15.12.1961
Efri deild: 34. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti þetta frv. um verðlagsráð sjávarútvegsins er komið til þessarar hv. d. frá Nd., þar sem frv. hefur verið afgreitt, með nokkrum breytingum þó frá því, sem það var lagt fram í upphafi, og skal ég síðar gera nánar grein fyrir því. Tilgangurinn með frv. er sá að gera tilraun til þess að koma verðákvörðun á ferskum fiski í fastari skorður en verið hefur að undanförnu.

Um það, hvernig fiskverð hafi verið ákveðið, hefur verið farið eftir ýmsum reglum og ýmsum aðferðum, sem hafa ekki staðið á stöðugu, og stundum virðist raunar hafa vantað alveg kerfi til þess að fara eftir við ákvörðun þessa fiskverðs. Þegar ákveðið hefur verið verð á síld til bræðslu, hefur venjan verið sú, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefur gert tillögur til ríkisstj. um það, hvert verðið skyldi vera, eftir að hafa sett upp rekstraráætlun fyrir verksmiðjurnar, og miðað þá síldarverðið við það, að jöfnuður fengist á þeim rekstrarreikningi, miðað við líklega veiði. Einkaverksmiðjurnar hafa svo venjulega fylgt þessari verðákvörðun síldarverksmiðja ríkisins, og aðrir hafa þar ekki komið nálægt. Verð síldar til söltunar hefur til skamms tíma verið ákveðið af síldarútvegsnefnd og aðrir þá ekki komið þar nálægt. Um verðið á öðrum fiski, þorski og fleiri skyldum fisktegundum, hefur a.m.k. á tímabili verið farið þannig að, eftir að stofnað var til útflutningssjóðsins, að það var gert að skilyrði fyrir veitingu útflutningsbóta, að fiskverðið væri samþykkt af viðkomandi ráðuneyti. Og þar við má bæta því, að í ýmsum tilvikum hefur verð á fiski beinlínis verið lögfest, a.m.k. skiptaverðið til hásetanna, og við það miðað, þegar samningar hafa verið gerðir á milli útvegsmanna og sjómanna.

Um áramótin næstsíðustu voru kjarasamningar útvegsmanna og sjómanna endurskoðaðir og miðaðir við, að sjómenn tækju þá sinn hlut á því verði, sem útgerðarmenn fengju fyrir fiskinn, en ekki þannig, að um sérstakt skiptaverð væri að ræða, sem væri annað en það raunverulega gangverð á fiskinum. Strax þá — og af eðlilegum ástæðum — vaknaði áhugi sjómanna á því, að þeir fengju að vera með við ákvörðun þessa verðs, þar sem þeir eiga í mörgum tilfellum kringum helming af aflanum, og ekki óeðlilegt, að þeir séu með í verðákvörðuninni, alveg eins og fiskkaupendurnir og útgerðarmennirnir, sem oftast áður hafa komið sér saman um verðið, þegar um samkomulag hefur verið að ræða, og þess vegna urðu þessar óskir frá sjómönnunum háværari við það, að einmitt ferskfiskverðið, það raunverulega verð, sem vinnslustöðvarnar greiddu fyrir fiskinn, varð ákvarðandi um kaup sjómannsins. Þar við má bæta því, að reynslan undanfarin tvö ár, bæði á vertíðinni 1960 og 1961, hefur orðið sú, að það gekk illa að ná endunum saman á milli þeirra, sem fiskinn seldu, og hinna, sem fiskinn áttu að kaupa, og dróst raunar alveg fram til vertíðarloka að heita mátti árið 1960, að samkomulag næðist. Þetta hefur svo endurtekið sig oftar en einu sinni og horfði á tímabili í haust og vetur til hreinna vandræða, þar sem búið var að boða stöðvun bátaflotans, ef ekki hefði náðst samkomulag um síldarverðið. Það var hægt að koma í veg fyrir, að til þeirrar stöðvunar kæmi, vegna þess að verðið var ákveðið upp úr því, og síðar hefur ekki komið til sérstakra átaka á þessu sviði. En reynslan undanfarið hálft annað til tvö ár hefur verið sú, að það hefur verið mjög erfitt að ná þessum endum saman og fá samkomulag um ákvörðun verðsins. Þetta annars vegar og óskir sjómannanna hins vegar um það að vera með í ákvörðun fiskverðsins varð til þess, að það voru hafnar umleitanir með flestum þeim aðilum, sem hlut eiga að þessu máli, og leitað eftir því við þá, hvort þeir mundu ekki vilja gera athugun á því eða tillögur um það, hvort ekki væri hægt að finna eitthvert það kerfi, sem gæti tryggt verðákvörðunina fljótar og betur en tekizt hafði á þessum tveimur síðustu árum, og tóku allir þessir aðilar mjög vel undir þessa málaleitun og lýstu yfir fylgi sínu við hugsunina. Eftir að málið hafði verið til umr. á landsfundi ísl. útvegsmanna nú í byrjun nóvembermánaðar, var horfið að því ráði af hálfu sjútvmrn. að kalla saman á fund alla þessa aðila. Það voru aðilar frá Alþýðusambandi Íslands, frá Sjómannasambandi Íslands, frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, frá Samlagi skreiðarframleiðenda, frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda og frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, eða samtals átta menn. Allir þessir átta menn, sem þar voru saman komnir, lýstu yfir, að þeir væru því fylgjandi að gera tilraun í þá átt að reyna að skipa þessum málum í fast form. Það var svo ákveðið þegar á þeim fundi, að þessir menn allir, sem þarna áttu hlut að máli og voru tilnefndir hver af sínum samtökum, gengju saman í nefnd til þess að athuga nánar einstök atriði og gera tillögur um afgreiðslu málsins.

Þessi nefnd tók til starfa í byrjun nóvembermánaðar og vann vel og röggsamlega að sínu starfi og skilaði áliti um mánaðamótin nóvember og desember. Og álit nefndarinnar var borið fram nokkurn veginn samhljóða af öllum nefndarmönnunum, þeir voru sjö að heita mátti alveg sammála, en sá áttundi hafði fyrirvara um tvö atriði, sem nánar er greint frá í fskj., sem prentað er með frv., eins og það var upphaflega lagt fram. Annað fskj. er þar líka prentað, sem er álit meiri hl.

Þetta frv., sem nefndin lagði fram, var svo athugað í ríkisstj. og samþykkt að leggja það fram nánast alveg óbreytt í því formi, sem það var lagt fyrir hv. Nd. nú fyrir stuttu. Meginefni þessa frv. er í stuttu máli það, að myndað verði svokallað verðlagsráð, þar sem sæti eiga jafnmargir aðilar frá fiskseljendum og frá fiskkaupendum, og freisti þeir að ná samkomulagi um verðákvörðunina. Var í tillögum nefndarinnar gert ráð fyrir, að þessir aðilar væru 7 frá hvorum hlutanum, 7 frá fiskseljendum og 7 frá fiskkaupendum. Fulltrúi Alþýðusambandsins, sem gerði ágreining um þetta atriði, – það var annað atriðið af þeim, sem hann gerði ágreining um, — vildi aftur á móti, að fulltrúarnir væru 8 frá hvorum aðila og fjölgað sérstaklega fulltrúum Alþýðusambandsins í seljendahlutanum um einn. Þetta breyttist í hv. Nd. þannig, að þar var gerð sú breyting á, að nefndarmönnum var fækkað ofan í 6 frá fiskseljendum, 3 frá hvorum, útgerðarmönnum og sjómönnum, og aðra 6 frá fiskkaupendum, sem þó eru ekki þeir sömu alltaf, heldur breytist þátttakan nokkuð í kaupendahópnum eftir því, um hvaða fisk og hvaða tíma árs er verið að ræða.

Það er sem sagt gert ráð fyrir því sem aðalatriði, að þetta verðlagsráð semji sig áfram að einhverri niðurstöðu, komi sér saman um niðurstöðuna. En ef ekki næst samkomulag, þá er gert ráð fyrir því, að komi til kasta svokallaðrar yfirnefndar, þ.e.a.s. tveir menn verði kosnir af seljendahluta verðlagsráðsins og tveir menn kosnir af kaupendahluta verðlagsráðsins og gangi þessir fjórir menn saman í yfirnefnd og hæstiréttur tilnefni síðan oddamann, þannig að nefndin verði skipuð fimm mönnum og hún kveði upp, þannig skipuð, úrskurð um, hvert verðið skuli vera. Minni hl. n. gerði það að öðru ágreiningsatriði, að þessi háttur yrði ekki hafður á, heldur yrði, ef samkomulag næðist ekki, leitað til sáttasemjara ríkisins og honum falið að freista að leysa deiluna, annaðhvort beint eða þá með sáttatillögu, eins og um venjulega vinnudeilu væri að ræða. Þetta taldi meiri hl. ekki nægilegt, vegna þess að þá er málið raunverulega eða getur a.m.k. verið alveg á sama stigi og áður, að það náist ekki samkomulag, sáttatilraunir sáttasemjara heppnist ekki og málið verði jafnóleyst og áður. Þess vegna var meiri hlutinn inni á því, að það yrði að vera úrskurðaraðili, sem felldi endanlegan úrskurð um málið.

Því var haldið fram í Nd., að verðákvörðunin mundi eftir þessari skipan venjulega gerast í yfirnefndinni, þannig að verðlagsráðið yrði raunverulega ekki til þess að kveða upp verðið — um það yrði ekki samkomulag — og þess vegna mundi alltaf verða leitað eftir úrskurði yfirnefndar, og var það talið ekki vel farið, ef svo mundi verða. Ég vil um þetta atriði segja, að þetta getur náttúrlega enginn sagt fyrir fram, hvernig verða muni. Reynslan ein getur skorið úr því. En ég bendi á, að verðlagsráð landbúnaðarins hefur nú starfað mörg undanfarin ár og það er byggt upp ekki ósvipað þessu verðlagsráði sjávarútvegsins, þannig að 3 fulltrúar neytenda og 3 fulltrúar framleiðenda eiga þar að koma sér saman um verðið, en vísa hins vegar málinu til yfirdóms, ef ekki næst samkomulag. Reynslan í því ráði hefur orðið sú, að í langflestum tilfellum hefur samkomulag náðst í sjálfu verðlagsráðinu, og það hefur ekki komið fyrir í öll þessi ár, sem verðlagsráð landbúnaðarins hefur starfað, að máli hafi verið vísað til yfirdóms, nema tvisvar eða þrisvar sinnum, þannig að mér finnst öll ástæða til þess að ætla, að það verði verðlagsráðið, sem komi sér saman um verðákvörðunina, en ekki þurfi til yfirdómsins að leita nema í einstöku tilfellum kannske, en sjálfsagt að hafa hann, til þess að málið komist ekki í strand, ef enginn úrskurðaraðili er til.

Þær breytingar, sem gerðar voru á frv. í hv. Nd., voru fyrst og fremst þær, að það var gengið frá því tryggilegar en áður hafði verið gert í upphaflega frv., að útgerðarmenn í yfirnefndinni hefðu hreinna seljendahagsmuna að gæta, en kæmu ekki fram á neinn hátt fyrir hönd kaupendanna. En eins og vitað er, þá eru það ýmsir útvegsmenn, sem bæði verka afla sinn sjálfir og kaupa jafnvel einnig af öðrum og hafa þess vegna kannske, þó að útgerðarmenn séu, meiri hagsmuni sameiginlega með fiskkaupendum en með fiskseljendum: Af því að afgreiðsla yfirnefndarinnar er ráðin með atkvgr., þótti eðlilegt og sjálfsagt, að þeir, sem kosnir væru fyrir seljendurna, hefðu ekki hagsmuna annarra að gæta en seljendahagsmunanna. Og þess vegna var það talið sjálfsagt og eðlilegt, að fulltrúinn í yfirnefndina yrði þannig valinn. Hins vegar var ekki talið eins nauðsynlegt, að þessar línur yrðu dregnar svo hreint í undirnefndinni eða í sjálfu verðlagsráðinu, vegna þess að þar eru mál ekki afgreidd með atkvgr., heldur verður að vera fullt samkomulag í verðlagsráði um ákvörðun verðsins, þannig að hver einstakur ráðsmeðlimur getur beitt sínu neitunarvaldi og komið í veg fyrir, að nokkur samþykkt verði gerð.

Þetta var önnur breytingin, — sú fyrsta var fækkun á fulltrúunum, sem ég hef getið um áður, úr 7 í 6, önnur um nánari skilgreiningu á hæfni útgerðarmannsins í yfirdómnum, og raunar voru þetta, held ég, aðalbreytingarnar, sem þar voru gerðar. Það má vera, að það hafi verið einhver smávegis breyting í viðbót, sem ég kem ekki fyrir mig í augnablikinu, en það hefur þá a.m.k. verið mjög smávægilegt.

Kostnað við störf ráðsins og yfirnefndarinnar er gert ráð fyrir að fiskimálasjóður greiði. Hann hefur sjálfsagt heimild til þess samkvæmt sínum reglum, og eðlilegt, þar sem hér er sjóður, sem er borinn uppi af útvegsmönnunum sjálfum, að hann annist þessa fyrirgreiðslu, og er það ekki ósvipað því, að framleiðsluráð landbúnaðarins tekur þátt í verulegum hluta af þeim kostnaði, sem verðlagsráð landbúnaðarins hefur í för með sér.

Ég held, að ég þurfi ekki að ræða um þetta mál öllu frekar, en ég vil leyfa mér að bæta því við, að ef þetta frv. á að koma að notum við verðákvörðunina um áramótin n.k., þá er nauðsynlegt, að frá þessu máli verði gengið fyrir þinghlé. Ég vil þess vegna leyfa mér að láta þá ósk í ljós við hv. formann sjútvn., sem væntanlega fær þetta mál til afgreiðslu, að afgreiðslu nefndarinnar á því verði hraðað svo sem frekast eru föng á, til þess að unnt verði að afgreiða málið fyrir þingfrestun.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.