14.03.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (3069)

52. mál, viðurkenning Þýskalands á fiskveiðilögsögu við Ísland

Frsm. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það hefur verið sagt, að þegar rætt væri um mál af sanngirni og hófsemi, þá færi það einna mest í taugarnar á andstæðingunum, ef þeir hefðu slæman málstað. Og ég held, að það hafi sannazt mjög áþreifanlega á þessum fundi. Í framsöguræðu minni ræddi ég um þetta mál mjög hógværlega og drap aðeins á nokkur atriði, vegna þess að ég taldi ekki ástæðu til að fara að þrautræða þetta mál að þessu sinni, vegna þess að það var gert svo rækilega á seinasta þingi. Viðbrögðin hafa hins vegar orðið þau, að hér hafa risið upp tveir ráðherrar með miklum stóryrðum og meira að segja gengið fram fyrir hv. frsm. meiri hl., sem er þó yfirleitt maður til þess að svara fyrir sig. En það hefur samt komið fram á þessum fundi, að hæstv. dómsmrh. hefur ekki treyst fullkomlega á frsm. meiri hl. og notar því ráðherraaðstöðu sína til að tala á undan honum. En eftir að hafa hlustað á ræður þeirra beggja, þá verð ég að segja það, að þó að ég hafi sitt af hverju við málflutning hv. frsm. meiri hl. að athuga, þá fannst mér hann nú miklu prúðmannlegri en sá, sem hæstv. dómsmrh. hafði í frammi.

Ég ætla þá að víkja fyrst að því, sem hæstv. dómsmrh. sagði.

Hæstv. dómsmrh. byrjaði með því að leggja áherzlu á, að það væru alger ósannindi, að stjórnarandstaðan á árinu 1958 hefði beitt sér nokkuð á móti útfærslu fiskveiðilandhelginnar þá. Þetta sannaði mér það, að annaðhvort er hæstv. dómsmrh. maður mjög gleyminn eða hann vill gleyma því, sem þá gerðist, því að ef hæstv. dómsmrh. vill afla gagna um þetta mál, — gagna, sem mundu sanna það, sem ég sagði um þetta efni, þá þyrfti hann ekkert annað en að lesa þær greinar, sem hann sem ritstjóri Morgunblaðsins skrifaði í það blað sumarið 1958. Þau skrif, sem þá birtust í Morgunblaðinu, gengu öll í þá átt að reyna að spilla fyrir framkvæmd þessa máls og vekja andstöðu gegn því, ekki aðeins innanlands, heldur líka út á við. Og það var t.d. róið mjög skarplega í Morgunblaðinu með þeirri röksemd, sem kom reyndar fram hjá hæstv. dómsmrh. í því, sem hann hér sagði, að það mundi verða til þess að sprengja okkur frá samstarfi við aðrar þjóðir í Atlantshafsbandalaginu, ef við færðum fiskveiðilandhelgina út í 12 mílur, — að það mundi verða til þess að sprengja okkur frá samstarfi við aðrar þjóðir í Atlandshafsbandalaginu, ef við réðumst í þessa framkvæmd. Hver var reynslan í þessum efnum? Varð hún til þess að sprengja okkur frá samstarfi við aðrar þjóðir í Atlantshafsbandalaginu? Síður en svo. Þetta reyndust fullkomnir falsspádómar, sem hæstv. dómsmrh. hafði alið á mánuðum saman í sínu blaði. Það reyndist fullkomlega rangt. En með slíkum falsrökum og falsspádómum reyndi þessi hæstv. ráðh. að gera það, sem hann gat, til að koma í veg fyrir, að ráðizt yrði í útfærslu fiskveiðilandhelginnar 1. sept. 1958. Ég trúi því ekki, að hæstv. dómsmrh. sé svo gleyminn, að hann muni það ekki lengur, heldur hafi það komið fyrir hann, vegna þess að hann finnur, að hann hefur ekki góða aðstöðu í þessu máli, að neita sínum fyrri verkum, að vilja ekki kannast við þau. En það gerir hæstv. ráðh. vissulega, ef hann er að reyna að halda því fram, að hann hafi ekki beitt sér og sínu málgagni gegn útfærslu fiskveiðilandhelginnar sumarið 1958. Til að sanna það þarf ekki annað en að fletta upp í Morgunblaðinu, og það er hægt að gera, ef hæstv. ráðh. heldur þessum umr. áfram.

Þá hefur komið hér fram hjá hæstv. ráðherrum vefenging á því, að það hafi raunverulega verið búið að vinna fullan sigur í þessu máli, þegar hafizt var handa af hálfu ríkisstj. um samningana við Breta sumarið 1960. Ég held að öllum, sem líta hlutdrægnislaust á þetta mál, sé þó ljóst, að þetta er rétt. Í fyrsta lagi gerðist það í þessum efnum, að allar þjóðir aðrar en Bretar virtu strax útfærsluna þann 1. sept. 1958. Bretar reyndu að hamla gegn henni með herskipavernd, en sá árangur varð svo litill og slæmur, að þeir gáfust strax upp við þetta veturinn 1960 og tóku ekki herskipaverndina upp aftur. Hins vegar mun það hafa verið sumarið 1960, að þeir voru með einhverjar ögranir við hæstv. ríkisstj, um það, að þeir kynnu að grípa til herskipaverndarinnar aftur, ef hún vildi ekki gera þetta og þetta fyrir þá. Og það var í tilefni af því, sem hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, impraði á þeirri tillögu í utanrmn., að ef til þess kæmi, að Bretar færu að beita okkur herskipavernd að nýju, þá kæmi til athugunar að spyrja varnarliðið um það, hvort það vildi ekki afstýra því, að Íslendingar væru beittir slíku ofbeldi. En það var ekki vegna þess, að Bretar væru á þeim tíma byrjaðir á því að vernda veiðar togaranna innan fiskveiðilandhelginnar með herskipum, heldur virtu þeir einmitt fiskveiðilandhelgina á þeim tíma. En þetta tvennt, að allar aðrar þjóðir en Bretar virtu útfærsluna strax og að Bretar höfðu gefizt upp við herskipaverndina í fiskveiðilandhelginni, var sönnun þess, að fullur sigur var unninn í málinu, og hvaða ögranir sem Bretar kunna að hafa haft í frammi í þessu sambandi við hæstv. ríkisstj, til að hræða hana, þá má telja alveg víst, að þeir hefðu aldrei ráðizt í það óráð að hefja herskipavernd með ólöglegum togveiðum í landhelgi Íslands aftur. Þeir voru búnir að fá slíka fordæmingu fyrir það um allan heim, að þeir voru allt of hyggnir til þess, að þeir hefðu að nýju byrjað á þeim leik. Þess vegna var alveg óhætt að láta þær hótanir þeirra eins og vind um eyrun þjóta og láta málið standa eins og það var, þeir hefðu aldrei þorað að gripa til þeirra aðgerða. Þess vegna er það líka ómótmælanlegt, að það var búið að vinna fullan sigur í þessu máli. Það var búið að tryggja 12 mílna fiskveiðilandhelgina fullkomlega, þegar ríkisstj. hné að því óhapparáði að láta undan Bretum og byrja við þá samninga, sem leiddu til landhelgissamningsins, sem afgreiddur var hér í fyrra.

Þá hafa þeir verið að halda því hér fram, hæstv. ráðherrar, að raunverulega hafi Framsfl. áður verið búinn að fallast á þá afstöðu, sem felst í landhelgissamningunum við Breta og Þjóðverja. Þetta er algerlega rangt. í þeim viðræðum, sem fóru fram við brezk stjórnarvöld sumarið 1958. áður en til útfærslu kom, var aldrei léð máls á því að gefa Bretum slíka stöðvunaraðstöðu sem þeir hafa nú fengið og er raunar aðalatriðið í brezka landhelgissamningnum. Það var aldrei léð máls á því að veita þeim slíkan stöðvunarrétt. Og það er líka algerlega rangt, sem hér hefur komið fram hjá báðum hæstv. ráðh., að með afstöðunni á Genfarráðstefnunni 1958 og 1960 hafi Íslendingar bundið hendur sínar við það að óska ekki eftir stærri landhelgi en 12 mílum eða bundið afstöðu sína þannig, að þeir gætu ekki krafizt víðtækari fiskveiðilandhelgi en það. Það er rétt, að á báðum þessum ráðstefnum greiddi Ísland atkv. með 12 mílna fiskveiðilandhelgi, vegna þess að það var sýnilegt, að ekki væri hægt að fá samkomulag um viðtækari fiskveiðilandhelgi almennt. En sú atkvgr. batt ekki hendur Íslands neitt. Hæstv. ráðh., bæði dómsmrh., sem befur verið utanrrh. áður, og hæstv. núv. utanrrh., þeir vita, að slíkar atkvgr. um væntanlega alþjóðasamninga á alþjóðaráðstefnum binda ekki neitt hendur viðkomandi ríkis gagnvart því, hvort það fallist endanlega á samninginn eða ekki. Slíkir samningar öðlast ekki bindandi gildi af hálfu viðkomandi ríkis, nema því aðeins að þeir í fyrsta lagi fái tilskilinn meiri hluta á viðkomandi alþjóðaráðstefnu og verði svo staðfestir af þingi og ríkisstj. viðkomandi ríkis. Og það felst engin skuldbinding í því á alþjóðaráðstefnu, að ríkið þurfi að gerast aðili að þeim samningi, þó að það greiði atkv. með vissum atriðum, sem í þessum samningi kunna að felast. Ég tel þess vegna víst, að ef til þess hefði komið, að slíkur samningur hefði verið lagður fyrir Alþingi Íslendinga, þá mundum við ekki hafa gerzt aðilar að honum og undirskrifað hann, nema því aðeins að það fylgdi sá fyrirvari, að við áskildum okkur rétt til að krefjast landgrunnsins að fullu. Ég trúi því ekki, að neinn af þeim flokkum, sem nú eiga sæti á Alþingi, hefði gerzt aðili að slíkum samningi nema með slíkum fyrirvara.

Til frekari sönnunar um það, að þessi er málsmeðferð um alþjóðasamninga á alþjóðlegum vettvangi, finnst mér rétt að geta þess, að á ráðstefnunni 1958 var gengið frá fjórum alþjóðasamningum, sem hlutu þar tilskilið samþykki. Síðan eru liðin fjögur ár. Enginn af þessum samningum hefur enn verið lagður fyrir Alþingi til fullgildingar. Og það er alls ekki víst, þó að þessir samningar væru lagðir hér fyrir til fullgildingar, að Alþingi mundi fallast á þá. Alþingi hefur þess vegna fullkomlega óbundnar hendur gagnvart þessum samningum, þó að fulltrúar Íslands á viðkomandi alþjóðaráðstefnu greiddu atkv. með samningunum. Og nákvæmlega hefði það verið á sama hátt, ef till. um 12 mílna fiskveiðilandhelgina hefði náð gildi. Við hefðum ekki verið bundnir af þeim ákvæðum fyrir það, þó að okkar fulltrúar hefðu greitt atkv. með þeim á Genfarráðstefnunni, vegna þess að eftir var að leggja samninginn fyrir Alþingi til fullnaðardóms um, hvort það vildi á slíkan samning fallast. En niðurstaðan gagnvart öðrum samningum er sem sagt þessi, að á ráðstefnunni var gengið frá fjórum alþjóðlegum samningum, sem fengu þar tilskilinn meiri hluta. Enginn þeirra, þó að fjögur ár séu liðin, hefur enn þá verið lagður fyrir Alþingi til fullgildingar, og ég held, að ég megi fullyrða, að enginn af þessum samningum hefur enn þá fengið fullgildingu, vegna þess að það þarf tilskilda tölu þjóða eða ríkja til að gerast aðilar að slíkum samningi, áður en hann gengur í gildi. Þess vegna er það fullyrðing alveg út í loftið hjá hæstv. ráðh., þegar þeir eru að halda því fram, þó að við hefðum greitt atkv. með 12 mílna fiskveiðilandhelgi á Genfarráðstefnunni 1958, að þar hefðum við nokkuð verið að binda hendur okkar endanlega um það fyrir framtíðina, að við mundum ekki krefjast stærri fiskveiðilandhelgi. Ég held því hiklaust fram, að þó að við hefðum fengið slíkan samning samþykktan þar, þá mundi Alþingi hafa hugsað sig um tvisvar, áður en það gerðist aðili að slíkum samningi án þess að hafa þá vissan fyrirvara gagnvart landgrunninu. Það má líka vitna til þess í þessu sambandi, að mörg þau ríki, sem greiddu atkv. um þessa skipan, sum Ameríkuríki, sem greiddu atkv. með 12 mílna fiskveiðilandhelginni á ráðstefnunni í Genf, hafa stærri fiskveiðilandhelgi, og lýstu þau að sjálfsögðu yfir, að þó að þau greiddu atkv. með 12 mílunum á ráðstefnunni, mundu þau ekki neitt víkja frá þeirri fiskveiðilandhelgi, sem þau væru búin að ákveða.

Það er þess vegna alveg rangt, að í þessari afstöðu okkar á Genfarráðstefnunni hafi falizt nokkur endanleg binding af Íslands hálfu, heldur aðeins fylgdum við því á ráðstefnunni, sem hægt var að komast lengst, þó að það væri ekki eins langt og við vildum ganga í þeim efnum. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort þeir álita, að við höfum bundið okkur endanlega í þessum efnum með atkvgr. og séum háðir slíkum samningi, án þess að hann hafi verið endanlega borinn undir Alþingi til samþykktar. Erum við t.d. bundnir af þeim fjórum samningum, sem var gengið frá á ráðstefnunni og fulltrúar Íslands greiddu atkv. með, vegna þess að þeir greiddu atkv. með þeim? Nei, við erum ekki bundnir af þessum samningum, vegna þess að þeir hafa enn ekki verið lagðir fyrir Alþingi og Alþingi ekki tekið neina endanlega afstöðu til þess, hvort það vill, að við gerumst aðilar að þeim eða ekki. Þess vegna fólst í okkar afstöðu á ráðstefnunni 1958 ekki nein endanleg afstaða um það, að við værum að binda okkur um aldur og ævi við 12 mílur, haldur það, að við vildum stuðla að því, að þessi regla fengist viðurkennd sem lágmark, en hefðum svo óbundnar hendur í framtíðinni gagnvart frekari útfærslu, vegna þess að við þyrftum ekki að gerast aðilar að þessu samkomulagi frekar en við vildum. Þess vegna er það alveg rangt hjá hæstv. ráðherrum og getur verið hættulegt gagnvart framtíðinni að segja, að við höfum ætlað að binda hendur okkar um aldur og ævi við 12 mílur með atkvgr. á Genfarráðstefnunni. Því var síður en svo varið. Og ég endurtek það, að ég held, að ef slíkur samningur hefði verið borinn undir Alþingi til endanlegrar samþykktar, þá mundu allir flokkar hafa hikað við að gera það, nema þá með þeim fyrirvara, að þeir vildu tryggja Íslendingum rétt til landgrunnsins. Allir flokkar hafa lýst því yfir sem stefnumarki Íslands, að þeir vildu láta fiskveiðilandhelgina ná til alls landgrunnsins, og það er að sjálfsögðu ekki hægt að gera, ef við bindum okkur við alþjóðlega samninga um það efni. (Forseti: Má ég vekja athygli ræðumanns á því, að venjulegum fundartíma er nú lokið, og ef hv. þm. á eitthvað meira eða minna eftir af ræðunni —) Já, ég á talsvert eftir. (— þá væri æskilegt, að það bíði til næsta fundar.) — [Frh.]

Umr. frestað.

Á 40. fundi í Sþ., 7. marz, var till. tekin til frh. einnar umr.

Forseti tók málið af dagskrá.

Á 41. fundi í Sþ., 14. marz, var enn fram haldið einni umr. um till.

Fram. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson) [frh.]: Herra forseti. Það eru nú þrjár vikur síðan þetta mál var hér seinast til umr., og þess vegna finnst mér rétt að rifja upp í örstuttu máli þau atriði, sem komu fram í fyrstu ræðu minni og urðu þess valdandi, að hér urðu allmiklar umr. um málið á eftir.

Það, sem ég vakti sérstaklega athygli á, var þrennt :

Það var í fyrsta lagi, að það hefði orðið mjög glæsilegur árangur af útfærslu fiskveiðilandhelginnar 1958 og sú ríkisstj., sem að þeirri framkvæmd hefði staðið, hefði því unnið merkilegt verk og þýðingarmikið, — eitt hið þýðingarmesta, sem hefur verið unnið í allri sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, og það beri ekki sízt að virða vegna þess, að þar hefði verið að mæta ekki aðeins mjög einbeittri erlendri mótspyrnu, heldur líka mótspyrnu innanlands.

Í öðru lagi benti ég á það, að þegar hafizt var handa um landhelgissamninginn við Breta síðari hluta árs 1960 og svo þegar sá samningur var gerður 1961, snemma árs, þá hefði raunverulega verið búið að vinna sigur í landhelgismálinu og þess vegna hefði þessi samningsgerð verið með öllu óþörf.

Í þriðja lagi benti ég svo á það, að með brezka landhelgissamningnum hefði verið brotið gegn yfirlýsingu Alþingis og gefnum loforðum þeirra stjórnmálaflokka í kosningabaráttu, sem að samningunum hefðu staðið. Það hefði þess vegna verið um mjög stórvægilegt undanhald að ræða og sá samningur, sem hér lægi fyrir til staðfestingar, þýzki landhelgissamningurinn, væri sönnun þess, að enn væri ekki lát á þessu undanhaldi.

Í tilefni af þessu komu fram allmiklar athugasemdir af hálfu tveggja ráðherra og hv. frsm. meiri hl. utanrmn., sem mér finnst rétt að gera nokkrar athugasemdir við.

Ég vil þá víkja fyrst að því, sem var haldið fram af hæstv. dómsmrh., en það var það, að útfærslan 1958 hefði ekki mætt neinni andstöðu hér innanlands og það hefði þess vegna verið rangt, sem ég hefði haft um það atriði að segja. Ég minnti hæstv. ráðh. á það, að hann þyrfti ekki annað en að lesa sín eigin skrif og skrif Morgunblaðsins á sumrinu 1958 til að sannfærast um, að þar hefði verið um mjög mikla og hættulega mótspyrnu að ræða, því að segja má, að skrif Morgunblaðsins allt sumarið 1958 hafi beinzt að því að gera aðstöðu Íslands sem óhagstæðasta í þessu sambandi. Eftir að búið var að ákveða útfærsluna í maímánuði 1958 og þangað til hún gekk í gildi 1. sept. 1958 var það að sjálfsögðu hin mesta nauðsyn, að þjóðin stæði sem bezt saman og að útlendingar hefðu það ekki á tilfinningunni, að þar gæti verið um tilslökun að ræða af hálfu Íslendinga. En því var síður en svo að fagna, að af hálfu Íslendinga allra væri þannig haldið á þessu máli. Í aðalblaði stjórnarandstöðunnar og útbreiddasta blaði landsins var þá haldið þannig á málum, að útlendingar gátu hæglega fengið þá skoðun, að Íslendingar stæðu ekki saman um þetta mál, heldur væri þar um verulegan klofning að ræða, sem hinir erlendu aðilar ættu og gætu notfært sér. Mér finnst rétt í þessu sambandi, til þess að gefa nokkurt yfirlit yfir það, hvernig málflutningur Morgunblaðsins var sumarið 1958, að lesa upp stutta umsögn um þennan málflutning, sem birtist í Alþýðublaðinu á þeim tíma, eða í ágústmánuði 1958. Sú umsögn hljóðaði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„En fyrst Morgunblaðið er með þennan sífellda hráskinnaleik í landhelgismálinu, er rétt að spyrja blaðið, hver sé stefna þess í málinu. Hver er stefna stærsta stjórnmálaflokksins í landinu í þessu höfuðmáli þjóðarinnar? Af Morgunblaðinu verður ekkert ráðið í þessum efnum. Það er svo önnum kafið við pólitískan loddaraskap og neikvæðan hráskinnaleik, að það virðist alveg gleyma því hlutverki að hafa einhverja skoðun sjálft. Miklu rúmi er á hverjum degi eytt í æsifregnir utan úr löndum, helzt þær, sem eru fjandsamlegar Íslendingum, og eins og aðrar fregnir um þetta mál eru þær yfirleitt birtar athugasemda- og andúðarlaust. Sama verður upp á teningnum með umr. á íslenzkum vettvangi. Þar virðist Morgunblaðið helzt gegna því hlutverki að kljúfa, spilla milli flokka og vekja sem mesta tortryggni í málinu. Hvað á svona háttalag að þýða? Hefur yfirstjórn Sjálfstfl. lagt svo fyrir við Morgunblaðið, að það hafi þessa neikvæðu, hæpnu og vandræðasömu afstöðu í höfuðsjálfstæðismáli þjóðarinnar?“

Ég held, að það sé áreiðanlega ekki ofsagt, sem þarna kemur fram í Alþýðublaðinu, að afstaða Morgunblaðsins allt sumarið 1958 eða á þessum örlagatímum í sjálfstæðismálum þjóðarinnar hafi verið neikvæð, hæpin og vandræðasöm. Og hver var svo meginuppistaðan í málflutningi Morgunblaðsins og sjálfstæðismanna á þessum tíma? Ég held, að hann verði bezt dreginn fram með því að rifja upp frásögn í Morgunblaðinu af fundi, sem sjálfstæðismenn héldu að Egilsstöðum 3. ágúst sumarið 1958. Þar flutti formaður flokksins, hæstv. núv. forsrh., ræðu, og Morgunblaðið sagði frá efni hennar á þessa leið:

„Allir landsmenn vonuðu af heilum huga, að Íslendingar sigruðu í þessu máli. En verði sá sigur ekki heill, þá er það fyrst og fremst því að kenna, að Lúðvík Jósefsson setti það ofar öðru að kveikja ófriðareld milli Íslendinga og vestrænna vina þeirra og framsóknarmenn voru eins og bundnir fangar aftan í stríðsvagni kommúnista.“

Þetta var í stuttu máli sú mynd, sem Sjálfstfl. brá upp fyrir augum útlendinga sumarið 1958, þegar stóðu yfir mestu örlagatímar í þessu máli. Sem sagt það, að því væri síður en svo þannig varið, að þjóðin stæði saman og einhuga í þessu máli, heldur væru það kommúnistar, sem hefðu haft hér forgöngu um 12 mílurnar eingöngu vegna fjandskapar síns við vestrænar þjóðir og þeir hefðu notað sér stjórnaraðstöðuna til þess að fá hina flokkana til liðs við sig í þessum efnum, sem væru þó í raun og veru tregir við að standa við þessa stefnu. Og það var óspart gefið í skyn, að Sjálfstfl. væri hér alls ekki á sama máli, enda tekið fram í sérstökum bréfum, sem Sjálfstfl. sendi ríkisstj., þegar leið að 1. sept. 1958, að hann væri ósammála þeim aðferðum, sem hér hefðu verið viðhafðar. Hvaða áhrif halda menn, að það hafi haft á þessum tíma, þegar það skipti höfuðmáli, að útlendingar hefðu þá skoðun, að Íslendingar stæðu saman um þetta mál, að þá skyldu þessar myndir sífellt vera dregnar upp í Morgunblaðinu af svo gersamlega klofinni og sundraðri þjóð í sambandi við framkvæmd þessa máls? Ég tel það meira en vafasamt, ef þessi afstaða hefði ekki verið höfð í Morgunblaðinu sumarið 1958 og ef útlendingar hefðu í staðinn haft það þá fyrir augunum, sem styrkti þá trú þeirra, að þjóðin stæði saman, að Bretar hefðu nokkurn tíma gripið til þess óyndisúrræðis, sem þeir gerðu 1. sept. 1958, þegar þeir beittu herskipum innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi til að aðstoða þar við veiðiþjófnað. Nei, það er alveg víst, að þessi andstaða, sem Sjálfstfl, hélt hér uppi á þessum tíma, var eins skaðleg fyrir málið og hugsazt gat, og þess vegna þurfti hér að berjast ekki eingöngu gegn andstöðu út á við, andstöðu ýmissa erlendra þjóða, heldur líka við sterka andstöðu innanlands, sem hefur sennilega haft hin örlagaríkustu áhrif á framkvæmd málsins og hvatt Breta til að grípa til þeirra ofbeldisaðgerða, sem þeir svo síðar gerðu sig seka um. Þess vegna var það, að vinstri stjórnin réðst í framkvæmd þessa mikla sjálfstæðismáls bæði gegn erlendri andstöðu og gegn andstöðu hér innanlands, og þess vegna verður það verk aldrei ofmetið, að henni skyldi takast að koma þessu heilu í höfn og fá 12 mílurnar framkvæmdar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta atriði, því að ég hygg, að það liggi alveg ljóst fyrir af því, sem ég hef nú rakið, að það var um að ræða bæði mikla andstöðu erlendis og inn á við, þegar verið var að koma 12 mílunum fram sumarið 1958.

En þá kem ég að því atriði, sem skiptir ekki minna máli í þessu sambandi, og það er það, hvort það hafi raunverulega verið búið að vinna fullan sigur í sjálfstæðismálinu 1960, þegar núv. hæstv. ríkisstj. ákvað að taka upp samninga við Breta með þeim afleiðingum, að þeir voru síðar gerðir. Ég benti á nokkur atriði til sönnunar um þetta í þeim umr., sem fóru hér fram fyrir þremur vikum. Ég nefndi það í fyrsta lagi, að allar þjóðir nema Bretar hefðu strax viðurkennt útfærsluna í verki 1958. Ég benti í öðru lagi á þá staðreynd, að veiðar Breta undir herskipavernd innan landhelgislínunnar hefðu reynzt svo að segja gagnslausar og þeir hefðu þess vegna verið horfnir frá þeim, þegar samningar voru teknir upp við þá sumarið 1960. Í þriðja lagi benti ég svo á það, að eftir Genfarráðstefnuna 1960 var það talið nokkurn veginn öruggt, að 12 mílna línan væri búin að sigra almennt í heiminum.

Ég get bætt við fjórða atriðinu með því að leiða hæstv. núv. dómsmrh. sjálfan til vitnis um það, að þannig hefur verið ástatt, þegar samningarnir voru hafnir við Breta sumarið 1960, að Íslendingar höfðu raunverulega verið búnir að sigra í landhelgismálinu.

Hér í hv. Ed. urðu allmiklar umr. um landhelgismálið haustið 1960 í tilefni af því, að þá var lagt fram í deildinni frv. um að lögfesta 12 mílna landhelgina, og meðal þeirra, sem þar tóku til máls, var hæstv. núv. dómsmrh. Því var haldið fram þar af þeim mönnum, sem stóðu að frv., að raunverulega væri búið að sigra í 12 mílna landhelgismálinu og þess vegna væri þetta lagafrv. í raun og veru ekki annað en staðfesting á því, sem þegar væri orðið, jafnframt því sem það mundi einnig styrkja okkur út á við að setja um þetta lög, í staðinn fyrir að láta þetta ákvæði um 12 mílurnar vera í reglugerð. Meðal þeirra, sem tóku til máls í þessum umr., var hæstv. núv. dómsmrh., og honum fórust svo orð í þingræðu, sem hann hélt 27. okt. 1960:

„Það hefur verið sagt: Landhelgismálið er leyst, 12 mílurnar hafa sigrað. — Það er rétt: Nú kunna einhverjir að halda, að ráðh. hafi e.t.v. orðið mismæli þarna og hann ekki fullkomlega meint það, sem þarna kemur fram. En sá ræðumaður, sem talaði næstur á eftir honum, var hv. 5. þm. Reykn., og hann endurtók þessi ummæli ráðh. og sagði, að hann hefði viðurkennt það sem staðreynd, að 12 mílurnar væru búnar að sigra. Og þegar hæstv. ráðh. talaði svo aftur 7. nóv. 1960 í hv. Ed., fórust honum orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo sem fram hefur komið fyrr í þessum umr., verður ekki lengur um það deilt, að 12 mílna fiskveiðilögsagan er sú, sem í framtíðinni mun hafa allsherjargildi.“

Ráðh. segir enn fremur:

„Við erum þess vegna búnir að sigra í meginmálinu, því að frá 12 mílna fiskveiðilögsögu verður aldrei horfið framar við Ísland. Sú orrusta, sem mátti virðast nokkuð vafasöm um skeið, er þess vegna þegar unnin:

Þetta sagði hæstv. dómsmrh. 7. nóv. Þetta er staðfesting á því, sem ég hélt hér fram í umr. fyrir þremur vikum, að Íslendingar hefðu verið búnir að sigra í landhelgisdeilunni, þegar hæstv. núv. ríkisstj. hófst handa um það að semja við Breta og gerði landhelgissamninginn, sem var afgreiddur hér á seinasta ári.

Og ráðh. sagði meira en þetta í þessari sömu ræðu. Hann sagði enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Við skulum minnast þess, að í þessari deilu erum við þegar búnir að sigra að meginstefnu til:

Hæstv. ráðh. segir það þess vegna ekki einu sinni í Ed. haustið 1960, að við séum búnir að sigra þá í landhelgisdeilunni, þ.e. í raun og veru búnir að fá 12 mílurnar staðfestar, heldur segir hann þetta mörgum sinnum. Og þetta sannar ekki annað en það, sem ég hef verið að halda hér fram og hæstv. ráðh. var að reyna að mótmæla hér síðast, að við vorum raunverulega búnir að sigra í landhelgismálinu sumarið 1960, þegar hæstv. ríkisstj. hófst handa um að gera landhelgissamninginn við Breta. Þess vegna var hann algerlega óþarfur, og átti aldrei á þeim samningum að byrja, því að það var þarflaust. Ég held, að það þurfi ekki frekari vitna við en hæstv. dómsmrh. sjálfan um það, að Íslendingar voru búnir að sigra í málinu sumarið 1960 og þurftu þess vegna ekki á neinum samningum við Breta að halda til þess að fá 12 mílurnar viðurkenndar.

Ég læt þá útrætt um þetta atriði, en kem að því, sem allmikið var rætt um af hálfu hæstvirtra ráðh. hér í umr. seinast, sem var um það, að með landhelgissamningnum við Breta, sem gerður var í fyrra, hafi ekkert undanhald átt sér stað af hálfu stjórnarflokkanna og þeir staðið við þau fyrirheit, sem þeir höfðu gefið kjósendum um þetta mál. Ég þarf í þessu sambandi ekki annað en að vísa til þeirrar ályktunar, sem gerð var um þetta í Alþingi í maímánuði 1959, því að þeir, sem lesa þá ályktun, eins og reyndar hefur oft verið gert hér í hæstv. Alþingi, gera sér strax fulla grein fyrir því, að með landhelgissamningnum, sem gerður var við Breta á seinasta ári, er fullkomlega brotið gegn þeirri samþykkt, og sama gildir að sjálfsögðu um þau loforð, sem stjórnarflokkarnir gáfu fyrir kosningarnar, sem fram fóru á því ári, og voru í samræmi við þessa yfirlýsingu Alþingis, enda gerðu hæstv. ráðh. ekki mikið til þess að reyna að hnekkja þessu, heldur reyndu aðallega að bera það sér til afsökunar, að Framsfl. hefði raunverulega verið búinn að marka með sínum aðgerðum þá stefnu:, er fólst í landhelgissamningnum, sem gerður var við Breta 1961, í fyrsta lagi með því að bjóða upp á, að því er þeir töldu, svipaðar undanþágur um veiðar í 3 ár innan fiskveiðilandhelginnar og felast í þessum samningi og svo í öðru lagi með því að vera því fylgjandi á Genfarráðstefnunni 1960, að Ísland hefði ekki nema 12 mílna fiskveiðilandhelgi. Bæði þessi atriði eru röng hjá hæstv. ráðherrum. í fyrsta lagi var aldrei af hálfu íslenzkra stjórnarvalda, svo að ég viti til, gert neitt ákveðið tilboð um það vorið eða sumarið 1958, að við mundum veita undanþágur innan fiskveiðilandhelginnar. Það eina, sem var gert og liggur skjallega fyrir, var það, að boðizt var til þess, að ef þær tillögur kæmu frá Vestur-Evrópuþjóðunum, að þær viðurkenndu 12 mílurnar, þá skyldi það tekið til athugunar, hvort undanþágur yrðu veittar að einhverju leyti innan fiskveiðilandhelginnar næstu þrjú árin eða ekki. En það var ekkert fyrirheit gefið um þetta og engar beinar tillögur bornar fram um þetta, heldur eingöngu sagt, að ef slíkar tillögur kæmu fram frá öðrum þjóðum, þá skyldu þær verða teknar til athugunar af hálfu Íslendinga, en ekkert meira sagt, enda gat sú ríkisstj., sem þá sat, ekki meira gert, vegna þess að hún hafði ekki borið neitt um þetta efni undir t.d. hv. Alþingi. Hins vegar var það eðlilegt, að ef slíkar tillögur kæmu fram eða tillögur frá öðrum þjóðum, þá yrðu þær bornar undir þingið og þá leitt í ljós, hver afstaðan til þeirra væri. Hins vegar get ég alveg hiklaust lýst yfir því sem minni skoðun, að ef á þessum tíma, sumrinu 1958, áður en útfærslan tók gildi, hefði komið tillaga frá öðrum þjóðum, t.d. Bretum og öðrum Vestur-Evrópuþjóðum, um, að þær skyldu viðurkenna 12 mílna fiskveiðilandhelgina gegn því að fá vissar undanþágur innan fiskveiðimarkanna næstu 3 árin, þá hefði ég ekki talið það ósanngjarnt, eins og á stóð þá. En frá mínu sjónarmiði var það jafnmikil fjarstæða að gangast inn á slíkar undanþágur, eftir að Bretar voru búnir að beita okkur ofbeldi í landhelgismálinu og eftir að það lá fyrir, sem lá fyrir sumarið 1960 og er staðfest í þeim ummælum hæstv. dómsmrh., sem ég las hér upp áðan, að við vorum búnir að vinna fullan sigur í landhelgismálinu og þurftum þess vegna ekki á neinum samningum við Breta að halda. Undir þessum kringumstæðum voru þessar undanþágur, sem felast í brezka landhelgissamningnum, vitanlega hrein fjarstæða og áttu engan rétt á sér. Málið stóð svo allt öðruvísi sumarið 1960 en það stóð áður en við ákváðum útfærslu fiskveiðilandhelginnar vorið 1958, að það er alls ekki hægt að bera þetta tvennt saman.

En svo er það ekki heldur aðalatriðið, sem felst í landhelgissamningnum, þessar undanþágur, það er alls ekki aðalatriði landhelgissamningsins, sem gerður var við Breta á s.l. ári. Aðalatriði landhelgissamningsins er það, sem brezki fiskveiðimálaráðh. Soames hélt fram á s.l. ári, að það þýðir í reynd a.m.k. það, að Íslendingar geti ekki fært út fiskveiðilandhelgi sína næstu 25 árin, en á þennan hátt túlkaði brezki fiskveiðimálaráðherrann Soames landhelgissamninginn í viðræðum við brezka sjómenn og togaraskipstjóra á s.l. vori, þ.e. að í raun og veru fælist það í því bindingarákvæði, sem er í þessum samningi, að Englendingar gætu örugglega treyst því, að Íslendingar mundu ekki geta fært út fiskveiðilandhelgi sína næstu 25 árin — og kannske lengri tíma, það er enginn kominn til með að segja um það. Af hálfu Framsfl. hefur aldrei verið léð nokkurn tíma máls á því, að slíkt bindingarákvæði yrði viðurkennt, og það er algerlega rangt, sem þessir ráðh. eru að halda fram, að það hafi verið léð máls á nokkru slíku á Genfarráðstefnunni 1958, þegar Framsfl. átti þátt í því að móta þá stefnu, sem þar var fylgt. Og ég er alveg hissa, að tveir hæstv. ráðh., sem eiga að fylgjast jafnvel með þessum málum og þekkja vel til þeirra eins og hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh., skuli leyfa sér að halda því fram, að það hafi verið stefna Íslands á Genfarráðstefnunni 1958 að einskorða sig við 12 mílur. Það er fjarri öllum sanni. Og því til sönnunar skal ég lesa hér upp stuttan kafla úr skýrslu um Genfarráðstefnuna 1958, sem þrír nefndarmenn Íslands, sem þar voru, Hans Andersen, Davíð Ólafsson og Jón Jónsson, hafa undirritað. í þessari skýrslu þeirra segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Íslenzka nefndin vildi aldrei flytja sjálf eða ásamt öðrum tillögu um 12 mílur til þess að vera ekki bundin við þá fjarlægð:

Hér stendur sem sagt í skýrslu nefndarmannanna: „Íslenzka nefndin vildi aldrei flytja sjálf eða ásamt öðrum tillögu um 12 mílur til þess að vera ekki bundin við þá fjarlægð: Þetta var stefna Íslands þá, að binda sig ekki við þessa fjarlægð. Svo koma hér fram tveir hæstv. ráðherrar og halda því fram, að það hafi einmitt verið stefna Íslands. Hvernig stendur á því, að tveir hæstv. ráðherrar skuli leyfa sér slíkan málflutning eins og þennan? Svo segir enn fremur í skýrslu nefndarmannanna frá Genf :

„Hún (þ.e. nefndin) studdi 12 mílna regluna sem almenna reglu. Hins vegar bar hún fram tillögu þess efnis, að þar sem þjóð byggði afkomu sína að langmestu leyti á fiskveiðum meðfram ströndum og nauðsynlegt reynist að takmarka hámarksafla á hafinu utan fiskveiðilögsögu hlutaðeigandi ríkis, beri þeirri þjóð forgangsréttur til hagnýtingar fiskstofnanna á því svæði, að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er til þess að fullnægja þörfum þeirrar þjóðar. — Jafnframt var lagt til, að ágreiningur í slíkum málum skyldi lagður fyrir gerðardóm:

Hver leyfir sér að bera saman það, sem hér er lagt til, við það bindingarákvæði, sem felst í landhelgissamningnum við Breta og bindur okkur alveg við 12 mílur? Í þeirri till., sem Ísland bar fram, fólst það; að 12 mílurnar skyldu vera hin almenna regla, en strandríki, sem byggi afkomu sina sérstaklega á fiskveiðum, hafi forgangsrétt til friðunar, ef nauðsynlegt teljist, utan við 12 mílurnar, og um það ætti að vísu gerðardómur að fjalla. En í þessu tilfelli á gerðardómurinn að fjalla um reglur, sem tryggja Íslandi forgangsrétt utan við 12 mílurnar. Ekkert slíkt ákvæði er að finna í landhelgissamningnum við Breta, svo að það er fjarri öllu lagi að ætla að bera þetta tvennt saman, gersamlega fjarri öllu lagi, og ég verð að lýsa fullkominni undrun minni yfir því, að jafnglöggir og fróðir menn í þessum efnum og þessir tveir hæstv. ráðh. eiga að vera, dómsmrh. og utanrrh., skuli leyfa sér þann málflutning, að Ísland hafi á Genfarráðstefnunni 1968 fylgt þeirri stefnu að einskorða sig eingöngu við 12 mílna regluna. Af hverju eru þessir hæstv. ráðherrar með slíkan málflutning eins og þennan? Hver getur verið skýringin á því að grípa til slíkra fullyrðinga eins og þessara? Vitanlega stafar það ekki af neinu öðru en því, hve hæpinn sá málstaður er, sem þessir glöggu menn þurfa að verja, og þess vegna verða þeir að grípa til jafnmikilla undanbragða og þessara. En það mega þeir vera vissir um, að þeir bæta ekki málstað sinn með því að heita slíkum fullyrðingum eins og þessum.

Nú kann að vera, að hæstv. ráðherrar ætli að nota það sem undanbrögð, að vegna þess að þannig háttaði til á Genfarráðstefnunni, að búið var að fella sértillögu Íslands, áður en 12 mílna reglan kom til atkvæða, og vegna þess, að Ísland fylgdi þá 12 mílna reglunni, þá hafi það með þeirri atkvgr. bundið sig, einskorðað sig við 12 mílur. Þetta vita hæstv, ráðherrar að er fullkomlega rangt, því að það er oft á slíkum ráðstefnum sem þessum, að menn af taktískum ástæðum telja rétt að greiða atkvæði með ýmsum tillögum, sem þeir binda sig þó ekki endanlega við, vegna þess að atkvæðagreiðslur á slíkum ráðstefnum eins og Genfarráðstefnunum báðum eru ekki bindandi fyrir viðkomandi þjóð, og þeir samningar, sem þar eru gerðir, eru ekki bindandi fyrir viðkomandi þjóðir, nema þær á eftir staðfesti þessa samninga sérstaklega á löggjafarþingum sínum. Þess vegna haga menn iðulega atkvgr. á slíkum ráðstefnum á allt annan veg en þann, sem þær ætla að binda sig við til frambúðar, heldur á þann veg að reyna að fá það fram, sem hægt er að komast lengst í hverju einstöku tilfelli, en það verða svo löggjafarþingin sjálf að segja til um á eftir, hvort þau binda sig við þá niðurstöðu eða ekki. En endanlega binda menn sig ekki með atkvgr. á þessum ráðstefnum, eins og sést ljósast á því, að á Genfarráðstefnunni 1958 var gengið frá fjórum alþjóðasamningum með tilskildu atkvæðamagni, en enginn þessara samninga, að því er ég bezt veit, er kominn til framkvæmda enn þá, vegna þess að enginn þeirra hefur verið ataðfestur á nægilega mörgum löggjafarþingum til þess að ná gildi sem alþjóðasamningur. Og að sjálfsögðu nær samningur ekki heldur gildi gagnvart þeim ríkjum, sem gerast ekki beinir og endanlegir aðilar að honum. Það eru sem sagt 4 ár síðan þessir samningar voru gerðir á ráðstefnu, 1958, og þó að Íslendingar greiddu þá atkv. með þeim á ráðstefnunni, hafa þeir t.d. enn ekki verið lagðir fram hér á Alþingi til staðfestingar, og bólar ekki neitt á því, að það sé ráðgert. Ég verð þess vegna að telja það meira en furðulegt, að ef svo skyldi hafa farið, að það hefði verið samþykktur þar samningur, sem einskorðaðist alveg við 12 mílurnar, þá hefðu t.d. hæstv. viðkomandi ráðh. rokið upp til handa og fóta og lagt þann samning einan af fjórum samningum, sem samþykktir voru á Genfarráðstefnunni 1958, fyrir Alþingi til samþykktar. Ég verð að segja það líka, að ég hef það álit á þessum hæstv. ráðh. og trúi svo mikið á það, þegar þeir segjast í raun og veru vera fylgjandi því, að Ísland tryggi sér landgrunnið í framtíðinni, að þá mundu þeir ekki hafa lagt það til, að Ísland gerðist aðili að slíkum samningi, og þess vegna telji þeir ekki, að þessi umrædda atkvgr. okkar á Genfarráðstefnunni hafi bundið okkur neitt til frambúðar, þó að við af taktískum ástæðum teldum rétt að greiða atkv. á umræddan veg. Ég trúi því ekki, að hæstv. ráðh. mundu hafa lagt það til, að ef slíkur samningur hefði verið gerður þar, að við hefðum bundið okkur við hann frekar en þá hina samningana, sem gerðir voru á sömu ráðstefnu og þeir hafa enn ekki lagt fyrir til samþykktar.

Nei, það er alveg þýðingarlaust fyrir hæstv. ráðh. að halda því fram, að Framsfl. hafi verið búinn að gera eitthvað það, sem hafi skapað fordæmi fyrir því, að ríkisstj. gæti gert brezka landhelgissamninginn, bæði hvað snertir undanþágurnar og þó alveg sérstaklega hvað snertir bindingarákvæðið. Það liggur ekki neitt fyrir af hálfu Framsfl., að hann hafi nokkurn tíma staðið að því að skapa neitt slíkt fordæmi, og þess vegna geta þessir hv. þm. ekki varið sig með því. Það er svo fjarstæður málflutningur, að ég er alveg undrandi yfir því, að jafnglöggir menn og hæstv. ráðh. eru skuli leyfa sér að hafa hann í frammi, því að þeir sjá áreiðanlega, hversu mikil rangindi eru þar í frammi höfð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um þetta atriði. Ég held, að ég hafi sýnt alveg nægilega ljóst, að það er fullkomin fjarstæða, sem hæstv. ráðherrar halda fram, að Framsfl. hafi gefið nokkurt fordæmi til að gera brezka landhelgissamninginn 1961. Það stendur jafnóhrakið líka, að brezki landhelgissamningurinn er í fullkominni mótsögn við það, sem þessir flokkar stóðu að því að samþ. á Alþingi vorið 1959, og í fullkominni andstöðu við það, sem þessir flokkar lofuðu í kosningabaráttunni 1959, sem var að halda fast við undanþágulausa 12 mílna fiskveiðilandhelgi og vinna að því, að Íslendingar næðu yfirráðum yfir öllu landgrunninu, en ekkert er náttúrlega fjær lagi í þeim efnum en að gera slíkan bindingarsamning og brezki landhelgissamningurinn er. Sá samningur var þess vegna fullkomið undanhald frá því, sem þessir flokkar höfðu lýst yfir. Og sá samningur, sem hér liggur fyrir, þýzki landhelgissamningurinn, er enn þá meira undanhald eða áframhald á þessu undanhaldi, sem átti sér stað í fyrra. Ég viðurkenni, að það var erfitt fyrir hæstv. ríkisstj. að ætla að verja þýzkum togurum aðgöngu að fiskveiðilandhelginni, á meðan brezku togararnir njóta undanþága þar. En þó að Þjóðverjar væru látnir hafa slíkar undanþágur, sem voru óhjákvæmilegar, vegna þess að það var ekki hægt að framkvæma gæzluna öðruvísi, þá var gersamlega ástæðulaust að láta þá einnig fá sömu bindingaraðstöðuna og Bretar fengu á síðasta ári, og það getur átt eftir að reynast okkur hættulegt í framtiðinni, því þó að Þjóðverjar tækju liðlega á máli okkar í sambandi við 12 mílurnar, þá er ekki víst, að þeir geri það, þegar við þurfum á því að halda og ætlum að færa fiskveiðilandhelgina lengra út. Þá gæti ég vel trúað því, að andstaða Þjóðverja yrði okkur ekki síður hættuleg en jafnvel andstaða Breta, vegna þess að þýzku togararnir hafa fram að þessu aðallega veitt utan 12 mílnanna frá því fyrsta. Þeir líta þess vegna á svæðið þar fyrir utan sem það svæði, sem þeir hafi sérstaklega tileinkað sér, og þess vegna má búast við, að þegar við förum í næstu útfærslu, getum við jafnvel mætt meiri andspyrnu frá þeim en frá Bretum. Þess vegna er það nýtt og hættulegt undanhald að láta þá fá þá stöðvunaraðstöðu, sem þeim er veitt í þeim samningi, sem hér liggur fyrir til umr.

Ég skal svo ekki hafa þetta mál mitt að sinni öllu lengra. Ég tel mig hafa rætt þau meginatriði, sem fram komu hjá hæstv. ráðh. og ástæða var til að svara. En það, sem ég legg svo áherzlu á að seinustu, er það, að með landhelgissamningnum, sem gerður var í fyrra, brugðust hæstv. stjórnarflokkar í þessu máli. Með þeim samningi, sem hér liggur fyrir, bregðast þeir enn. Þeim er þess vegna ekki hægt að treysta í þessum málum. Þjóðin verður að tryggja sér aðra og öruggari forustu, ef ekki á enn meira og hættulegra undanhald að eiga sér stað, því að það er víst, að aðrar þjóðir halda áfram að leita á í þessum efnum. Það verður vafalaust í sambandi við þá samninga, sem fyrr en síðar koma til greina við Efnahagsbandalag Evrópu, reynt að fara einhverjar krókaleiðir til að komast inn í fiskveiðilandhelgina. Ég tel og legg áherzlu á það, að þjóðin hafi fengið þá reynslu af hv. stjórnarflokkum í sambandi við brezka landhelgissamninginn og í sambandi við þýzka landhelgissamninginn, að hún þurfi að tryggja sér öflugri varðstöðu í þeim efnum, ef ekki á enn verr að fara, heldur en hv. stjórnarflokka.