11.04.1962
Sameinað þing: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (3117)

50. mál, verndun hrygningarsvæða

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Allshn. hefur haft mál þetta til meðferðar. Hún leitaði umsagnar hjá Fiskifélagi Íslands og fiskideild atvinnudeildar háskólans, og við höfum leyft okkur að prenta umsagnir þeirra með nál. okkar.

Það hefur komið fram í þessum umr., að enn skortir mikið á, að þær rannsóknir hafi verið framkvæmdar, sem þyrftu að vera undanfari þess, að ákveðin veiðisvæði væru friðuð, og það hefur orðið samkomulag í n. um að breyta tillögugreininni í það, eins og segir í nál., að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að gera hið fyrsta nauðsynlegar ráðstafanir til, að framkvæmdar verði rannsóknir á hrygningarsvæðum nytjafiska við landið. Allir nm. eru sammála þessari meðferð málsins. Við erum allir í n. á því líka, að hér hafi verið hreyft mjög mikilsverðu máli, og gerum í heild, allshn., till. um, að þessi till. verði samþ. með þeirri breytingu, sem segir í nál. okkar.