21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (3064)

52. mál, viðurkenning Þýskalands á fiskveiðilögsögu við Ísland

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Till. þeirri, sem hér er til umr. á þskj. 68, var útbýtt hér á Alþingi þann 31. okt. og síðan ákveðin um hana ein umr. þann 1. nóv. Til utanrmn. er till. vísað þann 29. nóv., og eins og getið er um í nál. á þskj. 162, klofnaði n. Meiri hl. gaf út nál. 1. des. og minni hl. nál. 5. des. Síðan hefur málið ekki verið tekið á dagskrá nema einu sinni og þá hafði meiri hl. framsögu í málinu, en annars hefur málinu verið frestað þar til í dag. Ég verð nú að segja, án þess að ég vilji á nokkurn hátt beina ásökun til hæstv. forseta um að hafa dregið mál þetta svo lengi, að það hefði verið eðlilegt, að þetta mál hefði fengið skjótari afgreiðslu en raun ber vitni um. Ástæðan til þessa er sú, eftir því sem mér er tjáð, að hv. 7. þm. Reykv., sem er frsm. minni hl., hefur ekki setið hér á Alþingi, hefur þó haft hér mann til þess að gegna sínum störfum og hefði þar af leiðandi getað sett hann inn í þetta mál, og auk þess voru tveir aðrir hv. þm., sem undirrituðu nál., hv. 2. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Reykn., og hefðu sjálfsagt verið færir um að hlaupa hér í skarðið. En máske er aðalástæðan sú, að þessum mönnum flökrar meira við að halda fram öðrum eins fjarstæðum og hér hefur verið haldið fram af hv. frsm, og ekki annar fengizt en hann til þess að bera fram hér á Alþingi slík rök. Öðruvísi verður varla skýrður sá dráttur, sem hér hefur verið hafður á og þá sjálfsagt að ósk Framsfl.

Ég vil leyfa mér að geta þess hér, að raunverulega hefði ekki þurft að ræða hér um annað í sambandi við þetta mál en það, hvort samþykkja ætti að leyfa hina sömu samninga við Þjóðverja og leyfðir voru við Breta. Um það fjallar þáltill. og ekki neitt annað. En það er allt annað en að hér sé verið að ræða það mál út af fyrir sig, þó að hv. frsm. kæmi að því á einum stað, sem ég skal síðar koma að, heldur er aðalræða hans hreinar eldhúsumr. á hæstv. ríkisstj. í sambandi við afgreiðslu máls, sem var afgreitt hér á s.1. þingi og kemur út af fyrir sig sáralítið þessu máli við, nema að tyggja upp aftur öll þau sömu ummæli, sem Framsfl. skipulagði hér að láta hvern einasta þm. sinn bera fram, þegar málið var afgreitt hér á Alþingi á s.l. ári. Að þetta er nú tekið upp þannig, er skýrasta sönnun þess, að Framsfl. sér, að hann hefur ekki sigrað í þessum málum meðal þjóðarinnar, eins og hann ætlaði sér þó að gera. Hann hefur tapað þar á öllum vígstöðvum og er nú að reyna að vekja upp aftur þennan draug til þess að setja svolítinn plástur á þessi sár. En hann þarf áreiðanlega miklu sanngjarnari og meira sannleikselskandi mann til þess að fá þjóðina til að hlusta á þau rök heldur en hv. frsm. minni hl., eftir því sem hann hefur rætt hér.

Ég get stytt mikið mál mitt, þar sem hæstv. dómsmrh. hefur hrakið mest af því, sem hv. frsm. sagði hér um meðferð málsins fyrr á árum, og skal ég ekki endurtaka það. En ég skal aðeins benda á, að sigurinn í þessu máli, sem hv. frsm. minni hl. leggur áherzlu á að hafi verið unninn 1. sept., var þá ekki unninn betur en svo, að ég er alveg viss um það, að ef ætti að ganga til þjóðaratkvæðis í dag um það mál, hvort við vildum aftur sama ástand í þessum málum og við höfðum, þar til samningarnir voru gerðir, þá mundu sárafáir Íslendingar vilja greiða atkvæði með því, og jafnvel ekki einu sinni hv. frsm. minni hl., þegar hann væri einn í þeim kjörklefa, svo að sigurinn hefur nú ekki verið alveg eins stór og hv. frsm, hélt fram.

Það eina atriði, sem hv. frsm. kom að, sem snertir þessa till., eru þau ummæli hans, að það hafi verið óþarfi að semja við Þjóðverja um afbendingu þessara veiðisvæða, enda þetta enn varhugaverðara en að láta af hendi þessi fríðindi við Breta. Þetta er afstaða út af fyrir sig og snertir að sjálfsögðu mjög það mál, sem hér er til umr. Ég veit ekki, hve margir Íslendingar kunna að vera sammála hv. frsm. minni hl. um þetta atriði. En einkennilegt er það, ef þeir menn, sem kunnugir eru þessum málum öllum, telja það vera ósanngjarnara og hættulegra að gefa hér Þjóðverjum sömu réttindi og viðurkennd eru til Breta á fiskveiðasvæði Íslendinga, mönnunum, sem í fyrsta lagi höfðu þó sýnt okkur fulla viðurkenningu fyrir því, sem við höfðum gert, án samninga og viðurkennt þær aðgerðir fullkomlega, ekki beitt okkur neinum rangindum eða neinum þvingunum í löndun á okkar afla, og það var okkur mjög mikils virði, kannske eins mikils virði að halda þeim mörkuðum og að opna brezka markaðinn á ný. Þeir menn þekkja sáralítið inn í viðskipti milli þjóða, sem halda því fram, að það sé yfirleitt hægt að koma þannig fram í almennum viðskiptum. Ég hygg, að það séu mjög fáir Íslendingar, sem hefðu látið sér koma til hugar að neita um þessa samninga við Þjóðverja, eftir að búið var að gera þá við Breta, enda kom það fullkomlega fram í umr. á Alþingi á s.l. ári um þessi mál, þegar samningurinn var endanlega lögfestur, að Íslendingar yrðu að vera við því búnir og væru við því búnir, að aðrar þjóðir óskuðu eftir að njóta sömu réttinda og beygja sig þá einnig undir sömu skyldur. Og með samningnum við Þjóðverja er þó ekki það einasta eitt, að þeim sé hleypt inn á sömu svæði með þeim samningi, heldur er það og skilyrði, að þeir gefa þar um leið fulla viðurkenningu fyrir rétti okkar til þess að hafa breytt fiskveiðilöggjöfinni, sem þeir höfðu þó ekki gert opinberlega, þó að þeir viðurkenndu okkar aðgerðir, en því leggur sjálfsagt hv. frsm. minni hl. ekkert upp úr.

Hv. frsm. gat þess, að það hefði verið til umr. í hæstv. ríkisstj. að hleypa íslenzkum togurum inn fyrir núv. fiskveiðitakmörk. Hann fullyrti, að það hafi ekki verið fyrir skilning á því máli hjá hæstv. ríkisstj., að þeirri hættu hafi verið vikið frá, heldur væru það aðrar raddir, sem hefðu verið svo þungar hér á vogarskálunum, að ríkisstj. hefði orðið að beygja sig fyrir því valdi, og var þá helzt að skilja, að það væri Framsfl., sem hefði haldið uppi þeirri baráttu. Mér er fullkunnugt um það, að þetta er byggt á álíka miklum rökum og ýmislegt annað, sem hann hefur sagt hér. Íslenzka ríkisstj. hefur aldrei hugsað sér að bera fram neinar tillögur um þetta hér á Alþingi. Það sat í þessu nefnd, sem frá sjónarmiði útgerðarmanna benti á þetta atriði, og hæstv. ríkisstj. hefur ekki tekið undir, svo að það er alveg óþarfi fyrir hv. frsm. að vera að ásaka hæstv. ríkisstj. fyrir þetta atriði sérstaklega.

Þá vil ég einnig benda á það, sem hv. frsm. leyndi fullkomlega, að í þeim samningum, sem gerðir voru við Breta í þessum málum, voru fengin aftur — gagn því að færa inn á einstökum stöðum og á ákveðnum tímabilum — í landhelgi stórkostleg svæði, sem friðuð voru og viðurkennd og voru færð út til hagsbóta fyrir allan almenning í landinu. Og það er enginn efi á því, að þegar menn höfðu tíma til þess að komast út úr því moldviðri, sem Framsfl. þyrlaði upp í sambandi við þetta mál, og gátu farið að hugsa rökrétt um málin, þá viðurkenndu þeir menn, sem hér áttu hagsmuna að gæta, og ekki hvað sízt minnstu bátarnir, að þeirra hagur hefði verið miklu betri, eftir að þeir samningar voru gerðir, heldur en áður.

Vegna þess að hv. þm. gat þess, að sýnilega yrði hæstv. ríkisstj. og hennar flokkar að láta undan síga í landhelgismálinu, ef til þess kæmi, að ræða þyrfti um inngöngu í Efnahagsbandalag Evrópu, vil ég í sambandi við það leyfa mér að geta þess, að ég átti sem fulltrúi Sjálfstfl. sæti á NATO-fundi í París í nóvember í haust, þar sem það mál bar á góma, hvernig þátttaka Norðurlanda almennt gæti orðið í bandalaginu. Þar var þetta mál sérstaklega rætt, vegna þess að þingmenn litu svo á, að nauðsynlegt væri, að Evrópulönd, sem vilja hafa vestræna samvinnu, sameinuðu sig um inngöngu í bandalagið. Ég átti sæti í efnahagsmálanefndinni, þar sem þetta mál var til umr., og ég lýsti því þar yfir, að Íslendingar mundu aldrei treysta sér til þess að taka þátt í þeirri samvinnu, nema eftirfarandi þremur atriðum yrði fullnægt: í fyrsta lagi, að fjárflutningur frá öðrum stærri þjóðum til Íslands yrði ekki ótakmarkaður, því að með því móti væri hægt að brjóta niður hagkerfi Íslendinga á skömmum tíma, ef ótakmarkað fjármagn yrði flutt frá stórum, fjársterkum þjóðum til svo lítillar þjóðar. Í öðru lagi, að Íslendingar gætu aldrei tekið þátt í slíkri samvinnu nema hafa sérstöðu um það atriði, að innflutningur á fólki frá stærri þjóðum yrði einnig takmarkaður. Það væri ekki hægt fyrir þjóð, sem hefur aðeins 170 þús. íbúa, að hafa ótakmarkaðan innflutning á fólki frá stærri þjóðum. Það mundi þurrka þjóðerni hennar út á skömmum tíma, og það mundu Íslendingar aldrei beygja sig undir. Og í þriðja lagi, að Íslendingar mundu aldrei sætta sig við undir neinum kringumstæðum að gefa nokkuð eftir af þeirri landhelgi, sem þeir hafa þegar unnið með viðurkenningu annarra þjóða. Formaður efnahagsmálanefndarinnar, senator Javits, sem er mjög áhrifaríkur maður í þessum málum í Bandaríkjunum, viðurkenndi, ekki aðeins í ræðu, heldur einnig við mig persónulega á eftir, að að sjálfsögðu yrði að taka fullt tillit til sérstöðu slíkra þjóða og það yrði gert, — ef vestræn samvinna ætti að haldast og hana ætti að gera sterka, þá yrði að sjálfsögðu að finna leiðir, þar sem þjóðum, sem hefðu slíka sérstöðu, væru sköpuð sérstök skilyrði. Það er því alveg óþarft fyrir hv. frsm. minni hl. að vera að núa okkur því um nasir, sem styðjum hæstv. ríkisstj., að við viljum ganga í eitt eða annað bandalag og fórna okkar réttindum til slíks. M.a. var fulltrúi frá Framsfl. áheyrandi á þessum fundi og vissi vel um þessa yfirlýsingu og hvaða orð um hana fóru á eftir.

Ég skal svo að síðustu aðeins benda á, að hefði það verið heppilegasta lausnin í þessu máli og hefði okkar þjóð verið sammála um það atriði að taka upp og fylgja fram tillögu Framsfl. í utanrmn. á s.l. sumri, þegar rætt var um það, hvort ætti að taka upp viðræður við Breta eða ekki um málið, þá bar hv. 2. þm. Vestf., formaður Framsfl., fram tvær tillögur, aðra þess efnis að kalla til ameríska setuliðið hér til þess að gæta landhelgi okkar, þ.e.a.s. að afhenda landhelgina amerískum herverði til gæzlu. Það þótti langt gengið á sínum tíma, þegar við afhentum landhelgisgæzluna til sambandsþjóðar vorrar, Dana. En hvað mundi þjóðin segja í dag, ef Alþingi hefði fallizt á þá tillögu að samþykkja að afhenda landhelgisgæzlu Íslands ameríska sjóhernum? En það var tillaga Hermanns Jónassonar, og hv. frsm. minni hl, féllst á þessa tillögu og gerði enga aths. við hana. Hv. 5. þm. Reykn., Finnbogi R. Valdimarsson, tók þessu með opnum örmum og var mjög ánægður yfir þessari till. frá Hermanni Jónassyni. Varatill. Hermanns Jónassonar var svo sú, að ef þetta yrði fellt, þá yrði fyrirskipað að reka herinn úr landi. Hefði íslenzka þjóðin verið ánægðari með slíka afgreiðslu á þessu máli, og hefði það leitt til betri árangurs en þess, sem náðist af samstarfi ríkisstjórnarflokkanna í þessum málum, að vísu gegn fullkomnum fjandskap stjórnarandstöðunnar? Ég þekki nógu vel íslenzka þjóðarsál til þess að vita það, að slíkri tillögu hefði ekki verið tekið vel meðal þjóðarinnar, eins og ég líka veit, að hv. 2. þm. Vestf. bar síður en svo þessa till. fram af heilum hug. Hann bar hana aðeins fram til þess að fá hana fellda í nefndinni. En það var ekki honum að þakka eða þeim mönnum, sem studdu tillöguna. Það var hinum að þakka, sem höfðu vit fyrir þeim að vilja ekki samþykkja till. Ég held því, að það hefði verið mesti heiðurinn fyrir hv. minni hl., að þetta mál hefði nú farið í gegn, á meðan hv. frsm. minni hl. var fjarverandi, og hafa engar umr. um það og sízt af öllu þær, sem hann hefur haft hér í dag um þetta mál.