21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (3063)

52. mál, viðurkenning Þýskalands á fiskveiðilögsögu við Ísland

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þingmenn eru að vísu ýmsu vanir, en þó hygg ég, að menn hafi sjaldan heyrt meiri öfugmælaræðu en hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. 7. þm. Reykv., og má hann að vísu e.t.v. nokkuð vel við una að komast lengst í öfuguggahætti, vegna þess að ekki hafði hann möguleika til þess að komast framarlega þar, sem fram er sótt, þegar rétt er við haft.

Hann hóf mál sitt með því að segja, að þáv. stjórnarandstæðingar hefðu 1958 mjög lagzt á móti stækkun landhelginnar út í 12 mílur. Þetta eru alger ósannindi, og ég leyfi mér að fullyrða, að þetta eru alger, vísvitandi ósannindi hjá hv. þm. Það er að vísu rétt, að það var mikill ágreiningur um landhelgismálið á árinu 1958. Sá ágreiningur hófst innan þáv. hæstv. ríkisstj. Mun í fyrstu hafa verið þannig, að hver þeirra flokka, sem í ríkisstj. voru, hafði nokkuð sitt sérsjónarmið; og þó einnig töluverður ágreiningur innan þeirra flestra eða allra sín á milli. Litlu mátti muna, að ríkisstj. klofnaði út af málinu. Það er þó rétt að geta þess, að sá ágreiningur var ekki um það, hvort sækja ætti eftir því að öðlast 12 mílna fiskveiðilögsögu, heldur með hvaða hætti ætti að sækja það mál. Og niðurstaðan í stjórninni varð sú, að þó að hún að nafninu til væri sammála, þá hélzt mjög verulegur ágreiningur innan hennar um málið alla þá tíð, sem hún stóð eftir þetta. Það var verulegur ágreiningur á milli hæstv. þáv. sjútvmrh. og hæstv. þáv. utanrrh. um það, hvernig á málinu ætti að halda, eins og raunar kom þá þegar nokkuð í ljós, en hefur orðið enn þá augljósara síðan.

Við sjálfstæðismenn töldum, að það væri mjög illa farið, að þannig væri á þessu máli haldið, að jafnvel ríkisstj. sjálf gæti ekki verið sammála í slíku höfuðmáli, og það er ekkert launungarmál heldur, að við töldum, að þannig væri í fyrstu og lengi vel haldið á málinu af hálfu nokkurs hluta ríkisstj., að jafnframt því, sem við efuðumst ekki um, að tilgangurinn væri sá að ná 12 mílna fiskveiðilögsögu, væri jafnframt og ekki síður annar tilgangur því samfara, og hann væri, sá að efna til sem mests ófriðar um málið, halda þannig á því, að ef verða mætti, þá yrði það til þess að sprengja Íslendinga frá eðlilegum bandamönnum þeirra í alþjóðamálum. Þetta veit allur landslýður, að er rétt og satt, og þarf ekki um þetta að efast. Við töldum, að unnt mundi vera að ná fullum sigri í þessu máli án þess að viðhafa þær aðferðir, sem til slíks leiddu. Og reynslan hefur einnig sýnt, að eftir að okkar áhrifa fór að gæta í málinu, hefur þetta tekizt.

En það er einnig algerlega rangt, og ég vil segja það sama og ég sagði áðan, að það er einnig algerlega vísvitandi rangt með farið hjá hv. síðasta ræðumanni, þegar hann leyfir sér að halda því fram, að við höfum verið búnir að vinna fullan sigur í þessu máli á árinu 1958. Ég vil segja, að því fer svo fjarri, að þetta sé rétt, að sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar, eðlilegu sambandi hennar við nágrannaþjóðir og lífi íslenzkra sjómanna, bæði fiskimanna og varðskipsmanna, hafi aldrei verið teflt í meiri tvísýnu að óþörfu en með þeim aðförum, sem við voru hafðar á sumrinu 1958. Þetta vissu hv. framsóknarmenn þá þegar. Þess vegna var það; að þeirra ríkisstjórnarfulltrúar, þáv. hæstv. forsrh. og að því er ég hygg einnig þáv. hæstv. fjmrh., þeir voru því samþykkir að bjóða fram á sumrinu 1958 samsvarandi og sízt hagkvæmari undanþágur til handa Bretum en síðan hafa verið samþykktar. Þeir vissu, að málinu öllu — og meira en sjálfu þessu einstaka máli, var stefnt í ófyrirsjáanlega hættu, ef ekki var að gert. Þeir voru hins vegar þá ekki reiðubúnir til þess að halda á málinu af þeirri lipurð og stjórnvizku, sem þeim er stundum gefin, vegna þess að þeir sáu fyrir, að ef þeir færu eftir því, sem sannfæring þeirra sagði í málinu, þá mundi vinstri stjórnin endanlega klofna, þá mundi kommúnistaflokkurinn hverfa úr ríkisstj. En Framsfl, var þá enn á sumrinu 1958 reiðubúinn til þess að leggja allt í sölurnar til þess að halda vinstri stjórninni við, vegna þess að þá var það Framsfl. æðsta stolt, sem kom fram hjá hæstv. þáv. forsrh. á fundi í Hólmavik, þegar hann sagði, að eitt hefði þó áunnizt með vinstri stjórninni, þótt margt hefði mistekizt, og það væri að setja „íhaldið.“ til hliðar í þjóðfélaginu. Það var árangurinn af tveggja ára stjórnarstarfi vinstri stjórnarinnar að geta þó hælzt um það, að búið væri að setja nær helming þjóðarinnar til hliðar í þjóðfélaginu. Þetta var sá andi, sem réð hinni ógæfusamlegu meðferð málsins 1958 og leiddi til þess, að því fór fjarri, að það tækist þá að vinna fullnaðarsigur í málinu sjálfu, og miklu meira var stefnt í hættu og algerlega óþarfa hættu. Málinu var ekki lengra komið en svo, jafnvel á sumrinu 1960, að þá var það á fundi í hv. utanrmn., fundi, sem var haldinn hér í suðurstofu Alþ.,hv. þm., fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, stakk upp á því, að við leituðum eftir íhlutun Bandaríkjanna samkvæmt herverndarsamningnum til þess að hrekja Breta héðan á brott, vegna þess að hann taldi, að málið hefði aldrei ískyggilegar staðið en einmitt þá. Svo leyfir þessi hv. þm. sér að koma og halda því fram, að fullur sigur hafi verið unninn í þessu máli strax 1958. Það má að vísu segja, að það sé óþarft að svara slíkum fjarstæðum með mörgum orðum, en það er einnig rangt að láta slík öfugmæli standa ómótmælt í Alþingistíðindum.

Þá hélt hv. þm. því fram, að við hefðum gert samning, sem hefði í bráð veitt Bretum rétt til þriggja ára fiskveiða innan okkar fiskveiðilögsögu. Það voru annaðhvort þessi orð: „í bráð“, eða eitthvað því samsvarandi, sem hann notaði, orð, sem áttu að gefa til kynna, að Bretar ættu von á einhverjum meiri veiðiheimildum en þessi 3 ár. Nú get ég ekki sagt um þetta eins og ég sagði um þau atriði, sem ég áður drap á, að hv. þm. færi þarna vísvitandi rangt með, vegna þess að af þeim atriðum hafði hv. þm. sjálfur náin kynni, og fer því ekki á milli mála, að hann leyfir sér að koma hér og skrökva framan í augsýn alls þingheims á Alþingi Íslendinga. Það getur verið, að hann skrökvi án þess að vita, að hann fari með rangt mál, þegar hann gefur hitt til kynna, að það eigi sér stað eða hafi orðið einhverjir leynisamningar milli ríkisstj., sem veittu Bretum vonir um meiri veiðiréttindi en eru fólgin í sjálfum samningnum. Hv. þm. var þó margfullvissaður um það í fyrra, að svo væri ekki. Hann var fullvissaður um það af réttum aðilum á Alþingi, og slíkt kom einnig berlega í ljós í umr. í Bretlandi um málið, svo að þarna má hv. þm. vita betur en hann lætur. Og það er alveg áreiðanlegt, að því fer fjarri, að Bretum hafi verið gefið nokkuð slíkt undir fótinn, heldur hefur þvert á móti margsinnis verið tekið fram við þá, að þeir gætu ekki átt von á neinni framlengingu þessara veiðiréttinda. Hitt kynni að vera, að það egni þá til frekari kröfugerðar og vandræða gegn okkur Íslendingum, þegar málsvari annars stærsta flokksins á Íslandi kemur hér fram á Alþingi og lætur svo sem þarna sé gatan greiðfær, ekki þurfi annað en að þrýsta á, þá mundi verða undan þeim látið. Hvað er frekar líklegt til þess að egna ofstopamenn í Bretlandi til áframhaldandi illinda og vandræða gegn okkur Íslendingum heldur en slíkur málflutnings af hálfu hv. þm., talsmanns annars stærsta stjórnmálaflokks landsins? Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að hv. þm. mundi vilja ljá slíku fylgi, en hann á þá ekki heldur að gera sig að slíkum ódreng að gefa í skyn, að við hinir viljum gera það og höfum þarna einhverju að leyna, þvert ofan í það, sem við höfum marglýst yfir, og þvert ofan í það, sem viðsemjendur okkar og allir aðilar í Bretlandi hafa einnig lýst yfir af sinni hálfu. Erfiðleikar eru nógir, þó að menn séu ekki að búa til tyllisakir og halda þeim uppi æ ofan í æ, þó að margoft sé búið að sýna fram á, að þær fái ekki staðizt.

Enn fremur hélt hv. þm. því fram, að það hefði verið samið við Breta um, að þeir hefðu stöðvunarvald á útfærslu landhelginnar. Mörg eru nú öfugmælin í því, sem ég er búinn að hrekja af ummælum hv. þm., en þó er þetta mesta öfugmælið. Sannleikurinn er sá, að vinstri stjórnin með atbeina okkar hinna, við vorum reiðubúnir til þess strax 1958 og við vorum enn reiðubúnir til þess 1960 að gera samning og skuldbindingar, ef við hefðum náð því á Genfarráðstefnunum, um 12 mílna fiskveiðilögsögu til allrar frambúðar. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Það var að vísu þar opnuð leið til vissrar undanþágu, ákaflega óviss og hæpin leið, en við vorum með í því að gera það að alþjóðalögum með okkar atkvæði, að slíkt yrði ákveðið, 12 mílna fiskveiðilögsagan. Þeir samningar tókust ekki. Við þurfum ekki að fara að rekja það, af hverju þeir tókust ekki.

Í samningunum við Breta tökum við það berum orðum fram, að við ætlum að sækja eftir öllu landgrunninu, og áskiljum okkur að nota alþjóðalög hverju sinni, eins og þau verði, sem veiti heimild til slíks, og komum okkur saman um og tryggjum, að eitt af mestu herveldum heimsins skuldbindur sig til þess fyrir fram að láta þá ekki aflið eða valdið skera úr, heldur bera þetta undir alþjóðadómstól, þá réttarstofnun, sem er helzta vernd smáríkjanna í heiminum.

Svo leyfir þessi hv. þm. sér að koma hingað og halda því fram, að þarna hafi Bretum verið veittur stöðvunarréttur. Hvaða stofnun var það, sem opnaði Íslendingum leið til sóknarinnar í landhelgismálinu frá 1951 og fram á þennan dag? Hvaða stofnun var það, sem opnaði dyrnar? Það var alþjóðadómstóllinn í Haag með dómi sínum í máli Norðmanna og Breta. Þar setti hann fram glögglega þær meginreglur, sem við síðan höfum byggt okkar mál á. Þar gerðist dómstóllinn túlkandi þróunarinnar í alþjóðarétti gegn hagsmunum stórveldisins brezka og annarra mikilla sjóvelda í heiminum, en til hags og verndar þeim fátæku og lítilsmegandi þjóðum og fólki, sem á afkomu sina undir fiski við strendur sinna eigin landa. Og það er þessi sama stofnun, sem þarna opnaði leiðina og hefur búið til rökin, sem við síðan æ og æ höfum hamrað á, — það er þessi stofnun, sem við höfum tryggt að á að skera úr hugsanlegum ágreiningi milli okkar og Breta um þetta efni. Betri og meiri tryggingu gátum við Íslendingar ekki öðlazt í þessu máli.

Það er heldur ekkert nýtt, að við Íslendingar sækjumst eftir því, að alþjóðadómstóllinn sé æðsti úrskurðaraðili í þessum efnum. Strax og deilan við Breta kom upp 1951, vitnuðum við Íslendingar í það, að það væri eðlilegt, að við biðum eftir dómi alþjóðadómstólsins í deilumálinu milli Norðmanna og Breta. Þegar við vorum í undirbúningi með okkar mál, þá voru framsóknarmenn, sem voru í ríkisstjórn undir forustu Steingríms Steinþórssonar, ekki siður eindregnir stuðningsmenn þess, að þessi aðferð væri viðhöfð, að bíða eftir leiðsögn alþjóðadómstólsins, heldur en við Sjálfstæðisflokksmenn og Alþýðuflokksmenn, sem þá voru raunar í stjórnarandstöðu. Þá voru það hinir virðulegu eða ekki virðulegu kommúnistar einir, sem snerust þarna á móti. Og ég vildi ráðleggja hv. þm. að lesa nú nokkrar af þeim skeleggu greinum, sem hann þá skrifaði í Tímann um hugarfar þeirra manna, sem vildu þannig snúast á móti höfuðverndara smáþjóðanna, alþjóðadómstólnum, og ekki lúta forustu hans í slíku máli. En það var ekki einungis, að hv. þm. skrifaði þá skeleggar greinar í Tímann þessu til styrktar, heldur eftir að við vorum búnir að færa landhelgina út og deilan við Breta var komin á erfiðara stig, þá var það ríkisstj. Steingríms Steinþórssonar, sem ég var utanrrh. í, sem að vísu fyrir forustu mína, en með samþykki okkar allra bauð fram, að úr ágreiningnum yrði skorið af alþjóðadómstólnum gegn vissum tryggingum um, að við yrðum ekki beittir ofbeldi á meðan, þangað til dómurinn fengist.

Þetta mál var í fyrstu tekið upp undir leiðsögn alþjóðadómstólsins. Allir sigrar, sem unnizt hafa í málinu, hafa unnizt samkvæmt þeirri leiðsögn, sem alþjóðadómstóllinn gaf, og bezta tryggingin fyrir okkar fámennu, máttvana þjóð í framtíðinni er að byggja á alþjóðalögum, túlkuðum af þeirri alþjóðastofnun, sem ætlað er að hafi úrskurðarvaldið í því efni. Með því er ekki verið að stöðva framsókn málsins, heldur verið að tryggja, að Íslendingar geti áreitnislaust og án hættu um ofbeldi notið allrar framþróunar í alþjóðarétti, sem verða kann í þessum efnum. Þetta er hiklaust einn mesti stjórnmálasigur, sem íslenzka þjóðin hefur unnið fyrr og síðar.