16.12.1961
Efri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram, hef ég ekki getað fallizt á að mæla með samþykkt þessa frv. breytingalaust, eins og hv. meiri hl. sjútvn. gerir. Að mínu áliti er að vísu stefnt að sumu leyti í rétta átt með frv., en ég tel á hinn bóginn gallana á því svo stórfellda, að að öllu samanlögðu væri samþykkt þess ekki til bóta frá núverandi ástandi, a.m.k. ekki fyrir þann aðilann, sem er fjölmennastur meðal þeirra, sem hafa beinna hagsmuna að gæta í sambandi við meðferð þeirra mála, sem frv. fjallar um, þ.e.a.s. sjómannastéttina. Ég tel líka, að það sé mjög vafasamt, að ekki sé sterkara að orði komizt, að með frv. náist sá árangur, sem sagt er að sé aðalmarkmiðið með flutningi þess, þ.e.a.s. sá, að meiri friður fáist en áður hefur verið um verðlagningu á fiski. Ég tel, að frjálst samkomulag, frjálsir samningar milli þeirra hagsmunaaðila, sem hér eiga hlut að máli, sé farsælasta leiðin til þess að firra vandræðum, en að valdboð og mismunun á samnings- og ákvörðunaraðstöðu aðilanna sé hættuleg leið, sem leiði ekki neitt gott af sér og allra sízt frið. Ég tel líka, að allra hluta vegna sé mjög óheppilegt að setja slíka löggjöf sem þá, sem hér er um að ræða, án þess að að baki henni standi samþykki allra þeirra, sem brýnustu og beinustu hagsmuna hafa að gæta, en á það skortir mjög, hvað þetta mál áhrærir.

Hér er um það að ræða að lögfesta fastar reglur um það, hvernig ákvarðanir um lágmarksverð á ferskum fiski skuli teknar. Samkvæmt öllum viðteknum reglum um hliðstæð samskipti milli aðila í þjóðfélaginu er leið frjálsra samninga sú eðlilega og æskilega leið. Fyrsta skrefið í átt til niðurstöðu eftir þeirri leið er vitanlega það, að hagsmunaaðilarnir setjist að samningaborði. Nú hefur það verið svo, að það hafa ekki allir verið á eitt sáttir um það, hverjir ættu að vera hinir raunverulegu viðsemjendur um fiskverðið í einstökum tilfellum. Sumpart hefur þetta leitt til þess, að verð hefur verið ákveðið af opinberum aðilum, eins og t.d. síldarútvegsnefnd hvað síld til söltunar áhrærir, og af atvmrh. eftir tillögum stjórnar síldarverksmiðjanna hvað viðkemur verði á bræðslusíld. Og enn hefur útkoman orðið sú, að stundum hafa samningar verið gerðir milli útgerðarmanna einna og vinnslustöðva um það raunverulega fiskverð, en síðan hafa sjómenn og útvegsmenn samið sín á milli um annað verð, sem lagt hefur verið til grundvallar við skipti á aflahlut.

Það geta sjálfsagt allir verið því sammála, sem stendur í grg. með frv., að þessi mál hafa verið í of lausum skorðum á undanförnum árum og að nauðsyn sé orðin á því, að breytingar séu gerðar hér á, og þó alveg sérstaklega eftir að samtök sjómanna og útgerðarmanna höfðu í byrjun s.l. árs komið sér saman um þá framtíðarskipun mála, að skiptaverð og það raunverulega verð, sem útgerðin fær fyrir aflann, skyldi vera eitt og hið sama. Með samningunum um þetta var í raun og veru óumdeilanlega viðurkennt, að sjómennirnir væru réttir aðilar til þess að semja um fiskverðið ásamt með útgerðarmönnum. En lagalega séð höfðu sjómannasamtökin þó tvímælalaust búið við þann rétt að semja við útgerðarmenn um verð á hlut sjómanna af afla. Og þann rétt hafa þeir í raun og veru alltaf getað notfært sér með því að setja fram kröfur varðandi fiskverð í sambandi við gerð almennra kjarasamninga sinna. Hefur þá að sjálfsögðu farið um þær kröfur og um þá samninga nákvæmlega á sama hátt og aðra venjulega kjarasamninga, þ.e.a.s. eftir þeim reglum, sem lög um stéttarfélög og vinnudeilur kveða á um. Hvernig sem ákvæði þessa frv. eru því skoðuð, er því alveg augljóst, að það færir ekki sjómannastéttinni nein þau réttindi til samninga um það kjaraatriði, sem sjálft fiskverðið er, umfram það, sem hefur verið, því að þann rétt hefur sjómannastéttin alltaf haft gegnum samtökin. Hitt er svo annað mál, að eins og um öll önnur kjaraatriði hafa sjómannafélögin orðið að beita fyrir sig samtökum sínum, til þess að þessi réttur þeirra kæmi að haldi, og til þess hefur aðstaðan að sjálfsögðu verið ærið misjöfn og oft verri en svo, að þeim hafi í raun og veru verið fært að nota þennan rétt sinn.

Kjarasamningar bátasjómanna og útgerðarmanna, sem voru gerðir upp úr s.l. áramótum, gerðu það óhjákvæmilegt, að komið yrði á breyttri skipun um meðferð samninga um fiskverð, eins og ég áður sagði, vegna þess að samkvæmt þeim gat ekki lengur verið um það að ræða, að samið yrði aðeins um skiptaverð milli útgerðarmanna og sjómanna, heldur um verðsamninga þessara aðila beggja við vinnslustöðvar og aðra hugsanlega fiskkaupendur. Þetta var líka öllum þeim aðilum, sem þarna áttu hlut að, ljóst, og eins og kemur fram í grg, frv., var unnið að því að koma á fót samninganefnd þessara þriggja aðila, þegar ríkisstj. greip inn í málið, fyrst með nefndarskipun og síðar með flutningi þessa frv. Og það er þess vegna algerlega ósannað mál a.m.k., hvort nokkur þörf hefur verið á afskiptum hæstv. ríkisstj. til þess að ná því markmiði að leiða þessa þrjá samningsaðila um fiskverðið að samningaborðinu. Ég held, að miklu fremur megi fullyrða, að engin vandkvæði hefðu orðið á því, að mynduð yrði sameiginleg samninganefnd, hvort sem hún hefur verið kölluð verðlagsráð eða einhverju öðru nafni. En þrátt fyrir það, að lagasetning um slíka samninganefnd var hvað fiskverðið á vetrarvertíð snertir ef til vill alveg óþörf, þá verður þó að telja, að hún ein út af fyrir sig væri á engan hátt til skaða, ef samsetning slíkrar nefndar væri með eðlilegum hætti og að baki hennar hefði staðið samþykki þeirra, sem málið sérstaklega varðaði. Og hvað snertir þá breytingu, sem lögfesting slíkrar samninganefndar hefði á ákvæðið um síldarverð, frá því, sem hefur tíðkazt, þá verður að telja þá breytingu mjög til bóta frá fyrri skipan, ekki vegna þess, að í sjálfu sér sé um einhver ný réttindi að ræða til handa samtökum sjómanna, heldur vegna þess, að lögfesting samninganefndarinnar auðveldar þeim að beita samningsréttinum, þ.e.a.s. ef ekki hefði komið til annað og meira en skipun nefndar eða verðlagsráðs, sem hefði átt að hafa það hlutverk eitt að semja, að koma á frjálsum samningum á milli aðilanna. Með ákvörðunum um skipun verðlagsráðsins og hlutverk þess tel ég, að gagnlegt spor sé stigið í sambúðarmálum þeirra aðila, sem hér ræðir um, enda var enginn ágreiningur um það atriði í undirbúningsnefndinni, nema að því leyti sem tók til fjölda fulltrúa frá samtökum sjómanna. Þó má segja, að það hafi ekki verið neitt ákaflega þýðingarmikið atriði, hvort fulltrúar þeirra voru þrír eða fjórir, ef aðeins hefði verið um samninganefnd að ræða og ákvæðin um yfirnefndina eða gerðardóminn hefðu ekki komið til, því að það skiptir í sjálfu sér ekki höfuðmáli, hvort einn aðili lætur einum fulltrúanum fleira eða færra mæta fyrir sig við samningaborð, ef aðeins er um það að ræða að gera samninga.

Ákvæði 9. gr. í frv. um sérstaka yfirnefnd, sem tekur við af verðlagsráði, ef þar næst ekki samkomulag milli allra aðila og það innan tiltekins tíma, og fellir endanlegan úrskurð um ágreiningsatriði, verða að skoðast sem aðalatriði í frv. Og það er einmitt varðandi þetta atriði, sem leiðir skiljast um fylgi við frv. í undirbúningsnefndinni hlutu ákvæði þessarar greinar aðeins stuðning fulltrúa atvinnurekenda og yfirmanna á flotanum, en hvorki stuðning Sjómannasambandsins né Alþýðusambandsins, heldur fulla andstöðu af hálfu þess síðar nefnda. Í sérstöku nál. Tryggva Helgasonar, fulltrúa Alþýðusambandsins, er réttilega bent á, að kjör sjómanna ákvarðast að verulegu leyti af fiskverðinu og að öllu leyti, ef svo stendur á, að kjarasamningar um önnur atriði eru bundnir. Þarna er í raun og veru komið að kjarna málsins frá sjónarmiði sjómannastéttarinnar og verkalýðshreyfingarinnar. Það á sem sé að úrskurða um kjaramál sjómanna með gerðardómi, í stað þess að láta þá halda rétti sínum til þess að fara með kjaramál sín með þeim hætti, sem öll önnur stéttarfélög verkafólks hafa rétt til. Það er vissulega nokkuð glöggt tímanna tákn, að það skuli vera formaður Alþfl., sem beitir sér nú fyrir slíkri löggjöf, þegar til þess er litið, að flokkur hans hefur a.m.k. tvívegis í sögu sinni klofið ríkisstjórnarsamstarf, vegna þess að hann vildi engan hlut eiga að því að afhenda gerðardómi kjaramál verkafólks. En það verður að vísu að segjast, að það væri ósanngirni að halda því fram, að hér væri um algerlega sambærilega hluti að ræða og í þau skipti, sem Alþfl. hefur klofið stjórnarsamstarf vegna setningar gerðardómslaga, en þó er hitt alveg tvímælalaust, að það er stefnt í sömu átt, þó að leiðum fyrir verkalýðssamtökin sé ekki jafnharkalega lokað í þessu tilfelli og þá var gert. Lögþvingaður gerðardómur um kjaramál er algerlega andstæður öllum réttarfarshugmyndum verkalýðshreyfingarinnar og andstæður viðurkenndum lýðræðislegum leikreglum í þjóðfélaginu. Er í sambandi við þetta vert að minnast þess, að allar tilraunir, sem hafa verið gerðar hingað til af hálfu þeirra, sem hafa ekki viljað una lýðræðislegum sjálfsákvörðunarrétti verkalýðssamtakanna um sín kjör, hafa jafnharðan verið kveðnar niður, vegna þess að þær voru bæði andstæðar réttarvitund og hagsmunum almennings og gátu þess vegna aldrei náð þeim tilgangi að skapa frið um hagsmunamálin, heldur hafa ævinlega reynzt hinn versti friðarspillir. Ég held, að það geti varla farið hjá því, að svo muni einnig reynast nú.

Tilvist yfirnefndarinnar hlýtur óhjákvæmilega að leiða til þess, að verðlagsráðið, þ.e.a.s. hin raunverulega samninganefnd aðilanna, nær síður samkomulagi en ef hún væri engin til. Það verður vafalaust að öllum jafnaði svo, að einhver aðili, sem þarna á hlut að, telur líklegt, að hlut hans yrði betur borgið með dómi yfirnefndar en með því að teygja sig til samninga, og yfirnefndin verður þannig til þess að spilla fyrir því, að hin frjálsa leið samninga verði farin. Ég held, að enginn vafi leiki á því, að aðilarnir í verðlagsráðinu mundu leggja sig meira fram um friðsamlegt samkomulag, ef farin yrði sú leið, sem fulltrúi Alþýðusambandsins í undirbúningsnefndinni lagði til að yrði farin, ef samningar nást ekki í verðlagsráði innan tiltekins tíma, þ.e.a.s. að málinu yrði þá vísað til sáttasemjara ríkisins, sem þá tæki við forustu um samninga og hefði rétt til að bera fram miðlunartillögur sínar og bera þær undir atkvæði bæði meðal sjómanna, útgerðarmanna og fiskkaupenda, sem þá um leið yrðu orðnir ábyrgir fyrir framvindu samninganna. Með slíkum hætti hefði verið tryggt, að ekki yrðu þvingaðar fram ákvarðanir, sem einstakir aðilanna eru e.t.v. algerlega andstæðir og gætu því auðveldlega leitt til árekstra og stöðvana á framleiðslu, þó að valdboði gerðardómsins væri beitt. Með þeim hætti hefði líka verið tryggt, að meðferð þessara kjaramála yrði öll í samræmi við þann rétt, sem samtök atvinnurekenda og stéttarfélögin hafa eftir lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur. En á því leikur a.m.k. verulegur vafi, að svo sé, eftir að þessi lög hafa verið samþykkt. Auðvitað er hugsanlegt, ef sú málsmeðferð hefði verið viðhöfð, að komið gæti til vinnustöðvana eða verkbanna, þó að ég sé hins vegar þeirrar skoðunar, að þessi skipan mundi verka hvetjandi fyrir aðilana til þess að starfa af ábyrgðartilfinningu að samningum. En við skyldum þá ekki gleyma því, að þessi hætta er áreiðanlega miklu meiri, ef gerðardóms- og valdboðsleiðin verður farin, eins og hér er nú lagt til. Það er ekkert, sem getur hindrað útgerðarmenn í því að bindast samtökum um að stöðva skipin, ef þeir telja yfirnefndina ganga á hlut sinn. Vinnslustöðvarnar geta líka stöðvazt, án þess að nokkurri ábyrgð verði komið yfir fiskkaupendur fyrir þær aðgerðir. Og sjómannasamtökin geta haft kjarasamninga sína opna í byrjun hverrar einustu vertíðar til öryggis hagsmunum sínum. Ákvæðin um yfirnefndina hafa það m.a. í för með sér, að samningsumleitunum á að slíta og ber að slíta, áður en fullreynt er, hvort samningar geti tekizt, og áður en nokkuð verulega þrýstir á samningsaðilana um það að leggja sig fram til þess að ná samkomulagi. Þegar öllu er því á botninn hvolft, hygg ég, að það sé fullkomið öfugmæli, að frv. í heild skoðað sé fallið til þess að skapa frið og forðast deilur, og kemur þó í raun og veru ýmislegt fleira til en ég hef þegar minnzt á.

Eins og frv. var gert úr garði af hendi hæstv. ríkisstj. og meiri hl. undirbúningsnefndarinnar, sem vann að því, var gert ráð fyrir, að fisksöluaðilar í verðlagsráðinu yrðu 4 frá útgerðarmönnum, en aðeins 3 frá sjómönnum, sem þó er viðurkennt að séu hinir raunverulegu eigendur að um það bil helmingi aflans, sem á að verðleggja. Ég tel, eins og ég sagði áður, að þessi skipan hafi í sjálfu sér ekki skipt neinu meginmáli fyrir sjómannastéttina hvað störfin í sjálfu verðlagsráðinu áhrærir, sem er, eins og ég áður sagði, raunverulega aðeins samninganefnd. Á hinn bóginn hlaut þessi mismunur í fulltrúatölu á milli sjómanna og útgerðarmanna að verka hræðandi fyrir sjómenn og þeirra samtök. Nú hefur þessu verið breytt í meðferð hv. Nd. á málinu á þann hátt, að fulltrúatalan er gerð jöfn, fulltrúarnir eru þrír og þrír, þrír frá sjómönnum og þrír frá útvegsmönnum. Þessi breyting jafnar að vísu deiluna um fulltrúatöluna, að svo miklu leyti sem hér var raunar um metnaðaratriði að ræða, en breytir þó engu um það, sem er aðalatriðið, þ.e.a.s. breytir engu um skipun yfirnefndarinnar, þar sem lokaákvarðanirnar eru teknar og á að taka. Eins og ég sagði áður, þá er það auðvitað ekki höfuðatriði, hvort samningsaðili hefur einum fulltrúanum fleira eða færra við samningaborðið, en það skiptir hins vegar miklu, þegar um sjálfan dómstólinn er að ræða, dómstólinn, sem tekur bindandi ákvörðun.

Samkv. frv. eru þrír aðilar viðurkenndir sem fulltrúar sjómannastéttarinnar í verðlagsráðinu, þ.e.a.s. fulltrúi Alþýðusambandsins, Sjómannasambandsins og Farmanna- og fiskimannasambandsins, en aðeins einn þessara fulltrúa getur komið til með að eiga sæti í yfirnefndinni. Það er vitanlega hugsanlegt, að allir þessir aðilar hafi sömu afstöðu um ágreiningsmálin og þannig sé tryggt, að öll sjónarmið og afstaða fái fyrirsvarsmann í yfirnefndinni. En hitt er aftur á móti alveg jafnhugsanlegt, að um mismunandi afstöðu geti verið að ræða, og gæti þá jafnvel farið svo, að sá fulltrúi sjómanna, sem gerir ágreining, ef til vill einn, og vísar málinu til yfirnefndar, eigi þar engan fulltrúa og fái alls ekki flutt sitt mál í yfirnefndinni, hvað þá heldur, að hann komi til með að hafa atkvæðisrétt um málið, eins og að sjálfsögðu væri þá réttmætt. Ég held, að það sé ekki deilt um það, að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sjómanna, sem hafa hagsmuna að gæta um fiskverð, á fulltrúa Alþýðusambands Íslands einan að fyrirsvarsmanni í verðlagsráði. Þarna er um að ræða alla sjómenn, nema yfirmenn, á öllu Norðurlandi, öllum Vestfjörðum, öllum Austfjörðum og við Breiðafjörð, og enn fremur að nokkru leyti á Suðurlandi, þ.e.a.s. sjómenn í Vestmannaeyjum, Stokkseyri, Eyrarbakka, Þorlákshöfn, Sandgerði, Garði, Vogum og Hafnarfirði. Það eru miklar og ég vil segja mestar líkur til þess, að allur þessi yfirgnæfandi meiri hluti íslenzkra sjómanna fái engan talsmann eða fulltrúa í yfirnefndinni. Og þetta gerist þrátt fyrir þá staðreynd, að þessir sjómenn hafa um marga hluti vegna aðstöðu sinnar algera sérstöðu meðal sjómanna, sem gerir það að verkum, að það er algerlega útilokað, að þeir geti talið t.d. fulltrúa Sjómannasambands Íslands, sem aðeins nær hér yfir Faxaflóasvæðið og þó ekki allt, sinn fulltrúa, og vitanlega enn fjær lagi, að það yrði hægt að skoða fulltrúa yfirmanna á flotanum sem raunverulegan talsmann fyrir alla sjómannastéttina. Í þessu sambandi er það dálítið athyglisvert, að við þá samninga um fiskverð, sem hafa farið fram á undanförnum árum, hefur verið fullt samkomulag um það innan sjómannafélaganna, að þeir aðilar, sem aðeins eru beinir aðilar að Alþýðusambandi Íslands, hefðu 7 fulltrúa við samningagerðina, en Sjómannasamband Íslands 3 fulltrúa. Þau hlutföll hafa verið talin hæfileg, og um það hlutfall hefur verið fullt samkomulag. En nú á að loka það úti eða a.m.k. því sem næst, að þeir, sem með fullu samkomulagi hafa áður haft yfirgnæfandi meiri hl. af þeim fulltrúum, sem við samningana hafa fengizt, eigi nokkra aðild að þeirri nefnd, sem á að taka lokaákvarðanir um þessi mál, og að þeirri nefnd, sem á að dæma um fiskverðið og þannig um launakjörin að mjög miklu leyti. Ég held, að þetta sé hvort tveggja í senn ósanngirni og fásinna, sem algerlega er útilokað að sjómannastéttin geti unað við til frambúðar. Og ég held, að hún hljóti að gera sínar ráðstafanir gegn slíkum ákvæðum sem þessum. Það var vitanlega algert lágmark í sanngirni, að Alþýðusambandið ætti tvo fulltrúa í verðlagsráðinu og hefði þannig jafna möguleika á við yfirmannasamtökin og Sjómannasambandið sameiginlega til þess að fá fulltrúa í yfirnefndina. Það er algert lágmark allrar sanngirni. En það er sýnilegt, að hæstv. rikisstj. hefur talið það skipta mjög miklu að útiloka fulltrúa frá meiri hluta sjómannastéttarinnar frá því að eiga nokkurn talsmann eða geta haft aðstöðu til þess að hafa nokkur áhrif á ákvarðanir yfirnefndarinnar, hvað sem því veldur.

Ég hef nú drepið á þau aðalatriði, sem ég tel að þurfi að breyta í frv. og ég flyt brtt. um. Ég vil biðja hv. dm. að athuga það, að í upphaflegri prentun á tillögum mínum urðu allveruleg mistök, og tillögurnar hafa nú verið prentaðar upp.

Ég mun ekki fara hér út í minni háttar atriði, sem ég tel að hefðu mátt fara betur. En ég get tekið það fram, að ég er algerlega sammála hv. frsm. 1. minni hl. sjútvn. um, að það er algerlega ósanngjarnt og óhæfilegt, að fiskimálasjóði sé ætlað að greiða kostnað af framkvæmd þessara laga, og tel þá ráðstöfun algerlega fordæmalausa. Vitanlega á sá aðilinn, sem stofnar til þessara útgjalda, að inna þau af hendi, þ.e.a.s. ríkissjóður, og allt annað tel ég vera algerlega óeðlilegt. Og ég get líka tekið undir ýmislegt af því, sem hann sagði, m.a. um réttmæti aðildar fiskvinnslustöðva úti á landi að verðlagsráðinu, hún yrði tryggð með einhverjum hætti. En ég tel, að ekkert af þessu skipti neinu úrslitamáli. Það, sem hér skiptir mestu máli, er, að það á að skerða samningsrétt sjómannastéttarinnar, þann rétt, sem þeir eins og allir aðrir í verkalýðshreyfingunni telja sér einn allra dýrmætasta lýðræðislega rétt, og fá úrslitavald í mikilsverðum kjaraatriðum í hendur gerðardóms. Og það á að tryggja það, að skipun þessa gerðardóms sé sem allra óhagstæðust hagsmunum sjómanna. Í fyrsta lagi á að útiloka aðild meiri hluta sjómanna að dómnum, og í öðru lagi er augljóst, að á því eru a.m.k. miklar hættur, að meiri hl. dómsins hafi vilhalla afstöðu fiskkaupendum í vil, og það jafnvel þó að reiknað væri með algeru hlutleysi oddamannsins, sem tilnefndur yrði af hæstarétti. Það sjá allir, sem út í málin hugsa, að sjálft hið skráða fiskverð er alls ekki svo afgerandi fyrir útgerðarmennina yfirleitt eins og það er fyrir hlutarsjómennina. Þeir hafa margs konar leiðir aðrar opnar ásamt með löggjafarvaldinu til þess að sjá hagsmunum sínum borgið með öðrum hætti en með sanngjarnri og eðlilegri skráningu fiskverðsins. í fyrsta lagi er nú varla finnanlegur sá útgerðarmaður, sem á ekki hagsmuni sína að meira eða minna leyti blandaða saman við hagsmuni fiskvinnslunnar. Það er nokkuð athyglisvert, að t.d. eru, að ég held, allir stjórnarmenn í Landssambandi ísl. útvegsmanna, þ.e.a.s. sú stjórn, sem á að velja fulltrúa útvegsins að hálfu í verðlagsráðið og þar með í yfirnefndina, ekki aðeins útgerðarmenn, heldur einnig eigendur fiskiðjuvera og sumir þeirra fyrst og fremst eigendur og atvinnurekendur í fiskiðnaði. Og það er líka svo, að langsamlega flestir af þeim útgerðarmönnum, sem eiga ekki í slíkum fyrirtækjum sameiginlega með öðrum, verka meira eða minna af sínum afla sjálfir eða a.m.k. hafa möguleika til þess að gera það. Auk þess að útgerðarmenn yfirleitt hafa þannig mjög blandaða hagsmuni að þessu leyti, koma líka til uppbætur, eins og t.d. greiðsla vátryggingariðgjalda, úr sérstökum sjóðum og sitthvað annað, sem hefur það í för með sér, að útvegsmenn fá drjúgar tekjur eftir öðrum leiðum en í gegnum fiskverðið. Það er þess vegna augljóst, að lágt fiskverð getur í ýmsum tilfellum verið í fullu samræmi við hagsmuni útgerðarmanna. Það hefur þau áhrif, að það er auðveldara að halda kjörum sjómanna niðri, en lokar hins vegar ekki leiðum fyrir þeim að sjá sínum hagsmunum borgið með öðrum hætti, t.d. með því að tengja rekstur sinn við fiskvinnsluna og með því að fá hluta af raunverulegu fiskverði eftir öðrum leiðum, eins og útgerðarmenn vissulega gera nú í dag. Ég held líka, að ef þessu væri ekki þannig varið, þá hefðu íslenzkir útvegsmenn í heild ekki sætt sig við það árum saman að bera úr býtum í hinu skráða fiskverði fast að 2 kr. lægra verð en stéttarbræður þeirra gera t.d. í Noregi. En skýringin er sú m.a., að þeir fá þennan mismun að verulegu leyti a.m.k. greiddan eftir öðrum leiðum. En munurinn er sá hér og í Noregi, sem gerir þetta skiljanlegt, að þar eru útvegsmennirnir nær undantekningarlaust sjálfir starfandi fiskimenn og þurfa raunar að vera það eftir norskum lögum og hafa þess vegna nákvæmlega sömu hagsmuni og hinir óbreyttu sjómenn, sem vinna í þjónustu þeirra.

Ég tel, að af þessum ástæðum m.a. séu meira en sterkar líkur til þess, að fulltrúi útvegsmanna í verðlagsráði og í yfirnefnd komi til með að standa í ýmsum tilfellum gegn kröfum og tillögum sjómanna um réttlátt fiskverð og að svo geti farið, að í fimm manna yfirnefndinni standi sjómannafulltrúinn einn uppi sem talsmaður fyrir hreina hagsmuni fiskseljenda. Það er að vísu sagt í frv., að fulltrúi útgerðarmanna í yfirnefndinni skuli ekki hafa persónulegra hagsmuna að gæta sem fiskkaupandi, og það ákvæði er út af fyrir sig gott. En hitt er aftur á móti alveg víst, að þessi fulltrúi er valinn af mönnum, sem allir eru fiskkaupendur, og mér þykir það a.m.k. afar ólíklegt, að þessi fulltrúi þurfi ekki að standa þeim, sem kjósa hann, reikningsskil á sínum gerðum og haga störfum sínum eftir þeirra óskum og forskriftum. Mér þykir það ótrúlegt. Þegar þetta er haft í huga ofan á allt annað, þá held ég, að hverjum megi vera það fullljóst, hversu óaðgengilegt þetta frv. er í heild sinni fyrir sjómannastéttina og ég vil segja fyrir verkalýðshreyfinguna í heild. Það mun þó sjálfsagt ná fram að ganga, svo fast sem það er sótt af hæstv. ríkisstj. En ég held, að hér fari eins og stundum áður, að skamma stund verði hönd höggi fegin. Sú ríkisstj., sem hefur það að boðorði að skammta vinnustéttunum laun og skammta auk þess bæði smátt og illa, fær þessar stéttir áreiðanlega fyrr eða síðar á móti sér af því afli, að hún verður annaðhvort að beygja sig eða víkja. Við höfum fyrir okkur reynsluna af örlögum þeirra gerðardóma, sem afturhaldsmenn hafa verið að reyna að þvinga fram síðustu áratugina, og hún er sú, að þeir hafa allir verið afmáðir eftir skamma stund, og höfundar þeirra hafa áreiðanlega allir verið því fegnastir, að þögnin ein geymdi minningarnar um þá. Ég er þeirrar skoðunar, að sú muni einnig verða reynslan um þann gerðardóm, sem nú á að lögþvinga.