04.04.1962
Sameinað þing: 48. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (3082)

46. mál, verndun fiskistofna við strendur Íslands

Fram. (Davíð Ólafason):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 54, hefur verið til athugunar í allshn. Hún fjallar um verndun fiskstofna við strendur Íslands og um nauðsyn þess, að athugað sé, hvort ekki muni vera tímabært að gera vissar ráðstafanir til þess að vernda fiskstofnana fyrir veiðum á ungfiski.

Verndun fiskstofna hefur lengi verið ofarlega á baugi hér á landi, enda má segja, að það sé mikið í húfi. Allar okkar aðgerðir í meira en á annan tug ára í landhelgismálinu hafa stefnt að því að auka friðun fiskimiðanna, allt frá því að fyrst voru gerðar ráðstafanir við Norðurland 1950 og síðan kringum allt landið 1962, en með þeim ráðstöfunum var meginhluti uppeldisstöðva ungfisksins kominn innan fiskveiðitakmarkanna. Loks eru í viðbót þær ráðstafanir, sem gerðar voru 1958, og svo loks 1961 með útfærslu grunnlinanna, en þá komu innan hinna nýju takmarka m.a. ein þýðingarmestu hrygningarsvæðin við Suðvesturlandið.

Með þessum aðgerðum öllum eru okkur þó lagðar á herðar vissar skyldur. Það er í fyrsta lagi að gera ráðstafanir til þess, að ekki sé gengið of nærri þeim fiskstofni, sem vex upp á grunnsævinu við Ísland, og í öðru lagi að haga okkar veiðum þannig, að skynsamleg hagnýting fiskstofnanna sé tryggð.

Ráðstafanir til verndar fiskstofnum hafa auk þess, sem við höfum gert hér við okkar strendur með okkar eigin ráðstöfunum, einnig verið framkvæmdar með alþjóðlegum samningum. Frá 1946 er í gildi samningur, sem gerður var fyrir svæðið á norðaustanverðu Atlantshafi, þ.e.a.s. Íslandssvæðið og þar fyrir austan og sunnan. Sá samningur fjallar um möskvastærð á netum, sem dregin eru, þ.e.a.s. um botnvörpu og dragnætur, og lágmarksstærð á vissum tegundum fisks, sem mikla þýðingu hafa. Þó er þar aðallega um að ræða þorskfiskana þorsk, ýsu svo og flatfiskana skarkola og þykkvalúru, auk ýmissa annarra tegunda, sem minni þýðingu hafa, en síld er þar ekki með.

Nýr samningur var gerður 1959, en hefur ekki komið til framkvæmda enn þá og fjallar m.a. um hið sama og hinn eldri samningur, en er þó miklu viðtækari og kemur væntanlega til framkvæmda, áður en langt um líður.

Þessar ráðstafanir, sem ákveðnar eru með slíkum alþjóðasamningum, miðast við það að hindra, að þar, sem annars er stunduð veiði aðallega á fullvöxnum fiski eða fullþroska fiski, verði forðazt sem mest að veiða þann smáfisk, sem kynni að vera á sömu svæðum. Af vísindalegum rannsóknum, sem gerðar hafa verið, er talið, að möskvastærðin hafi einhver mest áhrif til verndunar, ef hún er ákveðin rétt. Það mál hefur mikið verið rætt á alþjóðavettvangi, og hafa verið nokkuð skiptar skoðanir um það, hvað möskvinn ætti að vera, en það virðist vera að færast meira og meira í þá átt, að samkomulag náist um nokkra aukningu á möskvastærðinni frá því, sem verið hefur. Það hefur þegar verið ákveðið á austasta hluta þessa svæðis, sem ég gat um áðan, og er til umr. viðar á svæðinu.

Það er svo annað vandamál, þar sem er veiði á smáfiski eingöngu, svo sem síld og ufsa, eða þar sem notuð eru veiðarfæri, svo sem smáriðin herpinót, við veiðarnar, sem geta tekið smæsta fisk. En það er einmitt þetta vandamál, sem till. fjallar um, sem hér liggur fyrir. Það er ekkert nýtt í sjálfu sér, að stunduð sé veiði á smáfiski. Smáufsaveiði hefur verið stunduð hér um langa hríð á fjörðum inni og oft í allmiklu magni og miklu meira magni en nú á seinni árum. Smásíldarveiði hefur einnig verið stunduð. Og þannig má segja, að þetta vandamál hafi verið til áður. Smásíldarveiðin hefur undanfarin ár að langmestu leyti eða nær eingöngu verið stunduð í Eyjafirði. Meginhluti þess, sem þar hefur veiðzt, hefur farið til bræðslu, nokkur hluti til beitufrystingar og nokkur hluti hefur farið til vinnslu í niðursuðuverksmiðjur. Smáufsaveiðar eru stundaðar hér af og til óreglulega, og allur sá ufsi, er þannig veiðist, fer til vinnslu í fiskimjölsverksmiðjur. Um aðra smáfiskveiði sem slíka hefur ekki verið að ræða, nema það sem veiðzt hefur með öðrum fiski, t.d. ýsa, sem komið hefur fyrir í sambandi við herpinótaveiði á ýsu nú undanfarið, að vísu ekki í stórum stíl, en eitthvað mun það hafa verið.

Það eru skiptar skoðanir um það meðal vísindamanna, hvaða þýðingu slík smáfiskveiði hafi fyrir stofninn, og hefur verið deilt um það. T.d. er skýrt frá því hér í umsögn fiskideildar atvinnudeildar háskólans um þessa till., hvernig smásíldarveiði Norðmanna sé hagað, og ég vildi, með leyfi forseta, lesa hér upp stuttan kafla úr þessari umsögn, sem varpar nokkru ljósi á þetta, en þar segir svo:

„Nokkur undanfarin ár hefur verið dálítið veitt af smásíld, þ.e. síld á fyrsta og öðru ári, til bræðslu og niðursuðu norðanlands. Hefur síldin svo til eingöngu verið brædd í Krossanesi, og nam bræðslan árið 1961 um 5 þús. tonnum, en um 4 þús. tonnum árið 1960. Til samanburðar má geta þess, að árið 1960 var heildarsíldveiðin um 136 þús. tonn og árið 1961 nam hún um 320 þús. tonnum. Árið 1961 var því smásíldarveiðin um 1.5% heildaraflans. Séu þessar tölur bornar saman við síldveiði Norðmanna, kemur í ljós, að fyrstu 11 mánuði ársins 1959 nam smásíldarveiðin þar við land rúmlega 20% af heildarsíldveiði þeirra og rúml. 30 % á sama tíma árið 1960. Þess má geta, að norskir fiskifræðingar halda því fram, að smásíldarveiði þessi sé ekki hættuleg stofninum, en um það eru rússneskir starfsbræður þeirra ekki sammála:

Þannig eru skiptar skoðanir um þetta meðal vísindamanna, og má þó vel vera, að þar blandist nokkuð inn í þeir hagsmunir, sem bundnir eru við þessar veiðar, annars vegar í Noregi, þar sem smásíldarveiðin hefur verulega þýðingu fyrir fiskiðnaðinn og fyrir fiskiflotann, og hins vegar í Sovétríkjunum, þar sem þeir sækja í þennan sama stofn, þegar hann er fullvaxinn úti fyrir Noregsströndum, og þess vegna ekki óeðlilegt, að þeir liti það óhýru auga, að síldin sé veidd, meðan hún er enn þá smá, áður en hún gengur út á djúpmiðin.

Till. var send til umsagnar Fiskifélags Íslands og fiskideildar atvinnudeildar háskólans á sínum tíma, og bárust umsagnir frá þeim báðum aðilum, sem í meginatriðum eru sammála að leggja til eða telja æskilegt, að gerðar verði ráðstafanir, ef þörf krefur, til þess að koma í veg fyrir, að fiskstofnarnir bíði tjón af smáfiskveiði eða veiði á ungfiski. T.d. segir í áliti eða umsögn fiskideildar, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilliti til þeirrar þróunar verður frekari aukning smásíldarveiðinnar að teljast óæskileg. Smásíldarveiði til bræðslu getur ekki talizt mikilvæg fyrir þjóðarbúskapinn, og er því eðlilegt, að veiðinni sé sett ákveðið hámark, frekar en að tefla eldri hluta stofnsins í hættu.”

Niðurstaðan af þessu hjá allshn. hefur svo orðið sú að leggja til, að breytingar verði gerðar á tillögunni, þó ekki efnislega, heldur verði aðeins um breytt orðalag að ræða, þannig að till. er nú meira almennt orðuð en var í upphafi, og hljóðar nú þannig, eins og hún er á þskj. 576, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að taka hið fyrsta til athugunar í samráði við Fiskifélag Íslands og fiskideild atvinnudeildar háskólans, hvaða ráðstafanir séu nauðsynlegar til að koma í veg fyrir tjón á fiskstofnum við landið vegna veiða á ungfiski.”

Ég held, að það sé svo ekki ástæða til að fara um þetta fleiri orðum, málið skýrir sig í rauninni að mestu sjálft.