11.04.1962
Sameinað þing: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (3143)

87. mál, kvikmyndun íslenskra starfshátta

Fram. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til athugunar till. til þál., sem þannig hljóðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um það í samráði við þjóðminjavörð, að fræðslumyndasafn ríkisins og menntamálaráð Íslands skipuleggi og beiti sér fyrir kvikmyndun íslenzkra starfshátta, sem hætta er á að falli í gleymsku að öðrum kosti.”

Í rökstuðningi fyrir þessari till. er á það bent, að örar breytingar á lífnaðar- og starfsháttum þjóðarinnar muni valda því, að gömul vinnubrögð gleymist, ef ekki verður notað tækifærið til að kvikmynda þau, á meðan sú kynslóð er á lífi, sem kann til slíkra vinnubragða. Að vísu hefur verið safnað ýmsum munum og áhöldum á byggðasöfn víðs vegar um landið, en komandi kynslóðir munu varla skilja, hvernig tæki þessi voru notuð, nema kunnáttumenn verði fengnir til þess að sýna á kvikmynd, hvernig á að beita þeim.

N. fékk umsögn um þetta mál frá þjóðminjaverði. Þar kom fram, að slík kvikmyndun, sem um er að ræða, hefur átt sér stað á vegum félaga og einstaklinga, en það starf hefur verið ókerfisbundið og misjafnlega vel af hendi leyst. Telur þjóðminjavörður, að hlutverk ríkisins eigi að vera það að stuðla að skipulegu starfi á þessu sviði og verði byrjað á því að gera yfirlit yfir allt, sem nýtilegt getur talizt af þeim kvikmyndum, sem til eru, og fá leyfi eigendanna til að safna því saman á einn stað. Enn fremur kemur fram í umsögn þjóðminjavarðar, að hann telur fræðslumyndasafnið og menntamálaráð rétta aðila til að hafa forgöngu í þessu máli í samráði við þjóðminjavörð.

Fjvn. hefur fyrir sitt leyti fallizt á þessi rök fyrir till. og á ábendingar þjóðminjavarðar og mælir með samþykkt till. Það er að vísu ljóst, að þegar til framkvæmda kemur, mun þurfa fjárveitingu til þessa, en á fjárlögun þessa árs er engin slík fjárveiting. Hins vegar geta umræddir aðilar hafið það skipulagsstarf, sem þjóðminjavörður bendir á, án verulegs kostnaðar, og með því að mæla með samþykkt till. vill fjvn. bæði stuðla að þeirri byrjun og jafnframt gefa fyrirheit um áframhaldandi stuðning við málefnið á síðara stigi.