07.04.1962
Sameinað þing: 51. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (3087)

221. mál, samstarfssamningur Norðurlanda

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., er um heimild handa ríkisstj. til að fullgilda samning, sem undirritaður var 23. marz s.l. í Helsingfors, um samstarf Norðurlandaþjóða á ýmsum sviðum.

Eins og alkunna er, hefur um langt skeið þróazt víðtæk samvinna með þjóðum Norðurlanda. Samstarf þetta hefur aðeins að nokkru leyti stuðzt við samninga milli ríkjanna, í stað þess hefur því oft verið komið á með einhliða ráðstöfunum af hverju ríki um sig.

Það þarf ekki að rökstyðja með mörgum orðum gildi norrænnar samvinnu. Íslendingar hafa jafnan tekið þátt í henni eftir föngum, bæði í Norðurlandaráði og á öðrum vettvangi.

S.l. sumar, þegar sýnt var, að sum ríki Norðurlanda mundu æskja tengsla við Efnahagsbandalag Evrópu, sem hafa mundi víðtæk áhrif á mörgum sviðum, kom fram sú hugmynd að staðfesta með sérstökum samningi núv. samstarf norrænna þjóða og leitast jafnframt við að tryggja á þann hátt framhald og eflingu þess.

Till. um slíkan samstarfssamning Norðurlandaþjóðanna kom fyrst fram á fundi efnahagsmálanefndar Norðurlandaráðs, sem var haldinn að Voksenåsen í Noregi í ágústmánuði 1961. Í öndverðu voru nokkuð skiptar skoðanir um hugmynd þessa, en á sameiginlegum fundi forsætisráðherra Norðurlanda og forseta Norðurlandaráðs í Hangö í Finnlandi, sem haldinn var 11. og 12. nóv. 1961, lágu fyrir drög að samningi, sem tekin höfðu verið saman á vegum Norðurlandaráðs. Að tilmælum forseta Norðurlandaráðs lýstu forsætisráðherrarnir yfir því, að þeir mundu láta semja samningsfrumvarp, sem styddist víð þau drög, sem fram voru komin, og hafa um það samráð við ritara ráðsins. Síðan unnu embættismenn að frumvarpsgerðinni á vegum ríkisstjórnanna. Þeir áttu fund með sér í Stokkhólmi 15. des. 1961 og í Helsingfors 9. jan. og loks í Kaupmannahöfn 24. jan. s.l. Á Kaupmannahafnarfundinum var lögð síðasta hönd á frv., sem ríkisstjórnirnar urðu síðan sammála um að bera undir Norðurlandaráð.

Á þingi Norðurlandaráðs í Helsingfors 17.–23. marz s.l. var frv. rætt og samþ. með nokkrum minni háttar breytingum, sem m.a. voru í því fólgnar að leggja meiri áherzlu á beina aðild ráðsins að samstarfinu á hverjum tíma. Ríkisstj. féllust fyrir sitt leyti á samningsfrumvarpið svo breytt, og var samningurinn síðan undirritaðas af fulltrúum þeirra í Helsingfors 23. marz s.l. Af hálfu ríkisstj. Íslands sótti dr. Bjarni Benediktsson dóms- og kirkjumrh. þingið og undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd. Í samningi þessum, sem prentaður er sem fskj. með þáltill., er ekki um að ræða nýjar lagalegar skuldbindingar, heldur yfirlýsingu um vilja til að varðveita og efla hina margþættu samvinnu Norðurlandaþjóða, sem þegar á sér stað.

Að loknum inngangsákvæðum skiptist samningurinn í nokkra meginkafla, sem fjalla hver um sitt samstarfssvið: réttarsamstarf, samstarf í menningarmálum, samstarf í félagsmálum, samstarf í efnahagsmátum, samstarf í samgöngumálum og loks annað samstarf. Þá eru einnig ákvæði um tilhögun norræns samstarfs og síðan lokaákvæði.

Eins og að framan er rakið, er það meginmarkmið samnings þessa að tryggja og treysta samstarf Norðurlandaþjóða, svo sem unnt er, þótt svo kunni að fara, að leiðir skilji að nokkru í sambandi við ný viðhorf í efnahagsmálum Evrópu og af öðrum ástæðum. Íslendingum er eigi síður en frændþjóðunum á Norðurlöndum umhugað um, að þessu markmiði verði náð.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð og vænti, að einhugur ríki um málið hér á Alþingi, og leyfi mér, herra forseti, að mælast til, að umr. þessari verði frestað og málinu vísað til hv. utanrmn.