16.04.1962
Sameinað þing: 56. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (3183)

200. mál, landþurrkun á Fljótsdalshéraði

Fram. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur rætt þetta mál og leggur einróma til, að þáltill. verði samþykkt, eins og hún er á þskj. 468.

Fjvn. telur, að hér sé hreyft mjög merkilegu máli, sem æskilegt sé að veita allan mögulegan stuðning og sinna sem fyrst á þann hátt, sem lagt er til í þáltill. Ég veit, að óþarft er að fjölyrða um þetta mál, því að bæði er í grg., sem fylgir till., og eins var í framsögu fyrsta flm. gert að fullu ljóst, að hverju við flm. stefnum og hvað fyrir okkur vakir, og skal ég því ekki endurtaka það. Allir viðurkenna nauðsyn þess að bæta og nýta land okkar betur en verið hefur. Nokkuð hefur þegar áunnizt í því efni, en ótal verkefni eru fram undan, og ber þar að nefna aukna verndun gróðurlands fyrir uppblæstri. Þá sýna tilraunir, að hægt er til mikilla muna að auka gæði afréttarlanda, en þau eru, eins og kunnugt er, ein af meginundirstöðum arðsamrar kvikfjárræktar hér á landi. Þá er einnig staðreynd, að hið örfoka land og eyðisandar bíða eftir því, að mannshöndin breyti þeim í verðmætar gróðurlendur. Og svo bætist það við, sem við austfirzku þingmennirnir leggjum til með þessari till. okkar, að stefnt verði að því í næstu framtíð, að með landþurrkun séu gerð nytjalönd, og þar með staðfestumöguleikar í framtíðinni fyrir fjölda fólks, þar sem nú eru svo að segja nytjalausir mýraflákar, votlendi, sem meira og minna er drepið í dróma vatnsagans og sumt aldrei verið til teljandi nytja, en annað nú þýðingarlítið, síðan hætt var að mestu að afla heyja á útengi. Við flm. viljum, að hið opinbera hafi sérstaka forgöngu um, að vandlega sé athugað, hvernig þessum löndum verði í stórum stíl breytt í nytjalönd til mikilla hagsbóta fyrir nútíð og framtíð, og að baki slíkra framkvæmda vakir sú von, að með því og nokkuð almennt aukinni skógrækt verði hægt að bæta til muna veðráttu margra byggðarlaga landsins og þar með landið í heild gert betra og enn byggilegra en nú er.

Ég vil svo að lokum, um leið og ég endurtek fylgi fjvn. við till., leyfa mér að undirstrika það, sem fram kemur í grg., að við flm. væntum þess fastlega, að ef till. verður samþykkt, þá láti hæstv. ríkisstj. þá rannsókn fara fram á næsta sumri, sem till. fjallar um. Í þeirri ósk felst ekki annað en það, sem unnt ætti að vera að verða við.