06.12.1961
Sameinað þing: 19. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (3139)

87. mál, kvikmyndun íslenskra starfshátta

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 3. þm. Reykv. (EOl), hv. 2. þm. Norðurl. e. (JR) og hv. 5. þm. Vestf. (HH) leyft mér að flytja á þskj. 119 till. til þál. um kvikmyndun íslenzkra starfshátta, þess efnis að fela ríkisstj. að hlutast til um það í samráði við þjóðminjavörð, að fræðslumyndasafn ríkisins og menntamálaráð Íslands skipuleggi og beiti sér fyrir kvikmyndun íslenzkra starfshátta, sem hætta er á að falli í gleymsku að öðrum kosti.

Ég veit ekki, hvort þörf er á að fara mörgum orðum um þetta mál, svo auðskilið sem það er. En ég held, að það megi segja, að okkur, sem komin erum á efri ár, a.m.k. sumum hverjum, finnist, þegar við lítum yfir farinn veg, að við höfum í raun og veru eins og Örvar-Oddur lifað í 300 vetur eða kannske 1000 ár. Svo mjög er nú margt orðið breytt hér í landi á síðustu 50–60 árum, líf manna, lífskjör og starf.

Í sambandi við þetta mál er sérstaklega ástæða til að benda á þá miklu breytingu, sem orðið hefur á starfsháttum þjóðarinnar á þessum tíma, því að sú breyting er vissulega ævintýraleg, þegar á það er litið, hve mikil hún er og hvað hún hefur gerzt á skömmum tíma. Nú er sumpart horfinn og sumpart að hverfa úr sögunni fjöldi þeirra starfshátta, sem tíðkuðust á fyrstu tveim til þrem tugum þessarar aldar, ýmist horfinn eða sýnilega í þann veginn að hverfa úr sögunni, starfshættir og vinnubrögð eins og það að slá og raka með orfi og hrífu, að binda votaband á engjum, rista torf á hey og eldivið, stinga tað til eldiviðar, taka upp svörð og flytja út í krókum til þerris, innanhússtörf eins og að gera skó úr sauðskinni og leðri og jafnvel bæta skó og ganga í skinnleistum, að skinnklæddir menn rói til fiskjar með árum, að þurrka fisk á stakkstæðum, að skipa vörum út og upp í bát, að sjómennirnir vaði með aflann í land í höfn eða lendingu, þar sem engin bryggja var, að fara lestaferðir í kaupstað, að þvo ull í hlóðum undir berum himni og skola hana í læk, að berja hlass á túni með kláru eða vinna tað í taðkvörn, sem á sínum tíma þótti mikil framför, að hlaða veggi úr torfi, matargerð ýmiss konar, og þannig má halda áfram að telja svo að segja endalaust starfshætti og vinnubrögð, sem voru almenn hér í landinu í byrjun þessarar aldar og reyndar nokkuð fram á öldina, en eru nú, eins og ég sagði áðan, ýmist horfin úr sögunni eða eru í þann veginn að hverfa og hverfa sýnilega á næstu árum eða áratugum. Enn má þó segja um flest þessi vinnubrögð, sem hér er um að ræða, að ýmist séu þau enn einhvers staðar enn til staðar eða a.m.k. fólk, sem kann þau og hefur unnið störf á þann hátt, sem hér er um að ræða. En nú styttist óðum sá tími, að þetta verði til staðar, þessi vinnubrögð og fólk, sem kann til þeirra. Ef við geymum að taka kvikmyndir, eins og hér er gert ráð fyrir, af þessum vinnubrögðum, — ef við geymum það lengi enn, þá má búast við, að ekki verði hægt að gera það á sama hátt. Þá verður að fara eftir sögusögnum eða minni, og þá verður að leika það, sem nú er raunverulega gert.

Það er þess vegna, sem ýmsir menn hafa nú í seinni tíð tekið sér fyrir hendur að gera kvikmyndir af þessum gömlu starfsháttum, og er það mjög virðingarvert framtak, sem þar kemur fram. En á þann hátt verða þessar sögulegu minjar naumast varðveittar á þann hátt, sem æskilegt er, til þess þarf skipulagt starf. Þó að störfin séu mörg, sem unnin voru, þá voru aðferðirnar við að vinna þau, hvert starf, einnig mjög margar. Líklega má segja, að ekki hafi verið unnið að sama starfi nákvæmlega á sama hátt neins staðar í tveim héruðum landsins, nákvæmlega alveg eins og á sama hátt, — og ef á að geyma þessar minjar, þá þarf að taka slíkar myndir, sem hér er um að ræða, mjög víða um landið. Það þarf að gera sér grein fyrir því fyrir fram, hvernig það starf skuli skipulagt.

Snemma í fyrravetur, eitthvað um þetta leyti, að ég ætla, barst erindi til menntmn. beggja deilda Alþingis frá nokkrum kunnum mönnum varðandi þetta mál. Fjórir menn undirrituðu þetta erindi: Þórarinn Haraldsson bóndi í Laufási í Kelduhverfi, Þóroddur Guðmundsson rithöfundur, Árni Óla rithöfundur og Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri. Í þessu erindi var farið fram á það við menntmn., að þær beittu sér fyrir því, að af hálfu hins opinbera yrði hafizt handa um þetta mál, skipulögð taka kvikmynda af hinum fornu starfsháttum þjóðarinnar. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp kafla úr erindi þessara fjögurra merku manna, sem ég nú hef nefnt. Þeir segja hér m.a.: hvert sinn sem gengið er fram hjá eyðibýli eða staðið við bæjarrúst, grípur mann sú löngun að geta séð fólkið sem þarna bjó, horft á kjör þess og venjur. En oftast eru fáar sagnir til af þessu fólki og því erfitt að gera sér ljósa hugmynd um ævi þess og athafnir. Á þeim tíma, sem af er þessari öld, hefur orðið bylting í lífnaðarháttum þjóðarinnar. Flest það gamla er horfið, en nýtt er komið í staðinn. Okkur, sem höfum séð gömul vinnubrögð og venjur þoka fyrir nýjungum, ber skylda til að kvikmynda allt, sem hægt er af starfsháttasögu þjóðarinnar, svo langt aftur í tímann sem tök eru á, og gefa framtíðinni þannig kost á að kynnast lífi og störfum fólksins, áður en byltingin hófst. Með því yrði framtíðinni tryggður lifandi fróðleikur um þann tíma, sem eldri kynslóðinni er enn ferskur í minni:

Og enn segja þeir í þessu bréfi til menntmn., með leyfi hæstv. forseta:

„Byggðasöfnin, sem komið hefur verið á fót víðs vegar um landið, eru ómetanlegar heimildir, arfur til framtíðarinnar. En þegar fram líða stundir, skilur fólk ekki, hvernig unnið var með áhöldum, sem þar eru. Þess vegna verður að fá kunnáttumenn til að vinna með þeim og kvikmynda verkið. Án lifandi mynda getur t.d. enginn gert sér glögga grein fyrir gömlum heyskapar- og sjósóknaraðferðum, taðvinnu, ullarþvotti eða matargerð, eins og hún var fyrrum, þjónustubrögðum, tóskap eða kvöldvökum á sveitabæ. Myndataka þessi er menningarnauðsyn, sem þolir enga bið, því að með hverjum degi, sem líður, er eitthvað að glatast, sem framtíðin má ekki missa.”

Þeir segja enn fremur:

„Hér verður ekki treyst á framtakssemi einstakra manna eða félaga. Hér verður ríkið sjálft að koma til skjalanna. Ekki þarf að vinna aftur það, sem þegar hefur verið unnið, en athuga þarf nú þegar, hvað það er og hvað eftir er að gera. Virðist sjálfsagt, að það verði falið þjóðminjaverði og síðan verði hafizt handa um skipulega kvikmyndun undir hans forsjá. Okkur er ljóst, að þetta kostar ærið fé og fyrirhöfn, en í hvorugt má horfa. Við erum líka vissir um, að allir, sem þjóðarmenningu unna, munu fúsir til að veita þessu máli lið:

Ég veit ekki, hvort þetta mál hefur verið tekið til meðferðar í hv. menntmn. Nd. á síðasta þingi, en mér er kunnugt, að hv. menntmn. Ed. ræddi það sérstaklega í sambandi við frv., sem lá fyrir þinginu um fræðslumyndasafn ríkisins, sem hún hafði til meðferðar. Nefndinni virtist, að samkvæmt því frv. væri það einmitt á verksviði þessa fyrirhugaða fræðslumyndasafns að sinna þessu máli, svo að segja mætti, að lögin eða frv. gerðu ráð fyrir því. Þegar gerð var grein fyrir áliti nefndarinnar, þ.e.a.s.. menntmn. Ed., um þetta frv. um fræðslumyndasafn ríkisins, tók frsm. n., sem ég ætla að hafi verið hv. 2. þm. Reykv. (AuA), það sérstaklega fram fyrir hönd n., að hún teldi æskilegt, að stjórn fræðslumyndasafnsins tæki þetta mál til íhugunar, og skýrði þá jafnframt frá því erindi, sem ég nú hef nefnt og lesið kafla úr.

Samkvæmt lögunum um fræðslumyndasafn ríkisins er gert ráð fyrir því, að með stjórn þess fari fimm menn, og mun hafa átt að skipa fjóra þeirra samkvæmt tilnefningu, en einn átti að vera skipaður af hæstv. menntmrh. Ég hygg, að tilnefningar séu komnar fyrir nokkru um þessa fjóra stjórnarmenn, sem sérstakir aðilar áttu að tilnefna, en mér er ekki kunnugt um, að formaður safnstjórnarinnar, sem skipaður skyldi af menntmrh., hafi enn verið skipaður. Þó getur verið, að það hafi gerzt nú nýlega. En af þessum orsökum hefur þessi stjórn safnsins, sem lögin gerðu ráð fyrir, ekki enn getað tekið þetta mál til meðferðar. Hins vegar hefur hér, áður en þessi lög voru sett, verið starfandi vísir að slíku safni, sem ég ætla að hafi verið á vegum fræðslumálaskrifstofunnar og starfsmaður á fræðslumálaskrifstofunni, að ég ætla, hefur veitt því forstöðu. Mér er kunnugt um, að sá maður hefur haft mikinn áhuga á þessu máli og rætt það við ýmsa. Mér er einnig kunnugt um, að hann hefur fyrir nokkru á vegum þessa safns sent umsókn til hv. fjvn. um það, að veitt verði á fjárlögum næsta árs nokkur fjárhæð í þessu skyni. Og vegna þess að fjvn. þess vegna hefur mál þetta í raun og veru til meðferðar, þó að það sé á þennan hátt þangað komið í umsóknarformi, þá þykir mér hlýða, að sú hin sama nefnd fái einnig þessa till. til meðferðar, þannig að hún geti skoðað í senn till., sem við höfum hér leyft okkur að bera fram, og þá umsókn, sem fyrir liggur um fjárveitingu til þessarar starfsemi.

Ég leyfi mér því að leggja til, að þessari umræðu verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.