11.04.1962
Sameinað þing: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (3108)

43. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Frsm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Fjvn. hefur rætt þessa till. á nokkrum fundum sínum og orðið sammála um að leggja til, að till. verði samþ.

Þessi till. var flutt í upphafi þings af öllum þm. Norðurlandskjördæmis eystra og þeim þm., sem þar eiga búsetu, og var fyrsti flm. hennar Magnús Jónsson. Þessi till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fá úr því skorið, hvort ekki sé arðvænlegt að koma upp verksmiðju til vinnslu kísilgúrs úr Mývatni, og kanna þá jafnframt, hverjar leiðir séu heppilegastar til að tryggja fjárhagsgrundvöll þeirrar verksmiðju.“

Till. fjallar þannig um það að gera lokaathugun á því, hvort arðvænlegt sé að koma upp þeirri kísilgúrverksmiðju, sem unnið hefur verið að á undanförnum árum, og eins og fram hefur komið hér, bæði í umr. áður um þessa till. og eins í nál, okkar, þá hefur verið unnið að þessu máli á vegum rannsóknaráðs og raforkumálaskrifstofunnar, og þær efnafræðilegu rannsóknir, sem gerðar hafa verið á leirnum í Mývatni, benda ótvírætt í þá átt, að það sé hagkvæmt að vinna úr honum þetta efni, þennan kísilgúr, sem getur orðið mjög mikilvæg framleiðslu- og útflutningsvara.

Ég vil geta þess, að á Norðurlandi er mjög mikill áhugi á þessu máli, áhugi, sem nær út í raðir alls almennings, og hefur það líka komið fram á almennum fundum á Norðurlandi og í áskorunum, sem gerðar hafa verið á stjórnvöld og Alþ. um það að fylgja þessu máli eftir. Og ég vil sérstaklega geta þess, að því yrði mjög fagnað á Norðurlandi, ef þessi till. yrði nú samþ.

Fjvn. leggur því eindregið til, að till. fái afgreiðslu.