinn er fyrsta dæmið, þýzki landhelgissamningurinn annað dæmið, og þriðja dæmið eru þær ráðagerðir, sem hafa v erið uppi um það að hleypa íslenzkum togurum enn meira inn í fiskveiðilandhelgina en þegar hefur átt sér stað. Þetta undanhald hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokka í þessum málum mætti vissulega verða þjóðinni til hinnar mestu umhugsunar. Við vitum, að fyrr en seinna mun að því koma, að við þurfum að hefja einhverja samninga við Efnahagsbandalag Evrópu um viðskipta- og tollamál, og við vitum það jafnframt, að í sambandi við þá samninga mun mjög verða reynt af hálfu þeirra aðila að fá það fram, sem þeir hafa verið að reyna að fá fram í sambandi við samninga við okkur að undanförnu. Ef þeir komast ekki inn í íslenzka landhelgi með beinum aðferðum eða hreinum aðferðum, eins og átt hefur sér stað með þeim samningum, sem ég hef nú minnzt á, þá verður áreiðanlega reynt að komast þá leið bakdyramegin. Þess vegna þarf þjóðin að gera sér þessi mál vel ljós, gera sér mjög góða grein fyrir þeirri undanhaldsstefnu, sem hæstv. ríkisstj, og hennar flokkar hafa fylgt í þessum málum og hægt er að sýna fram á með ljósum dæmum, eins og ég hef hér gert, því að það er víst, að ef á að halda á málum í þessum efnum eins og gert hefur verið í sambandi við brezka landhelgissamninginn og í sambandi við þýzka landhelgissamninginn, þá er voði fyrir dyrum, þegar nýir, viðtækir samningar þurfa að hefjast við Efnahagsbandalag Evrópu um þessi mál.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni. Þau atriði, sem ég hef bent hér á, tel ég skipta höfuðmáli, sérstaklega í sambandi við framtíðina, og þau séu líka þannig vaxin, að það sé rétt og sjálfsagt af Alþingi að fella þá tillögu, sem hér liggur fyrir.